Evrópa í deiglunni

Ljóst er, að miklir atburðir munu verða á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) á næstu tveimur árum, þ.e. á tímabilinu 2011-2013.  Ástæðan er sú mikla spenna, sem myndazt hefur á milli norður-og suðurhluta álfunnar.

Vandamálið er ekki síður af stjórnmálalegum toga en hagrænum.  Viðfangsefnin hafa verið hagfræðilegs eðlis, en þar sem stjórnmálamenn eru að fást við þau auk starfsmanna Evrópubankans (ECB), þarf að taka tillit til mjög ólíkra sjónarmiða. Málsmeðferð hefur þess vegna einkennzt af drætti ákvarðana fram á síðustu stundu, og ákvörðunin er eins konar minnsti samnefnari innan evrulandsins. Í grundvallaratriðum hefur forysta evrulands um 3 leiðir að velja:

a) niðurskurð ríkisútgjalda og launalækkanir í vandamálalöndunum

b) afskriftir lána ríkissjóðanna

c) björgunaraðgerðir Sambandslýðveldisins Þýzkalands (Frakkar og aðrir eru getulitlir í þessu tilliti)

Ríkisþinghúsið í Berlín Aðferðafræði stjórnenda evrulands kann ekki góðri lukku að stýra, því að hún leiðir til stöðugrar nauðvarnar og viðbragða við markaðsþróun í stað frumkvæðis og stefnumörkunar til framtíðar.  Afleiðingin er sú, að evran er nú komin út á yztu nöf.  Kann svo að fara, að hálfkák ESB-forystunnar leiði til sundrunar evrulands.

Athygli fjármálamarkaðsaflanna hefur nú beinzt að bágri stöðu Ítalíu, þar sem skuldir ríkissjóðs nema um 120 % af VLF (vergri landsframleiðslu), en það eru hins vegar Ítalir sjálfir, sem fjármagnað hafa þessa miklu skuldsetningu með skuldabréfakaupum að mestu.  Erlendar skuldir eru þess vegna ekki vandamál Ítala.

Ítalska hagkerfið hefur verið staðnað í einn áratug a.m.k. og eftir upptöku evru hefur stöðugt sigið á ógæfuhlið, því að verðbólga (verðhækkanir) hefur verið yfir meðaltali evrulands, svo að útflutningsgreinarnar hafa orðið undir í samkeppninni, einnig innan evrulands.  Vinnumarkaðurinn er mjög stífur og einstrengingslegur, og samstöðu hefur skort um að herða sultarólina tímabundið, eins og Þjóðverjar gerðu þó með góðum árangri eftir þensluna þar 1995-2005, sem leiddi af endursameiningu Þýzkalands. 

Hið ljúfa líf forsætisráðherrans, eða "Bunga-Bunga" lifnaðarhættir hans, hefur ekki bætt stjórnarfarið í landinu.  Líklega hitti fjármálaráðherra Berlusconis, Giulio Tremonti, en þeir félagarnir hafa elt saman grátt silfur út af aðhaldsaðgerðum, naglann á höfuðið nýlega, er hann sagði:

"Ef ég fell, þá fellur Ítalía.  Falli Ítalía, þá fellur evran. Falli evran, þá fellur ESB."  Örlög evrunnar hanga þess vegna á bláþræði, sem "Bunga-Bunga" öldunginum síkáta í Róm þóknast að spinna.  Það er vart hægt að hugsa sér ömurlegra hlutskipti eins gjaldmiðils, enda var vitlaust gefið í upphafi spils. Evran var reist af stjórnmálamönnum á hæpnum forsendum jafnvægis í Evrópu, sem hefur leitt til gríðarlegs ójafnvægis og blóðugra átaka í Suður-Evrópu. Forysta Frakklands og Þýzkalands hefur hleypt anda úr flösku og ræður ekki við viðfangsefnið, sem er að koma honum aftur í flöskuna.  

Spænska ríkið er ekki jafnskuldsett og hið ítalska, en þar myndaðist hins vegar þensla og eignabóla eftir upptöku evru, sem er sprungin.  Heildarskuldir Spánverja nema tæplega ferfaldri VLF, en til samanburðar eru skuldir Breta fimmföld VLF, Þjóðverja og Bandaríkjamanna um þreföld og Íslendinga um tvöföld VLF.  Spænskir bankar hafa lánað gríðarfé, um USD 1200 milljarða (USD 1,2 trilljónir), til veikra hagkerfa Írlands, Portúgals og Grikklands.  Spænskir bankar eru þess vegna í grafalvarlegri stöðu.  Þetta er ástæðan fyrir tregðu Evrópubankans að afskrifa hluta af skuldum þessara þjóða.  Það getur leitt til keðjuverkandi bankahruns.  Evrópska bankakerfið er eins og spilaborg með tiltölulega mikil útlán.  Verði bankahrun á Spáni, verður efnahagslegur stórskjálfti í evrulandi og verðgildi evrunnar mun þá hrynja.  

Nú er hafin tangarsókn að evrunni upp eftir Spáni og Ítalíu.  Þjóðverjar ráða við að halda PIG (Portúgal-Írland-Grikkland) á floti, en hvorki Spáni né Ítalíu.  Þýzkur almenningur hefur hins vegar fengið sig fullsaddan af austri skattpeninga sinna í hít Suður-Evrópu og hefur skotið viðvörunarskotum að Angelu Merkel í fylkiskosningum Sambandslýðveldisins, og vinsældir hennar fara dalandi.  Hún ætlar að vinna Sambandsþingkosningarnar árið 2013, en veit, að það er vonlaust, ef hún heldur áfram að beita þýzkum skattgreiðendum fyrir evruvagninn.  Evran hangir þá í lausu lofti og er dæmd til að sundrast.

Enn er evran gulrót Samfylkingarinnar, "jafnaðarmanna á Íslandi", fyrir inngöngu í ESB (Evrópusambandið).  Sú gulrót er nú orðin mygluð.  Engum öðrum rökum hefur verið haldið á lofti.  Evrópuhugsjónin um frið á milli "stórvelda" Evrópu, þótt falleg sé, höfðar ekki til eyjarskeggja lengst norður í Atlantshafi.  Það er ekki eftir neinu að slæðast með ESB-aðild Íslands.  Til þess eru og verða vonandi þjóðartekjur Íslendinga einfaldlega of háar m.v. meðaltal ESB. Við munum verða nettó-greiðendur inn í þann hrörnandi klúbb, sem ESB er.  Enginn veit, hvernig hann verður að 10 árum liðnum.  Eitt er þó næsta víst, ef hagur landsmanna þróast, eins og góð rök standa til, þá verða Íslendingar nettó-greiðendur inn í þetta ríkjasamband eða sambandsríki, og getur þetta ójafnvægi skipt tugum milljarða kr á ári og farið vaxandi eftir því, sem meðalaldur hækkar meira í Evrópu.  

Við núverandi aðstæður hér innanlands og vegna tímamóta í sögu ESB, sem við blasa, er rökrétt að gera hlé á samningaviðræðum við ESB og að stöðva aðlögunarferlið.  Tímann á að nota til að ræða það á Alþingi, hvort aðlögun að ESB þjóni þjóðarhagsmunum, og síðan á að spyrja þjóðina að því í þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða næstu Alþingiskosningum, hvort hún vill kanna til þrautar, hvers konar aðildarsamningur fæst, eða hvort hún e.t.v. hefur engan áhuga fyrir að ganga í þennan klúbb, hvernig sem ótraust gylliboð frá Brüssel kunna að hljóma.  

Það er á margra vitorði, að svo nefndar samningaviðræður eru sem slíkar hreinn skrípaleikur, enda er hér um að ræða aðlögun að sáttmálum og lagabálkum ESB, basta. Brjóti samningarnir í bága við stofnsáttmála ESB, sem þeir verða að gera, ef kröfum Alþingis á að fullnægja, þá vofir yfir sú hætta síðar meir, að Evrópudómstóllinn dæmi hann ólögmætan, og hæpin ákvæði Íslandssamningsins við ESB verði þá að víkja.  Þá værum við í heljargreipum Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB.  Það er glórulaust að halda áfram þessu feigðarflani. Mál er að linni.       

        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband