2.9.2011 | 21:34
Afturhaldið sótsvart við eitur kennir
Öll helztu hagsmunasamtök landsins, þ.á.m. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA), auk sjómannasamtaka og útgerða, hafa nú ásamt öðrum hagsmunaaðilum, s.s. lánadrottnum sjávarútvegsins, sent Alþingi umbeðnar umsagnir sínar við frumvarp sjávarútvegs-og landbúnaðarráðaherra, Jóns Bjarnasonar, vinstri-græningja, um stjórnun fiskveiða við Ísland.
Það er einsdæmi, að allir þessir ólíku aðilar ljúki upp einum munni um, að stjórnarfrumvarp sé algerlega ótækt, óalandi og óferjandi, og í raun stórhættulegt afkomu sjávarútvegsins, landsbyggðarinnar og þjóðarinnar allrar. Frumvarp þetta vegur að rótum almannahags.
Aðeins prófessor nokkur, Þórólfur Matthíasson, mælir frumvarpinu bót, en það má taka sem órækt merki þess, að frumvarpið þjóni engu, nema annarlegum hagsmunum Evrópusambandsins, ESB, og fáeinna sérvitringa, sbr fyrri ráðleggingar hans, t.d. um Icesave, sem báru vott um alkul dómgreindarinnar.
Á meðal umsagnaraðila var ríkisfyrirtækið Landsbankinn, sem sendi inn vandaða greinargerð, eins og eðlilegt má telja, þar sem sjávarútvegurinn skuldar honum yfir 100 milljarða kr. Það er fullkomlega eðlilegt, að lánadrottnar sjávarútvegsins hafi áhyggjur af því, þegar frumvarp kemur fram á Alþingi, sem eyðileggur gjörsamlega eignastöðu og stórskaðar tekjugrunn allra núverandi handhafa veiðiheimilda við Ísland. Á hvers konar helreið eru eiginlega stjórnvöld, sem fyrir slíku örverpi berjast ?
Bankinn krauf frumvarpið og taldi í stuttu máli afkomu sinni ógnað, því að hann taldi, að af umræddri lagasetningu mundi leiða fjöldagjaldþrot í greininni með tugmilljarða kr tapi fyrir bankann. Hann ráðlagði ráðuneytinu að draga frumvarpið í heild sinni til baka, eins og skiljanlegt er.
Hver urðu þá viðbrögð afturhaldsins við stjórnvöl landsins ? Í frétt Morgunblaðsins, 27. ágúst 2011, af flokksráðsfundi hins þjóðfjandsamlega fyrirbrigðis, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er haft eftir formanni sjávarútvegs-og landbúnaðarnefndar Alþingis, Lilju Rafney Magnúsdóttur, að "Landsbankinn hagi sér eins og eiturlyfjasjúklingur, sem heimtar meira dóp".
Þessi illviljaða umsögn sýnir berlega, að vinstri græningjarnir hafa ekki vilja til að greina vandamál með hlutlægum hætti, hvað þá að finna nothæfar úrlausnir á viðfangsefnum, heldur haga þeir sér eins og illa uppaldir krakkar, ausandi auri allt í kringum sig. Hjá þessu vesalings fólki helgar tilgangurinn (sjávarútvegur í sameign) meðalið. "Der Erfolg berechtigt den Mittel", var hrópað á sínum tíma. Þetta er sameiginlegt einkenni ofstækishópa í öllum löndum.
Þessi himpislegu ummæli Alþingismanns eru með þeim allra lágkúrulegastu, sem opinberlega hafa heyrzt frá nokkrum úr þeirra hópi um aðila utan þings, svo að ekki sé nú minnzt á ríkisstofnun, ríkisbanka. Ekki er ólíklegt, að ábyrgðarlaus ummæli af þessu tagi dragi dilk á eftir sér fyrir þingmanninn.
Starfsfólk íslenzkra banka, sem og aðrir landsmenn, hafa mikið mátt líða vegna bankahruns í október 2008 af völdum óprúttinna óreiðumanna, sem réttvísin hefur enn ekki fært til dóms, því miður. Við þessar aðstæður leyfir þessi þingmannslufsa sér að svívirða bankastarfsmenn, sem unnið hafa starf sitt af heilindum, með því að kenna þá við fíkniefnaþræla. Þetta er fádæma lítilmótlegt.
Af þessum og öðrum viðbrögðum vinstri græningja við einkunninni 0,0 frá öllum helztu prófdómurunum fyrir téð frumvarp sitt má ráða, að þeir telji forgangsmál að koma íslenzkum sjávarútvegi undir opinbera forsjá. Þeir vinna að því, að fyrirtæki í helztu auðlindanýtingunni, orkuvinnslu og fiskveiðum, lúti opinberri forsjá. Þess vegna berja þeir sínum heimsku hausum við steininn, hvernig sem reynt er að koma vitinu fyrir þá, og svífast einskis.
Þetta fólk fjandskapast við allt einkaframtak og lítur á fjárhagslega sjálfstæða einstaklinga sem skattstofn, sem rýja beri inn að skinni. Það hatast við auðmenn, sbr Kínverjann frá Grímsstöðum á Fjöllum, og alþjóðleg fyrirtæki, sbr álfyrirtækin á Íslandi. Þetta er ógrímuklædd sameignarstefna 20. aldarinnar, afturgengin á 21. öldinni, sem þó beið skipbrot, enda gafst hún hvarvetna hörmulega og endaði með siðferðislegu og fjárhagslegu gjaldþroti alls staðar, þar sem fénaður af þessu sauðahúsi komst til valda. Það verður að berjast með kjafti og klóm gegn fyrirætlunum þessa undirmálslýðs hérlendis og senda hann út í yztu myrkur hið fyrsta.
Stjórnarandstaðan á Alþingi verður nú að hrista af sér slyðruorðið og bíta í skjaldarrendurnar og berjast með kjafti og klóm gegn ófögnuðinum þar til yfir lýkur, því að það er algert grundvallarmál fyrir íslenzka hagkerfið, hvort sjávarútvegurinn verður áfram frjáls eða reyrður í höft forsjárhyggju og geðþótta embættismanna ríkisins og valdamanna á hverjum tíma úr stjórnmálaflokkunum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.