1.12.2011 | 20:35
Kolefnisleki og spekileki
Snemmárs 2011 innleiddi hrikalegasta skattlagningarstjórn lýðveldistímans svokallaðan kolefnisskatt á fljótandi eldsneyti á Íslandi. Var það gert undir því yfirskyni, að verið væri að aðlaga Ísland að regluverki Evrópusambandsins, ESB. Í raun er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur aðeins að framfylgja eigin duttlungum um að sölsa æ stærri hluta þjóðarkökunnar undir forsjá ríkisins. Vinstri flokkarnir hafa lengi séð ofsjónum yfir bíleign landsmanna og setja sig aldrei úr færi að reka hornin í bíleigendur. Þetta ásamt öðru ættu bíleigendur að hafa í huga við kjörborðið.
Þetta var glórulaus skattlagning af tveimur ástæðum. Efnahagur landsins er í rúst, og hvorki atvinnulífið né heimilin máttu við hærra eldsneytisverði, sem var í hæstu hæðum fyrir. Þessi aðgerð var fallin til þess að draga úr umsvifum í hagkerfinu, enda gerði hún það. Hátt eldsneytisverð hamlar hagvexti. Vinstri grænir hata hagvöxt, svo að allt fellur að sama brunni.
Hin ástæðan fyrir því, að tiltæki ríkisstjórnarinnar var glórulaust, er, að almenningur og fyrirtækin geta ekki farið í neina aðra orkugjafa, sem máli skipta hér á landi. Þetta geta þó þjóðir ESB. Þær hafa allar rafknúnar járnbrautarlestir, nema e.t.v. Malta, sem neytendur geta nýtt í meira mæli í stað eldsneytis. Stjórnvöld reyna að beina fleirum í járnbrautirnar, sem víðast hvar eru reknar með tapi. Þó að mörg orkuveranna séu kola-eða gaskynt, er hægt að sýna fram á meiri mengun eldsneytisknúinna ökutækja per mann en járnbrautarlesta.
Kolefnisskattur á fljótandi eldsneyti er ótímabær á Íslandi fyrr en hagur Strympu vænkast og neytendur eiga raunhæfa valkosti. Vinstri stjórnin gengur þvert á heilbrigða skynsemi, eins og hún er vön, enda eru vitsmunir núverandi ráðamanna ekki meiri en Guð gaf og þekkingin af ákaflega skornum skammti. Dæmi um þetta má finna af öðrum orkugeira, raforkugeiranum, þar sem glórulaus áform ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar um stórhækkun á verði afgangsorku hafa verið kynnt til sögunnar. Á tímum raforkugnægðar, kreppu og verðbólgubaráttu er þessi fyrirætlun eins gæfu-og vizkusnauð og hugsazt getur.
Ríkisstjórnin ætlar nú að hækka skatt á fljótandi kolefniseldsneyti um 32 % í ársbyrjun 2012. Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið. Þvílíkt gerir einvörðungu vitstola fólk í lömuðu hagkerfi. Eitt skref í þá átt að koma hjólum efnahagslífsins í gang er að afturkalla gildistöku þessarar kolefnisskattlagningar frá 2011 tímabundið þangað til skattlagningin hefur sömu möguleika á að virka og annars staðar innan EES. Innan EES verður að gæta jafnræðis, en jafnaðarmennirnir Íslandi eiga erfitt með að skilja það. Verður að binda vonir við, að sjálfstæðismennirnir á nýju Alþingi kunni betur til verka í baráttunni við kreppuna. Þá verða ytri aðstæður mun erfiðari en undanfarin ár.
Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að hefja stighækkandi skattlagningu kola og koks, en helztu notendur eru stóriðjan vegna forskauta og bakskauta í rafgreiningarkerum og ljósbogaofnum. Enn nota fjármálaráðherra og umhverfisráðherra þau rök, að þetta sé aðlögun Íslands að ESB, þó að þau hafi dregið í land um sinn. Þetta eru falsrök og mætti kalla umhverfisvernd andskotans.
Hér kennir fingraför Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns Svavars Gestssonar í Icesave 1 samningunum, einum hrikalegasta afleik Íslandssögunnar, en IHÞ hefur samið þvættingsritgerð um það, að stóriðjan leggi nánast ekkert til þjóðarbúsins. Afætur Íslands láta sannarlega ekki deigan síga og ekki dónalegt að hafa slíkar mannvitsbrekkur á spena ríkisins.
Sannleikurinn er sá, að ráðherrar vinstri grænna sjá sér hér leik á borði að koma höggi á iðnfyrirtækin í landinu, sem myndað hafa vaxtarsprota hagkerfisins í kreppunni, því að þau hafa öll staðið undanfarið og standa enn í umtalsverðum framkvæmdum. Þau munu missa allan áhuga á frekari fjárfestingum hér, og sum munu leggja upp laupana. Áformin ein skapa tortryggni fjárfesta í garð stjórnvalda. Skemmdarverk Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs heppnaðist, þótt ekkert kunni að verða úr framkvæmdinni vegna skorts á stuðningi.
Fjárfestingar stóriðjufyrirtækjanna verða fyrir vikið annars staðar, þar sem raforkuvinnsla á sér stað með jarðefnaeldsneyti og ekkert kolefnisgjald er við lýði. Þetta er kolefnisleki. Stjórnmálaöfl, sem honum valda, eiga ekkert skylt við umhverfisvernd, enda hefur umhverfið aldrei orðið fyrir öðru eins áfalli og valdatöku vinstri grænna. Þegar Steingrímur J. Sigfússon segir: "Landið er engin skattaparadís fyrir mengandi starfsemi", er hann að segja stóriðjunni að fara þangað, sem piparinn vex, þ.e. annað, þar sem starfsemi þeirra er alfarið reist á ósjálfbærum orkugjöfum. Gagnvart náttúrunni sýnir neiaragrímurinn algert ábyrgðarleysi, en fullnægir nú gamalli þrá sinni um að sparka í athafnalífið. Maðurinn er lágkúran helber og hrikalega dýr á fóðrum. Vonandi losa Þingeyingar okkur við fyrirbrigðið í næstu Alþingiskosningum. Landsdómur þarf svo að taka við honum.
Ekki má túlka ofangreint svo, að stóriðjan eigi að vera undanþegin takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda. Því fer víðs fjarri. Í ársbyrjun 2013 verður evrópska viðskiptakerfið með loftmengunarkvóta, "Emission Trading System-ETS", innleitt á Íslandi. Að undirgangast ETS er hluti af skuldbindingum okkar gagnvart EES, Evrópska efnahagssvæðinu, um að draga úr losun stóriðju á gróðurhúsalofttegundum. Lakari fyrirtækin í þessum efnum munu þá þurfa að greiða fyrir losun yfir viðmiðunarmörkum, en hin beztu þurfa ekkert að greiða. ISAL er t.d. í þessum hópi, enda hefur fyrirtækið trónað á heimstoppinum eða við hann undanfarin ár, hvað lágmörkun losunar koltvíildisjafngilda per áltonn út í andrúmsloftið varðar. Fyrirtækið hefur náð þessum frábæra árangri með fjárfestingum, samhentu átaki starfsmanna og beitingu beztu tækni við gjörnýtingu möguleikanna, sem núverandi búnaður býður upp á. Eins og menn sjá, felur ETS í sér hvata til að standa sig. Það er nokkuð annað en dratthalarnir, heimaalningarnir í ríkisstjórn Íslands setja á koppinn.
Spekileki er óhjákvæmilegur í stöðnuðum þjóðfélögum. Þar sem fjárfestingar eru af skornum skammti, eins og á Íslandi, þar sem aðeins er fjárfest fyrir um 13 % af VLF (vergri landsframleiðslu) undir vinstri stjórninni, skortir allar stéttir viðfangsefni við hæfi og leita þangað, sem tækifærin eru talin vera. Á næsta ári, 2012, reiknar ASÍ aðeins með 1 % hagvexti, og þar sem þjóðinni fjölgar meir, verður augljóslega kjararýrnun alls almennings það, sem eftir lifir valdatíma verstu ríkisstjórnar Íslandssögunnar.
Við þessar aðstæður er höfnun innanríkisráðherra á beiðni Huang Nubos um undanþágu fyrir kínversk hlutafélag við lög um landakaup lögaðila utan EES óviturleg, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið. Lögin veita ráðherra fullt svigrúm til að vega og meta áhættu og nytsemi slíkrar undanþágu í hverju tilviki. Áhættan er hverfandi, því að jörðin, sem var til sölu og Nubo bauð í, er í óskiptri eign á móti ríkinu. Nubo hefði þurft að kljást við íslenzka búrókrata um allar framkvæmdir á jörðinni, og ráðherra hefði haft neitunarvald um allt.
Ávinningurinn fyrir Þingeyjarsýslur gat hins vegar orðið gríðarlegur; reyndar svo mikill, að allt íslenzka hagkerfið hefði notið góðs af. Verður nú viðbúið, að Þingeyingar gjaldi Steingrími J. Sigfússyni rauðan belg fyrir gráan. Atvinnuleysið á landsmælikvarða getur farið í 10 % í vetur, og samt velur ráðherra þá leið að þjóna duttlungum sínum og hatri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á erlendum fjárfestum, hverju nafni sem þeir nefnast. Flokkurinn er haldinn einangrunarhyggju af sjúklegu tagi, sem ekki verður lýst öðru vísi en heimóttarlegri og verulega kindarlegri árið 2011, en við hverju er að búast af flokki, sem gerir í nóvemborlok 2011 samþykkt um, að einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til" ?
Það var fullt tilefni fyrir ráðherra að veita Huang Nubo undanþáguna í ljósi efnahagsástandsins í landinu, vegna landeigendanna sjálfra, sem vildu selja, og vegna afstöðu heimamanna almennt og viðkomandi sveitarfélags. Lögin eru beinlínis sniðin fyrir slíkt hagsmunamat og "ad hoc" ákvarðanatöku án fordæmisgjafar. Auðvitað ákvað ráðherra vinstri grænna að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Bolsévikar voru vanir að gera það. Hvernig endaði það ?
Heimóttarskapur vinstri grænna kostar ríkisstjóð a.m.k. 200 milljarða kr á ári í útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og glataðra tekna af erlendum fjárfestingum og síðar af sölu alls konar vöru og þjónustu til erlendra fyrirtækja, skattlagningar rekstrar og launatekna beinna og óbeinna. Sveitarfélögin gætu verið að tapa allt að 50 milljörðum kr á ári vegna glataðra fasteignagjalda og útsvars af sömu tækifærum, sem vinstri grænir hafa fórnað. Alls gæti samfélagslegt tap af stjórnarsetu vinstri grænna numið 250 milljörðum kr á ári. Öll eymdin og baslið í rekstri hins opinbera er í boði forstokkunar vinstri grænna. Ægilegur niðurskurður í heilbrigðisgeiranum, skólastarf í svelti, samgönguframkvæmdir í lágmarki, Hafrannsóknarstofnun í lamasessi, Landhelgisgæzla í skötulíki, skattheimta á einstaklinga og fyrirtæki undir drep, og þannig mætti lengi telja, er allt saman bein afleiðing stjórnarstefnu viðrinisins í hegningarhúsinu gamla við Lækjargötu.
Ríkisstjórnir í Evrópu eru margar óbeysnar, en sú íslenzka er sú alversta, þegar tekið er mið af hagsmunum þegnanna og þeim valkostum, sem í boði eru. Þegar tekið er mið af því, að sá litli hagvöxtur, sem nú má mæla, er froða, ósjálfbærar launahækkanir og úttektir úr lífeyrissjóðum og varasjóðum fjölskyldna, má ljóst vera, að þær háu tölur, sem tilfærðar eru hér að ofan um samfélagslegan kostnað af vinstri grænum við völd eru sízt ofmetnar og vaxa með hverju árinu, sem þeir hanga lengur við völd og fleiri tækifæri fara forgörðum. Vinstri hreyfingunni grænu framboði á að stinga undir stól hið allra fyrsta og ekki að hafa í valdastólum næstu tvo áratugina hið minnsta. Sagan mun fara um þá ómjúkum höndum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Dægurmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.