Vafstur í kringum ekki neitt

Öllum er nú orðið ljóst, að við völd hérlendis hangir verklaus ríkisstjórnarómynd, sem ekkert kann til verka.  "It is the economy, stupid", var haft eftir bandarískum forsetaframbjóðanda fyrir nokkrum árum, eða "það eru efnahagsmálin, bjáni", sem skipta kjósendur mestu máli, þegar á móti blæs.  Það er engu líkara en dulið stefnumið ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sé að halda landsmönnum sem lengst á botni kreppunnar og sjúga þannig merginn úr þjóðinni.

Það er áreiðanlega mikið til í því, að efnahagsmálin séu mál málanna í huga flestra kjósenda, og það vita gamlingjarnir, sem fyrir núverandi ríkisstjórn fara.  Þess vegna hafa þau í óþokkaskap sínum stöðugt fitjað upp á nýjum deilumálum í þjóðfélaginu til að leiða kjósendur á villigötur; kasta ryki í augu almennings.  Nægir að nefna stjórnlagaþing-ráð, umsókn um aðildarviðræður við ESB (Evrópusambandið) og þjóðnýtingu aflaheimildanna, sem er svíðingsleg framkoma handahafa ríkisvaldsins í garð þeirra, sem í góðri trú keyptu sér aflahlutdeild á Íslandsmiðum á frjálsum markaði.  Sú aðgerð mun setja útgerðina á hausinn samkvæmt úttekt þekkts endurskoðunarfyrirtækis. Öllu er snúið á haus að hálfu þingmeirihlutans, alið á öfundinni að hætti Marxista, skáldskapur borinn á borð sem sannleikur í nafni réttlætis og síðan á að láta kné fylgja kviði og drepa aðalmjólkurkú landsins vegna öfundar og í nafni sameignarstefnunnar.

Öll þessi deilumál eru til þess fallin að drepa umræðu um efnahagsmálin á dreif og ömurlegri aðkomu forræðishyggjuflokkanna að þeim.  Vinstri flokkarnir starfa algerlega í anda atvinnueyðingar, enda hefur öll starfsemi þeirra miðað að niðurrifi atvinnulífsins.  Það er brennt fyrir, að þeir hafi skilning á hagsmunum atvinnulífsins, og þeir hatast við sjávarútveg og orkukræfan iðnað. Þeim er þess vegna um megn að leiða nokkra framfarasókn.  Það var nauðsynlegt fyrir kjósendur að sannreyna þetta til að mynda ónæmi gegn fagurgalanum um eitthvað annað, sem er eitthvert innihaldslausasta og falskasta áróðursbragð fátæktarflokkanna, sem um getur. 

Þeir ætluðu sér aldrei að gera neitt uppbyggilegt í atvinnumálum, og niðurrifstilburðum þeirra í garð atvinnulífsins hefur ekki linnt.  Hefur þetta skaðræði í garð hverrar einustu fjölskyldu í landinu gengið svo langt, að heildarsamtök verkalýðsfélaganna, Alþýðusamband Íslands, ASÍ, hafa séð sig knúin til að andmæla framferði ráðherranefnanna.  Af þessum ástæðum verður að dæma vinstri flokkana úr leik.  Hvorugur þeirra er stjórntækur.  Þar fara einvörðungu blaðurskjóður og svikahrappar. Vitneskjan um það hefur heldur betur orðið landsmönnum dýrkeypt.

Er þess skemmst að minnast, að Samtök atvinnulífsins, SA, og ASÍ gerðu með sér griðasamning til eflingar atvinnulífs og atvinnusköpunar.  Svikahrapparnir í ríkisstjórn áttu aðild að fögrum fyrirheitum, reistu loftkastala, og sviku allt saman með framlagningu þjóðnýtingarfrumvarps aflaheimilda á Alþingi og áframhaldandi moldvörpustarfsemi í garð virkjanaáforma og erlendra fjárfestinga á sviði iðnaðar, sem leiddi til upplausnar samningaviðræðna áhugasams álframleiðanda og Landsvirkjunar í fyrsta sinn í sögunni að sögn forstjóra fyrirtækisins, sem að vísu samt er sennilega rangt, sbr viðræðurnar við Alumax o.fl. um álver á Keilisnesi á sínum tíma.

Á Evrópuvaktinni 21. október 2011 er frá því sagt, að talsmenn ESB hafi tekið áróðursmálaráðherra Þriðja ríkisins, Dr Josef Göbbels, fram, þegar þeir matreiddu ofan í almenning það, sem nú er að gerast innan ESB.  Þó að áróðursmeistarar ESB snúi öllu á haus, þegar lýst er samskiptum, sem réttara er að kalla viðureign, Angelu Merkel, kanzlara, og Nicolasar Sarkozy, forseta 5. lýðveldisins, þá er nú hæpið, að þeir komist með tærnar, þar sem Dr Göbbels hafði hælana.  Honum tókst að blekkja Þjóðverja til fylgilags við ógnarstjórn og tókst lengi vel að fegra hana í augum umheimsins, svo að nazistar, eins og kommúnistar, áttu skoðanabræður og -systur lengi vel um allan heim.  ESB mun senn líða undir lok í sinni núverandi mynd, vegna innanmeina lýðræðishallans, þó að ósanngjarnt sé að líkja því við Þriðja ríkið eða Ráðstjórnarríkin.  Yfirstandandi sprikl eru dauðateygjur gagnslauss skrímslis.

Umheiminum, ekki sízt fjármálaheiminum, dylst ekki, að evran, og þar með ESB í sinni núverandi mynd, eru komin á leiðarenda.  Veikleikar Frakklands eru að opinberast, og Þjóðverjar ætla nú að gjalda Frökkum rauðan belg fyrir gráan enn einu sinni, og þó að fyrr hefði verið.  Belgar þurftu nýlega að setja um 15 % af ríkistekjum sínum til björgunar fransk-belgískum banka.  Franskir bankar standa á brauðfótum vegna mikillar afskriftaþarfar í Grikklandi og annars staðar í Suður-Evrópu, og franskur þjóðarbúskapur höktir vegna hárra skatta, hallarekstrar ríkissjóðs og hrikalegrar miðstýringar frá París. 

Rauðvínslegnir loftkastalar hugumstórra Gallanna munu hrynja eins og spilaborg, en völdin í Evrópu flytjast til Potzdamer Platz.  Þetta er óhjákvæmileg þróun, því að Germanirnir hafa teflt þessa skák betur en Gallarnir. Meira að segja Bretar eru nú farnir að tala um að taka upp Berlínartíma, og hefði einhverjum þótt það vera sem að bölva í kirkju.  Vöxtur og viðgangur Þýzkalands er ekki slæm þróun fyrir Íslendinga, því að Þjóðverjar hafa alla tíð frá dögum kristnitökunnar á Alþingi haft taugar til Íslands og ótrúlega mikil og góð samskipti jafnan verið á milli Íslands og þýzku ríkjanna.  Nægir að minna á frásagnir Adams frá Brimum og kristniboðann Þangbrand, sem hingað var sendur, auk vígsluferða íslenzkra biskupa til Þýzkalands og sambands katólsku biskupanna við höfðingja í Þýzkalandi, t.d. þess síðasta, Jóns Arasonar á Hólum.     

Framferði ríkisstjórnar Jóhönnu jafngildir viðurstyggilegri sóun á fjármunum íslenzka ríkisins og tíma íslenzku stjórnsýslunnar til að slá ryki í augu íslenzkra kjósenda, svo að þeir nái ekki að greina aðalatriðin frá aukaatriðunum.  Íslenzkum heimilum og íslenzkum fyrirtækjum er mörgum hverjum að blæða út vegna stefnu ríkisstjórnarinnar um að gera ekki neitt á kostnað fjármálavaldsins og ekkert til sköpunar nýrra starfa.  Þvert á móti er róið á bæði borð gegn alvöru atvinnuuppbyggingu í landinu, eins og aðförin að sjávarútveginum og Bakkaáformum ásamt Helguvík er lýsandi dæmi um.

Ljós í myrkrinu er dómur Hæstaréttar, sem kveðinn var upp 28. október 2011, um það, að neyðarlögin frá kvöldi dags, 6. október 2008, standist ákvæði stjórnlaga og almennra laga.  Höfuðábyrgð á þessum lögum bar Geir Hilmar Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og var hann flutningsmaður frumvarpsins. Neyðarlögin björguðu Íslandi frá gjaldþroti.  Með þeim bjargaði Alþingi því, sem bjargað varð, í öngþveiti fjármálalegrar og stjórnmálalegrar einangrunar landsins.  Núverandi fjármálaráðherra og flokkur hans, Vinstri hreyfingin grænt framboð, greiddi ekki atkvæði með neyðarlögunum.  Þar með gengu vinstri grænir, með sínum hætti, erinda alþjóðlegs bankaauðvalds, þó að Steingrímur játi nú, að ríki eigi rétt á því að fara "íslenzku leiðina", sem hver þekkti erlendi hagfræðingurinn um annan þveran keppist nú við að bera lof á.  Rökrétt áhrif téðs Hæstaréttardóms á Landsdóm er að sýkna fyrrverandi forsætisráðherra.  Það yrði óviðunandi hneisa fyrir landsmenn og mundi reisa hefndarskyldu að dæma hann sekan.          

   Evran krosssprungin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband