Viðskiptajöfnuðurinn

Finna má fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ýmislegt til foráttu og þ.á.m., að hún lét gríðarlegan, allt að 25 % af VLF, viðskiptahalla viðgangast of lengi.  Af þessum sökum varð hagkerfið veikt fyrir vegna mikillar skammtíma lánsfjárþarfar.  Murphy´s lögmál tók að virka, því að á sama tíma lokuðust lánamarkaðir meira eða minna vegna tortryggni lánastofnana hver í garð annarrar af völdum hinna eitruðu lánavafninga.  Þetta reið innanétnum bönkunum að fullu eftir fall Lehman´s bræðra 15. september 2008.

Nú er öldin önnur.  Árið 2011 verður greiðslujöfnuður viðskipta við útlönd um 123 mia kr.  Þetta er dágóður jöfnuður, en því miður ósjálfbær.  Hann er að sönnu reistur á miklum útflutningi, en meira munar um lítinn innflutning vegna sáralítils hagvaxtar í landinu.  Árið 2008 var hagvöxtur 1,3 %, árið 2009 -6,7 % og árið 2010 -4,0 %, þ.e. samdráttur tvö síðari árin.  Þessar samdráttartölur eru í hnotskurn skýringin á því, að allt að 30 þúsund starfsígildi á ári hafa tapazt út úr hagkerfinu með atvinnuleysi, atgervisflótta og styttingu vinnutíma.

Téður hagstæður viðskiptajöfnuður er kreistur út úr hagkerfinu með því að þrýsta kjörum almennings langt niður fyrir það, sem Íslendingar eiga að sætta sig við eða geta sætt sig við, eins og atgervisflóttinn ber með sér.  Háskaleg stöðnunar- og háskattastefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur þrýst niður lífskjörum í landinu með þessum afleiðingum.  Af þessum ástæðum er núverandi viðskiptajöfnuður ósjálfbær.  Til að Ísland standi sig í samkeppninni um hæft starfsfólk við nágrannalöndin, ekki sízt Noreg, verður að lyfta lífskjörum almennings upp á norrænt stig.  Það mun óhjákvæmilega leiða til aukins innflutnings.  Hvað er þá til ráða ?  Óbjörgulegar eru í þessu sambandi ráðstafanir Jóhönnu og Steingríms að færa öll atvinnumálin undir VG og auðlindamálin undir Svandísi Svavarsdóttur í umhverfis-og auðlindaráðuneytinu.  Þetta er því miður ekkert annað en ávísun á afturhald og við svo búið má ekki standa.  Að setja bolsévika yfir atvinnulífið er sem eiturbyrlun fyrir það.

Það verður að skipta um ríkisstjórn og gjörbreyta um stjórnarstefnu í landinu.  Í stað afturhaldsstefnu komi framfarasókn.  Í stað skattahækkana komi skattalækkanir.  Í stað fjandsemi í garð fjárfesta, einkum erlendra, komi hvatar og fyrirgreiðslur á almennum grundvelli.  Í stað hálfkáks og lausataka á ríkisfjármálum komi markviss og öguð ríkisfjármálastefna í anda tillagna Tryggva Herbertssonar á Alþingi, er tryggi jákvæða rekstrarafkomu ríkissjóðs strax á árinu 2013.

Peningamálastefnuna verður að stokka upp, losa um verðtrygginguna, ef annar aðili viðskiptanna óskar þess, gefa kost á óverðtryggðum samningum í öllum lánaflokkum á markaðinum, en leyfa verðtrygginguna, ef báðir óska eftir henni, setja Seðlabankanum nýja löggjöf, sem gefur Seðlabankanum sjálfstæði, völd og ábyrgð til að beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja peningalegan stöðugleika, þ.e. að drepa hættulegar verðbólur í fæðingunni og að tryggja verðbólgu á bilinu 0-2 % á ársgrunni.

Afnema gjaldeyrishöft og annað neyðarbrauð í hagkerfinu með einu pennastriki, þegar forsendur þess hafa verið skapaðar með samningum um fjárfestingar í landinu, er tryggi sjálfbært  gjaldeyrisflæði inn í landið, sem auka verðmætasköpun.  Slíkt verður helzt að gerast innan árs frá valdatöku borgaralegrar ríkisstjórnar, en bágborið ástand heimshagkerfisins getur hugsanlega seinkað þessu.

Þegar Íslendingar hafa snúið hagþróuninni innanlands sér í vil, þ.e. komið hagvexti á góðan rekspöl, kjör almennings fara að batna og saxast tekur á atvinnuleysið, munu brottfluttir hugsa sér til hreyfings heim á leið, því að ekki er nóg með, að römm sé sú taug, sem rekka dregur föðurtúna til, heldur hefur landið sjálft og fámennið upp á margt að bjóða, sem flestir Íslendingar læra að meta í uppvexti sínum og vilja ekki vera án.   Þetta þekkja allir, sem búið hafa á erlendri grundu um hríð. 

Þetta er hið raunverulega viðfangsefni stjórnmálanna.  Núverandi ríkisstjórn JS+SJS veldur ekki þessu viðfangsefni og hefur raunar ekki uppi neina tilburði til þess.  Hún er áhugalaus um allt, sem til lífskjarabata almennings horfir, en upptekin við að fóðra eigin jötugemlinga og alls kyns þjóðfélagslega tilraunastarfsemi úr bókasafnshugarheimi Karls Marx, sem ekki getur skilað neinu í raunheimi, og sumt er stórhættulegt afkomu almennings.

Úr grilluheimi Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi flugfreyju, má nefna Stjórnlagaþing, hvers kosning var dæmd ólögleg af Hæstarétti. Jóhanna trompaðist og fékk meirihluta Alþingis til að virða þann úrskurð að vettugi, og var það hræðilega skammsýn ákvörðun og niðurbrjótandi fyrir formfestu stjórnvalds og þrígreiningu ríkisvaldsins.

Aðförin að sjávarútveginum er einsdæmi í atvinnusögu Vesturlanda og jafnast á við aðgerðir sameignarsinna í þriðja heiminum á borð við Mugabe.  Gamla Rhódesía var matarkista, og þaðan voru flutt út ógrynni matvæla.  Í Zimbabwe undir Mugabe er nú hungursneyð.  Með sama hætti mundi þjóðnýting íslenzka sjávarútvegsins leiða til fjöldagjaldþrota og hruns bankakerfisins.

Síðast en ekki sízt ber að nefna garminn Ketil, skræk, en utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar er viðrini, alger bastarður.  Ríkisstjórnin hefur asklok fyrir himin og gerir ekki nokkurn skapaðan hlut til umbóta á þessu sviði fremur en á öðrum.  Utanríkisþjónusta Íslands er alger tímaskekkja og allt of dýr í rekstri m.v. ávinning.  Það verður að straumlínulaga hana m.v. líklega framtíðarhagsmuni Íslendinga.  Það þýðir auðvitað fækkun sendiráða, en jafnframt virkjun útstöðva utanríkisþjónustunnar í þágu utanríkis viðskiptahagsmuna.  Þar sem lítil sem engin eru viðskiptin og lítill áhugi á slíkum, þar þarf ekki sendiráð.

Tækifærum til bættra samskipta við Bandaríkin, BNA, t.d. með skírskotun til breytinga í norðurhöfum, sem leiða munu til nýtingar norðursvæðanna og nýrra siglingaleiða, hefur verið kastað á glæ.  Ekki er að sjá, að nein sérstök rækt sé lögð við opinber samskipti við rísandi stórveldi á borð við Kína og Indland né Rússland, sem í krafti auðlinda sinna mun rísa úr öskustó, þegar leifar KGB (Leyniþjónusta Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna) losa um tökin á upplýstu þjóðfélagi.  

Hið eina, sem kemst að hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, er uppskafningsháttur, fleðulæti og smjaður fyrir forkólfum ESB, Barroso, Rompoy, Olla Rehn, Stefan Fühle o.fl.  Þetta er grafalvarleg þröngsýni í ljósi þeirrar stöðu, sem landið er í, þ.e. málsvörn fyrir EFTA-dómstólinum út af Icesave og í svo kölluðum samningaviðræðum um inngöngu í ESB, sem er sorgarfarsi með ívafi skrípaleiks í höndum eigi smáfríðs utanríkisráðherra, því að það er ekki um neitt, nema hrein aukaatriði, að semja.  Í aðalatriðum yrði Ísland, eins og öll önnur aðildarríki, að kokgleypa stofnsáttmála og alla seinni sáttmála ESB, þ.á.m. Lissabon-sáttmálann, sem er ígildi stjórnarskráar ESB, til að öðlast inngöngu.  Þetta vefst ekki fyrir neinum, nema Evrópufræðingum, og starfsmönnum fræðaseturs um smáríki í Háskóla Íslands, sem lifa í gerviheimi. 

Nú hefur það frétzt, að fráfarandi efnahagsráðherra, Árni Páll Árnason, hafi s.l. vetur verið í Brüssel til að leggja á ráðin um hraðupptöku evru.  Er það eftir öðru hjá þeim manni og flokki hans að stunda baktjaldamakk í Brüssel um slíkt stórmál, sem er í raun örlagavaldur um hagsmuni landsmanna.  Atburðirnir í ESB 2010-2011 sýna þó í hnotskurn, hvílík reginglópska er í því fólgin að taka upp evru án þess að uppfylla með láði öll Maastricht-skilyrðin.  Innan skamms mundu Íslendingar við slík skilyrði lenda á vonarvöl, eins og Grikkir, Ítalir, Portúgalar og Spánverjar munu gera. 

Það er afar virðingarvert að vilja skapa stöðugleika í peningamálum landsins, en það verður ekki gert með yfirborðslegri hrossalækningu að hætti Samfylkingarinnar, heldur með vandaðri, samhæfðri og agaðri stjórnun ríkisfjármála og peningamála, þar sem leggja ber árangursrík vinnubrögð Þjóðverja til grundvallar.  Að taka upp evru, en vera með allt á hælunum í hagstjórnunarlegum efnum, má líkja við að ætla að laga svöðusár með heftiplástri.  Algert fúsk, sem leiðir til þess eins, að hinum slasaða blæðir út. 

  Halli á ríkisbúskap í 4 evru-löndum     

   Nú hafa forkólfar ríkisstjórnarinnar rekið rétt einn naglann í líkkistu hennar með því að sá fræjum illinda innan beggja þingflokka stjórnarinnar.  Eftir þetta mun þessi ómynd verða algerlega lömuð.  Skipreka ríkisstjórnin er aðeins ríkisstjórn að nafninu til, hana rekur fyrir veðrum og vindum, enda hefur hún engin markmið, nema að hanga við völd og að "leiða samningaviðræður við ESB til lykta", svo fjarstæðukennt sem það markmið er.  Þessar svo kölluðu samningaviðræður eru dýrkeyptasti skrípaleikur í sögu íslenzka lýðveldisins, sem ber að stöðva í góðri samvinnu við ESB, sem yrði guðsfegið að losna við þessa lönguvitleysu, og leggja það fyrir þjóðina samhliða næstu Alþingiskosningum, sem nú fer að styttast í, þó að sumir haldi því fram, að ríkisstjórninni sé jafnvel um megn að binda endi á eigið dauðastríð, hvort halda eigi samningaviðræðum áfram eða að binda endi á þær. 

Nýtt ár mun bera í skauti sér straumhvörf í íslenzkum stjórnmálum.  Horft til baka munu vinstri stjórnar árin 2009-2011 verða talin martröð svika, mistaka, ábyrgðarleysis, hringlandaháttar og getuleysis, sem kom þunglega niður á almannahagsmunum á Íslandi. 

Það mun hins vegar enn sannast, að máttur frelsis til orðs og æðis, einkaframtaks, þekkingar, sanngirni og agaðra vinnubragða, mun enn á ný verða aflvaki stórstígra framfara, losa þjóðfélagið úr klakabrynju hafta, skriffinnsku og forsjárhyggju stjórnmálamanna og búrókrata og gera þjóðfélagslegt kraftaverk.

Gleðilegt nýár !   

 jonsigurdsson 

      Íslenzki þjóðfáninn

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband