20.10.2011 | 20:49
Volæði eða velmegun
Á Vesturlöndum á sér nú stað meiri þjóðfélagsgerjun en orðið hefur á síðastliðnum 40 árum eða síðan á dögum Víetnam-stríðsins. Þjóðfélagsþróunin síðan þá er komin í öngstræti. Vestræn þjóðfélög mörg hver eru ósjálfbær í orkulegu, umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti, samfélagsauðurinn eða eignamyndunin leitar víðast hvar á æ færri hendur og meðalaldur þjóðanna hækkar ískyggilega vegna fárra fæðinga. Mikið langtíma atvinnuleysi hrjáir flestar þjóðirnar og kemur hrikalega illa niður á unga fólkinu. Hagkerfin eru í uppnámi og virðast ekki lengur geta bætt afkomu gömlu iðnveldanna.
Við hrun fjármálakerfisins, sem oft er miðað við gjaldþrot "Lehman brothers", 15. september 2008, tapaði almenningur miklum fjármunum á formi falls verðgildis hlutabréfa og fasteignaverðslækkunar, sem að meðaltali nam um 40 % á alþjóðlega vísu. Hrun fjármálamarkaðanna er rakið til furðulegra gjörninga fjármálafyrirtækja, sem juku peningamagn í umferð mikið, hækkuðu hlutabréf og fasteignaverð og skópu þenslu, eignabólu og tilfinningu almennings fyrir velsæld. Þjóðirnar dönsuðu í kringum gullkálfinn í boði fjárfurstanna, sem voru í hlutverki sirkusstjóra og höfðu almenning að fífli.
Allt var þetta reist á sandi. Um var að ræða eitraða lánavafninga og afleiðuviðskipti, sem voru reist á sviksamlegu athæfi og blekkingum. Spilaborgin féll, bankar urðu ósjálfbjarga, en var víðast hvar bjargað með mikilli innspýtingu fjármuna úr ríkissjóðunum. Undantekning var Ísland, þó að íslenzka ríkið vissulega yrði fyrir miklum skelli. Þetta leiddi til aukins atvinnuleysis, skattahækkana og niðurskurðar ríkisútgjalda, sem herti mjög að hag almennings. Skuldirnar hlóðust upp.
Ríkin ná sér ekki upp úr kreppunni vegna gríðarlegra skulda fjölskyldna, fyrirtækja og hins opinbera. Fífldjörf stórmennskutilraun stjórnmálamanna Frakka og Þjóðverja með viðrinismynt, evruna, sem skortir haus og hala og nauðsynlegan bakhjarl á formi sameiginlegs ríkisvalds, setti í maí 2010 af stað seinni fjármálakreppuna að þessu sinni, og kann sú að verða sýnu verri hinni fyrri fyrir ýmsar þjóðir. Frakkar bera mikla ábyrgð á því, hvernig komið er fyrir Evrópu, því að þeir kúguðu Þjóðverja til að afsala sér Deutsche Mark og taka upp evru gegn samþykki hernámsveldis á endursameiningu Þýzkalands. Einkenni kreppunnar er yfirvofandi hætta á ríkisgjaldþroti allra Suður-Evrópuríkjanna, sem var smyglað óverðskuldað inn í evrusamstarfið á stjórnmálalegum forsendum. Þá er og í fersku minni leikur bandarískra þingmanna síðast liðið sumar með fjöregg bandaríska ríkissjóðsins. Það á að taka þann kaleik frá stjórnmálamönnum, sem er stjórnun peningamála. Þeir eiga nóg með ríkisfjármálin.
Nú segir almenningur um gjörvallan heim hingað og ekki lengra. Háskalegri fjármunamyndun og óréttlátri skiptingu auðævanna er mótmælt á götum borga með ofbeldisfullum hætti. Traust á stjórnmálamönnum, sem stutt haf leynt og ljóst við myndun þessa úrkynjaða kerfis, hefur hrapað niður undir núllið. Sums staðar, t.d. í Grikklandi, er byltingarástand og eigi að ófyrirsynju. Viðrinið hefur snúizt gegn eigendum sínum.
Einkennandi fyrir þessi mótmæli, enn sem komið er, er, að þau eru mótmæli gegn ríkjandi valdakerfi án þess að benda á það, sem koma skal. Það er ekki hrópað, að stjórnleysi eða sameignarstefna, einhvers konar Marxismi, skuli taka við. Það er hins vegar andstaða við sérhagsmunagæzlu fjármálafursta, sífellt ójafnari eignaskiptingu og sósíalisma andskotans, sem þjóðnýtir tapið og einkavæðir gróðann. Það er hrópað á slíkt réttlæti, að sérhver vinnandi maður og kona skuli bera úr býtum eðlilegan skerf af virðisauka vinnu sinnar, þ.e.a.s. að ekki sé hirtur vaxandi hluti virðisaukans af starfsmönnum og mun meiri en þarf til viðgangs fyrirtækisins og 10 % - 20 % arðgreiðslu til eigenda.
Það er fremur hrópað á meira og virkara lýðræði, e.t.v. meiri áherzlu á beint lýðræði, en umfram allt meiri fjárhagslegan stöðugleika og réttlátari skiptingu auðævanna. Fjármálakerfið verður að endurskipuleggja, og það ber að setja stærð peningastofnananna skorður, t.d. með því að banna fjárfestingarfyrirtækjum að stunda inn-og útlánastarfsemi. Ríkistrygging á starfsemi fjármálastofnana verður að heyra sögunni til, en eðlilegt er að skylda banka til að tryggja innlán upp að ákveðnu marki, t.d. MISK 10 á mann.
Á Íslandi er alveg ljóst, að við munum dansa á botni kreppunnar á meðan vinstri flokkarnir eru við stjórnvölinn. Fjandsemi þeirra í garð grundvallar atvinnuveganna allra, sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðamennsku, er með þeim hætti, að atvinnuvegirnir eiga sér ekki viðreisnar von, nema söðlað verði um. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú kynnt til sögunnar leiðarvísi inn í framtíðina með því að senda Framtíðina inn á hvert heimili.
Nú hefur fólk mjög skýrt val: að beita beztu þekkingu á öllum sviðum þjóðlífsins og virkja kraftinn, sem býr í einkaframtakinu, til hagsbóta fyrir heildina og undir styrkri stjórn með heildarhagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi - eða að erfiða eins og færilús á tjöruspæni í stöðnuðu hagkerfi og í hrörnandi þjóðfélagi, þar sem innviðirnir eru að grotna niður fyrir tilverknað forstokkaðra forsjárhyggjusinna.
Dekur vinstri flokkanna við fjármagnseigendur er og með eindæmum. Þeir bugtuðu sig og beygðu fyrir AGS og ESB, þegar þessir aðilar reyndu að tukta Íslendinga til uppgjafar fyrir peningavaldi Bretlands og Hollands í Icesave-málinu. AGS og ESB eru handbendi þess fjármálavalds, sem nú er mótmælt hvarvetna í Evrópu og um gjörvallan heim. Upp um þetta flaðra vinstri flokkarnir á Íslandi, algerlega utan gátta. Er þetta hægt, Matthías ?
Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde, sem núverandi þingmeirihluti ofsækir nú fyrir Landsdómi, sjálfum sér til ævarandi skammar, hitti í tímaþröng á rétta leið, þegar ofvaxnir íslenzkir bankar hrundu í október 2008. Íslendingar sluppu þess vegna tiltölulega vel út úr Hruninu, þó að áfallið yrði gríðarlegt. Það hefði hæglega getað steypt landinu í glötun, þegar Geir bað Guð að blessa Ísland. Síðan sú stjórn hrökklaðist frá, hefur enn sigið á ógæfuhlið, enda eintóm handabakavinnubrögð viðhöfð. Vesalings sameignarsinnarnir kunna ekkert til verka, enda aldrei þurft að dýfa hendinni í kalt vatn.
Fjölskyldur, fyrirtæki og hið opinbera urðu hérlendis fyrir gríðarlegum skelli með skuldahækkun og þyngri greiðslubyrði auk minni vinnu og í mörgum tilvikum vinnumissi. Það verður að hafa endaskipti á stjórn landsins og fara að stjórna Íslandi með hagsmuni almennings að leiðarljósi, en ekki peningafursta innanlands og utan og viðrinislegrar sérvizku á borð við umhverfisofstæki. Þegar Alþingi er þannig skipað, að þingmenn meirihlutans fagna því, að Þingeyingar og aðrir íbúar á Norð-Austurlandi verði fyrir áfalli í atvinnulegu tilliti, þegar stórfyrirtæki hætti við uppbyggingu á Bakka, þá er dagljóst, að íbúarnir eiga aðeins eitt svar:
að sópa þessu sama liði út af Alþingi. Það á að þurrka Vinstri hreyfinguna grænt framboð og Samfylkinguna út í Norð-Austurkjördæmi. Þá er hlutur hræsnarans á stóli iðnaðarráðherra kapítuli út af fyrir sig. Óheiðarleiki og sviksemi skín út úr hverjum andlitsdrætti ráðherranna. Þeim er ekki treystandi fyrir horn og verður goldið með rauðum belg fyrir gráan.
Lykilatriði er efling atvinnustarfsemi með nýjum fjárfestingum til langs tíma til að auka útflutningstekjurnar. Peningamálastjórnunina og ríkisfjármálin þarf að taka föstum tökum til að skapa hér stöðugleika í anda Wirtschaftswunder, efnahagsundursins þýzka, sem reist var á markaðshyggju með félagslegu tryggingakerfi. Verðtrygging á ekki heima í slíku kerfi. Með því að létta byrðum af almenningi, sem rekja má til Hrunsins, með almennum afskriftum og sameiginlegu átaki, t.d. skattalækkunum, og efla jafnframt tekjuhlið heimilisbókhaldsins, má hressa upp á neyzlu almennings og endurlífga fjárfestingar. Umfram allt þarf að losna við viðundrin úr Stjórnarráðinu og sækja fram í einni fylkingu til hagvaxtar, sem bætir hag allra. "Að vera eða að vera ekki, þar er vafinn", sagði Hamlet eða Amlóði. Menn verða að leggja fortíðina að baki og gera upp hug sig sinn um, hvernig þeir vilja hafa framtíðina. Borgaralegu flokkarnir hafa nú stigið myndarleg skref í þá átt að auðvelda fólki ákvörðun sína um, hvernig haga skuli stjórnun ríkisins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni, þú hittir naglann rækilega á höfuðið þessum pistli þeir eru allt of margir sem aldrei hafa difið hendi í kalt vatn og aldrei á ævinni unnið ærlegt handtak sem sem eru að trans sér fram í pólitíkinni.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 22:07
Þakka þér fyrir innlitið, Kristján.
Það, sem þú gerir að umræðuefni hér að ofan, er ein af meinsemdunum í íslenzku þjóðfélagi nútímans. Það eru hrossataðskögglarnir, sem fljóta ofan á. Almenningur verður að fá tækifæri til persónulegra vals en nú er. Vísir að því eru prófkjörin, en annmarkar þeirra eru margvíslegir, eins og dæmin sanna. Þau skila ekki alltaf miklum bógum efst á listana. Hér vantar eldhuga, sem hrifið geta fólk með sér. Þjóðfélagið þarf nú á öflugri forystu að halda eftir þá volæðispostula, sem við tóku eftir eftir Hrunið.
Með góðri kveðju,
Bjarni Jónsson, 22.10.2011 kl. 15:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.