Evrópusambandið í herkví

Fyrr en margur hugði er nú komið að ögurstundu á vegferð Evrópusambandsins (ESB), sem er orðið mikill baggi á veikburða ríkissjóðum aðildarlandanna.  Óhætt er að segja, að evran er dragbítur á hag margra landa Evrópu nú í efnahagskreppunni seinni í byrjun 21. aldarinnar, því að þau eru ósamkeppnihæf vegna hennar. 

Jafnvel er nú skuldatryggingarálag Sambandslýðveldisins tekið að hækka, og hlutabréfaverð í frönskum bönkum lækkar eðlilega ört vegna mikilla útlána þeirra til Grikklands og fleiri senn gjaldþrota landa evrulands. Lánshæfismat franska ríkisins, AAA, er of hátt m.v. 82 % skuldir þess af VLF.  Varnarlína ESB liggur ekki lengur um Madríd og Róm, heldur um París. Slagorðið um æ nánari samruna (an ever closer union) skortir nú innihald, því að stefnuna hefur steytt á skeri.  

Með útgáfu ESB-ríkisskuldabréfa átti að bjarga Suður-Evrópu, en úr því verður ekki, því að Þjóðverjar neita að verða drógin, sem dregur þann vagn á gjöktandi nöfum.  Þar með verður feigum ekki forðað, né ófeigum í hel komið.  Þjóðverjar sáu skriftina á veggnum í þessu sambandi, þ.e. að þeir mundu verða blóðmjólkaðir, en sökudólgarnir mundu að mestu komast upp með léttúðuga lifnaðarhætti.  Þjóðverjar eru sem betur fer teknir að leggja við hlustir, þegar fyrrverandi yfirhagfræðingur Bundesbank, þýzka seðlabankans, Otmar Issing, hefur upp raust sína.  Í forystugrein Morgunblaðsins, miðvikudaginn 10. ágúst 2011, "Aðvörunarorð úr innsta hring", er haft eftir Herrn Issing, "að ráðagerðir valdamanna í Brüssel um að búa til pólitískt sambandsríki, svo að verja megi evruna, feli dauðann í sér." 

Það eru komnir upp þverbrestir í samstarfi evru-ríkjanna, og þar ríkir glundroði sem á sökkvandi skipi væri.  Bréf Barroso til forystumanna ESB og ofanígjöf Olla Rehn við hann ásamt silalegum og fálmkenndum viðbrögðum og algeru frumkvæðisleysi varpar ljósi á þetta.  

Hvers konar klúbbur er það þá, sem Samfylkingin og handbendi hennar eru blygðunarlaust að troða Íslandi í ?  Svarið á skrifandi stundu er, að það veit enginn.  Samt er haldið áfram með ærnum tilkostnaði.  Samfylkingin hefur tekið trú og getur ekki játað á sig mistök með því að láta af henni. Þessu fyrirbrigði verður hegnd grimmilega fyrir þrákelkni sína í næstu Alþingiskosningum, því að flokkurinn tekur Brüssel-trú sína fram yfir þjóðarhagsmuni. 

Væri nokkur mannsbragur að forystu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, mundi hún fara að ráðum Nestors síns, Hjörleifs Guttormssonar, er hann setti fram í Morgunblaðsgrein 10. ágúst 2011, "Alþingi stöðvi gönuhlaupið til Brussel", en þar sýnir hann fram á, að umsóknin, sem Alþingi samþykkti með semingi 16. júlí 2009, var sett fram á röngum forsendum.  Það er hægt að taka undir hvert orð í þessari grein Hjörleifs, t.d.:"Það er niðurlægjandi fyrir Íslendinga, að stjórnvöld skuli standa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar."  Hann biðlar síðan til Alþingis, sérstaklega flokksmanna sinna, að söðla nú um og samþykkja að draga umsóknina til baka. Þessi flokksómynd hefur reyndar þegar glutrað niður öllum trúverðugleika sínum fyrir tilstilli Steingríms Sigfússonar og Svandísar Svavarsdóttur.    

Ljóst er, að gríðarlegt tap er framundan.  Trilljónir evra og trilljónir bandaríkjadala (trilljón=þúsund milljarðar) munu tapast á mörkuðum.  Þetta verður svo tilfinnanlegt tap, að koma mun við buddu hvers einasta manns austan hafs og vestan, sem á annað borð á buddu.  Enn einu sinni tapa íslenzku lífeyrissjóðirnir hluta af 500 milljarða kr eign í hlutabréfum.  Það liggur ekki í augum uppi, hvers vegna lífeyssjóðirnir hafa sett fjórðung eigna sinna í hlutabréfakaup.  Að mati höfundar þessa vefseturs er það óafsakanleg glæfrahyggja með langtímasparnað landsmanna.  Hámark hlutabréfaeignar ætti að vera 10 %. 

Verðfallið hefur þegar haft áhrif á verðlag útflutningsafurða Íslendinga til lækkunar og áhrif til fækkunar ferðamanna eru líkleg.  Þetta mun jafngilda áframhaldandi kjaraskerðingu á Íslandi. Við þessar aðstæður gælir farlama ríkisstjórn við hugmyndir um aukna skattheimtu af útflutningsgreinunum, sem er fullkomlega forkastanleg stefna, sem gæti stórskaðað hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma litið (og skamms). Að éta útsæðið eru ær og kýr sameignarsinna.  

Nú ríður okkur á sparnaði og aðhaldi á öllum sviðum, en á sama tíma er ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs mjög útbær á opinbert fé, sem sólundað er m.a. í aðlögun að ESB og í aðildarviðræður að því.  Þetta er því forkastanlegra, þeim mun augljósara sem það verður, að Ísland verður aldrei aðili að því ESB, sem við þekkjum núna, einfaldlega af því að það er á fallanda fæti.

Það er mjög óvenjulegt skeið í alþjóða stjórnmálum að renna upp núna, sem kallar á óvenjuleg, frumleg og djarfleg viðbrögð íslenzkra stjórnmálamanna.  Því miður er Alþingi með endemum aftarlega á merinni og ógæfulega saman sett nú, og óskandi væri, að gamla settinu yrði einfaldlega settur stóllinn fyrir dyrnar, svo að kosningar verði ekki umflúnar, í von um, að breyta megi atburðarásinni til betri vegar.  Þá verða stjórnarandstæðingar í öllum þingflokkunum og stjórnmálaflokkunum að leggjast á eitt til að svo megi verða.  Ekki er loku fyrir það skotið, að slíkt megi verða þegar í haust 2011, því að ríkisstjórnin er lömuð á strandstað.  

Evran bendir til nánara sambandsÞað er til of mikils mælzt, að Samfylkingin sjái að sér og skipti um skoðun á nauðsyn þess að ganga í ESB, enda hefur jafnan legið í landi, að sú stefnumörkun héldi vart vatni.  Frá þessum blinda einsmálsflokki hefur aldrei komið neitt annað en kratablaður um Evrópuhugsjónina, sem á ekki upp á pallborðið hjá eyjarskeggjum. Þessi sama Evrópuhugsjón verður fyrsta fórnarlambið, þegar harðnar á dalnum, og hver þjóð mun bjarga sér sem bezt hún getur.  Evrópumenn munu ekki láta bjóða sér að verða undirsátar ólýðræðislegs bákns í Brüssel, sem hæglega getur tekið myndbreytingu í átt að Sovétbákninu hryllilega, sbr viðvörunarorð eins traustasta varðar og bakhjarls þýzka marksins, Otmar Issing.

Ákall og draumórar græningjans, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, Joschka Fischer, sem berja mátti augum í Morgunblaðinu þriðjudaginn 9. ágúst 2011, er andvana fætt.  Greinin ber fyrirsögnina, "Fullveldiskreppan í Evrópu", og þar á höfundurinn við, að Evrópuríkin búi nú við of mikið fullveldi og að vandamálið sé fólgið í þvergirðingi margra við fullveldisafsali.  Um þetta sjónarmið má segja, að sínum augum lítur hver á silfrið.  Joschka Fischer vill leggja allt í sölurnar til að bjarga evrunni, en höfundur þessa vefseturs er þeirrar skoðunar, að farið hafi fé betra og að í því sé fólgin allt of mikil áhætta að auka enn við miðstýringarvald og forsjárhyggjuáráttuna í Brüssel.  Það gengur heldur ekki upp, hagfræðilega.  Joschka Fischer skrifar m.a.:

"Í öðru lagi mun stökkið inn í gjaldeyrissjóð og sameiginlega stjórn efnahagsmála leiða til frekari og víðtækrar skerðingar á fullveldi í þágu evrópskrar lausnar á vettvangi sambandsins.  Má t.d. nefna, að innan myntbandalagsins munu fjárlög einstakra aðildarríkja heyra undir evrópska eftirlitsstofnun."

Svo mörg voru orð þýzka græningjans, en því fer víðs fjarri, að meirihluti landsmanna hans deili með honum skoðunum um Sambandsríki Evrópu, enda mundi slík ríkismyndun verða á kostnað lýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar almennings.   Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe mun og verða græningjum og krötum Þýzkalands óþægur ljár í þúfu, því að svo heiftarlegt fullveldisframsal stríðir gegn Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins. Almenningur í Þýzkalandi er meðvitaður um, hvað sameining Evrópu í eitt ríki hefur í för með sér fyrir efnahag sinn.  Hann hefur nýlegt dæmi frá endursameiningu Þýzkalands.  Hinum ráðdeildarsama þýzka skattgreiðanda verður beitt fyrir Evrópuvagninn og látinn "halda uppi" sukksamari ríkjum með einum eða öðrum hætti. Þetta er kjarni samrunaferlisins.  Lýðræðið í Þýzkalandi mun hindra þessa þróun, og þess vegna stendur evran og ESB á brauðfótum um þessar mundir. Veikleikar Frakklands í þessu sambandi eiga eftir að koma betur í ljós. 

Við þessar aðstæður er tal sanntrúaðra ESB-sinna Samfylkingarinnar sorglegt.  Þeir opinbera sig sem þekkingarlitla (sbr evran er ekki sökudólgurinn) og dómgreindarlausa varðandi núverandi stöðu Evrópu, og afleiðingar þess fyrir Ísland að sækjast eftir aðild að ESB. 

Samfylkingin hefur ekki annað samningsmarkmið en að skrifa undir allt, sem ESB fer fram á.  Síðan eiga spunaþrælarnir að klæða kvikindið í búning, sem þeir telja unnt að selja það þjóðinni í.  Engin efnisleg umræða fer fram á þingi eða í fjölmiðlum um framvindu samninganna.  Þetta er viðbjóðslegur málatilbúnaður og ber vitni um einbeitt andlýðræðislegt hugarfar.  Ofan af þessum viðbjóði verður flett og ESB-draugarnir verða teknir viðeigandi glímutökum og brotnir á bak aftur.  Myndin hér að neðan sýnir þróun hlutabréfamarkaðar í frönsku kauphöllinni í byrjun ágúst 2011.    

    Fall markaða í ágúst 2011          

  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

       Já tek heilshugar undir það Örn,vona að ég geti verið með að reka flóttann. 

Helga Kristjánsdóttir, 12.8.2011 kl. 03:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband