25.8.2011 | 21:41
Skrattinn úr Svörtuloftum
Segja má, að tilkynning Seðlabankans í viku 33/2011 um 0,25 % vaxtahækkun hafi komið eins og skrattinn úr sauðarleggnum á landslýð. Svo kölluð Peningastefnunefnd Seðlabankans tók þessa ákvörðun, sem virðist gjörsamlega úr lausu lofti gripin. Dettur manni í hug hið fornkveðna að þessu tilefni, að því verri eru heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.
Stöðu íslenzka hagkerfisins nú um stundir má kenna við stöðnunarverðbólgu (e. stagflation), og við slíkar aðstæður hefur engum hvítum manni hingað til dottið í hug að hækka vexti, en mannvitsbrekkurnar í Svörtuloftum riðu á vaðið.
Millibankavextir Seðlabanka ákvarða vaxtastig í landinu. Vaxtahækkun er við vissar aðstæður rétt að nota til að slá á fjárfestingar og/eða einkaneyzlu. Hvorugu er til að dreifa nú, enda er hagvöxtur nánast enginn. Mikið atvinnuleysi er í landinu (a.m.k. 8 %), og nýting framleiðslutækjanna er lág. Það eru engin grundvallarskilyrði vaxtahækkunar uppfyllt um þessar mundir. Engu er líkara en gamli Trotzkyistinn í Svörtuloftum sé að apa nýlega vaxtahækkun eftir ECB (Seðlabanka ESB), en þar á bæ voru áhyggjur af langvinnri verðbólgu yfir markmiði og þenslu í þýzkumælandi löndum. Nú virðist hafa verið um gönuhlaup ECB að ræða, hvað þá Seðlabanka Íslands.
Peningastefnunefnd varð að almennu athlægi í landinu með ákvörðun sinni, og ekki fór betur, þegar Trotzkyistinn rembdist við að útskýra fíflaganginn. Verðhækkanir í kjölfar vonlausra kjarasamninga og innfluttrar verðbólgu, m.a. vegna lækkandi gengis, eru algerlega utan seilingar Seðlabankans. Að hækka vexti vegna lækkandi gengis á tímum gjaldeyrishafta er fáránlegt. Það er ætíð mjög varasamt að reyna að stjórna genginu með vöxtum, eins og dæmin sanna. Það verður að stokka spilin algerlega upp á nýtt í Svörtuloftum, þegar glóra kemst í landsstjórnina. Það leysir í þessu samhengi ekki nokkurn vanda að hrópa á upptöku annars gjaldmiðils, því að hagstjórninni verður að koma í jafngott lag og tíðkast í því hagkerfi, sem mótar viðkomandi gjaldmiðil áður en til greina kemur að ganga í myntbandalag. Annars gerist einmitt það, sem Grikkir súpa nú seyðið af.
Einfeldningar á Íslandi, sem hrakyrða krónuna og halda að með einu pennastriki sé hægt að leysa gjaldmiðilsvandann með samningum við ESB, hafa fjargviðrazt út í andstæðinga ódýrs fullveldisafsals fyrir að vilja svipta þá réttinum til að kjósa um samningsskilmálana. Ekkert er fjær sanni, en fyrst er þó nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort þjóðin treystir núverandi stjórnarskrípi til að standa í slíku samningaferli. Allt bendir til, að þjóðin muni hafna aðildarsamningi, og þess vegna ber brýna nauðsyn til að veita henni ráðrúm til að stöðva feigðarflan ríkisstjórnarinnar.
Svörtuloftaformaðurinn sker sig algerlega úr hópi starfsbræðra sinna í öðrum löndum. Hann á það til að toppa aðra álfa út úr hólum. Það gerði hann á dögunum. Þá var hann beðinn um að leggja mat á ástand evrunnar. Þjónn Jóhönnu svaraði þá, að hann vonaði, að ástandið varaði ekki lengi. Svona svarar enginn viti borinn seðlabankastjóri. Hvert mannsbarn veit, að ástand evrunnar er grafalvarlegt, og það er ekkert annað en kraftaverk, sem getur bjargað henni nú. Það er útilokað, að núverandi 17-landa evruvandi verði leystur á skömmum tíma, t.d. 12 mánuðum. Warren Buffet spáir evrulandi vanda í 10 ár, en flest bendir til klofnings evrulands með einum eða öðrum hætti. Þýzkaland og norðrið á móti Frakklandi og suðri eða afturhvarf til þjóðmyntanna í einhverjum mæli hillir undir.
Víkjum nú að furðufyrirbrigðinu, sem síðan 1993 hefur rembzt eins og rjúpan við staurinn við að flokka virkjunarkosti landsmanna. Þegar loks kom að verklokum Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar má segja, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús. Verkefnisstjórn þessi stendur ekki undir nafni. Stjórnmálalegur hrærigrautur ofstækisgræningja var það, sem reitt var fram á formi draga til frumvarps. Hræðileg moðsuða.
Það, sem gott þriggja manna teymi verkfræðings, jarðfræðings og hagfræðings, hefði getað leyst á tveimur vikum, tók þessa endemis verkefnisstjórn 18 ár að koma á koppinn. Var króinn þó ærið óburðugur, svo að hann getur ekki orðið komandi kynslóðum að nokkru gagni. Notagildið er aðallega fólgið í forgangsröðun virkjana, en hver kynslóð mun virkja í þeim mæli, sem hagkvæmt og skynsamlegt þykir á hverjum tíma án tillits til þessa vanskapnings. Að takast þar að auki ekki að ljúka verkinu, en setja upp biðflokk, er til skammar. Hér hefur afætum verið gefið ótæpilega á garðann.
Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar á aðlögunarferlinu að ESB er fyrir neðan allar hellur. Til að leyna þjóðinni aumkvunarverðri framgöngu samningamanna og embættismanna ríkisstjórnarinnar, sér ríkisstjórn opinnar stjórnsýslu og gegnsæis í málatilbúnaði, en þannig lýsti hún sér í upphafi, til þess, að þjóðin fær engar upplýsingar um gang mála í þessu brýnasta hagsmunamáli sínu, sem er varðveizla fullveldis. Stjórnarómyndin ætlar ekki að láta steyta á neinu máli í viðræðunum, hvorki um sjávarútveg né landbúnað. Síðan á með áróðursvél ESB, sem stjórnað er frá bökkum Spree í hinni fornu höfuðborg Prússlands, að freista þess að blekkja þing og þjóð til fylgilags við fullveldisafsal í fögrum umbúðum.
Ef einhver töggur er í stjórnarandstöðunni á Alþingi, ber henni að vekja máls á þeirri ólýðræðislegu málsmeðferð, sem hér er á ferðinni, og á þeim óeðlilega farvegi, sem þetta ólánsmál, skammarlega mál, er í. Enn er því haldið fram af töskuberum Össurar Skarphéðinssonar í öllum flokkum, að leiða þurfi viðræðurnar til lykta til að þjóðin geti lagt mat á afraksturinn. Þetta er svo þrátt fyrir þá staðreynd, að meirihluti þings og þjóðar er á móti aðild óháð því, hvað kemur upp úr poka jólasveinsins. Það vita allir heilvita menn, hvað upp úr pokanum mun koma. Það verður allt núverandi regluverk ESB með tímabundnum umþóttunum og einstaka undanþágum, sem ekkert hald verður í gagnvart Evrópudómstólinum, kæri einhver aðildarþjóðin síðar.
Þess vegna á Alþingi nú snarlega að stöðva þetta ferli með kurteislegri ályktun án þess að styggja viðmælendurna, Stefan Füle, og hans menn í Brüssel. Þar með sparast stórfé, og stjórnkerfi landsins getur snúið sér að uppbyggilegri málum. Þetta mun þó ekki gerast fyrr en Alþingi nær vopnum sínum, og tæpast verður það án kosninga. Þar mun fylgi stjórnarflokkanna fara niður fyrir björtustu vonir stjórnarandstæðinga. Svo verður nýjum stjórnmálaflokkum fyrir að þakka, sem munu reyndar verða áhrifalausir eftir kosningarnar, en ná að róta fylginu til. Ný forysta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fær þá tækifæri til að hefja og leiða mikla framfarasókn landsmanna eftir eyðimerkurgöngu félagshyggjuaflanna, sem munu hafa valdið hér meira tjóni á þremur árum en varð í fjármálakreppunni á Íslandi í október 2008. Það verður að hrista kerfið rækilega, sópa út úr stjórnarskrifstofunum og hleypa þar inn fersku lofti og fólki, sem þorir og kann eitthvað til verka í stað taðskegglinga og þöngulhausa, sem félagshyggjuflokkarnir hafa af stökustu ósvífni raðað á garðann. Nú dugir ekkert minna en áfallsmeðferð (sjokkterapía), afnám gjaldeyrishafta og allra annarra stjórnvaldshafta, afnám verðtryggingar, stórfelld skattalækkun og samningar um stórframkvæmdir. "You ain´t seen nothing yet."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll! Voru allir svona andagtugir,að þeim finnst engu við að bæta,þannig er það hjá mér,en fagna greininni innilega.:)
Helga Kristjánsdóttir, 26.8.2011 kl. 13:37
Sæl, Helga, og þakka þér fyrir góðar viðtökur á "Skrattanum úr Svörtuloftum", þó að hann taki ekki fram skrattanum úr sauðarleggnum, en sá sýndi sig og lét heldur betur í sér heyra í dag, þegar hann tók til við að halda upp á lok skuldasöfnunar hjá AGS og hældi sér um leið upp í hástert fyrir góðan árangur í efnahagsmálum. Ef einhver annar í landinu hefur fundið fyrir vaxandi velmegun undir þessum fjára, væri vert að hafa þann hinn sama alþjóð til sýnis í Húsdýragarðinum, gjarna með téðan fjára í tjóðri.
Með góðri kveðju/
Bjarni Jónsson, 26.8.2011 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.