2.3.2012 | 22:36
Afleiðingar atvinnufjandsemi
Stöðnun ríkir í athafnalífi landsmanna, ef frá eru taldar talsverðar framkvæmdir Rio Tinto Alcan (RTA) í Straumsvík og framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, sem reist er til að fullnusta nýjan orkusamning á milli Landsvirkjunar og RTA. Því miður hillir ekki undir næstu framkvæmdir á þessu sviði.
Ef allt væri með felldu, væru framkvæmdir við álverið í Helguvík nú þegar komnar að nýju af stað og virkjanaframkvæmdir vegna þessa notanda. E.t.v. hefur ógæfa þessa verkefnis verið of mikil áherzla á jarðgufuvirkjun til orkuöflunar. Nóg er hins vegar af vatnsorku í landinu, en auðvitað þarf þá að flytja orkuna lengri leið í sumum tilvikum. Öflugt atvinnulíf á Suðurnesjum útheimtir öfluga flutningslínu þangað og er óskandi, að ágreiningur um flutningslínuna standi ekki þróun fjölbreytilegs athafnalífs Suðurnesja fyrir þrifum.
Hins vegar er alveg ljóst, að bögglingurinn með Rammaáætlun um nýtingu og verndun orkulinda, sem nú þegar hefur dregizt um of úr hömlu, er tekinn að hamla þróun athafnalífs í landinu. Þessi bögglingur vinstri manna við völd tefur uppbyggingu athafnalífsins og magnar fjárhagsvanda almennings. Stuðningur við fjárhag heimilanna þarf að vera í 5 liðum:
- Fjárfestingar í fyrirtækjum til útflutningsiðnaðar. Þar undir falla virkjanir, því að tekjur þeirra af raforkusölu til útflutningsiðnaðar eru í bandaríkjadölum. Gjaldeyristekjur gefa hámarks margfeldisáhrif á hagkerfið. Aukið innstreymi gjaldeyris er til þess fallið að styrkja krónuna, sem bætir stöðugleikann, og gerir kleift að hraða greiðslu erlendra skulda, sem minnkar vaxtaútgjöld hins opinbera og rennir stoðum undir hækkað lánshæfismat. Fjárfestingar draga úr atvinnuleysi í bráð og lengd, sem lagar stöðu ríkissjóðs. Stórtækar fjárfestingar efla tækniþekkinguna í landinu og skjóta þannig stoðum undir innviði þjóðfélagsins. Fjárfestingar, sem nema a.m.k. 20 % af landsframleiðslu, VLF, eru traust undirstaða öflugs hagvaxtar, 3 % - 6 % á ári, sem, ásamt framleiðniaukningu, gefur von um varanlegar kjarabætur almenningi til handa. Slíkar kjarabætur ásamt, skattaívilnunum, er raunhæfasta aðstoð við fjárhagslega aðþrengdar fjölskyldur, sem völ er á.
- Vinstri hreyfingin grænt framboð og Samfylking í Stjórnarráðinu eru nú að framkvæma löngu yfirlýsta stefnu sína um að þrengja að notkun einkabílsins með mjög háum stofnkostnaði, mjög háu varahlutaverði og afar háu eldsneytisverði. Allt of lítil endurnýjun á sér þess vegna stað á bílaflota landsmanna, og meðalaldur hans að verða ískyggilega hár m.v. öryggi og hagkvæmni. Vinstri menn og nytsamir sakleysingjar gjamma enn um, að eldsneytisverð sé lægra hérlendis en sums staðar erlendis. Þeir setja þessi mál þá ekki í rétt samhengi. Hérlendis eru engar járnbrautarlestir og almenningssamgöngur vanþróaðar, enda fer aðeins um 5 % fólksflutninga fram þannig. Erlendis er þetta hlutfall margfalt hærra, þ.e. í öðrum löndum gefst fólki val, og eldsneytisverðið hefur þess vegna ekki jafnhrikalega neikvæð áhrif á pyngju almennings og fyrirtækja og hérlendis. Það er þess vegna rétt athugað hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að lækkun eldsneytisverðs niður í 200 kr/l er eðlileg samfélagsleg ráðstöfun og til þess fallin að örva atvinnulífið. Miða mætti við verðlag í ársbyrjun 2012 og leyfa verðinu að hækka m.v. hækkun vísitölu frá þeim tímapunkti og þar til hagvöxtur í landinu er orðinn a.m.k. 4 % yfir 2 ár í senn. Þetta mundi hafa góð áhrif á hag flestra fjölskyldna í landinu og allra fyrirtækja og þar með örva hagvöxt. Íslendingar eiga tæknilega möguleika á framleiðslu eldsneytis, sem dugir öllum bílaflotanum, sem líklega borgar sig, ef verð hráolíutunnu er yfir USD 100, en það er nú um 115 USD/tu. Þetta verður gjaldeyrissparandi og dregur úr koltvíildislosun og ýmissi annarri loftmengun. Slík þróun yrði þjóðhagslega hagkvæm.
- Sjávarútveginum er haldið í spennitreyju af stjórnarflokkunum. Hótanir vofa yfir um þjóðnýtingu, svo að ritað sé tæpitungulaust. Við slíkar aðstæður er of áhættusamt að fjárfesta. Samt er svo komið, að á næstu 10 árum þyrfti að endurnýja um 80 % af atvinnutækjum sjávarútvegsins, ef vel ætti að vera. Endilega þarf að stefna að því, að þessar fjárfestingar nýtist sem bezt íslenzkum tæknimönnum og iðnaði. Þó að útvegurinn sé mjög skuldsettur núna, m.a. vegna kvótakaupa, er ekki ólíklegt, að hann gæti fjárfest fyrir 30 mia. kr á ári næstu árin. Slíkt yrði landinu gríðarleg lyftistöng. Til þess að gera þetta þarf sjávarútvegurinn frið fyrir stjórnvöldum, bæði varðandi eignarhald aflaheimilda og sérskattlagningu, s.s. veiðileyfagjald, sem er uppfinning andskotans til að draga kraftinn úr atvinnugrein, sem stendur í harðri alþjóðlegri samkeppni á matvælamörkuðum heimsins. Sjávarútvegur greiðir feiknin öll til samfélagsins með hafnargjöldum, fasteignaskatti og tekjuskatti. Hann greiðir og hærri laun að jafnaði en almennt gerist. Allir mundu hagnast á því, að útvegurinn setti fé í stórfellda repjuræktun og olíuvinnslu úr henni, sem nýtzt gæti flotanum og almenningi. Til að auka hlut almennings enn meir í velgengni sjávarútvegs mætti veita fólki forkaupsrétt að hlutabréfum í fyrirtækjum, sem aflað hafa sér fiskveiðikvóta, sem nemur yfir 5 % heildarkvótans.
- Verðbætur stuðla að hærri verðbólgu. Í um 30 ár hafa verið verðbætur á fjárskuldbindingar, en ekki á laun. Þetta hefur eflt sparnað í landinu, sbr lífeyrissjóðina. Hann mundi hins vegar verða enn meiri eftir afnám vísitölutengingar lána, ef samtímis tekst að kveða verðbólguna í kútinn og skapa jákvæða raunvexti. Þá verða lánin ekki það kverkatak á hag fjölskyldna, sem nú er. Til að kveða verðbólguna niður verður að vinna bug á hallarekstri ríkissjóðs strax og skapa aðstæður, sem hægt styrkja krónuna. Snöggt afnám gjaldeyrishafta mun stinga á kýli, hreinsa gröft úr sári og skapa aðstæður fyrir gróanda, þ.e. aukið innstreymi gjaldeyris, sem er nauðsynlegt. Við þurfum að taka upp þýzka hagstjórn, halda vexti ríkissjóðs vel innan hagvaxtarmarka, halda launahækkunum innan marka framleiðniaukningar og efla iðnaðinn með áherzlu á menntun iðnaðarfólks og tæknimanna. Hefja verkmenningu til öndvegis, eins og Þjóðverjar gera, en láta spákaupmennsku og froðuhagkerfi lönd og leið.
- Menn á borð við Þorstein Pálsson telja leiðina til að ná öllum þessum fögru markmiðum liggja til Evrópusambandsins, ESB. Þess vegna var sótt um aðild að ESB 16. júlí 2009, þegar Íslendingar stóðu mjög höllum fæti vegna Hrunsins. Bjartsýnir ESB-sinnar spáðu Íslandi inni þar í hlýju Berlaymont þegar árið 2011. Það var mikil glámskyggni. Hvaða lærdóma má draga við athugun á þróuninni innan ESB síðan sótt var um aðildina ? ESB er nú að þróa með sér nýja sameiginlega sjávarútvegsstefnu. Frétzt hefur, að hún muni verða reist á kvótakerfi með 15 ára nýtingarrétti. Augljóslega er svo nefnd fyrningarleið Samfylkingar aðlögun að þessari stefnu. Þá verður hluti aflaheimildanna innkallaður á hverju ári, þjóðnýttur með Salami-aðferðinni, til uppboðs eða endurúthlutunar til 15 ára. Er ástæða til að halda, að þetta fyrirkomulag muni auka afrakstur sjávarútvegsins ? Nei, það standa engin rök til þess, af því að eignarréttur veiðihlutdeildarinnar hvetur til betri umgengni við auðlindina, meiri fjárfestinga og langtímahagsmunir eru þá settir í öndvegi í stað skammtímasjónarmiða. Hvaða ályktanir má draga af óförum jaðarlanda ESB, Grikklands, Portúgals og Írlands. Innanríksráðherra Þýzkalands hefur svarað því. Eina leiðin fyrir Grikkina er að losa sig út úr evrusamstarfinu, segir hann. Þetta blasir við. Til að Grikkir rétti úr kútnum verður að myndast hagvöxtur í gríkska hagkerfinu. Á árinu 2011 varð þar 7 % samdráttur, og hefur hagkerfið dregizt saman um líklega 15 % - 20 % frá 2007. Þetta er voveiflegt, enda er millistétt Grikklands að verða fátæktinni að bráð. Um 30 % Grikkja eru nú undir skilgreindum fátæktarmörkum. Öllum þessum ósköpum hefur evran valdið. Portúgalir eru líklega gjaldþrota líka, eins og Grikkir í raun. Eitt bjargar Írum nú. Miklar fjárfestingar erlendra fyrirtækja, sem þeir hafa laðað til sín með aðeins um 12 % tekjuskatti á fyrirtæki. Þetta er leiðin út úr ógöngunum. Burt frá sósíalisma andskotans. Það á að fjárfesta sig út úr kreppunni. Niðurskurður þarf að vera með að því marki, sem eykur alþjóðlega samkeppnihæfni, en vöxt verður að tryggja. Þetta er lærdómurinn. Tryggjum við þetta með inngöngu í ESB ? Ekkert bendir til þess. Þvert á móti. Í kurteisiskyni við framkvæmdastjórn og leiðtogaráð ESB og í sparnaðarskyni fyrir íslenzka skattgreiðendur ber að stöðva aðildarferlið nú þegar. Segja á við ESB.: - Þróunin innan ESB hefur orðið allt önnur en búast mátti við, þegar Alþingi samþykkti aðildarumsókn. Þess vegna treystum við okkur ekki til að halda ferlinu áfram án þess að spyrja þjóðina beint, hvort hún vilji fá að sjá samning við ESB. - Alþingi skuldbindi sig til að hlíta vilja þjóðarinnar í þessu efni. Þetta verða talin eðlileg og lýðræðisleg viðbrögð lítillar þjóðar í vandasamri stöðu.
Það fer lágt á opinberum vettvangi á Íslandi, að erlendis er fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga talið meðal hinna bezt heppnuðu í heimi. Þann 25.02.2012 var fjallað í vikuritinu The Economist um sjávarútveg í greininni, "How to stop fishermen fishing". Byrjað er á að minnast á súrnun hafsins, sem rekja má til hlýnunar andrúmsloftsins og aukins koltvíildis þar. Þá er minnzt á ofveiðina, sem aðeins hefur tekizt að hamla gegn með kvótakerfi. Fiskveiðistjórnunarkerfi ESB er ýtir undir ofveiði. Tækniþróunin hefur aukið afköstin við veiðarnar gríðarlega. Sumir fiskistofnar hafa minnkað um 90 %, og tjónið af þessum völdum er talið nema um 50 miö USD á ári samkvæmt Alþjóðabankanum.
Þar sem fiskimiðin eru almenningur, en ekki í einkaeign kvótaeigenda, þar ríkir skammtímasjónarmið við veiðarnar og hjarðhegðun rányrkjunnar, sem reist er á sjónarmiðinu, að stundum við ekki ofveiði, þá muni aðrir verða tilþess.
"Á flestum miðum mundu sjómenn auka tekjur sínar með því að koma böndum á nýtinguna, og það ætti að vera unnt að byggja inn hvata í kerfið til slíks. Bezta leiðin er að veita þeim langtímaréttindi til nýtingar veiðihlutdeildar. Í þróuðum fiskveiðistjórnunarkerfum, eins og á Íslandi, Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum, hefur þetta þróazt yfir í framseljanlega, veðsetjanlega hlutdeild í veiðiheimildum. Þróunarríkjum, þar sem réttarfarið er brokkgengt, virðist ganga betur, þegar hópréttindum til fiskveiða á ákveðnu svæði er úthlutað til samvinnufélags eða þorpsútgerðar. Grunnurinn er sá sami: fiskimenn, sem finnst þeir vera eigendur, eru líklegri til að ganga um auðlindina með ábyrgum hætti en hinir, sem valsa í almenninginum. Ný tölfræðileg rannsókn bendir til, að útgerðir með eignarrétt á veiðuhlutdeild eru yfirleitt með heilbrigðari rekstur."
Þannig er það niðurstaða höfundar þessarar greinar í hinu virta tímariti, að einkaeignarréttarfyrirkomulagið á veiðihlutdeildum stuðli að sjálfbærum veiðum, en annars konar fyrirkomulag leiði til rányrkju. Það kemur líka fram í greininni, að þessi leið sé stjórnmálalega grýtt, því að sjómennskan hafi verið rekin áfram á veiðieðlinu og fæðusöfnun; taparar verði til við úthlutun eða viðskipti með aflahlutdeildir og öfund skapist. Allt kemur þetta heim og saman hérlendis. Aðalatriðið er, að fiskveiðar snúast ekki lengur um að draga bein úr sjó, heldur um að fullnægja þörfum viðskiptavinar á hörðum samkeppnimarkaði á réttum tíma. Að því leyti er enginn munur á nútímaútgerð og iðnaðarfyrirtæki, sem aflar sér hráefna með vinnslu úr eigin námu.
Íslenzka hagkerfinu ríður á, að sjávarútvegur lúti vísindalegri samfélagslegri stjórn á auðlindanýtingunni, eins og fæst með ákvörðun ráðuneytis á heildarafla á hverri tegund á hverjum miðum á hverjum tíma á grundvelli veiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, og nýtingin lúti síðan markaðslögmálum á grundvelli einkaeignarréttar á veiðihlutdeild (kvóta).
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.