Stóra-Berta

Nú berast fréttir af því, að ESB (Evrópusambandið) hyggist leggja fullan þunga í áróður fyrir jákvæðu gildi sínu fyrir Íslendinga.  Verður ekkert til sparað, og digrir sjóðir reiddir fram.  Er af þessu ljóst, hvílíka áherzlu ESB leggur nú á að lokka Ísland inn fyrir þröskuldinn, og hverjir hafa mestan ávinning af slíkri innlimun.  Eftir það hafa þeir í fullu té við okkur, og munu breyta Íslandi með þeim hætti, sem fæstum Íslendingum hugnast, þ.e. í eins konar selstöð. 

Er nú verið að sækja Stóru-Bertu, en risastór fallbyssa Þjóðverja, sem þeir notuðu á vesturvígstöðvunum í heimsstyrjöldinni fyrri, gekk undir þessu nafni.  Stórveldi Evrópu vilja öðlast aðgang að norðurslóðum.  Noregur er ekki tagltækur, en nú telja hýenur, að Ísland liggi vel við höggi.  Þær munu komast að því, hvar Davíð keypti ölið.

Við þessar aðstæður ritar Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og prófessor, góða grein í Morgunblaðið þann 10. maí 2011 undir fyrirsögninni, "Réttlátt samfélag eða Evrópusamband". Hér skal fúslega játa, að eftir lestur greinarinnar missti höfundur þessarar vefgreinar neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því að vera sammála Ragnari, jarðskjálftafræðingi, um meginmál.

Við krufningu málsins kom skýringin í ljós.  Hún er fólgin í eftirfarandi málsgrein úr grein Ragnars:

"Með fiskimiðin, með landgæðin, með orkuna og með menntunina höfum við möguleika á að byggja gott og réttlátt samfélag, ef við varðveitum sjálfstæði okkar til þess og ef við náum samstöðu um, að þetta sé mikilvægast fyrir manneskjurnar, sem hér búa."

Hér er hægt að túlka "gott og réttlátt samfélag" að vild lesandans.  Það, sem Ragnari þykir gott og réttlátt, kann mér að þykja vera bæði vont og óréttlátt.  T.d. er þjóðnýting aflaheimilda grafalvarleg atlaga að lífskjörum almennings og mun leiða til gengisfellinga, lækkunar á lánshæfi og efnahagsöngþveitis að dómi fjölmargra.  

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytta skipan í sjávarútvegi er stórt skref aftur á bak, argasta sameignarstefna í anda Leníns og Stalíns og mun leiða til handstýringar stjórnmálamanna á hagkerfinu.  Verst mun landsbyggðin verða úti í þessu fári, því að launin í greininni hljóta óhjákvæmilega að lækka, þegar fótunum er kippt undan sjávarútveginum.  Lýðskrumarar ráða ferðinni og þykjast vera að færa verðmæti til almennings, en því er alveg þveröfugt varið.  Kvótakerfið stórbætti kjör almennings, af því að tilkostnaður við hvert þorskígildi lækkaði og markaðsstaðan var efld.  Þess vegna varð meira til skiptanna.  Ríkisstjórnin mun með glæpsamlegri stefnu sinni setja fyrirtæki á hausinn, sem nú eiga um helming aflaheimildanna, samkvæmt rannsókn fræðimanna við Háskólann á Akureyri.  Hin veikari á meðal hinna munu lepja dauðann úr skel, og bankarnir munu verða við dauðans dyr.  Sameignarstefnan mun á örskotsstundu ganga af íslenzka hagkerfinu dauðu.

Það er hins vegar hægt að vinda ofan af þessari dauðans vitleysu, sem væntanleg lagasetning félagshyggjuliðsins er, þegar þjóðinni auðnast að varpa þessu skaðræðis oki af sér, sem nú situr í Stjórnarráðinu og hagar sér eins og naut í flagi.  Það verður hins vegar ekki hægt að varpa af sér oki ESB, þegar kjörtímabili lýkur.  Þess vegna eru hægri menn fúsir til að berjast við hlið vinstri manna á borð við Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðing og prófessor, gegn ásælni erlends valds.  

Í þessu samhengi málsins, sem er andstaða við fullveldisframsal til Brüssel með innlimun í ESB, er aðalatriðið, að vinstri menn og hægri menn geta sameinazt gegn krötum og taglhnýtingum þeirra og gegn ásælni erlends valds í ítök hér.  Þetta bandalag mun bera sigurorð af landsölumönnum og kveða þá í kútinn um langa framtíð.

Aðlögunarferlið er þess vegna andvana fætt og ber að stöðva þann undirmáls málatilbúnað áður en meira skattfé, sem tekið er að láni erlendis, verður sólundað á altari hégómagirndar Össurar Skarphéðinssonar og annarra krata og taglhnýtinga þeirra, sem mikið telja gefandi fyrir að fá að hanga í bakhluta stórríkisins, sem hins vegar mun sízt taka því fagnandi að hafa verið dregið á asnaeyrunum með fótalausri og grasvitlausri umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 

Hér gildir sem áður, að betri er barður þræll en feitur þjónn.    

Máttur peningaMaria Damanaki og Stefán H. Jóhannesson 

  

 

 

 

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Þið andstæðingar ESB eruð engum líkir í bjánaskap.

Aðstoð vegna umsóknar er hugsuð til að hjálpa fátækum ríkjum eins og Tyrklandi, Króatíu og austantjaldslöndum til að manna sig vel við umsókn, það er rannsókn og vinnu við að endurskoða regluverk sitt. Að halda það að ESB sé núna á fullu við að múta Íslendingum til þess að ginna þá í ESb lýsir hversu vitlausir þið andstæðingar ESB eruð, heldur þú virkilega að einhverjum einasta manni sé eitthvað sérstaklega umhugað um að Íslendingar gangi í ESB, svo mikið að þeir fari að bera á okkur peninga? 

Enginn hefur sagt að ísland geti ekki vegnað ágætlega á sínum eigin vegum. ESB hefur engann áhuga á orku íslands. Frakkar fraimleiða um 1000 falt meira rafmagn miðað við Ísland og ESB hefur engann áhuga á þeirri orku. Eitt ríkasta olísvæði í heimi, norðursjór, hefur ESB látið alveg gjörsamlega kyrrt liggja. Ríkustu orkuþjóðir í NATO eru allar í ESB(utanskildar Noregur og Kanada) til dæmis Bretland, Danmörk, Holland, Rúmenia og fleiri. Ef einhver stofnun væri líkleg til að ræna þessum auðlindum þá væri það NATO frekar en ESB, þetta er einfaldlega rugl umræða vegna þess að hvorugri stofnunni kæmi það einu sinni til hugar. Ég hló svo nokkuð mikið að þessu með landgæðin, hvaða landgæði, ertu að meina til dæmis landsvæðið á milli reykjaness og Reykjavikur sem er ekki gróðurhæft fyrir nokkurn skapaðan hlut?. Menntun á Íslandi er mjög léleg miðað við aðrar evrópuþjóðir og best menntaða fólkið er þegar flutt eða er við að flytja í burtu. Fiskimiðin munum við semja um, í ESB er öllum sama um fisk, aðeins afdankaðir sveitakallar á Íslandi halda það að heimurinn snúist um fisk og að evrópumenn séu með íslensk fiskimið á heilanum, í Evrópu er sjávarútvegur niðurgreiddur iðnaður og enginn hefur áhuga á þessu sviði. Erfiðasti kaflinn í umsókninni verður landbúnaðarkaflinn er þar liggja raunverulegir hagsmunir ESB.

Ísland er þjóð er svo uppfull af sjáfri sér og gorgeir yfir hversu frábær hún er, að menn eins og þú eruð sannfærðir um að Ísland sé einhverskonar gimsteinn sem aðrar þjóðir sitja og plotta um hvernig þeir eigi að komast yfir hann. Hvernig myndi ESB taka af okkur orkuauðlindirnar, hefurðu hugsað út í það, ég heyri hvern vitleysinginn á fætur öðrum blaðra um þetta en aldrei hefur nokkur maður gerst svo hugmyndaríkur að ímynda sér hvernig útfærslan á því yrði.

Jón Gunnar Bjarkan, 14.5.2011 kl. 01:31

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Bjarni.

Mjög góð grein hjá þér. Já við munum svo sannarlega reka þetta landsölulið ESB sinna á flótta og flóttinn er í raun löngu hafinn.

Færri og færri trúa lengur áróðri þeirra og blekkingum, enda hefur hvert vígið á fætur öðru fallið hjá þeim.

Gamla áróðursvígið þeirra sem þeir notuð mikið strax eftir hrun var svona:

"Þetta hefði aldrei getað gerst, hefðum við verið í ESB og með Evru" 

Þetta vígi þeirra er löngu fokið og verið arfhjúpað sem einhver mesta lygi og blekking Lýðveldissögunnar.

Nú telja helstu Commísarar ESB Elítunnar að til að stöðva andúð almennings á miðstýringarruglinu í Brussel sé nú helsta ráðið að auka enn á miðstýringuna og herða á Evrópusamrunanum.

Þessi ofalda ESB valdaklíka lifir í sínum gull fílabeinsturni í Brussel og þeir hafa engan skilning eða þekkingu á þörfum almennings í aðildarlöndunum !

Þetta er idíót á ofurlaunum í fínum jakkafötum !  

Gunnlaugur I., 14.5.2011 kl. 10:02

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Í guðanna bænum drögum umsókn í ESB. til baka sem fyrst,þakka þér góða grein Bjarni. Mb.kv.

Helga Kristjánsdóttir, 14.5.2011 kl. 10:45

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég þakka vinsamleg orð og kveðjur Gunnlaugs I. og Helgu Kristjánsdóttur í minn garð.  Það er engin ástæða til að amast við framlagi Jóns Gunnars Bjarkan hér að ofan, því að sínum gjöfum er hver líkastur.  Af ritgerð hans hér að ofan að dæma, hefur það farið fram hjá vesalingi mínum og öðrum sama sinnis, að ESB er paradís, þar sem smjör drýpur af hverju strái og englar ráða för.  Það hafa þá líklega verið fallnir englar, sem reyndu með öllum ráðum að kúga Íslendinga til að gangast við Icesave-skuldabyrði, þó að upphæðir í því máli væru sem dropi í hafið á mælikvarða ESB, en voru stórupphæðir á mælikvarða stórskuldugra Íslendinga.

Með málflutningi ESB-sinna á borð við þann, sem sýnishorn er af hér að ofan, verður baráttan við taglhnýtinga ESB ekki einu sinni spennandi.

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 14.5.2011 kl. 13:02

5 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Jón Gunnar;

Fiskurinn skiptir ESB engu máli!  Það er bara búið að ganga svo langt að þegar fiskimið utan Evrópu eru meira og minna ónýt tæma niðurgreiddir togarar ESB mið fátækra Afríkuríkja.  Það er þekkt.

Evrópa framleiðir auðvita meiri orku en Íslendingar.  Þess vegna fara þeir létt með að bæta við sig með sæstreng frá Íslandi.  ESB verður ekki lengi að tæma afgang orkumöguleika Íslands svoleiðis.. Þeir hefðu kallað það Icesaveskuld, en kalla það líklega eitthvað annað eftir aðildarsambúð.

Það kostar að halda uppi rauðvínsdrekkandi jakkafataherdeildum.  Þess vegna vilja þeir fá einhvern til að greiða reikningin þeirra.

Jón Ásgeir Bjarnason, 14.5.2011 kl. 15:17

6 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Já nafni, þetta er þekkt tugga.

Andstæðingar ESB á Íslandi reyna stilla málum þannig upp að hið litla og saklausa Ísland sé að sækja um aðild að hinum vonda ESB batterí sem steli fisknum af Afríku og heldur uppi landbúnaðartollum sem rústi landbúnaði Afríku og svelti álfuna í hel. Þetta eru auðvitað hlægileg rök einfaldlega vegna þess að 'islendingar veiða mikið undan ströndum Afríku(sem mikil fiskiþjóð erum við væntanlega hlutfallslega að arðræna Afríkubúa meira en aðrar þjóðir) og svo auðvitað það við erum með miklu hærri landbúnaðartolla en ESB þjóðirnar, auk þess sem við auðvitað borgum minna hlutfallslega til þróunaraðstoðar til Afríku en Evrópuþjóðir.

ESB viðlagið hjá ykkur er því alltaf að Evrópuþjóðir eigi að hjálpa Afríku á alla vegu, en viðlagið í okkar eigin málum er Afríka megi éta það sem úti frýs, því við þurfum að tryggja eigin fæðuöryggi, eigum ekki að borga meiri þróunaraðstoð, þurfum að fá að veiða hvar sem við viljum og við eigum ekki að vera taka við neinum helvítis flóttamönnum frá Afríku. 

"Evrópa framleiðir auðvita meiri orku en Íslendingar.  Þess vegna fara þeir létt með að bæta við sig með sæstreng frá Íslandi.  ESB verður ekki lengi að tæma afgang orkumöguleika Íslands svoleiðis.. Þeir hefðu kallað það Icesaveskuld, en kalla það líklega eitthvað annað eftir aðildarsambúð.

Það kostar að halda uppi rauðvínsdrekkandi jakkafataherdeildum.  Þess vegna vilja þeir fá einhvern til að greiða reikningin þeirra."

Þetta eitthver furðulegasta samsuða sem ég hef séð. Hver er púnkturinn? Á ísland ekki að flytja út orku til ESB. Er sumsé þessi sæstrengur hluti af samsærinu eða hvert ertu að fara hérna? 

Ertu að tala um sama Icesave samkomulag sem hefði að öllum líkindum ekki kostað okkur krónu miðað það sem talið er að fáist fyrir Iceland keðjuna? 

Jón Gunnar Bjarkan, 14.5.2011 kl. 16:32

7 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Þú ert bjartur nafni.

Vonandi að Iceland keðjan skili sínu, en þó svo vel færi að hún seldist vel gerir hún aldrei meira en að greiða stofnkostnaðin.  Vextirnir hefðu alltaf verið greiddir af íslenska ríkinu.  Það var bara svoleiðis í þessum ágætu samningum.  Tugir milljarða eru greinilega ekki neitt í þínum huga.  Af hverju er verið að loka elliheimilum úti í sveit?

Það er engin að tala um að ESB sé vont.  Þetta eru bara hagsmunir stórveldis sem fara ekki saman með íslenskum ef nokkur rök skynsemis eru til staðar.

Varðandi fiskveiði"tugguna" ættir þú bara að skoða það betur.  Það er ekki að ástæðulausu að þetta heyrist af og til.  Til dæmis af samtökum sem kratar eru oft mikið hrifnir af hér og þar í heiminum; http://www.greenpeace.org/eu-unit/en/Publications/2010/stolen-fish-how-africa-feeds-europe/ 

Varðandi sæstreng.  Grikkir eins og aðrir gjaldþrota aðilar eru þvingaðir til að selja eigur sínar.  Landsvirkjun er því í eigu kröfuhafa íslenska ríkisins ef svo færi.  Þá er sæstrengur ágætis tæki, verði það tæknilega mögulegt að "greiða" þannig skuldirnar.  Það er ekki víst að íslenska ríkið lifi af núverandi snillinga við stjórn þó Icesave hafi sloppið fyrir horn.  ..vonandi samt.  Þetta snýst ekki um að vera vondur.  Þetta eru hagsmunir.

Jón Ásgeir Bjarnason, 14.5.2011 kl. 17:29

8 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég get ekki séð hvernig neitt af þessu fær staðist.

Varðandi Icesave. Ísland var í samkomulaginu að ábyrgjast skuld innistæðusjóðsins, að vextirnir færist þá yfir á íslenska ríkið fær enga skoðun staðist. Þetta er eins og að foreldrar sem ábyrgjast lán barna sinna við íbúðakaup þurfi að borga vextina en börnin borga aðeins höfuðstólinn. Nei hreyfingunni tókst þó að rugla fólk alvarlega í ríminu í þessu máli og því ekkert að undra að misskilningur sem þessi hafi farið af stað í umræðunni. Fyndin útúr dúr hjá þér hinsvegar með þetta með elliheimilið.

Hvernig fara hagsmunir ESB "stórveldisins" og Íslands ekki saman. Mér sýnist á umræðunni hér á Íslandi að Íslendingar séu mjög áhugasamir um að arðræna Afríku, við viljum nýta hvert tækifæri til að sprengja upp Miðausturlönd eins og stuðningur okkar við stríðiin í Afghanistan, Íraq og Líbýu sýnir og við viljum sníkja varnir af öðrum evrópuþjóðum. Mér sýnist á umræðunni að hagsmunir okkar liggi eins og flís við rass ESB í þessum málum öllum. En í fullri alvöru þá gætir þú kannski nefnt dæmi um þar sem hagsmunir okkar og ESB liggi ekki saman.

Varðandi fiskveiðin við Afríku, þetta var hlægilegt comeback. Þú tengdir mig á grein þar sem það eina sem var minnst á þetta var þetta:

"Today, the EU’s fishing fleets have a global reach. As a consequence, they are also fishing in waters of some of the poorest nations on Earth, including in West Africa."

Enginn efaðist um þetta, þar sem er fyndinn að þú skulir ekki vera að mótmæla núna fyrir framan Alþingi til þess að fá þá til að stoppa veiðar samherja á sömu slóðum. Þér er greinilega alveg sama þótt við veiðum undan ströndum Afríku og þú hefur engan áhuga á að við aukum við okkur í þróunaraðstoð og þú vilt varna Afrískum bændum inngang á markað hér með hárri tollvernd.

 Þetta er allt samt mjög þokukennt hjá þér varðandi sæstrenginn. Sumsé ESB er að neyða okkur til að leggja sæstreng svo við getum hvað, borgað okkar skuldir til þeirra(með mótrökum ert þú að reyna að halda fram að við eigum ekki að borga skuldir okkar, hvað ertu að tala um?). Sumsé þú sérð fyrir þér einhverjar skuldir sem við skuldum ESB, þess vegna séum við að leggja sæstrenginn svo við getum borgað þessar skuldir því annars verðum við gjaldþrota, eða hvað? 

Jón Gunnar Bjarkan, 14.5.2011 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband