Sukk og svínarí í ríkisbúskapi

Það eru ár og dagar síðan gæzlumaður ríkisfjárins hefur haft jafnlítið til brunns að bera sem slíkur og nú.  Þessi ríkisfjósamaður skilaði ríkissjóði með 123 milljarða kr halla árið 2010, sem er 41 milljarði kr verri útkoma en áætlanir hans gerðu ráð fyrir og ráða mátti lengi vel af orðum hans sjálfs.  Segja má, að ekki sé orð að marka úr munni þessa fármálaráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Í sveit væri honum ekki treyst fyrir starfi kúarektors.  Hann hefur hins vegar kjaftað sig inn á kjósendur og í núverandi stöðu sína.    

Gjörningar þessa lánlausa manns í nafni ríkisins eru vart hafðir í frammi með hagsmuni ríkissjóðs fyrir augum.  Þeir lýsa endemis flumbrugangi og dómgreindarleysi, og er Icesave-hneykslið stærst og alvarlegast á brotaferli ráðherrans, en stöðugt skjóta önnur mál og minni í sniðum upp kollinum, þótt dýr séu skattgreiðendum.  SpKef sukkið er með þeim hætti, að spyrja verður, hvað í ósköpunum þessum félagshyggjumanni gengur til með því að vera sjálfur að ráðskast með það í stað þess að eftirláta það Bankasýslu ríkisins, sem þó mun kosta um 100 milljónir kr á ári í rekstri.  Svipuðu máli gegnir um örlög Byrs.  Sjóvá var mergsogin af hýenum, og síðan hljóp þessi vitsmunabrekka í fjármálaráðuneytinu undir bagga á þeim bæ og kastaði fyrirtækinu síðan í fang Seðlabankans.  Þar á bæ kunna menn ekki til verka við sölu á fyrirtækjum, enda andstætt lögum um Seðlabanka, að starfsmenn hans fáist við slíkt, og virðist persónuleg andúð Trotzkýistans í Svörtuloftum hafa borið skynsemina og rétt viðskiptasiðferði ofurliði. 

Kæmi ekki á óvart, þó að þessir fjárglæfrar fjármálaráðherra og handbenda ríkisstjórnarinnar hafi kostað skattborgarana um 50 milljarða kr, og er þó margt ótalið af viðvaningshætti og hreinu glapræði ráðherrans, ef hann þá ekki beinlínis hefur gert sig sekan um að draga taum skjólstæðinga sinna á kostnað skattborgara.  Er ekki annað að sjá en vanheilagt bandalag félagshyggjuflokkanna við óprúttin fjármálaöfl sé við lýði, og er það í samræmi við ályktanir, sem draga má af yfirlitsritinu "Rosabaugur yfir Íslandi"  eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra.  

Týr undir ESB-fánaÁ sama tíma er staða ríkissjóðs svo bágborin, að hann getur ekki haldið úti eðlilegri starfsemi Landhelgisgæzlu, heldur leigir hún skip utan til gæzlu á ófriðarsvæðum.  Meðferð ríkisstjórnarinnar á fangelsismálum sýna handabakavinnubrögð hennar í hnotskurn.  Dómar fyrnast vegna vöntunar á betrunarhúsi, og um 500 manns bíður betrunarhússvistunar.  Við þessu bregðast ráðherrar með þrefi í ríkisstjórn um það, hvort gera eigi fjármögnunar-, framkvæmda- og leigusamning við einkaframtakið, eins og eðlilegast er í stöðunni, eða hvort ríkið á að reisa fangelsið með fjármögnun af fjárlögum, sem jafngildir lántöku sjóða með mikinn halla.

Ekki þarf að tíunda niðurrifsstarfsemi ríkisstjórnarinnar gagnvart heilbrigðisgeiranum.  Þar er undirmönnun slík, að starfsfólk er oft að niðurlotum komið og biðlistar lengjast ískyggilega.  Fjölbreytni vantar í rekstrarformin vegna steinrunninna hugmynda og  frumkvæðisleysis ríkisstjórnarinnar.  Meira mætti gera fyrir minna, ef markaðsöflum væri hleypt að.   

Allt verður þessum lánlausu ráðherrum að fótakefli.  Þó var sú tíðin, að allar tillögur hins langsoltna og valdasjúka fjármálaráðherra um skattahækkanir voru samþykktar af þingflokkum vinstri flokkanna með glotti.  Enn ætlar glórulaus og hugmyndasnauður fjármálaráðherra að höggva í sama knérunn, þó að tölulegar staðreyndir sýni fram á, að sá málflutningur stjórnarandstöðunnar er réttur, að greiðsluþol skattgreiðenda er nú svo laskað af óhæfri ríkisstjórn, að sérhver skattahækkun dregur úr neyzlu, herpir þar með saman hagkerfið, sem dregur úr skatttekjum og færir æ stærri hluta hagkerfisins undir yfirborðið.  Einhverjir stjórnarliða eru að fá kalda fætur af þessu tilefni, svo að fjárlagagerðin er í uppnámi ofan á alla aðra óreiðu.   

Í forystugrein Morgunblaðsins, "Hótunum andmælt", þann 26. júlí 2011, er eftirfarandi tilvitnun í formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, sem útilokar frekari skattahækkanir: "Það þarf að vinda ofan af skattahækkunum, sem hafa þegar átt sér stað."  Þarna á formaðurinn við allar skattahækkanir hinnar misheppnuðu og getulausu ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur frá Hruni.  Þetta mun fara inn í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar eftir næstu Alþingiskosningar, fái Sjálfstæðisflokkurinn nokkru um ráðið.

Hjálparfoss 20.07.2011Nokkru síðar segir í tilvitnaðri forystugrein:"Núverandi ríkisstjórn hefur setið að völdum í hálft þriðja ár.  Á þeim tíma hefur hún valdið gríðarlegri eyðileggingu í hagkerfinu og hindrað uppbyggingu og hagvöxt." Hér er ekkert ofsagt.  Staða hagkerfisins nú er miklu verri en hún þyrfti að vera, þegar senn verða liðin 3 ár frá hruni bankakerfisins. Við erum þess vegna í veikari stöðu en ella til að fást við komandi kreppu, sem óráðsía í ríkisfjármálum margra landa er að leiða yfir heiminn.   

Þessa slæmu stöðu verður að skrifa alfarið á störf ríkisstjórnarinnar og þingflokkanna að baki henni.  Hún hefur sýnt, að hún kann ekkert til verka við endurreisn þjóðarhags, stráir sandi í tannhjól athafnalífsins og þvælist endalaust fyrir þjóðþrifamálum, sem líkleg eru til tekjuöflunar.  Allt má skýra þetta með löngu úreltri hugmyndafræði um nauðsyn á útþenslu ríkisbáknsins og skaðsemi erlendra fjárfestinga, sem forpokaðir foringjar stjórnarinnar eru með á heilanum og hafa verið með í hálfa öld eða meir.  Hún er í verki lengra til vinstri en nokkur önnur ríkisstjórn Evrópu, og er þá langt til jafnað. Þessi ríkisstjórn er ótrúlega aftarlega á merinni, og hana skipar ótrúlegt glópasafn, ólíkindatól.

Dæmi um þetta blasti við á forsíðu Morgunblaðsins þann 29. júlí 2011: "Hafa misst af tækifærinu - Velferðarráðuneytið hefur heimilað Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að leigja út tvær skurðstofur, en tilboð, sem barst í þær, rann út fyrir þremur mánuðum."

Þetta er það, sem átt er við, þegar því er haldið fram, að núverandi stjórnvöld þvælist fyrir, þegar landsmenn sýna vilja til nýrrar tekjuöflunar.  Alveg sérstaklega virðist þessum vonlausu stjórnvöldum vera uppsigað við aukna gjaldeyrisöflun, eins og hér var um að ræða. Mönnum er enn á okkar dögum hegnt fyrir að útvega sér snæri og öngul til að sjá sér farborða. Afleiðinguna af forræðishyggju stjórnvalda sér hvarvetna stað, ekki sízt í rýrum tekjum hins opinbera.

Ráðherrann, sem hér átti í hlut, Guðbjartur, velferðar, varð alræmdur fyrir það, þegar Icesave-deilan stóð sem hæst á Alþingi, að hreyta út úr sér, þegar nýjar upplýsingar birtust um málið, að hann fengi ekki séð, að neitt nýtt hefði gerzt í málinu.  Nú er komin skýring á þeim endemis viðbrögðum.  Maðurinn hefur ekkert tímaskyn.  Tíminn stendur kyrr hjá Guðbjarti Hannessyni, og þess vegna gerist náttúrulega aldrei neitt hjá honum.

Það er svívirðileg framkoma ráðherra við Suðurnesjamenn að draga afgreiðslu heimildarumsóknar þeirra svo mjög, að þeir verða fyrir tekjutapi, og málið ónýtist jafnvel alveg fyrir þeim. 

Þessi afgreiðsla er vafalaust brot á stjórnsýslulögum, og málarekstur á hendur ráðuneytinu mundi líklega enda með sektardómi.  Ráðherrarnir eru svo forstokkaðir, sbr tafir umhverfisráðherra á afgreiðslu skipulags Flóahrepps, að þeir virðast telja sig geta farið með þegna sína eins og borðtusku, eða er skýringanna einfaldlega að leita í almennu getu-, þekkingar- og sinnuleysi ?  Þessi þrenning og hvert atriði um sig gerir ráðherrana óhæfa til leiðsagnar.

Hvað halda menn, að óstjórn af þessu tagi kosti samfélagið ?  Það er hægt að slá á, hvaða tekjutap hlýzt af, en að auki er svo um að ræða ábyrgðarlaus og óþörf útgjöld, eins og vikið var að í upphafi vefgreinar.  Ef allt hefði verið með felldu um stjórn landsins frá Hruni og viðreisn hagkerfisins hefði verið sett í öndvegi, hefði samdrátturinn orðið minni árið 2009, hagvöxtur hefði orðið 2010 og drjúgur hagvöxtur væri nú árið 2011.  Að jafnaði má ætla, að hagvaxtarmismunurinn næmi 3 % á ári eða um einni milljón króna í tekjur samtals þessi 3 ár á hverja meðalfjölskyldu í landinu.

Það er ekki nóg með, að þessi endemis ríkisstjórn hafi af almenningi brúttótekjur, heldur veldur verðbólgan og skattpíningarstefna hennar minnkandi ráðstöfunartekjum löngu eftir, að slíkt getur talizt eðlilegt og verjanlegt eftir hrun bankanna.  Þar að auki bindur ríkisstjórnin framtíðar skattgreiðendum stóra skuldabagga með gegndarlausum útgjöldum og hallarekstri á ríkissjóði. Ríkisstjórnin situr að völdum til þess eins að sitja, tryggja afturhaldssjónarmiðum sínum sess og þar með að girða fyrir framfarir. Mál er, að linni. 

  Ásalóð (Oslo)

       

  

 

 

  

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband