Fjármálavaldið

Eftir hinar óhugnanlega háu afskriftir skulda íslenzku bankanna, e.t.v. um 10 þúsund milljarða kr eða um 100 milljarða bandaríkjadala, sem aðallega Þjóðverjar máttu súpa seyðið af, við gjaldþrot íslenzku bankanna þriggja fyrir 3 árum, haustið 2008, var sennilega fljótvirkasta aðferð endurreisnar sú, sem ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde valdi, að leita ásjár Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS.

Þar fengust lán til að mynda hryggjarstykki í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans, sem er öryggi að og nauðsynlegur bakhjarl krónunnar, þegar hún fer aftur á flot.  Með samstarfinu við AGS vaknaði að nýju nokkur trúverðugleiki í garð fjárhagslegrar endurskipulagningar Íslands eftir hið nánast algera hrun fjármálakerfis landsins. 

Hins vegar var að hálfu vinstri stjórnarinnar, sem við völdum tók eftir mikinn undirróður sömu flokka og óeirðir á götum úti, sem jafna má við ofbeldisfulla byltingu, staðið aulalega að því að ná endum saman í ríkisrekstrinum.  Þumalfingursregla við slíkar aðstæður, til að lágmarka samdráttaráhrifin á hagkerfið, er, að 1/3 af bilinu sé brúaður með skattahækkunum og 2/3 með sparnaði ríkisútgjalda.  Vinstri stjórnin fór alveg öfugt að og framfylgdi þar með skattahækkunarstefnu, sem forkólfar vinstri flokkanna, alveg sérstaklega fjármálaráðherrann, höfðu boðað og barizt fyrir árum saman.  Skal fullyrða hér, að skattahækkanir í fjármálaráðherratíð Steingríms Jóhanns Sigfússonar hefðu orðið svipaðar, þó að ekkert Hrun hefði orðið.

Fjármálaráðherra, sem tók barnatrú á Karl Marx og Vladimir Lenin, og gengur með úreltar og afskrifaðar kenningar þeirra sem steinbarn í kviði, neitar að viðurkenna einföld lögmál hagfræðinnar um samband eftirspurnar og verðs.  Þegar hann var búinn að hækka eldsneytisverð upp fyrir þolmörk neytenda, minnkuðu eldsneytiskaupin og dróg úr skatttekjum ríkissjóðs samkvæmt lögmálinu.  Gamall sameignarsinni í stóli fjármálaráðherra lét samt ekki að sér hæða og boðaði enn meiri skattheimtu til að vinna upp lækkun skatttekna.  Allt er á sömu bókina lært hjá þessum vesalings manni, sem vistast mun í sögunni með ömurlegum og óafturkræfum hætti.

Nauðsynlegur liður í langtímaáætlun AGS var sú að laða að erlenda fjárfesta til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Slíkt átti að skapa þjóðinni viðspyrnu til að endurgreiða hin miklu lán, sem tekin höfðu verið, og nema skuldbindingar ríkissjóðs líklega um 110 % af VLF (vergri landsframleiðslu) nú, sem er hættulega hátt hlutfall.  

Örvun fjárfestinga upp í 20 % -30 % af VLF á ári er einnig á stefnuskrá borgaralegu flokkanna í stjórnarandstöðu.  AGS átti ekki von á því, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands væru á öndverðum meiði um þetta langtímaráð.  Það átti þó heldur betur eftir að koma á daginn.  Vinstri flokkarnir lifa í núinu og éta útsæðið í stað þess að gera áætlun til a.m.k. 5 ára um endurreisn hagkerfisins. 

Aðferð vinstri flokkanna er sú að setja upp hundshaus við hvern þann fjárfesti, sem rekur á fjörur hennar.  Þeir sjá alltaf einhvern meinbug á honum.  Hann er e.t.v. ekki af EES svæðinu, eða starfsemi hans er ekki forræðishyggjuflokkunum þóknanleg.  Ef hann vill eiga viðskipti um mikla orku og reisa hér iðjuver, er farið að tuða um "eitthvað annað", sem væri þessum sjálfskipuðu sérfræðingum um gæði atvinnuuppbyggingar á Íslandi þóknanlegra.  Síðan er jarmað undir, að náttúran skuli njóta vafans.  Allt eru þetta þvílík undirmálsrök, að jafna verður við rökleysu.  Í ljósi hinnar brýnu almannaþarfar á öflugra atvinnulífi og hagvexti, er ljóst, að blása verður nýju lífi í framkvæmdir og þar með verktakastarfsemina, sem vinstri stjórnin hefur næstum gengið af dauðri, enda er hún víst ekki "eitthvað annað".  Vinstri flokkarnir eru getulausir, enda stefnulausir, þegar kemur að endurreisn landsins.  

Svo þegar "eitthvað annað" holdi klætt í gervi kínversks auðjöfurs og ljóðskálds rekur á fjörur ríkisstjórnarinnar, þá sýnir hún honum fálæti, ef ekki dónaskap, leggst á umsókn hans um fjárfestingarleyfi undir yfirskini rannsóknar og ætlar greinilega að þreyta hann, svo að hann verði afhuga miklum fjárfestingum hér í ferðamannageiranum.  Þessi ríkisstjórn vinnur allt með öfugum klónum, og þess vegna berjumst við enn um á botni kreppunnar, ef honum er þá náð.  Vingulsháttur stjórnvalda er til háborinnar skammar.  Afar þröngir sérhagsmunir fámennrar sérvitringaklíku virðist ráða för Bakkabræðra.

Framtíðarsýn forkólfa vinstri flokkanna er engin, sem heitið getur.  Um þetta er yfirlýsing utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, í Frankfurt am Main þann 12. október 2011, ljóst dæmi um.  Þar var hann staddur á meiri háttar bókasýningu, þeirri stærstu, sem um getur, ásamt utanríkisráðherra Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Guido Westerwelle.  Hvort sem Herr Westerwelle hefur verið búinn að bjóða ÖS þrisvar upp á líterskrús af "deutschem Bier" eður ei, þá vall ótrúleg og allsendis óviðeigandi þvæla út úr ÖS.  Hann sagði, að framtíðarsýn Íslands væri Evrópusambandið.  Hvílík endaleysa og öfugmæli.  Forkólfar ESB hafa sjálfir, eins og nú er komið málum, enga framtíðarsýn.  Það veit enginn, hvað um ESB verður.  Hvernig er hægt að hafa eitthvað að framtíðarsýn, sem enginn getur sagt um á hvaða vegferð verður eftir 2 ár ?  Það hefði verið miklu áhugaverðara, ef Össuri hefði ratazt á munn, að framtíðarsýn Íslands væri að verða 17. ríkið í Sambandslýðveldinu.  Yfirlýsingin hefði verið fótalaus, en hefði hugsanlega kætt Herrn Westerwelle. Hann og flokkur hans, die FDP, eiga nú í umtalsverðum stjórnmálalegum kröggum og veitir ekki af huggun harmi gegn.         

Forverar núverandi valdhafa á vinstri kanti stjórnmála komu fram að sumu leyti hreinni og beinni en núverandi trúðar.  Þeir sögðu blákalt sína skoðun, að auðvaldinu á Íslandi yxi við það fiskur um hrygg, ef erlendir fjárfestar skytu hér rótum, og þá mundi halla á verkalýðsflokkana í stéttabaráttunni.  Þess vegna var það þáttur í stéttastríði Kommúnistaflokks Íslands, Sameiningarflokks alþýðu-sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins, að koma í veg fyrir erlendar fjárfestingar.  Dæmi um þetta er, að vinstri menn börðust hatrammari baráttu gegn stofnun Íslenzka Álfélagsins í Straumsvík og fyrstu stórvirkjun landsins, Búrfellsvirkjun, en gegn hersetunni.  Nefndi Einar Olgeirsson Straumsvík "hausaskeljastaði".  Nú er ISAL öruggasti vinnustaður á Íslandi og þótt víðar væri leitað með yfir 5 milljónir vinnustunda án slyss, er leiðir til fjarveru úr vinnu.

Hið einkennilega er, að Samfylkingin, sem kennir sig við jafnaðarstefnu, berst með oddi og egg fyrir innlimun Íslands í mestu auðvaldssamsteypu, sem stofnað hefur verið til í Evrópu, Evrópusambandsins, ESB.  Það er tóm vitleysa, sem sagt er, að ESB hafi verið stofnað til að varðveita landamæri Evrópu með friðsamlegum hætti, sem ákveðin voru í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þess gerðist engin þörf.  Svo var kjarnorkuvopnunum fyrir að þakka.  Nei, ESB var stofnað til að veita evrópsku auðvaldi hámarkssvigrúm án landamæra til að leika sér að örlögum alþýðu Evrópu, eins og nú er að koma á daginn.  Það er hulin ráðgáta, hvers vegna hinir siðspilltu íslenzku vinstri flokkar sitja froðufellandi af löngun við borgarhlið Brüssel bíðandi eftir að verða hleypt inn í Berlaymont.  Þeir munu verða að gjalti, eins og önnur tröll við dagrenningu.

Báðir íslenzku vinstri flokkarnir hafa fórnað hagsmunum íslenzks almennings á altari evrópsks auðvalds oftar en tvisvar.  Haninn gól þrisvar, og téðir vinstri flokkar guggnuðu í öll skiptin.  Þar sitja eintómar undirlægjur og heybrækur á fleti fyrir um þessar mundir, eins og dæmin sanna.  Þeir ætluðu að henda íslenzkum skattborgurum fyrir ljónin í Icesave-málinu, en forseti lýðveldisins þekkti þessa fugla og blöskraði aðfarir sinna gömlu samstarfsmanna og stöðvaði þá háskaför. 

Vinstri flokkunum tókst að færa erlendu kröfuhöfunum tvo íslenzka banka á silfurfati, og nú er margur berskjaldaður í baráttunni við vogunarsjóðina eða aðra eigendur bankanna, sem ekki er almennt vitað um, hverjir í raun og veru eru.  Þarna véluðu um "alþýðuhetjurnar miklu", svikahrapparnir Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann Sigfússon, Þistilfirðingur.

Tugum milljarða hefur verið kastað á glæ í glópskulegu írafári, sem Bakkabræðurnir á vinstri bakkanum nefna björgun Sjóvár og sparisjóðanna.  Sameignarsinnarnir eru í essinu sínu, þegar þeir fá tækifæri til að kasta peningum skattborgaranna á glæ. 

Vinstri flokkarnir eru þannig sérstakir verndarar og talsmenn peningavaldsins.  Um þetta er ekki lengur neinum blöðum að fletta. Þetta kom t.d. berlega í ljós, þegar Samfylkingin tók málstað mesta auðhrings Íslands 2003 og gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir andóf hans gegn auðjöfrunum. Starfsemi og málflutningur vinstri flokkanna er einn samfelldur öfugmælaóður, sem sumir mundu kalla lygavef. 

Þegar hins vegar kemur að hinum, sem vilja setja fé í að skapa áþreifanleg verðmæti, hafa til þess tæknilega burði og vilja til að fylgja ströngustu mengunarvarnarkröfum og reglum um heilbrigði, hollustu og öryggi á vinnustað, þá fara Bakkabræðurnir í að bera ljósið inn í kofa sinn í kirnum og hafa engan tíma til viðræðna um að endurreisa íslenzkt athafnalíf.  Fyrir þessa þröngsýni, sérvizku og hreina glópsku líður landslýður allur og mest fjölmennur hópur atvinnulausra og flóttafólks til útlanda.  Sköpun handfastra verðmæta úr hafinu og með tilstuðlan endurnýjanlegrar orku með sjálfbærum hætti er sú leið, sem landsmenn eiga að einbeita sér að í stað loftkastalasmíða og draumóra kaffihúsasnata um "eitthvað annað".  Fyrirmyndin í þeim efnum er Sambandslýðveldið Þýzkaland", sem reisti Austur-Þýzkaland úr rústum sameignarstefnunnar, tapaði sér aldrei í framleiðslu peninga með peningum án þess að fara framleiðsluleiðina.  Þjóðverjar hafa alla tíð lagt áherzlu á verkmenntun, iðni, framleiðniaukningu og sköpun handfastra verðmæta. Þetta getur verið framtíðarsýn Íslendinga.   

Það, sem þarf að gera, er að losna við handbendi erlends peningavalds úr ráðherrastólunum og taka hér upp sjálfstæða íslenzka stefnu á öllum sviðum.  Það á að losa um höftin, afnema vísitölutengingar, binda endi á heimskulegan og rándýran látbragðsleik við blýantsnagara í Brüssel, sem heitir "Að kíkja í pakkann" og er að breytast úr "tragíkomedíu" í sorgarleik, leysa einkaframtakið úr læðingi til sköpunar áþreifanlegra verðmæta, helzt útflutningstekna, sem okkur ríður á að auka til að skapa efnahagslegan stöðugleika hér.  Vegna skýlausrar kröfu um stöðugleika verður að taka upp stranga stjórnun ríkisfjármála og peningamálastjórnun í anda Bundesbank.  Uppgjafarvæl vinstri flokkanna á að kveða í kútinn strax.

Plan B þarf að vera til í þessu sambandi sem oft endranær.  Ef misheppnast að fleyta krónunni, þrátt fyrir vandaðan undirbúning, þarf að vera unnt að grípa til plans B.  Það getur t.d. verið þannig, að samið verði við Merwyn King, formann bankastjórnar Englandsbanka, um aðstoð og stuðning við að tengja krónuna við brezka sterlingspundið.   

Gangi þetta eftir, mun hagur strympu brátt vænkast, og landið verða komið í hóp þriggja tekjuhæstu landa Evrópu árið 2020 í krafti sjálfbærrar og vaxandi útflutningsstarfsemi.  Snögg umskipti geta ekki orðið í afkomu landsmanna vegna skuldaklafans, sem vinstri stjórnin gerir sífellt illviðráðanlegri, en allir munu fá vinnu við sitt hæfi og á áratugi mun mikið breytast með nýjum stjórnarháttum, nema verðfall verði mikið og langvarandi á erlendum mörkuðum Íslendinga.  Fjárglæfrar hins alþjóðlega fjármálavalds hafa leitt til hrikalegs verðmætabruna, sem efnahagskerfi heimsins á í mesta basli með að fást við.  Hlutverk fjármálastofnana á að vera að taka við sparifé og ávaxta það með útlánum til hagkvæmra verkefna, en ekki loddaraleikur með fjármálavafninga, afleiður og að blása út efnahagsreikninginn með naglasúpugerð, sem dæmd er til að misheppnast fyrr en síðar, eins og hrakfallasaga fjármálakerfisins sýnir ljóslega.   

Segja má, að íslenzka krónan hafi aldrei fengið að njóta sín.  Það hefur oftast ríkt óstjórn í efnahagsmálum á Íslandi, annaðhvort í ríkisfjármálum, launamálum eða peningamálum og stundum í öllum þessum þáttum samtímis.  Jóhanna Sigurðardóttir kennir krónunni um þetta, en ekki þarf að eyða mörgum orðum að jafneinfeldningslegri skýringu og þeirri.  Nóg er að minna á málsháttinn:"Árinni kennir illur ræðari".  

Satt er, að hagkerfið er lítið, svo að það er berskjaldað gegn árásum spákaupmanna, en sé hagkerfið heilbrigt, má búa svo um hnútana, að ávinningur verði hverfandi af spákaupmennsku með myntina.  Dæmin sanna, að hagkerfi með sterka mynt getur hæglega verið óheilbrigt og jafnvel helsjúkt.  Slíkt endar með ósköpum, eins og við horfum nú upp á í Evrópu, sérstaklega á evrusvæðinu, og ekki er bandaríkjadalur beysinn eða bandaríska hagkerfið um þessar mundir.   Þess vegna er vert að freista þess að setja krónuna á flot, en að baki verður að búa prússneskur agi í ríkisfjármálum og peningamálum. Stöðugleika verður að tryggja með öllum ráðum og öllu til að kosta.  Takist það ekki, má gera tilraun með tengingu við sterlingspundið, eins og áður er nefnt. Það var reynt um 1930 og misheppnaðist, en nú eru breyttir tímar á Bretlandseyjum og á Íslandi.   

Nú er svo komið, að evran hefur verið dæmd af. Þjóðverjar líta á hin veiku hagkerfi evrulands sem botnlausa hít og munu ekki ausa meiru fé í hana en þeir hafa þegar skuldbundið sig til.  Schäuble, fjármálaráðherra, minnir nú að mörgu leyti á Martein Luther, sem gagnrýndi sölu aflátsbréfa Rómarkirkjunnar.  Sagan endurtekur sig.  Það er þá eins og við manninn mælt, að forystusauður Bakkabræðrastjórnarinnar á Íslandi boðar, að nú sé eina haldreipi Íslendinga "að ganga í ESB og taka upp evru".  Enginn með öllum mjalla mundi halda slíku fram nú. 

Það eru að verða straumhvörf í hinum vestræna heimi ekki síður en t.d. í arbaheiminum.  Fólkið hefur þyrpzt út á götur Suður-Evrópu og sums staðar hefur komið til bardaga.  Ekki má gleyma uppþotunum í London nú síðsumars.  Bandaríkjamenn eru nú teknir að hópast saman á götum stórborganna með kröfuspjöld og í vígahug.  Alls staðar er viðkvæðið hið sama, þ.e. að mótmæla harðlega hinu vanheilaga bandalagi stjórnmálamanna og peningafurstanna.  Meinvörp ofvaxins fjármálakerfis hafa grafið um sig í flestum löndum hins vestræna heims og víðar. Þessi þróun mun leiða til þess, að þessir sömu, spilltu stjórnmálamenn munu neyðast til að láta af völdum eða að fara íslenzku leiðina, leiðina, sem Geir Hilmar Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, varðaði á ögurstundu í íslenzkri sögu haustið 2008; að láta kröfuhafana gjalda áhættusækni sinnar og éta það, sem úti frýs, ef banki kemst í þrot, en tryggja innistæðurnar, í stað þess að hella skattpeningum ofan í götótta vasa peningafurstanna.  Almenningur er búinn að fá sig fullsaddan af jafnaðarmennskunni, sem felst í því að bjarga allt of áhættusæknum og gírugum fjármálafyrirtækjum.  Siðleysi og spilling tröllríður húsum þessara fyrirbrigða og tími kominn til að láta þau standa á eigin fótum.  Þetta verður siðbót nútímans.         Evran stendur yfir höfuðsvörðum Grikkja        

       

       

         

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband