Forseti gefur merki

Framganga forsetahjónanna var hið eina virðulega og ánægjulega við setningu Alþingis 1. október 2011.  Allt annað bar merki afleiðinga stjórnarsetu afturhaldsins, doðans og sundurlyndisins, sem einkennt hefur allan feril þessarar voluðu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Forseti lýðveldisins taldi ekki við hæfi að tilkynna um hug sinn til framboðs að nýju við þetta þinglega tækifæri, en framganga og látæði forsetahjónanna bar þess merki, að þau væru komin í framboðsham.  Forsetafrúin vakti alveg sérstaka athygli fyrir hugrakka framgöngu sína og vilja til að styðja málstað réttlætisins, sem er hið eina, sem almenningur fór fram á á Austurvelli þennan fagra haustdag.

Boðskapur forsetans inni í þinghúsinu var engu að síður athygliverður.  Hann benti þinginu á, að lagt hefði verið í hálfs milljarðs kr kostnað við að setja saman hugmyndir að stjórnarskráarbreytingum.  Á næsta ári, 2012, yrði efnt til kjörs á forseta lýðveldisins, og það yrði þinginu til mikillar minnkunar, ef því tækist ekki að setja saman og ganga frá breytingum á þessu þingi á Stjórnarskrá, er forsetaembættið vörðuðu.  Aðrar breytingar geta í raun og veru beðið.  Að öðrum kosti renna kjósendur blint í sjóinn um eðli forsetaembættisins lungann úr næsta kjörtímabili.  Það er óboðlegt, en ríkisstjórn Bakkabræðranna er trúandi til þess.   

Stjórnarskráarráðið hefði komið frá sér hugmyndum um aukin völd forseta Íslands, sagði forseti, þó að einstaka ráðsliði hafi síðan þrætt fyrir það.  Satt er, að það er ógæfulegt upphaf umræðu.  Þjóðin yrði að fá um það vitneskju fyrir kjördag, hver staða embættisins í stjórnkerfinu ætti að vera, a.m.k. næsta kjörtímabil.  Þetta eru réttmætar ábendingar hjá forseta lýðveldisins til þingsins, sem þó er líklegt til að setja upp hundshaus gagnvart þessu undir núverandi forystu.

Hér skal taka undir það, að líklega verður það stjórnarfarinu til bóta að veita forseta formleg völd, en þau hefur hann vart núna, og kveða skýrt á um synjunarrétt hans og að hann geti þar með framkallað þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg ágreiningsefni.  Þetta yrði gert í nafni valddreifingar og aðhalds með ríkisstjórn.  Forseti ætti og, eins og í stjórnarskráarhugmyndunum er gert ráð fyrir, að leika stærra hlutverk við ríkisstjórnarmyndanir með útnefningu forsætisráðherraefnis eftir þingkosningar. Þingrofsheimildina skal afnema, þannig að Alþingiskosningar verði ætíð á 4 ára fresti.  Forseti geti útnefnt forsætisráðherra utan þings, ef honum býður svo við að horfa.  Forsætisráðherra velur meðráðherra sína, sem geti sagt tímabundið af sér þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherrastörfum, kjósi þeir svo, en þeir þurfa ekki að koma úr hópi þingmanna.  Ríkisstjórnin skal hins vegar vera þingbundin, þ.e. starfa í umboði þingsins, sem getur sett hana af, hvenær sem er.    

Forseti þarf líka að hafa formlegt sjálfstæði til að tjá sig opinberlega um hvað sem er, innanlands og utan, þ.e. hann á að mega vera opinberlega á öndverðum meiði við ríkisstjórnina, og hann ætti að skrifa undir alla samninga við erlend ríki, stofnanir, bandalög eða sambönd, ásamt utanríkisráðherra, enda sæki forseti vald sitt beint til þjóðarinnar.  Þetta merkir, að slíkir samningar öðlast ekki gildi án samþykkis forseta. Forseti skal einnig staðfesta lagasetningu með forseta Stjórnlagadómstólsins, sem þarf að setja á legg til að rýna ný lög m.t.t. Stjórnarskráar og til að skera úr um ágreining að þessu leyti varðandi eldri lög.  Hvor um sig, forseti eða Stjórnlagadómstóll, geti hafnað lagasetningu.

Forseti lýðveldisins ætti jafnframt að skipa Hæstaréttardómara í embætti, og innanríkisráðherra á ekki að koma nálægt því verkefni.  Sama á að gilda um skipan ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og sérstakan saksóknara og dómara á millidómsstigi, ef þeir verða einhvern tíma skipaðir.  Það ætti líka í Stjórnarskrá að segja fyrir um stofnun, hlutverk og starfssvið Stjórnlagadómstóls, sbr hér að ofan.  

Með þessu og öðru skal tryggja sem skýrastan aðskilnað hinna þriggja meiða ríkisvaldsins, löggjafans, framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins og koma í veg fyrir hortitti og hrákasmíði löggjafans. Það ætti líka að gera Seðlabankann að sjálfstæðu stjórnvaldi undir forseta lýðveldisins, þannig að sjálfstæð peningamálastefna verði rekin í landinu án afskipta stjórnmálamanna í anda Bundesbank í Þýzkalandi á dögum Deutsche Mark.  Tillaga sjálfstæðismanna á Alþingi um aðhaldsreglur á stjórn og þing um aukningu ríkisútgjalda er angi af sama meiði, þ.e. styrkingar efnahagsmálastjórnunar landsins. 

Það er mikilvægt, að menn skilgreini í upphafi meginhlutverk Stjórnarskráar.  Hún er réttindaskrá borgaranna, sem á að tryggja þeim hámarksfrelsi frá afskiptum, ofríki og óréttlæti að hálfu ríkisvaldsins.  Þannig á hún að segja fyrir um valddreifingu í stað valdasamþjöppunar.  Hún á aðeins að innihalda ótvíræð réttinda-og ábyrgðarákvæði, sem hægt er með skýrum hætti að reisa lagasetningu á og dæma eftir.  Hún á ekki að innihalda loðnar stefnuyfirlýsingar, sem hlaðnar eru stjórnmálalegu gildismati um hitt og þetta.  Það er útþynning á réttindum borgaranna, því að slíkt kallar á aukin ríkisafskipti.    Stjórnarskrá á að veita stjórnmálamönnum aðhald og að veita almenningi hámarksfrelsi, en ekki að draga taum sérhagsmuna að neinu leyti.  Hún á að vera frelsisskrá, sem tryggir einstaklingunum hámarksathafnafrelsi, en setur ríkisvaldinu þröngar skorður. Þess vegna á ekki að setja loðmullulega hugmyndafræði í Stjórnarskrá, sem útheimtir aukið eftirlitshlutverk ríkisins á kostnað frelsis borgaranna.

Staðgengill forseta skal vera forseti Alþingis, eins og stjórnlagaráð leggur til, en stofna skal Ríkisráð, þar sem forseti lýðveldisins boðar fundi og ákveður dagskrá.  Þar skulu auk hans eiga sæti: forsætisráðherra, forseti Alþingis, forseti Hæstaréttar, forseti Stjórnlagadómstóls og formaður bankastjórnar Seðlabankans, alls 6 manns, og skal forseti lýðveldisins fara með oddaatkvæði.  Ríkisráð skal koma saman á válegum tímum farsótta, náttúruhamfara, ófriðar, efnahagskreppu o.s.frv., sem og í tilefni annarra stórviðburða, og þann 17. júní ár hvert skal Ríkisráð birta skýrslu sína um þróun þjóðmála undangengið ár og birta framtíðarsýn og stefnumið fyrir þjóðina á næsta ári.  Forseti lýðveldisins skal vera aðalræðumaður við hátíðarhöldin á Austurvelli þann 17. júní, sem forsetaembættið skal skipuleggja, og gera þar m.a. grein fyrir helztu atriðum í skýrslu Ríkisráðsins.  Verður þá ekkert Dýrafjarðarþvaður borið á borð, þó að sýnt sé, að nú falli öll vötn til Dýrafjarðar.

Ef Alþingi tekur áskorun forseta lýðveldisins og gengur frá stjórnarskráarbreytingum, er lúta að æðstu stjórn landsins, sem er brýnt, í tæka tíð, svo að halda megi Alþingiskosningar vel fyrir forsetakosningar í júní 2012, er loksins komin viðspyrna til að hverfa af núverandi hnignunarleið stjórnvalda og sækja fram til bættra kjara almenningi til handa.  Það verður að reisa við traust á milli þings og þjóðar, og það gerist aðeins, ef efnahagsstaða fjölskyldnanna verður endurreist.  Slíkt er jafnframt grundvöllur þess, að hagkerfið taki við sér og dafni.  Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að kalla Hagsmunasamtök heimilanna að viðræðuborðinu stefnumótunar.  Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, heyktist á að afnema verðtrygginguna haustið 2008, þegar það var til skoðunar á hennar vegum.  Þá var það nauðsynlegt til að draga úr kreppunni.  Hún sýndi þar af sér heigulshátt og vingulshátt í varðstöðunni um hagsmuni almennings, og fyrir vikið magnaði hún kreppuna og olli mikilli og langvarandi óhamingju, sem mál er að linni.   Hún tók þá stöðu með fjármagnseigendum, eins og hún hefur ítrekað gert sem forsætisráðherra, t.d. í Icesave-málinu, sem verður henni og Bakkabræðrastjórninni til ævarandi skammar.       

Skjaldarmerki Íslands

 

 

   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Waage

Frábær pistill Bjarni, kærar þakkir.

Gunnar Waage, 5.10.2011 kl. 23:10

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Bjarni. Þú ert meiriháttar málnefnanlegur penni. Takk fyrir þennan góða pistil.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.10.2011 kl. 23:56

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hreint afbragð, kærar þakkir.

Helga Kristjánsdóttir, 6.10.2011 kl. 00:02

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já mér lýst að mörgu leyti vel á þetta allt saman, vona að upp úr þessari óánægju og óöryggi rísi eitthvað gott og fagmannlegt, sem veitir okkur borgurunum meira öryggi og betra aðhald til stjórnmálamanna, þannig að þeir geti ekki valsað að vild í ráðríki og vargshætti. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.10.2011 kl. 08:25

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Flott Grein og þörf.

Valdimar Samúelsson, 6.10.2011 kl. 16:03

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, öll;

Málefni Stjórnarskráar og fyrirkomulagið á landsstjórninni fangar margan.  Það vita einnig ýmsir þingmenn.  Nú er að sjá, hvort nógu margir þeirra rísa úr öskustó og leysa viðfangsefnið, á tilsettum tíma, sem forseti lýðveldisins setti þeim fyrir þann 1. 10. 2011.

Mörgum þykir bezt að vinna að verkefnum, sem aðrir hafa afmarkað.  Ekki er víst, að það eigi við um meirihluta núverandi þingmanna.  Í þeim hópi eru nefnilega allt of margir, sem hreinlega kunna ekkert til verka; hafa e.t.v. aldrei þurft að vinna ærlegt handtak.

Þess vegna finnst okkur mörgum svo brýnt nú á þriggja ára afmæli Hrunsins að fá tækifæri til að setja nýtt fólk til verka eftir bráðum 3 ár hinna glötuðu tækifæra á botni kreppu, sem ætti að vera löngu liðin hjá. 

Kærar þakkir fyrir umsagnir ykkar,

Bjarni Jónsson, 6.10.2011 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband