Allt annað ESB

Dagana 8.-9. desember 2011 var haldinn 4. neyðarfundur leiðtoga ESB-ríkjanna út af bágu efnahagsástandi á árinu.  Þar var Evrópueinteinunginum skipt í tvennt og er nú tvíteinungur, sem heldur í sitt hvora áttina, en ríkin 17 eru reyndar með lík í lestinni, sem heitir evra. 

Leiðtogarnir, Merkel og Sarkozy, eða Merkozy, lofuðu fyrirfram heildstæðri lausn á vanda evrunnar, en niðurstaðan varð klofningur ESB.  Bretar gætu fallið úr skaptinu eða leitt ríkin 10 inn á nýjar brautir.  Enn á ný endurtekur sagan sig um andstöðu Breta við sameiningu Evrópu.  Því skal spá hér, að enn á ný dragi Bretar lengsta stráið út úr þessum heystakki.  Er ekki vafi, að Íslendingar eiga meiri samleið með ríkjum Evrópu í viðskiptabandalagi undir leiðsögn Lundúna en í Sambandsríki Evrópu undir leiðsögn Berlínar, þó að góð sé.

Það er borin von, að Merkozy hafi tekizt að sannfæra fjárfesta, matsfyrirtæki og kjósendur um, að þetta tvíeyki sé á réttri leið.  Þvert á móti má nú búast við hörðum árásum á Ítalíu og Spán, gengisfellingu Frakklands og annarra ríkja með bágstadda banka innanborðs að hálfu matsfyrirtækjanna og höfnun kjósenda á Merkozy í næstu kosningum.  

Þegar íslenzkir kjósendur fá tækifæri til, munu þeir sömuleiðis hafna núverandi ömurlegum valdhöfum sínum og hefja vegferðina löngu upp úr öldudal skuldasúpunnar með þýzkum aga í peningamálum, jákvæðum jöfnuði ríkisfjármálanna og uppgreiðslu skulda, sem enn eru auknar af getulausri og tvístraðri ríkisstjórn.

Þýzkaland er tekið að nota Frakkland sem strengjabrúðu sína.  Frakkar gegna nú því hlutverki að dylja þá stöðu, sem upp er komin, að Þjóðverjar skipa fyrir um, hvað gera skuli í ESB.  Leiðtogar þessara nágranna eru á öndverðum meiði um markmið og leiðir, og Þjóðverjar móta meginstefnuna, sem Frakkar blúnduleggja.  Stefnumörkunin er viðrinisleg, því að velja þarf stærsta samnefnara Merkozy, og hann æði lítill. 

Sex ESB-ríki eru enn með hæstu lánshæfiseinkunn, AAA, en tæpast verður næsti janúarmánuður á enda runninn, þegar matsfyrirtækin láta til skarar skríða gegn Frökkum. Hið einkennilega er, að Bretar eru með sömu einkunn, meiri halla á fjárlögum og meiri ríkisskuldir sem hlutfall af VLF, en samt ekki komnir á athugunarlista matsfyrirtækjanna.  Gæti skýringin á þessu misræmi verið evran, sem er eins og snara um háls Frakkanna, en Bretar fljóta á pundinu ?

Barnaskapur er að halda því fram, að evran sé ekki orsök vandans.  Lágir vextir evrusvæðisins og mikið framboð lánsfjár leiddi til skuldasöfnunar vegna óhagkvæmra fjárfestinga, þar sem arðsemiskrafan var lítil.  Lönd hömluleysisins fengu í kjölfarið yfir sig meiri kostnaðarhækkanir, verðbólgu, en lönd aðhaldsins.  Þetta misræmi er nú orðið gríðarlegt, svo að talið er, að tækju Grikkir upp Dröchmu, mundi hún falla um 80 % og með sama hætti peseti Spánverja um 50 %, ítalska líran um 30 % og franski frankinn um 20 % frá lokagenginu við upptöku evru. Þetta skýrir, hvers vegna vandi evrunnar er nú orðinn óviðráðanlegur, og hvers vegna upptaka evru væri fjárhagslegt glapræði að hálfu Íslendinga, nema þeir nái jafngóðum tökum á hagþróun og Þjóðverjar.  Þar á bæ leggja menn allt í sölurnar til að forðast verðbólgu.  Þjóðverjar munu fremur láta evruna sigla sinn sjó en að hætta á verðbólgu (yfir 2 % p.a.)

Ríkisskuldabréfavextir 2010-2011Lækki lánshæfismat Frakklands, munu vextir þar hækka.  Með staðnað hagkerfi, hagvöxt 0,3 %, halla á fjárlögum síðan 1974 og aukin útgjöld til EFSF-björgunarsjóðs Evrópu, verður erfiðleikum bundið fyrir Frakka að standa í skilum.  Það stefnir í, að þeir verði á framfæri Þjóðverja.  Þá fer nú að styttast í sælunni hjá Merkozy, sem er auðvitað í raun engin sæla, heldur eru þau eins og hundar og kettir, þegar að er gáð.

Annað er uppi á teninginum utan evrusvæðis.  Svíar, sem höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu 2003 með 56 % atkvæða gegn elítunni í landinu, eru gott dæmi um þetta.  Mælikvarði á traust markaða á hagkerfi er vaxtakrafan til ríkisskuldabréfa.  Hún er nú aðeins 1,7 % í Svíþjóð borin saman við a.m.k. 2,2 % í Þýzkalandi.  Eftirfarandi er haft eftir Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar:

"Ríki, sem stendur utan evru, verður að tryggja samkeppnihæfni sína og ríkisfjármál.  Við höfum orðið að stunda sjálfsaga, sem ríki í evrulandi töldu sig ekki þurfa.  Ef þú veizt, að veturinn verður mjög kaldur, verður þú að ganga úr skugga um, að húsið þitt sé vel byggt.  Annars verður þér kalt."     

Þetta gildir einmitt um aðstæður hérlendis.  Það skiptir engu máli, hvort við stefnum á upptöku erlends gjaldmiðils eða ætlum að halda krónunni.  Úrræðin eru þau sömu og í Svíþjóð.  Að reka ríkissjóð með jákvæðum jöfnuði, lækka skuldir ríkissjóðs um 50-100 milljarða kr á ári á árabilinu 2015-2025, halda verðbólgu í skefjum, svo að hún verði ekki hærri en í viðskiptalöndunum, og framkalla og viðhalda 3 % - 6 % hagvöxt.  Hið síðast nefnda fæst aðeins með miklum fjárfestingum, um 25 % af VLF á ári.  Erlendar fjárfestingar eru þar algert lykilatriði, því að eins með miklu innstreymi gjaldeyris verður unnt að afnema gjaldeyrishöftin með einu pennastriki, eins og Dr Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra V-Þýzkalands gerði með glæsibrag um 1955 í óþökk hernámsveldanna.  Auðvitað er hægt að stjórna íslenzka hagkerfinu af skynsamlegu viti líka, ef margir leggjast á árarnar.  

Í Svíþjóð er 0,1 % jákvæður jöfnuður á ríkisbúskapi, skuldir ríkisins fara minnkandi og eru nú 36 % af VLF og árið 2010 nam hagvöxtur 5,7 %.  Árið 2011 er búizt við 4,4 % hagvexti.  Íslenzka hagkerfið hefur alla burði til að sýna svipaðar tölur og hið sænska, en munurinn er sá, að á Íslandi ríkir afturhaldsstjórn, sem ekkert kann til verka og er með böggum hildar sökum úreltrar hugmyndafræði um auðvaldshatur og græningjasérvizku, sem engu skilar.  Í Svíþjóð er nú borgaraleg ríkisstjórn, sem hefur reist landið við úr öskustó jafnaðarmennskusukks.  Hið sama þarf að gerast á Íslandi, og meirihluti þjóðarinnar virðist vera að gera sér glögga grein fyrir því. 

Af síðustu skoðanakönnunum er hægt að draga tvær ályktanir.  Straumurinn liggur nú til Sjálfstæðisflokksins, og margir hugsa sér nú til hreyfings í stjórnmálalegu tilliti.  Það er komið rót á kjósendur og skyldi engan undra.  

Listakjör   

 

   

        

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér Bjarni eins og endranær, það er alveg með ólíkindum að ESB sinnar skuli ennþá halda í það að ganga í ESB, allir sem hafa common sense sjá það að það er best að bíða og sjá hverju fram vindur með ESB og hvernig það muni líta út í náinni framtíð annað er bara hrein heimska og afglöp nema eitthvað annað og verra búi að baki.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 15.12.2011 kl. 22:17

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir vinsamlega umsögn, Kristján.  Þverska ríkisstjórnarinnar og ólýðræðisleg hegðun ber feigðina í sér.  Báðir stjórnarflokkarnir tærast upp með óafturkræfum hætti, þegar ómögulegt er að botna í gjörðum hennar.  Hún á þó afar einfaldan leik í þessari stöðu.  Hún getur spurt Alþingi, hvort halda beri viðræðunum áfram eða draga umsóknina til baka.  Hún mundi ekki verða að gjalti, þó að hún tapaði þeirri atkvæðagreiðslu, því að forsendur eru gjörbreyttar.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 16.12.2011 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband