27.9.2011 | 21:03
Hagkerfi á heljarþröm
Þann 22. september 2011 lýstu forstjórar Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins báðir yfir því, að hagkerfi heimsins væri á heljarþröminni. Það er leitun að yfirlýsingu, sem væri betur fallin til þess að skapa ótta um hrun en þessi. Verður þess nú vafalítið skammt að bíða, að ný kollsteypa verði á fjármálamörkuðum heimsins. Á veik staða evrulands mesta sök á því, þó að víðar sé pottur brotinn. Aðalspurningin er, hversu lengi Sambandsþingið í Berlín lætur teyma sig út í ófæruna að henda góðu fé fyrir slæmt. Því fyrr, sem Þjóðverjar taka af skarið um, að þjóðargjaldþrot ýmissa evruþjóða er óhjákvæmilegt, þeim mun betra.
Hafa reyndar óhemju verðmæti gufað upp af hlutabréfamörkuðum heimsins undanfarnar vikur og m.a. íslenzku lífeyrissjóðirnir tapað óskaplega á því, en, eins og margoft hefur verið bent á, eru þeir allt of áhættusæknir, sem endurspeglast í meira en tvöfaldri hlutdeild hlutabréfa í eignasafni þeirra miðað við það, sem eðlilegt getur talizt.
Þó að gjaldeyrishöft hindri spákaupmenn í að ná til íslenzku krónunnar um sinn, fer því þó fjarri, að íslenzka hagkerfið verði ónæmt fyrir þessum óförum evrulanda, sem eru reyndar víðast með böggum hildar ráðstjórnar, þ.e. gríðarlegum opinberum afskiptum af athafnalífi og hárri opinberri hlutdeild í efnahagskerfinu, eða um 50 %, illa reknum ríkissjóðum og búa mörg hver við peningamálastjórnun, sem er sniðin við annars konar hagkerfi en þeirra eigið. Stirðbusalegur samningsrammi á vinnumarkaði, léleg nýting vinnuafls og vaxandi fjöldi ómaga og eftirlaunaþega er sú eitraða blanda, sem mörg Vesturlönd bergja nú á. Þetta eru einkenni langrar valdasetu jafnaðarmanna, oft í skjóli sameignarsinna. Þjóðfélagskerfi Vesturlanda þarfnast gríðarlegrar uppstokkunar, því að það er víða ósjálfbært, efnahagslega og umhverfislega. Hér er ekki um að ræða gjaldmiðilskreppu einvörðungu, heldur efnahagskreppu á heimsvísu, sem getur orðið langvinn. Vesturlönd hafa lifað um efni fram, og nú hallar undan fæti fyrir þeim.
Það er oft lítil þúfa, sem veltir þungu hlassi í þessum efnum. Nú er það smáríkið Grikkland. Það er einkennilegt, hvað Grikkir koma oft við sögu, þegar miklir atburðir verða. Þeir stöðvuðu útþenslustefnu Persa á sinni tíð í átt að Evrópu. Vísindi þeirra og listir lögðu grunninn að mesta stórveldi sögunnar í Evrópu, Rómarríki. Rómverjar voru vel skipulagðir, agaðir, víðsýnir og námfúsir bændur, sem tileinkuðu sér menningu Grikkja og Egypta, og með tækni-og skipulagsyfirburðum lögðu þeir undir sig megnið af Evrópu, Litlu-Asíu og Norður-Afríku, og sköpuðu eitt stórt hagkerfi. Grikkir komu mjög við sögu kirkjunnar í árdaga hennar, og ein elzta útgáfa Biblíunnar er á grísku.
Vorið 1941 réðist ítalski herinn inn í Grikkland í óþökk Öxulveldisins í norðri, Þýzkalands. Grikkir vörðust hetjulega, og þeim tókst að ná yfirhöndinni gegn Ítölum. Þýzka herráðið, sem þá var önnum kafið við undirbúning áætlunarinnar "Operation Barbarossa", Aðgerð Rauðskeggur, sem var dulnefni á hernaðaráætlun um innrásina í Rússland, ákvað að tillögu ríkiskanzlarans að skakka leikinn, og var Wehrmacht send af stað til að yfirbuga Grikki. Það tókst á tveimur vikum, en fyrir vikið seinkaði Rauðskegginum, og er sú seinkun talin vera einn af örlagavöldum þess, að framsókn Wehrmacht stöðvaðist rétt utan við Moskvu í brunakulda og fannfergi þá um veturinn.
Innleiðing evrunnar í Grikklandi fór fram á fölskum forsendum og raskaði aldagömlu jafnvægi í landinu. Grikkir höfðu nokkru áður undirritað samning við Þýzkaland, þar sem þeir afsöluðu sér rétti til að krefjast endurgreiðslu á ránsfeng Wehrmacht og SS, sem var gríðarlegur og slagaði upp í þá upphæð, sem kæmi þeim á réttan kjöl nú.
Eftir upptöku evrunnar varð allt í einu mikið framboð á ódýru lánsfé í Grikklandi, sem leiddi til lánafyllirís, þenslu í hagkerfinu og verðbólgu, sem stjórnvöld réðu ekkert við, enda gengu þau á undan með takmarkalitlu sukki í meðferð opinbers fjár undir forystu jafnaðarmanna (nema hverra ?). Nú nema skuldir gríska ríkisins um 170 % af VLF og fara enn vaxandi, og almenningur er líka mjög skuldsettur. Ástæðan fyrir þessum lágu vöxtum, sem ollu stórskaðlegri bólu í Grikklandi, var ládeyða í þýzka hagkerfinu eftir þenslu endursameiningarinnar. ECB, Seðlabanki ESB, horfði til þungamiðjunnar við vaxtaákvarðanir, en jaðarríkin léku lausum hala með voveiflegum afleiðingum. Hver ber sök í þessu máli ? Er ekki ábyrgð Seðlabanka Evrópu nokkur á óförum Grikkja ? Það er hrikalegt að horfa upp á Grikki núna verða fórnarlamb misheppnaðrar hugsjónar um Evrópu undir einni stjórn.
Brüssel hefur nú fyrirskipað miklar sparnaðaraðgerðir í Grikklandi, sem leitt hafa til sársaukafulls samdráttar hagkerfisins um 14 % á 3 árum, sem er nánast einsdæmi um kreppuumfang; þó svipað og í Argentínu eftir hrunið, þegar þeir höfðu tengt mynt sína beint við bandaríkjadal um skeið. Jafnframt var Grikkjum fyrirskipað að selja ríkiseignir, þ.m.t. heilu eyjarnar. Eru þetta miskunnarlaus skilyrði ESB-foringjanna fyrir nýjum lánum, sem aðeins lengja í hengingaról Grikkja. Fyrir samfylkingarráðherrana er evruland samt fyrirheitna landið. Þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur. Hjálpi oss allir heilagir !
Grískur almenningur er æfur yfir þessari óréttlátu meðferð höfðingjanna í Berlín, París og Brüssel, á sér og fór í allsherjarverkfall og í fjölmennar mótmælagöngur á götum borga og bæja Grikklands. Allt er á suðupunkti og fleiri verkföll boðuð, því að fólk, sem enga ábyrgð ber gagnvart grísku þjóðinni, er nú tekið að véla um örlög hennar. Þetta veldur djúpstæðri ólgu í vöggu lýðræðisins. Það er vel skiljanlegt. Reglur lýðræðis eru fótum troðnar af skriffinnum Brüssel.
Þetta er einmitt meginástæða óvinsælda ESB. Það dregur stórlega úr lýðræðinu, sem almenningur í aðildarlöndunum þó býr við, því að íþyngjandi aðgerðir fyrir almenning eru ákvarðaðar af stjórnendum í Brüssel, sem hafa ekki verið kjörnir af almenningi og þurfa aldrei að standa honum reikningsskap gjörða sinna.
Íslendingar hljóta að finna til samstöðu með Grikkjum á þessum örlagatímum, enda er fjármálaveldið, sem að baki ESB stendur, að kreista hvern blóðdropa út úr Grikkjum til að minnka eigin skell, sem þó er óhjákvæmilegur. Eru þetta einhverjar ljótustu aðfarir, sem sézt hafa í Evrópu um langa hríð og hljóta að enda með ósköpum. Við Íslendingar höfum fundið smjörþefinn af þessum fantabrögðum alþjóðlegs fjármálavalds, sem einskis svífst. Á Íslandi hafa vinstri flokkarnir lagzt hundflatir fyrir því, sbr Icesave og einkavæðingu bankanna, og var kominn tími til, að þeir opinberuðu undirlægjueðli sitt. Í næstu kosningum mun sigling þeirra undir fölsku flaggi almannahagsmuna verða stöðvuð. Lýðræðið hefur hér enn undirtökin. Fyrir því er vert að berjast.
Ljóst er hverju mannsbarni, nema ríkisstjórn Íslands, að svona getur þetta ekki gengið. Ríkisstjórn Íslands hafði pata af ástandinu nú með haustskipunum, en lét hafa eftir sér, að vonir stæðu til, að ástandið lagaðist. Hvers konar hundarökfræði er þetta eiginlega ? "O, sancta Simplicitas", sögðu Rómverjar, þ.e. ó, heilaga einfeldni. Í ríkisstjórn Íslands sitja nú eintómir Bakkabræður, sem eru önnum kafnir við að ausa hriplekt fleyið og að bera ljósið frá ESB inn í kofann sinn í kirnum.
Ástandið mun aldrei lagast með núverandi 17 lönd innanborðs í evrusamstarfinu. Þjóðverjar munu ekki taka þátt í skuldsetningu björgunarjóðs ESB, EFSF, upp á 2 trilljónir evra, sem eldveggur eða Festung Euro er talinn mundu kosta. Myntsamstarf Evrópu í sinni núverandi mynd gengur ekki upp og mun senn líða undir lok. Andstæðurnar eru of djúptækar. Það er lýðum ljóst. Ógæfa Íslands nú er sú, að við stjórnvölinn hér sitja hugmyndasnauðir, fákænir og valdasjúkir ofstækismenn, sem þora ekki að horfast í augu við veruleikann og að játa mistök sín.
ESB forystan ræður ekki við vandann. Hún hefur ekki bolmagn til þeirra breytinga, sem nauðsynlegar eru til að leysa vandann, enda var vitlaust gefið í upphafi. Evran var hugarfóstur stjórnmálamanna, aðallega gallískra (franskra), til þess sniðin að koma böndum á endursameinað Þýzkaland. Þeir skulfu af ótta við Deutsche Mark. Evran gat virkað í hinum bezta heimi allra heima, en engan veginn í raunheimi. Gjaldþrot Grikklands mun leiða til stórtíðinda. Bankar munu falla og fleiri ríki í Suður-Evrópu riða til falls. Gallar ætluðu að beita germönum fyrir vagn sinn, en nú er svo langt um liðið frá heimsstyrjöldinni síðari, að kynslóðir eru fram komnar, sem ekki láta troða upp á sig syndum forfeðranna frá 1939-1945, enda hafa andstæðingar Öxulveldanna ekki úr háum söðli að detta, siðferðislega.
Þjóðverjum hefur stórlega mislíkað, hvernig Seðlabanki Evrópu, ECB, hefur staðið að málum undanfarið undir forystu Frakkans Jean-Claude Trichets. Helzti maður Þjóðverja hjá ECB, Jürgen Stark, aðalhagfræðingur Seðlabanka ESB og fyrrverandi Bundesbankmaður, sagði sig nýlega úr bankastjórninni í mótmælaskyni. Hann var á móti kaupum ECB á grískum ríkisskuldabréfum. Þjóðverjar telja sig svikna, og það eru oftast Gallarnir, sem sárindunum valda, enda Bretarnir ekki innanborðs í myntsamstarfinu. Jens Weidmann, bankastjóri Bundesbank, Seðlabanka Þýzkalands, er á móti stækkun neyðarsjóðsins, EFSF. Það hillir þess vegna undir það, að germanskar þjóðir segi sig úr þessu misheppnaða myntbandalagi, þar sem þær telja sig ekki eiga samleið með rómönskum þjóðum, sem haga sér sífellt með óábyrgum hætti, og eru eins konar sníkjudýr í þessu samstarfi. Þá verður efnahagslegur og stjórnmálalegur jarðskjálfti í Evrópu, eins konar stríðsástand á nútímavísu.
Þetta mun e.t.v. leiða til stofnunar nýs myntbandalags Þýzkalands og fylgiríkja þeirra. Sú mynt gæti orðið óþægilega sterk fyrir útflutningsiðnað aðildarþjóðanna. Þetta vita Þjóðverjar, og þess vegna hika þeir. Leiðtogar Þjóðverja þora hins vegar varla að henda meiru af skattfé landsmanna sinna á bálið af ótta við refsingu í þingkosningum. Nú ræðir Bundestag, þýzka þingið, hvort auka eigi hlutdeild Þjóðverja í EFSF úr 123 í 211 milljarða evra. Þetta er botnlaus hít. A.m.k. 75 % Þjóðverja eru reiðir yfir því að vera endalaust látnir draga hlass Evrópusambandsins. Hlassið er komið að leiðarlokum, og það mun reyndar senn standa í björtu báli.
Bretar rifja nú upp baráttu áhrifaríkra hópa á Bretlandi fyrir upptöku evru fyrir 10 árum (2001). Þeir hrósa happi yfir gæfuríkri ákvörðun sinni þá að hafna því að fórna sterlingspundi og að taka upp evru. Þá mundu þeir sogast nú niður í öngþveitisástand, sem er margfalt verra en ástand hagkerfis Breta nú, þó að þeir færu að vísu mjög illa út úr bankakreppunni 2008 vegna óstjórnar Verkamannaflokksins á ríkisfjármálunum og rangra ákvarðana í aðdraganda hrunsins og í hruninu. Hvorum megin hryggjar ættu Bretar að liggja, væru þeir nú með evru; í bandalagi með Þjóðverjum og bandamönnum þeirra eða með Frökkum og þeirra fylgifiskum ? Bretar ættu heima í hvorugri þessara fylkinga og mundu verða að taka aftur upp sterlingspundið. Sterlingspundið verður áfram við lýði. Bretar hyggja nú á gagnsókn gegn veikri Evrópu og vilja endurheimta hluta af lýðræðinu, sem þeir afsöluðu sér til Brüssel við inngönguna í ESB.
Hið sama má segja um Ísland, ef það væri nú með evru. Það er þess vegna alveg forkostulegt, og er mörgum erlendum mönnum og innlendum hrein ráðgáta, hvers vegna ríkisstjórn Íslands rembist enn eins og rjúpan við staurinn við að komast inn í Evrópusambandið (ESB) með það að markmiði að taka upp evru. Þetta líkist helzt einhvers konar sjálfstortímingarhvöt og mun verða seinni tíðar mönnum mikið umhugsunarefni.
Jafnframt mun það vekja stórfurðu, ef haustþingið tekur ekki í taumana og stöðvar vitleysuna, sem viðgengst að hálfu sálarháskanna, sem ríkisstjórn Íslands skipa nú, landinu til stórtjóns og alþjóðlegrar hneisu.
Hér að neðan má sjá hagvaxtarspár frá júní og september 2011 fyrir Þýzkaland, Frakkland, Spán, Ítalíu og evru-svæðið sem heild. Sýna tölurnar glögglega, hversu hratt fjarar nú undan Evrópusambandinu. Þetta er ekki ritað af "Schadenfreude" eða Þórðargleði, heldur vegna baráttunnar gegn blygðunarlausri aðför að sjálfsákvörðunarrétti landsmanna.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.