Hið vonlausa verk

Kunn er skáldsagan af riddaranum sjónumhrygga, Don Kíkóta, sem alræmdur varð fyrir baráttu sína við vindmyllur á hásléttu Kastilíu.  Ríkisstjórn Íslands líkist mjög þessari hryggilegu persónu skáldskaparins, enda sannleikurinn jafnan lygilegri en skáldsagan, því að mestur tími stjórnarinnar virðist fara í að berjast við vindmyllur.  Starf ríkisstjórnarinnar er álíka mikils virði nú um stundir. 

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem kennd er við Jóhönnu Sigurðardóttur, stendur í linnulausum illindum við athafnalífið í landinu.  Hún hefur reynzt fullkominn starfaeyðir. Nú hefur óvitum ríkisstjórnarinnar áskotnazt gjöreyðingarvopn gegn athafnalífinu og störfum í landinu, sem kolefnisgjald nefnist. Iðnaðarráðherra, sem verja á hagsmuni iðnaðarins innan ríkisstjórnarinnar, er jafnmikið utan gátta í þessu máli og hún er vön, og virðist ekki taka til varna, þó að lagt sé til iðnaðarins í hjartastað.   

Í anda riddarans sjónumhrygga þykjast félagshyggjuflokkarnir með þetta stórhættulega vopn í hendi vera að berjast fyrir umhverfisvernd.  Þetta er kolrangt.  Vinstri hreyfingin grænt framboð, VG, er með þessu tiltæki þvert á móti að stuðla að aukinni mengun á heimsvísu. Fyrirtækin, sem hrökklast munu héðan vegna kolefnisgjalds og losunarskatts, munu leita annað, þar sem orkan er engan vegin jafnumhverfisvæn og hér og ekki endurnýjanleg.  Líklegast er, að þar sé raforkan fengin með brennslu kola eða jarðgass. 

Hér má geta þess, að skortur er á kísli í heiminum, svo að verð á honum hefur snarhækkað.  Hann er t.d. notaður í hálfleiðara, díóður, týristora og smára, en skorturinn stafar af mikilli eftirspurn kísils til framleiðslu sólarrafala.  Framleiðsla kísils er þess vegna fallin til að draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda.  Afleiðingin af beitingu ríkisstjórnarinnar á þessu gjöreyðingarvopni verður þess vegna aukin mengun andrúmsloftsins á heimsvísu og hraðari hlýnun andrúmsloftsins ásamt glötuðum atvinnutækifærum og glötuðum tækifærum til nýrrar tækniþekkingar og gjaldeyrisöflunar.

Þetta er algerlega óviðunandi framferði ríkisvalds á Íslandi.  Því er misbeitt herfilega í hernaði gegn fólkinu í landinu í nafni umhverfisverndar, þar sem blekkingum er beitt eða bein vanþekking stjórnar gerðum þröngsýnna sérvizkupúka.    

Í íslenzku samhengi er auðvitað nærtækasti samanburðurinn við Bakkabræður.  Þegar þrautpíndir skattstofnarnir standa ekki undir væntingum við sífellt illskeyttari skattheimtu, svo að skatttekjurnar standa í stað eða minnka, þá svara yfirvöldin með því að herða skattheimtuna.  Síðan hreykir þetta vesalings fólk, sem ekkert skynbragð ber á einföldustu lögmál hagfræðinnar, en heldur enn, að kenningar Karls Marx virki, sér af því á flokksþingum sínum að hafa nú aukið réttlætið í þjóðfélaginu. 

Ekki tekur betra við á dómssviðinu.  Úrelt dómsvald, Landsdómur, var vakinn upp af dvala og settur til höfuðs fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmari Haarde, manninum, sem bjargaði því, sem bjargað varð, í Hruninu, með ærnum tilkostnaði.  Mikilvægara þótti hinu siðblinda vinstra fólki á þingi að reyna að koma andstæðingi sínum í svartholið en að halda uppi mannsæmandi þjónustu á heilbrigðissviðinu.  Aðgerðir ríkisvaldsins eru allar afleiðingar forgangsröðunar, og hún getur varla orðið verri en hjá núverandi ríkisstjórn.  Þessi sviðsetning lögfræðilegs draugagangs er dæmd til að mistakast, því að samkvæmt nútímaskilningi hefur ákæruvaldið engin haldbær ákæruatriði, og þá liggur sýkna beint við, ef málinu er ekki vísað frá.  

Ákæruatriðin væru hins vegar handföst í máli Landsdóms gegn Steingrími J. Sigfússyni, t.d. í Icesave-málinu eða einkavæðingarmáli bankanna í hendur vogunarsjóða að meira en helmingshluta.  Landsdómsmálið hefur öll einkenni bjúgverpils frumbyggja Ástralíu.

Aðförin að atvinnuvegunum er skelfileg.  Verktakar helltast úr lestinni hver um annan þveran vegna verkefnaleysis, sem er meira en þekkzt hefur á lýðveldistímanum. Það er afkvæmi ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin þverbrýtur samkomulag við "aðila vinnumarkaðarins" um að koma hjólum atvinnulífsins af stað, en Jóhanna, greyið, geipar um sjö þúsund ný störf, sem enginn skilur, hvernig geta orðið til undir núverandi stjórnvöldum. Svívirðileg framkoma ráðherra VG gagnvart atvinnulífinu hefur rúið íslenzk stjórnvöld trausti innlendra sem erlendra fjárfesta, og er kolefnisgjaldið nýjasta dæmið um moldvörpustarfsemi vinstri flokkanna.  Moldvörpur eiga ekkert erindi inn í Stjórnarráð Íslands.   

Enginn skilur sem sagt, hvernig Jóhanna Sigurðardóttir hefur komizt að niðurstöðunni um 7000 ný störf fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar, því að allt framferði ríkisstjórnarinnar er starfaeyðandi.  Barátta stjórnarinnar fyrir nýjum störfum hefur eytt störfum, því að "eitthvað annað" hefur engu skilað, enda engar forsendur til þess. "Eitthvað annað" er yfirvarp einskis nýtra stjórnvalda. Meira að segja kínverska skáldið fær að kenna á ótta eða hatri vinstri-grænna í garð útlendinga.

Harmsögulegt er Don Kíkóta-atferlið í utanríkismálum.  Þar var lagt af stað með brauki og bramli og flaustri miklu með umsókn um að fá áheyrn hjá ESB (Evrópusambandinu) í aðildarviðræðum.  Var því haldið fram, að mikið lægi við að komast með umsóknina undir verndarvæng Svía sumarið 2009.  Allt reyndist það tómt gaspur.  Svo mikið lá á, að ekki var hirt um að setja sér samningsmarkmið.  Mannvitsbrekkan, sem fyrir samninganefndinni fer, sagðist mundu setja nefndinni markmið jafnóðum.  Með minnihluta þings og þjóðar og klofna ríkisstjórn að baki samninganefndinni, kemst hún auðvitað hvorki lönd né strönd, og nú eru viðræðurnar við ESB, sem eru ekkert annað en aðlögunarferli, komnar í öngstræti.  ESB er að breytast og getur hæglega senn klofnað í hraðfara til ríkjasambands og hægfara til tollasambands.  Opinber ágreiningur Frakklands og Þýzkalands magnast dag frá degi.  Evran fellur daginn, sem það rennur upp fyrir Frökkum, að þeir verða að taka upp þýzka hagstjórn til að bjarga hagkerfi Frakklands.

Hvert stefnir ríkisstjórnin við þessar hvirfilkenndu aðstæður ?  Hún stefnir norður og niður með þjóðarbúið og gefur dauðann og djöfulinn í sóma landsins, enda hefur hún hvorki verið sverð þess né skjöldur. Það hafa hins vegar aðrir tekið að sér. Hún er sjálf 5. herdeildin innan borgarmúranna, Trójuhesturinn. 

Þá er galað á torgum um að leiða verði þetta aðlögunarferli til lykta og kjósa um það.  "O, Sancta Simplicitas" sögðu Rómverjar; eða heilaga einfeldni.  Þessu fólki er ekki sjálfrátt.  Annaðhvort stjórnast það af fáfræði, eða það lemur hausnum við steininn og neitar að skilja, að þetta er ekkert samningaferli, heldur aðlögunarferli Íslands að ESB, lögum þess og reglum.  Þar á meðal er landbúnaðar-og sjávarútvegsstefna ESB, sem rústað hefur þessum atvinnuvegum aðildarþjóðanna með heljargreip miðstýringar skrifræðisins í Brüssel.  Okkar landbúnaður og sjávarútvegur eru mikilvægari en svo, að við getum látið skessurnar í Brüssel kasta þessum fjöreggjum íslenzku þjóðarinnar á milli sín. 

Upp úr þessari ESB-umsókn hefst ekkert annað en feiknarlegur tilkostnaður, tímasóun, skömm og svívirða.  Með umsókninni eru ESB-þjóðirnar hafðar að fíflum, og það munu þær ekki kunna að meta.  Það á eftir að koma í ljós, hvort ný ríkisstjórn í hegningarhúsinu við Lækjartorg getur bætt skaðann.  Alveg er þó öruggt, að staðan getur ekki versnað; ný ríkisstjórn að afstöðnum kosningum getur ekki með nokkru móti orðið verri en núverandi.

Ný ríkisstjórn verður að koma sem fyrst, en þó ekki fyrr en stokkað hefur verið upp á Alþingi.  Forysta Sjálfstæðisflokksins fékk endurnýjað umboð, en formaðurinn fékk gula spjaldið fyrir ótilhlýðilega hegðun í Icesave-málinu.  Hann hefur nú lofað bót og betrun.  Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur línurnar, og það er bannað að ganga þvert á þær. Þetta skilur hvert mannsbarn. Forysta flokksins verður nú að brýna kutana, spila á veikleika ríkisstjórnarinnar á Alþingi og fella hana þar hið fyrsta.  Miðjumoð og samstarf við svikahrappana gerir aðeins óvinafögnuð. 

Fylgifiskur aðildar að ESB er óhjákvæmilega evran.  Nýjar aðildarþjóðir eru strax settar í spennitreyjuna, sem heitir EMU II.  Þar mundum við fá að dúsa í 5-10 ár áður en af upptöku evru gæti orðið, ef allt væri með felldu, en það er ekki allt með felldu.  Evran er að fuðra upp í miklum reyk megnrar óánægju almennings í Evrópu.  Að taka upp evru reyndist hagfræðilega svipað og að taka upp DEM, þýzkt mark, og það hefði hvergi gengið, nema að flytja stjórn ríkisfjármálanna til Potzdamer Platz í Berlín.  Fyrir því er ekki snefill af áhuga í Evrópu. 

Þjóðverjar segja, að nú sé Evrópa farin að tala þýzku.  Það er óskhyggja.  Fæstar þjóðir Evrópu hafa getu eða hug á að stjórna ríkisfjármálum sínum með þýzkum hætti.  Þessu mun ljúka, þegar fram kemur, að ríkisfjármálum Frakklands verði ekki stjórnað, svo að vel sé, fyrr en Þjóðverjar taka París.  Þess vegna mun evran liðast í sundur, en dauðastríðið verður dýrkeypt.  Meira að segja ESB-sinnar á Íslandi, sem eru eitthvert albarnalegasta fólk, sem tjáir sig á opinberum vettvangi, eru farnir að linast í trúnni og sætta sig við "að hægja á ferðinni".

Þjóðverjar eru búnir að finna það út, að varðandi evruna "går vinningen opp i spinningen", eins og Norðmenn segja.  Það er orðið þýzka hagkerfinu dýrkeyptara að hafa evru en DEM.  Hið sama væri uppi á teninginum með Ísland, því að greiðslur Íslendinga til björgunarsjóðs evrunnar, EFSF, yrðu mjög íþyngjandi.  Það hefur enginn áhuga fyrir framhaldslífi evrunnar lengur.  Hún var mistök stjórnmálamanna, aðallega franskra, sem þvinguðu evrunni upp á Þjóðverja gegn endursameiningu Þýzkalands, "Die Wiedervereinigung Deutschlands".  

Hvers vegna í ósköpunum er þá óráðinu, sem kallað er "Aðildarviðræður Íslands við ESB", haldið áfram.  Fyrir því eru engin heilbrigð rök, og þetta ferli ber að stöðva tafarlaust, biðja Brüssel afsökunar á frumhlaupi einfeldninga, og fá staðfestingu hjá þjóðinni fyrir lokum ferlisins samhliða næstu Alþingiskosningum.  Spurningin er einföld: vilt þú binda endi á aðildarferlið að ESB, sem hófst með samþykkt Alþingis 16. júlí 2009; já eða nei ?  Samfylkinguna og háskalegan einfeldningshátt hennar á að dysja undir minningarorðunum:

"Hér hvílir flokkur, sem ætið setti hagsmuni ESB ofar hagsmunum síns eigin lands, en varð það að lokum að aldurtila".

 

   Evran brennur upp-nóvember 2011

 

  

        

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Þar er því engin blessun minngar hans.

Helga Kristjánsdóttir, 26.11.2011 kl. 00:26

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er alveg laukrétt, Helga.

Engum heilvita manni dettur í hug að blessa slíka minningu.  Þvert á móti fer bezt á að gleyma tilvist slíkra.

Með góðri kveðju,

Bjarni Jónsson, 26.11.2011 kl. 11:57

3 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Kanski pinu langt, en annars agætis aftreying a vaktinni... :)

Vonandi folk læri af afdrifum allt fyrir ekkert lofordum kratanna.  Tad ma kanski vona ad Evran verdi tannig ekki einskis nyt svona søgulega sed.

(Annars pinu fyndin fyrirsøgn i Aftenposten a fimtudag;  "EURO flyktningene kommer til Norge").

Jón Ásgeir Bjarnason, 26.11.2011 kl. 17:22

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Það er ekki hægt að orða þetta betur. Spurningin er hvort þjóðin læri eitthvað af þessu eða lætur allt fara í sama sukkfarið og áður..????

Kveðja.

Sigurður Kristján Hjaltested, 26.11.2011 kl. 18:28

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir;

Stundum tekur fjaðurstafurinn flugið sjálfur.  Það eru mörg tilefni til þess núna að láta gamminn geisa.  Lágkúra innlendra stjórnvalda hefur náð nýjum lægðum. 

Miklir atburðir gerast nú í Evrópu.  Ótrúlegt er að fylgjast með sögunni endurtaka sig að breyttu breytanda.  Þýzkaland hefur enn einu sinni ráð Evrópu í hendi sér, en hefur nú hvorki bolmagn né vilja til að bjarga efnahag sukkara.  Til lengdar verður þýzku þjóðinni slíkt dýrkeyptara en að láta sukkarana bæta ráð sitt á eigin forsendum og taka til í eigin ranni.

Noregur og Ísland mega hrósa happi að hafa ekki gengið hugsjóninni um samruna Evrópu á hönd.  Hún gengur nefnilega ekki upp.  Sukkarar Evrópu heimta nú, að hinir samhaldssamari borgi veizluhöldin.  Þeir samhaldssömu heimta strangari reglur og sameiginlega hagstjórn.  Hvorugt mun ganga eftir. 

Evran í sinni núverandi mynd mun lenda á ruslahaugum sögunnar, en upp úr rústunum mun ný Evrópa rísa, sennilega tvö eða þrjú ríkjabandalög Evrópu.

Sérstök kveðja til Noregs /

Bjarni Jónsson, 27.11.2011 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband