Veikt hagkerfi

Evrusvæðið er verst staddi sjúklingurinn í hagkerfi heimsins, og nú er komið í ljós, að sjúkleiki Frakklands mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir evrusvæðið.  "Standard og Poors´s" hafa boðað lækkun lánshæfismats Frakklands úr hæsta flokki um eitt stig, og líklegt er, að önnur lánshæfisfyrirtæki sigli í kjölfarið.  Ítalía, Spánn, Portúgal, Austurríki o.fl. verða einnig lækkuð á næstunni, svo og björgunarsjóður evrunnar, sem mun veikjast verulega við lækkunina.  Varnir evrunnar eru að hrynja.  Hin misheppnaða tilraun stjórnmálamanna stærstu Evrópulandanna og Benelúx, þó án Bretlands, er komin á leiðarenda.  

Langvarandi skuldasöfnun Frakklands og lítill hagvöxtur þar eru meginskýringarnar á þessu.  Þetta er áfall fyrir Gallana, sem leiða mun til falls Sarkozys í sumar, og fjármögnunarvandi Frakka mun verða rothögg á evruna. Það vekur sérstaka athygli við þetta tækifæri, að lánshæfismat Bretlands var ekki lækkað né horfum landsins breytt þrátt fyrir verri skuldastöðu Bretlands og meiri halla á fjárlögum þar en í Frakklandi.  Ástæða þessa er ein og aðeins ein, hvað sem ástmagar evrunnar tuða.  Bretland stendur sterkara að vígi með sitt sterlingspund en Frakkar með evru, sem að mestu fylgir hagþróun Þýzkalands.   

Nú bíða 130 mia evra útborgunar hjá björgunarsjóði evrunnar til Grikkja.  Skilyrði útborgunar eru ýmis, og allt gengur á afturfótunum við að uppfylla þau, m.a. að semja við lánadrottna um niðurfellingu 50 % skuldanna.  Nú stefnir í, að Grikkland komist í greiðsluþrot í marz 2012.

Hvers vegna er svona komið ?  Margir stjórnmálamenn og hagfræðingar héldu því fram, að evran mundi tryggja stöðugleika í hagkerfi evrulandanna.  Þessu reyndist þveröfugt farið.  Í skjóli evrunnar viðgekkst agalaus hagstjórn í öllum evruríkjunum, nema Þýzkalandi, Hollandi og Finnlandi. Evran er þess vegna undirrót vandans. Ef hún er það ekki, hver er þá skýringin á stöðnun hagkerfis Ítalíu, 22 % atvinnuleysi á Spáni, kreppunni á Írlandi, vandræðum Portúgala og svo mætti áfram telja ?  Það er hlálegt, að á Íslandi skuli fólk tjá sig opinberlega um það, að staða evrunnar sé bara alls ekki svo slæm, af því að hún er enn hærri gagnvart bandaríkjadal en hún var, þegar henni var hleypt af stokkunum !  Þetta heitir að berja hausnum við steininn og verða ekki meint af, enda ekki furða.  

Tennurnar voru dregnar úr seðlabönkum evrulandanna og völdin færð til Seðlabanka ESB, ECB.  Ríkissjóðirnir söfnuðu víða skuldum, húsnæðisbóla myndaðist vegna lægri vaxta en tíðkuðust fyrir evruupptöku, og verðbólga varð meiri en í kjölfestulandi evrunnar, Þýzkalandi.  Þar með misstu löndin samkeppnihæfni við útlönd, útflutningur dróst saman, atvinnuleysi jókst, og hagvöxtur varð sáralítill.  Evran varð með öðrum orðum upphaf að vítahring.

Mikil hagræn og stjórnmálaleg spenna hefur myndazt á milli evrulandanna, enda næst ekki samstaða um neitt, nema málamyndaaðgerðir.  Fjármálamarkaðurinn, sem er alþjóðlegur og spannar allan heiminn, sér í gegnum sjónhverfingar Merkozy.  Hvernig mun Merkozy bregðast við hinni nýju stöðu, þegar Sarkozy hefur fengið rothögg, sem rekja má til evrunnar föstudaginn 13. janúar 2012.  Mun hann þá minnast Napóleóns Bonaparte ?  Þeir, sem úrslitum réðu við Waterloo, voru Prússar undir forystu von Blüchers.  

Fundir þeirra Merkel og Sarkozy eru aumkunarverðir og minna orðið á söguna um hefðarkonuna, sem  orðin var níræð, og hélt enn áramótaboð fyrir alla vinina, sem þó voru horfnir úr jarðvist, en gamli þjónninn skálaði við þá gömlu og varð undir lokin anzi drukkinn, því að hún heimtaði, að hann drykki full hinna látnu.  Það verður skipt um þennan þjón í sumar, og sú gamla gæti horfið af sviðinu á næsta ári.  

Þetta er atburðarásin í evrulöndunum, sem nú eru annaðhvort í ruslflokki eða eru á leiðinni þangað.  Þýzkaland ræður ekki við að stöðva þessa skriðu, og þess vegna erum við nú áhorfendur að enn einu miklu breytingaskeiði Evrópu og ekki úr vegi að líta um öxl í því sambandi.      

Þýzku ríkin voru sameinuð árið 1871 eftir vopnaviðskipti Þjóðverja undir forystu Prússa við Dani, Austurríkismenn og Frakka.  Þýzkaland krafðist fljótlega hlutdeildar í sólinni, þ.e.a.s. fór að keppa við nýlenduveldi Evrópu, aðallega Bretland og Frakkland, um suðræn lönd, aðallega í Afríku.  Náðu Þjóðverjar töluverðri fótfestu í Austur-Afríku í lok 19. aldar og um aldamótin og voru jafnvel betur liðnir en Bretar og Frakkar.   

Vopnuð barátta um heimsyfirráð brauzt síðan út 14. ágúst 1914 og lauk í desember 1918 með ósigri þýzkumælandi þjóða, Austurríkis og Þýzkalands, vegna afskipta Bandaríkja Norður Ameríku, BNA, þó að friðarsamningar hafi náðst við Rússland.  Þjóðverjar sömdu við Vladimir Lenin um að styðja þann bókasafnsorm til valda í Rússlandi gegn friðarsamningi.  

Lok styrjaldarinnar markaði endalok lénsveldistímans í Evrópu og markaði upphaf mikilla þjóðfélagsátaka í Evrópu.  Hófust miklar stjórnmálalegar róstur í Evrópu, þar sem lýðræðið átti undir högg að sækja, en fram sóttu einræðisstefnur sameignarsinna og þjóðernisjafnaðarmanna.  Sameignarsinnum varð lítið ágengt utan Rússlands, en fasistar og þjóðernisjafnaðarmenn náðu völdum á Ítalíu og í Þýzkalandi. Hófu þau fljótlega útþenslustefnu, sbr "Drang nach Osten", sem lyktaði með því, að Bretland og Frakkland sögðu Stór-Þýzkalandi stríð á hendur 3. september 1939 eftir innrás Wehrmacht í Pólland 2 dögum fyrr.  Þessari styrjöld lyktaði 7. maí 1945 með nær tortímingu Þýzkalands, þar sem stríðsþátttaka og framleiðslumáttur BNA réði úrslitum.    

Frá þessum tíma hafa Þjóðverjar siglt með löndum í utanríkismálum, en unnið marga frækilega sigra á íþróttaleikvöngum heimsins og í viðskiptalífinu.  Ekki þarf að tíunda sérstaklega árangur þýzka hagkerfisins, svo margrómaður sem hann er.  Endursameining Þýzkalands virðist hafa tekizt frábærlega.  Þjóðverjum virðist því takast vel upp heima fyrir.

Með undirtökin í ESB eru þeir nú að láta verulega að sér kveða í Evrópu á ný, og er ekkert við því að segja annað en það, að þeir eru vel að endurreisn áhrifa sinna komnir.  Þýzkaland er mikið menningarland, og þar hefur lýðræðið skotið traustum rótum.  Er engin ástæða fyrir okkur Íslendinga né aðrar Evrópuþjóðir að bera kvíðboga fyrir hinni nýju Evrópu 21. aldarinnar.  Þýzkaland mun gefa tóninn þar.  Í fjörbrotum ESB/evru verður kreppa, sem þegar er að hefjast og engir munu fara varhluta af, en að henni lokinni mun verða velmegunarskeið.  

Þjóðverjar þurfa á rússneskum auðlindum að halda, og Rússar þurfa á vestrænum gjaldeyri og tækniþekkingu að halda.  Vestur-Evrópskur og Mið-evrópskur iðnaður mun enn auka fjárfestingar sínar í Austur-Evrópu.  Það verður á ný "Drang nach Osten", þó að engin þörf sé lengur á "Lebensraum" í Austur-Evrópu fyrir þýzkumælandi þjóðir.  Þeim fer nú heldur fækkandi, hvað sem verður.

Allur heimurinn er fús til að taka við framleiðsluvörum okkar Íslendinga, sjávarafurðum, áli, landbúnaðarvörum, vatni og síðar olíu og gasi.  Engin ástæða er til að rígskorða viðskiptin við ESB-löndin.  Miklu skynsamlegra er að líta vítt yfir sviðið til austurs og vestur. Íslendingar hafa ekkert að óttast í þessu sambandi, ef þeir beita heilbrigðri skynsemi, sem nóg er af víða á landinu, en ákaflega tilfinnanlegur skortur á á núverandi Alþingi og í Stjórnarráðinu nú um stundir.

Aldrei mun verða reynt aftur að steypa Suður-Evrópu í myntbandalag með löndum norðan Alpafjalla.  Það stefnir í upplausn í Suður-Evrópu.  Flóttamenn streyma frá Afríku til Suður-Evrópu, og Norður-Ítalía kann senn að segja skilið við ítalska ríkið og Súður-Týrólar vilja "Anschluss",þ.e. sameiningu við Austurríki.  Það kann að komast mikið rót á landamæri Evrópu enn einu sinni.  Eðlilegast er, að hver þjóð og þjóðarbrot hafi sjálfsákvörðunarrétt um, hvert stefna skal.  Upplausn Habsborgaraveldisins var ekki hnökralaus.

Óvíst er, hvort einhverju myntbandalagi verður viðhaldið í norðanverðri Evrópu.  Það væri aðeins Þýzkalandi í hag, því að sú mynt mundi mótast af þýzka hagkerfinu og verða veikari en þýzkt mark, sem væri þýzku atvinnulífi hagfellt. Hver kærir sig í raun um að standa í samkeppni við og/eða eiga í viðskiptum við Þjóðverja og vera um leið hnepptur í spennitreyju myntar, sem stjórnað er af seðlabanka, sem eðli málsins samkvæmt tekur aðallega mið af stöðunni í hagkerfi þeirra ?  Það er ójafn leikur.

Í nýrri Evrópu verður sennilega ekkert rúm fyrir sameiginlega mynt.  Menn munu fá nóg af evrunni og hrikalegum göllum hennar.  Hvort gullfótur verður endurnýjaður eða eitthvert annað kerfi tekur við, er ekki gott að segja.  Fyrir Íslendinga skiptir það litlu máli.  Áróður lítilsigldra manna um, að hraðupptaka erlends gjaldmiðils muni skapa hér hagrænan stöðugleika, hefur orðið sér til skammar.  Augljóst er hverju mannsbarni nú, að undirstaða hagkerfisins verður að vera hlutfallslega jafnsterk og við á um stærsta hagkerfi myntarinnar, sem peningamálastjórnun viðkomandi seðlabanka óhjákvæmilega dregur dám af.  Að rasa um ráð fram í stórmáli af þessu tagi er þjóðhættulegt, eins og dæmin niðri í Evrópu sanna. Þrátt fyrir þetta eru enn blindingjar á Íslandi, sem láta eins og evran yrði Íslendingum eins og Gyðingum varð Mannah af himnum ofan í fyrndinni.  Staðreyndirnar tala nú sínu máli um, hversu hættuleg ofeinföldun flókinna mála þar er á ferðinni.  Að rasa um ráð fram og hlaupa í fang ESB getur orðið þjóðum hrikalega dýrkeypt.  

Hins vegar er hverju orði sannara, að brýna nauðsyn ber til að söðla um í hagstjórninni, taka upp beztu aðferðir á því sviði sem öðrum og koma hér á varanlegum stöðugleika, þ.e. kjarnaverðbólgu, sem mæld verði eins og í Berlín, innan við 2 %.  Til þess þarf þekkingu og vilja.  Hinar hagrænu forsendur eru fyrir hendi.  Hagkerfið er orðið nægilega fjölbreytilegt til að slíkum stöðugleika verði náð.  Slík var ekki staðan, þegar sjávarútvegur stóð undir 75 % og þaðan af meiru af gjaldeyristekjum landsins.

Það er þó engan veginn hægt að útiloka upptöku erlends gjaldmiðils í framtíðinni, þegar allar hagfræðilegar og lýðræðislegar forsendur verða til þess, e.t.v. seint á þessum áratugi. 

Það er hins vegar þjóðhættulegt að stefna að því án þess að leggja traustar undirstöður hagkerfis, sem getur þrifizt með erlenda mynt.  Það er ágætt viðmið að byrja með að ná öllum Maastricht skilyrðunum.  Til þess þarf að binda hendur stjórnmálamanna með ákvæðum um aðhald í ríkisfjármálum og sjálfstæði Seðlabanka í Stjórnarskrá og í lögum.

Verði mikill ágreiningur um þessi mál á Alþingi eða í þjóðfélaginu almennt, er sjálfsagt að kjósa um þessi grundvallarmál hagstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá er óskandi, að nútímaleg fyrirmyndar stjórnarskrá, sem tryggi minnihluta rétt á að láta reyna á almannaskoðun í tilteknum málum, taki senn gildi. 

Gefandi og þiggjandi  Framtíð evrunnar og þar með Evrópu veltur á því, hvernig skötuhjúunum Merkel og Monti tekst að ráða ráðum sínum, en 80 % líkur eru á, að þau nái ekki að sporna við markaðsöflunum, sem glatað hafa trausti á, að ítalska hagkerfið fái risið undir skuldum sínum, og fáir reikna með, að Þjóðverjar kosti til þess risaátaks, sem þarf til að bjarga Ítalíu.  

  

  

  

                      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þýskaland hefur ekki sýnt mikla hagvaxtargetu síðustu áratugi og Þjóðverjum er að fækka.

Allt útlit er fyrir að um miðja öldina verði það annað hvort Frakkland eða Bretland sem verði fjölmennasta ríki V-Evrópu og bæði eru með örlítið meira lífsmarki hagvaxtarlega séð.

Þjóðverjar eru í ákveðinni lykilstöðu núna þar sem trénun hagkerfisins er á svo háu stigi að þeim tókst ekki að taka almennilega þátt í síðustu bólu (nema auðvitað sem óráðsíulánarar). Þetta er tímabundið og mjög sérstakt ástand.

Í sjálfu sér vitum við ekki hvort að Evrópa hangir saman sem eining af einhverju tagi fram eftir öldinni. Það er ekkert sjálfgefið að Evrópa eigi sér forysturíki frekar en t.d M-Austurlönd, en ef svo fer verða Bretar eða Frakkar líklega leiðandi.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 19:34

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta eru áhugaverðar hugleiðingar, Hans.

Ég hygg, að framleiðnin sé hæst á mann í Þýzkalandi af þeim löndum, sem þú nefnir.  Það er hins vegar svo, að hækkandi meðalaldur og hlutfall vinnandi manna af heildarfjölda í löndunum er hinn mikli óvissuþáttur, þegar framtíðaráhrif þjóða eru til skoðunar, eins og þú bendir á.  Hvernig fer um áhrif Breta, ef Bretland klofnar í England, Skotland og jafnvel Wales ?

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.1.2012 kl. 20:32

3 identicon

Það eru til fleiri en ein leið til að reikna framleiðni en jafnan reiknast framleiðni í Frakklandi hærri en í Þýskalandi, stundum með verulegum og stundum með minni mun (héreru tveir listar af Wikipedia).

Í Þýskaldi hefur verið efnahagsleg stöðnun (enn verri en í Frakklandi) í langan tíma og engin launaþrýstingur sem færir þeim visst tímabundið forskot hvað varðar útflutning.

Bretland fer væntanlega á bekk með Þýskalandi ef Skotland klýfur sig frá.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 20:54

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hans;

Það er rétt hjá þér, að eftir hagbóluna, sem myndaðist í Þýzkalandi eftir mestu fjárfestingarnar í austur-hlutanum, kom tímabil lítils hagvaxtar og jafnvel samdráttar, þegar Þjóðverjar hertu sultarólina og náðu þannig samkeppniforskoti á aðrar þjóðir mælt í kostnaði á hverja einingu framleiddrar vöru.  Framleiðnin í austurhlutanum fer nú vaxandi, og hafa Þjóðverjar verið undanfarin ár á töluverði skriði. T.d. var hagvöxtur árið 2011 3,0 % í Þýzkalandi samanborið við 1,6 % í Frakklandi.  Þá var greiðslujöfnuður við útlönd +5,2 % af VLF í Þýzkalandi, en hallinn 2,4 % í Frakklandi.  Hallinn á ríkissjóði Frakklands er hlutfallslega næstum 6 sinnum meiri í Frakklandi en í Þýzkalandi.  Það eru þess vegna góðar og gildar ástæður fyrir því að fella lánshæfismat Frakklands, en halda Þýzkalandi þar í toppsæti.  Þessar tölur eru fengnar úr The Economist, 17.-30. desember 2011, bls. 164. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.1.2012 kl. 23:46

5 identicon

Ég efast ekki um að Þýskaland er öruggasti skuldari Evrópu nú um stundir og eigi að hafa hærra lánshæfismat en Frakkland og flest önnur Evrópusambandslönd.

Hinsvegar vil ég meina að sú staða sé ekki til komin vegna þess að þýsk hagstjórn sé til eftirbreytni heldur fyrir slysni. Áður en kreppan skall á var staðan í ríkisfjármálum verri en á Spáni, svo dæmi sé tekið, og Þjóðverjar höfðu búið við langvarandi efnahagslega trénun.

Í raun sýnir það allt annað en fyrirhyggju af hálfu útflutningsþjóðarinnar Þjóðverja að þeir reyni nú að halda áfram að mjólka markaði Evrópu án þess að gefa lágmarksfóður.

Það má segja að það sé eitt af sjúkleikamerkjum Evrusamstarfsins hversu ríkulega Þjóðverjar uppskera fyrir vonda hagstjórn. Evrópa á ekki mikla framtíð fyrir sér ef kerfið refsar þeim sem reyna að fara fram á við en verðlaunar kyrrstöðu.

Hitt sem ég vildi benda á er að langvarandi forysta Þjóðverja í Evrópu er ekki líkleg af lýðfræðilegum ástæðum. Fjárhirsla þjóðverja er stærst vegna þess að þeir eru um 20 milljónum fjölmennari en þær þjóðir sem næstar koma en ekki vegna þess að framleiðni sé meiri. Frakkar og Bretar (verði Bretland áfram sameinað) verða innan fárra áratuga orðnir bæði fjölmennari og með hagstæðari aldursamsetningu.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 18:36

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta eru áhugaverðar þenkingar, Hans, og ég þakka þér fyrir að deila þeim hér.  Sú staða, sem upp er komin í Evrópu, er ekki komin upp vegna slysni, heldur af eftirfarandi ástæðum m.a.:

  1. Þýzkaland var endursameinað 1989.  Þá fjárfestu Þjóðverjar gríðarlega í austurhlutanum og söfnuðu við það skuldum.  Það varð mikill hagvöxtur í Þýzkalandi, en jafnframt verðbólga.
  2. Við stofnun evrunnar 10 árum síðar, 1999, var svart útlit í hagkerfi Þýzkalands.  Þjóðverjar sáu sitt óvænna til að bæta samkeppnistöðu sína við útlönd, hertu sultarólina og stöðvuðu launahækkanir. 
  3. Þetta held ég, að enginn hafi leikið eftir þeim á evrusvæðinu, og fyrir vikið öðluðust þeir sterka samkeppnistöðu, sem endurspeglast í 5,2 % jákvæðum greiðslujöfnuði við útlönd. 
  4. ECB, banki Evrópusambandsins, tekur mest mið af stöðu þýzka hagkerfisins, af því að það er stærst.  Á meðan verðbólga var talsverð í Miðjarðarhafslöndunum, voru vextir lágir á evrusvæðinu, af því að hagkerfi Þýzkalands var í hægagangi, eins og þú nefnir, á meðan kerfið var að jafna sig eftir endursameiningu landsins. 
  5. Fjárfestingarnar í austurhlutanum eru farnar að skila sér í mjög aukinni framleiðslugetu landsins, svo að með evruna að vopni stenzt þeim enginn snúning í Evrópu um þessar mundir.
  6. Nú eru að renna tvær grímur á Þjóðverja.  Ef þeir henda meira fóðri, eins og þú segir, inn í veik hagkerfi evrunnar, er verið að verðlauna skussana og opna fyrir botnlausa hít.  Að velja þessa leið jafngildir fyrir Þjóðverja að borga með evrunni.  Þá er hagkvæmara fyrir þá að vera með eigin gjaldmiðil, sem þeir geta stjórnað sjálfir.  Það er svo ólík menning og ólíkir hagsmunir á evrusvæðinu, að evran á sér vart viðreisnar von.
  7. Hvað gerist í mannfjöldamálum þessara landa, er ekki gott að spá um.  Bretar búa við frjálslyndustu innflytjendalöggjöfina, og þar er líka míkil þjóðfélagsgerjun.  Aldurssamsetning margra evrópskra þjóðfélaga stefnir í algert óefni.  Miðað við núverandi fjölda barna per konu mun hlutfall vinnandi manna og hinna helmingast á 40 árum.  Þetta mun framkalla gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar.  Ætli fæðingum taki ekki að fjölga aftur ?  Það mundi bjarga málunum ?

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 24.1.2012 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband