"Kerfið sjálft ber dauðann í sér"

Stórmerkileg pistlaröð hefur undanfarið birzt á vefsetri Evrópuvaktarinnar.  Um er að ræða frásagnir Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, af viðtölum hans við málsmetandi fólk í Þýzkalandi.  Umræðuefnið er aðallega tímaskekkjan mikla og núorðið aðhlátursefni, umsókn Íslands um aðild að ESB (Evrópusambandinu) og afstaða Þjóðverja til evrunnar.

Föstudaginn 4. nóvember 2011 birtist "Berlín V", þar sem skýrt var frá sjálfstæðum skoðunum Nestors þýzks athafnalífs, Hans-Olaf Henkel. Herr Henkel var fylgjandi innleiðingu evrunnar á sinni tíð, en telur þá afstöðu vera ein mestu mistök ferils síns, því að hann hafi síðar áttað sig á því, að nauðsynlegar forsendur sameiginlegs gjaldmiðils væru ekki fyrir hendi.  Maastricht samkomulagið 1992 hafi átt að leggja grunn að evrunni 1999, en komið hafi í ljós, að það hafi verið svikið. Þjóðverjar hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með evrusamstarfið, því að aðeins Austurríkismenn, Hollendingar og Finnar hafi viljað fylgja stefnu Bundesbank í peningamálum.  Hér má skjóta inn, að Þjóðverjar eru ekki alsaklausir gagnvart Maastricht, en þeir bera þó af Suður-Evrópuþjóðunum eins og gull af eiri hvað varðar Maastricht skilyrðin fyrir EMU (evrópska myntsamstarfinu), þ.e. verðbólgu, fjárlagahalla og ríkisskuldir.

Frá stofnum Kola-og stálbandalagsins hefur ríkt sá rétttrúnaður á meðal þýzkra stjórnmálamanna og fréttaskýrenda, að öxullinn Berlín-París mætti ekki bresta.  Nú er að renna upp fyrir Þjóðverjum, að öxull þessi er kominn að álagsþolmörkum.  Öxullinn er tekinn að vindast og getur hrokkið í sundur fyrr en varir.  Ástæðan er m.a. gjörólík sýn Þjóðverja og Frakka á hlutverk ECB (Seðlabanka evrusvæðisins).  Frakkar vilja í raun nota bankann til að prenta peninga með svipuðum hætti og Bandaríkjamenn gera, gefa út skuldabréf í nafni allra evrulandanna og auka peningamagn í umferð, en slíka misnotkun seðlabankans taka Þjóðverjar ekki í mál af ótta við verðbólgumyndun á evrusvæðinu.  Reynslan af Weimar-lýðveldinu er greypt í þýzku þjóðarsálina. Af þessum ástæðum var EFSF (European Financial Stability Facility) eða bjargráðasjóður Evrópu stofnaður. Það skal með öðrum orðum fjármagna peningaflutninginn fyrst.

Franska hagkerfið er suður-evrópskt, og það er svo ólíkt hagkerfum norðurhluta álfunnar, að sameiginleg mynt gengur ekki upp.  Samkvæmt skoðanakönnun Stern vilja nú 54 % Þjóðverja taka upp þýzka markið að nýju.  Það mun verða eilífur rígur á milli Frakka og Þjóðverja um peningamálastefnu evru-svæðisins, og Germanir eru að missa þolinmæðina gagnvart Göllunum.  Eitt nýjasta dæmið um þetta er yfirlýsingin um, að gullforði Þýzkalands verði ekki snertur í björgunarskyni við þjóðir evrusvæðisins, sem nú eru að fara halloka. Þetta er hárrétt afstaða Þjóðverja, því að fjármagnsflutningar suður yfir Alpana leysa engan vanda; þvert á móti magna þeir vandann.

Ástæðan fyrir þessari afstöðu er, að nú er að koma í ljós, að dýrara er fyrir Þjóðverja að vera með evru en eigin gjaldmiðil.  Hið sama á vafalítið við um öll fylgiríki Þýzkalands á evrusvæðinu, og hið sama mundi vafalaust eiga við um Ísland, ef landið tæki upp evru.  Skýringin er EFSF.  Lánsgeta hans nemur nú MiaEUR 440 (milljarðar evra).  Samþykkt hefur verið að auka hana í MiaEUR 1000 án samhliða fjármögnunar.  Evrulöndin eru sprungin á limminu og hafa ekki bolmagn til að bjarga evrunni.  Þau hafa nú biðlað til Kína, Japans og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins).  Evrumistök stjórnmálamanna Evrópu ætla að verða ægilega dýrkeypt. Þá lýsir æðstikoppur í utanríkisráðuneyti Íslands yfir því, að einmitt nú séu kjöraðstæður fyrir Ísland að semja um inngöngu í ESB.  Slík veruleikafirring er með eindæmum og tekur í raun út yfir allan þjófabálk.   

Ítalía er nú komin í gjörgæzlu AGS.  Það kostar langmest að bjarga ítalska hagkerfinu eða a.m.k. MiaEUR 600 (MiaEUR=milljarðar evra).  Spánn er fársjúkur líka, og að bjarga honum mun kosta MiaEUR 300.  Grikkland er þessa stundina mest í fréttum, enda í raun gjaldþrota.  Samt kostar "björgun" þess "aðeins" MiaEUR 200, en ofan á allar þessar tölur þarf svo að bæta afskriftum banka, aðallega einkabanka, á skuldum þessara þjóða, sem geta numið öðrum eins upphæðum.  Með kostnaðinum við Portúgal og Írland, MiaEUR 30 og MiaEUR 20, er fjárþörf EFSF ekki undir MiaEUR 1150.  Ofan á þennan skuldavanda leggst svo hagvaxtarleysi, hækkandi meðalaldur og stirðnað athafnalíf, sem gerir það að verkum, að evruþjóðir í vanda eiga sér ekki viðreisnar von.

Hér hefur ekki verið minnzt á fjárþörfina vegna Frakklands, sem gæti numið a.m.k. MiaEUR 1000.  Það er þess vegna ljóst, að evran í sinni núverandi mynd fær ekki staðizt.  Í Þýzkalandi þarf aðeins að koma fram á sjónarsviðið öflugur stjórnmálamaður, sem tekur upp merki Hans-Olaf Henkel og leiðir Þjóðverjum fyrir sjónir, að Frakkar hafi ginnt þá út í kviksyndi og þeir verði að snúa af þessari braut til að bjarga sér og taka upp sjálfstæða myntstefnu.  Þeir munu þá örugglega segja skilið við Suður-Evrópu í peningalegum efnum.  Við þetta mun ESB sundrast, enda er þetta fyrirbrigði ólýðræðislegt skriffinnaskrímsli.

Evran voru mistök skammsýnna stjórnmálamanna, og þar fóru Frakkar fremstir í flokki.  Áherzla Þjóðverja á sköpun handfastra verðmæta, öflugan útflutningsiðnað, stranga peningamálastjórnun og aðhald með ríkisrekstri gefst bezt, þegar til lengdar lætur, og ætti að geta orðið öðrum af svipuðu sauðahúsi til fyrirmyndar.

Sjálfstæðisflokkurinn er vís til að bera þessa stefnu fram til sigurs í næstu kosningum, enda fellur hún vel að grunngildum flokksins um sjálfstæðan fjárhag einstaklinga, sem tryggður er með atvinnu fyrir alla, lágri verðbólgu og góðri meðferð opinbers fjár. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir 

Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu

                

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband