8.12.2011 | 21:30
Á síðasta snúningi
Á jólaföstu 2011 er óvenjumargt á síðasta snúningi á Íslandi og í heiminum öllum. Það er ástæða til að fjalla um þessa þróun mála, sem vonandi ber í sér kím betri tíma fyrir Íslendinga og mannkyn allt.
Stærst þessara mála er fjárhagsvandi heimsins. Hagkerfið hökti fyrst 2007, en ári síðar voru nokkrir stórir bankar við dauðans dyr. Var þeim mörgum bjargað með fjárframlögum og skuldbindingum ríkissjóða til bankanna, sem reyndist Phyrrosarsigur, þ.e. of dýru verði keypt, eins og nú er að koma í ljós. Íslenzka leiðin, leið Geirs Hilmars Haarde, út úr vandanum varð affarasælli. Evrópa á fallanda fæti er ágætt dæmi um þetta.
Nokkrir bankar fengu náðarhöggið, og munaði þar mestu um Lehmans Brothers 15. september 2008. Gjaldþrot bræðranna stöðvaði fjármagnsflæði til Íslands, og hrukku útblásnir og innanétnir íslenzkir bankar upp af í kjölfarið í október 2008. Hvergi í heiminum, nema á Íslandi, er einum stjórnmálaflokki, Sjálfstæðisflokkinum, kennt um þetta. Nær væri að kenna EES-aðildinni um, en það er álíka viturlegt og að kenna þingræðinu um ófarirnar.
Nú er sennilegt, að stórbankar á evrusvæðinu, líklega í Frakklandi, séu að komast í þrot. Þess vegna flýr fé frá Evrópu, svo að evruland er nú fjárvana, nema Þýzkaland, Austurríki og Holland, og AGS býr sig til neyðarhjálpar, en getan er ófullnægjandi, því að Kína hefur neitað. Evrópa er algerlega hjálparvana, en Merkel og Sarkozy dansa einhvers konar óskiljanlegan menúett án hljómsveitarleiks.
Plástrun ríkissjóðanna gekk ekki upp. Ríkissjóðir Vesturlanda og Japans voru svo þandir upp af lánum og höfðu þanizt svo út í hagkerfinu, að staða þeirra varð ósjálfbær eftir yfirtöku bankaskuldanna. Þýzka ríkið skuldar um 80 % af VLF og Frakkar munu innan skamms hrapa niður í svaðið eftir lækkun á vitlausu lánshæfismati, AAA. Þar með mun Þýzkaland taka forystuna í Evrópu. Ef Merkel og þýzka þingið hefðu samþykkt ákall Sarkozys um útgáfu evru-skuldabréfa með tryggingu allra í evrulandi, þá væri Þýzkaland í stórhættu að dragast með niður í lægra lánshæfismat. Sarkozy er þegar í raun fallinn, og Merkel hefði þá örugglega fallið í næstu kosningum til Reichstag.
Það gleymdist að taka háan meðalaldur Evrópuþjóðanna með í reikninginn, lítinn hagvöxt þeirra og stirðbusalegt samningafyrirkomulag á vinnumarkaði. Ríkissjóðirnir eru í raun komnir í þrot. Bandaríkjamenn virtust um sinn ætla að losa sig úr prísundinni með verðbólgu af völdum peningaprentunar, en virðast hafa hægt á henni, og í október 2011 varð verðhjöðnun í BNA. Ekki mun slíkt auðvelda Bandaríkjamönnum að fást við 100 % skuldir ríkissjóðs af VLF og ofboðslegan ríkissjóðshalla.
Marskálkur ríkisfjármála og peningamála framkvæmdastjórnar ESB og næstráðandi Barrosos, Finninn Olli Rehn, gaf 1. desember 2011 út stórkallalega yfirlýsingu: "Það eru 10 dagar til stefnu til að bjarga evrunni." Steingrímur J. tók hann á orðinu og sagði við Jóhönnu, að nú væru góð ráð dýr; þau yrðu að fórna efnahagsmálaráðherranum og Steingrímur að sölsa undir sig efnahagsmálin á Íslandi, auk ríkisfjármálanna, en slíkt kann ekki góðri lukku að stýra fremur en í Brüssel, þó að því sé sleppt, að téður SJS hefur hvorki vit á ríkisfjármálum né efnahagsmálum og er alls ekki treystandi fyrir öðrum þessara málaflokka, hvað þá báðum, eins og dæmin sanna.
Ofangreind yfirlýsing innsta kopps í búri evrunnar sýnir betur en orð fá annars lýst, að evran er á síðasta snúningi. Þjóðverjar tala og skipuleggja nú, eins og nægur tími sé til stefnu. Tíminn er samt út runninn, eins og orð Olla Rehn sýna, og Þjóðverjar safna nú glóðum elds að höfði sér fyrir að vernda hagsmuni síns eigin lands. Þeir gera sér vel grein fyrir þessari stöðu. Það er nóg að horfa á þýzkar sjónvarpsstöðvar til að átta sig á því.
Þýzkir stjórnmálamenn þora ekki að leyfa nú peningaprentun, því að þeir vita mætavel, að það yrði þeirra banabiti í næstu kosningum til Sambandsþingsins. Peningaprentun er til skemmri tíma að míga í skóinn sinn, og til lengri tíma er hún ávísun á kjaraskerðingu almennings. Verðstöðugleiki er réttlætismál og mikilvægur hagvextinum. Að leyfa peningaprentun ECB, Seðlabanka ESB, er þess vegna ávísun á langtíma kjaraskerðingu almennings í Þýzkalandi, og Þjóðverjar eru ekki tilbúnir til þess. Lái þeim það, hver sem vill. Slíkt mundi ekki leysa grundvallarvanda evrulands, heldur einvörðungu kaupa evrunni tíma og mundi reynast ESB Phyrrosarsigur.
Svo virðist sem félag Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík sé á síðasta snúningi, enda alvarlegur tilvistarvandi augljós af völdum svikahrappa, sem farið hafa á bak við félagsmenn í hverju málinu á fætur öðru. Sálarháski steðjar þess vegna að félögunum. Allt er réttlætt með nauðsyninni á að halda íhaldinu frá kjötkötlunum. Úrræði garmanna er að leita til stjórnmálalegs uppruna síns, sem er Kommúnistaflokkur Íslands, sem fjarstýrt var af Komintern í Moskvu undir stjórn Jósefs Djughawilis Stalíns. Þar á bæ samþykktu menn í viku 48/2011 svohljóðandi yfirlýsingu:
"Stjórn Vinstri-grænna í Reykjavík lýsir yfir létti og ánægju með þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar að synja Huang Nubo leyfis til uppkaupa á íslensku landi. Megi þetta verða vísir þess, sem koma skal, að eignarhald á jarðnæði verði úr höndum auðmanna, hverrar þjóðar sem þeir eru, og að einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til."
Hér að ofan er boðuð þjóðnýtingarstefna á landi, stefna, sem leitt hefur hvað mestar hörmungar yfir þjóðir á 20. öldinni. Þjóðnýting lands leiddi til hungursneyðar í Ráðstjórnarríkjunum og í öðrum sameignarríkjum, þar sem hún var innleidd, svo að tugir milljóna manna dóu af þeim sökum. Að boða nú þessa stefnu árið 2011 á Íslandi sýnir, að vinstri grænir eru að örvænta og koma nú út úr skápinum, enda finna þeir feigðina á sér; það styttist til endaloka valdaferils þeirra.
Icesave-maðurinn á myndinni hér til vinstri er þó ekki af baki dottinn. Nú ætlar hann í hrossakaup við "heilaga Jóhönnu". Hann ætlar að fórna eina ráðherranum, sem stendur í ístaðinu gagnvart hinni forkastanlegu aðlögun að ESB, fyrir peð í Efnahagsráðuneytinu, og þannig að svæla efnahagsmálin undir fjármálaráðuneytið, sem er algerlega glórulaus valdasamþjöppun í einu ráðuneyti. Með þessu móti mundi honum (SJS) takast að læsa klónum í Icesave-málið á ný og klúðra því, eins og hægt er úr þessu, en SJS mun vera fýldur út af því að missa málið frá sér á sínum tíma og að nýir herrar skuli hafa sýnt burði til að taka til nokkurra varna í málinu fyrir Íslands hönd. Kommúnistaklíkan Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Indriði H. Þorláksson vilja hindra, að Icesave-málið fái farsælan endi, svo að ömurlegur hlutur þeirra verði síður að sögulegum minnisvarða um alvarlegustu mistök í stjórnmálum lýðveldisins. Þá væri enn einu sinni hægt að kenna íhaldinu um.
Núverandi fjármálaráðherra þreytist ekki á að greiða fyrirtæki Ásgeirs Jónssonar og Sigurðar Jóhannssonar, Sjónarrönd, þóknun fyrir áróðursrit. Enn fjallar Sjónarrönd, sem er handan heilbrigðrar skynsemi, þegar kemur að orkumálum, um arðsemi Landsvirkjunar og arð af orkusölusamningum við stóriðju. "Gutta cavat Lapidem" sögðu Rómverjar til forna, og hagfræðingarnir á Sjónarrönd virðast vera þeirrar skoðunar, að ítrekaðar blekkingar í boði Fjármálaráðuneytis Rauðstakkanna Steingríms og Indriða muni að lokum síast inn í fólk sem sannleikur.
Áhættugreining þeirra félaga á orkusamningum við stóriðjufyrirtækin er kolröng og annaðhvort reist á dómgreindarskorti eða vanþekkingu á samningunum, nema hvort tveggja sé. Þeir halda því t.d. fram, að samningum við álfyrirtækin um raforkusölu fylgi meiri áhætta en samningum við almenningsveitur. Hvernig í ósköpunum er unnt að komast að þeirri niðurstöðu, þegar haft er í huga, að kaupskylda upp á tæp 90 % af heildarorkumagni er fólgin í orkusölusamningum við álverin ? Þetta þýðir, að þótt álverksmiðjurnar mundu enga orku nota, mundu þær samt þurfa að greiða fyrir tæplega 90 % orkunnar út samningstímabilið. Ekkert sambærilegt ákvæði er í samningunum við almenningsveitur, og allir vita, að álag þeirra er mjög sveiflukennt og ræðst af árstíma, veðurfari og árferði.
Í þessu ljósi er sá málflutningur þeirra félaga afar kindarlegur, að óeðlileg áhætta sé fólgin í því fyrir eigendur opinberu orkufyrirtækjanna, ríki og borg, að ábyrgjast lántökur þeirra gegn lægri vaxtabyrði. Eigendurnir, skattborgararnir, hagnast á því, og áhættan er sáralítil, eins og afkoma Landsvirkjunar er ljós vottur um. Allur málatilbúnaður félaganna á Sjónarrönd er faglega mjög veikur og klisjukenndur og svo fótalaus, að borin von er, að þeim verði að trú sinni.
Um 80 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar er selt til stóriðju. Eigið fé Landsvirkjunar var um 200 milljarðar króna í árslok 2010. Stóriðjufyrirtækin greiða upp mannvirki á 15-30 árum, sem hafa tæknilegan endingartíma 40-200 ár. Það er nánast engin áhætta fólgin í orkusölusamningum við álfyrirtækin, því að sala á megninu af orkunni er tryggð í 25-40 ár óháð því, hvort hún er notuð eður ei.
Orkuverðið er í bandaríkjadölum, USD, og ýmist tengt við neyzluverðsvísitölu í BNA eða við markaðsverð á áli. Áhættudreifing er þess vegna fyrir hendi. Spáð er, að á næstu áratugum muni álverð hækka meira en neyzluverðsvísitalan eða um 4 %- 5 % á ári að jafnaði. Það liggur þess vegna í augum uppi, að samningar Landsvirkjunar við stóriðjuna hafa verið fyrirtækinu afar hagfelldir, og stóriðjan hefur reynzt vera feiknarlega hagkvæm, þjóðhagslega. Að halda því fram, að 5,5 % arðsemi Landsvirkjunar sé slæm er rógburður manna með alvarlega slagsíðu til vinstri í garð iðnaðaruppbyggingar í landinu og í garð samningamanna hins opinbera fyrirtækis, Landsvirkjunar.
Nú hefur ný stjórn og forstjóri tekið við Landsvirkjun, og hafa þau ýmislegt undarlegt gert og sagt. Eitt er að stórhækka verð á afgangsorku. Það er illa rökstudd aðgerð, enda engin skynsamleg rök til fyrir svo þjóðhagslega óhagkvæmri aðgerð. Ættu fulltrúar eigenda, þ.e. þjóðarinnar, á Alþingi, að grípa í taumana, svo að skammsýn einokunarhyggja verði kæfð í fæðingunni.
Forræðishyggja stjórnvalda hefur keyrt um þverbak. Sagt er, að fjórðungi bregði til fósturs. Umhverfisráðherrann, núverandi, er af kommúnistum kominn og að auki alinn upp á leikskóla miðstjórnarmanna austur-þýzka kommúnistaflokksins. Hún ætlar nú að fyrirskipa umhverfismat á skógrækt sem skyldu. Kommúnistar kunna sér ekkert hóf, þegar þeir komast til valda, en sýna þá á sér algerlega ómennska hlið. Þetta einkenni gæti bent til geðklofa. Hvað sem þeirri sjúkdómsgreiningu líður, verður að telja kommúnista vera almennt siðblinda. Einstaklingurinn skiptir kommúnistann engu máli, enda eru hagsmunir hans fótum troðnir.
Búrókratar umhverfisráðuneytisins hljóta að átta sig á því, að það að skylda áhugafólk, félagasamtök og fyrirtæki til lögformlegs umhverfismats mun stórlega draga úr skógrækt í landinu. Það hlýtur þess vegna að vera vilji téðs umhverfisráðherra að draga verulega vaxtarmáttinn úr skógrækt í landinu. Þarna gengur kommúnistinn enn einu sinni erinda fámenns hóps sérvitringa í landinu, sem ekkert vill af skógrækt vita, heldur telur til dyggða að rífa hana niður og "varðveita landið í sinni núverandi mynd". Þetta eins og annað réttlætir þessi endemis umhverfisráðherra með klisju sinni: "náttúran verður að njóta vafans". Hefur nokkurn tímann heyrzt heimskulegra slagorð ?
Ísland þoldi ekki sambýlið við manninn í bland við kólnandi veðurfar og eldgosavirkni. Landið missti gróðurhulu sína og er nú sem flakandi sár á stórum svæðum; stærsta eyðimörk í Evrópu. Mesta umhverfisvandamál Íslands er uppblástur landsins. Það ber að efla skógrækt og landgræðslu í landinu og hvetja einkaframtakið til dáða í þeim efnum fremur en að letja það og svæla svo alla starfsemi af þessu tagi undir ríkið með skrifræðislegum bolabrögðum, boðum og bönnum.
Stjórnvald, sem leggur sig í framkróka við að hefta uppgræðslu landsins og endurheimt skóganna er á síðasta snúningi. Um það er engum blöðum að fletta. Sannað er, að skógur breytir veðurfari til hins betra. Hann veitir skjól og hitastigið á viðkomandi svæði hækkar. Landið verður byggilegra en ella, en náttúran verður víst að njóta vafans, sem jafngildir því, að öll mannanna verk séu forkastanleg, breyti þau núverandi ásýnd landsins.
Ekki leikur á tveimur tungum, að lífríkið tekur stakkaskiptum með skógrækt og landgræðslu. Nýjar tegundir setjast að og aðrar hopa. Markmiðið ætti að vera að bæta búsetuskilyrðin í landinu þannig, að hér verði blómlegt mannlíf í skjóli vaxtar, sem kenndur er við hag og skóg, og dýrategundir verði sem flestar, t.d. fuglar, sem á annað borð geta verið í sambýli.
Þessar hugrenningar leiða hugann til járnkanzlarans, þess er sameinaði þýzku ríkin með eldi og blóði, "mit Feuer und Blut", á síðari hluta 19. aldar, undir Prússakonung, er varð Þýzkalandskeisari með aðsetri í höfuðborg Prússlands, Berlín, en hann lét hafa eftirfarandi eftir sér:" Lagasetning er eins og pylsugerð. Bezt er að sjá ekki, hvernig hún fer fram".
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Umhverfismál | Breytt 9.12.2011 kl. 17:56 | Facebook
Athugasemdir
Þakka fyrir góða lesningu.
Ragnar Gunnlaugsson, 9.12.2011 kl. 13:10
Takk fyrir góða grein Bjarni.
Ágúst H Bjarnason, 9.12.2011 kl. 20:19
Ég þakka ykkur báðum, Ragnari og Ágústi, fyrir innlitið og sömuleiðis fyrir ykkar fróðlegu vefskrif.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 10.12.2011 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.