Suðurganga

Hér áður fyrr voru það einatt nefndar suðurgöngur, er menn og konur á borð við Sturlu Sighvatsson og Guðríði Þorbjarnardóttur héldu í yfirbótargöngu til Rómar, nafla Evrópu á sinni tíð.  Hvað sem leið trúarlegri iðrun, er menn voru þá leiddir fyrir dyr sjö höfuðkirkna í Róm og húðstrýktir, eins og raunin var á um Sturlu, þá er hitt næsta víst, að ferðir þessar reyndu mjög á atgervi fólks, en urðu þeim til þroska, sem sluppu heilir á húfi.

Allt öðru máli gegnir um suðurgöngur þær, sem nú tíðkast til nafla ESB, Brüssel.  Sá undirfurðulugi stjórnmálaflokkur, er kallar sig Samfylkingu, en er í raun sértrúarsöfnuður, hefur með sértrúarlegum trúarákafa tekizt á hendur það pílagrímshlutverk að leiða íslenzku þjóðina inn í himnaríki sitt,  Evrópusambandið, ESB.  Er meiri glóra í því en í öðru trúarofstæki ?  Það er ástæða til að kryfja það.  Hvað þarf að vera fyrir hendi til að þessi leiðangur geti talizt eðlilegur ?

  1. 'I landinu þarf að vera tryggur meirihluti fyrir því að halda í svo afdrifaríka ferð.  Engin ríkisstjórn nokkurs staðar hefur lagt upp í slíka ferð án þess að vera einhuga um að ætla sér alla leið.  Hvergi, nema hérlendis, hefur þeirri fáránlegu hugmynd skotið upp kollinum, að sækja um aðild að ríkjasambandinu, ESB, til þess að komast að því, hvernig kaupin gerast á eyrinni.  Allir, nema sértrúarsauðirnir á Íslandi, sem hafa tekið þá trú, að þeir geti kastað öllum syndum sínum aftur fyrir sig með því að gangast undir jarðarmen ESB, hafa fyrirfram gert upp hug sinn á grundvelli hagsmunamats fyrir sitt land um, að þeir telji aðild að ESB þjóna hagsmunum sínum bezt.  
  2. Vandað hagsmunamat að hálfu stjórnvalda þarf að fara fram, og niðurstaða þess þarf að vera sú, að land og þjóð verði betur sett til framtíðar litið innan ESB en utan áður en umsókn er send.  Aðild er engin skyndilausn.  Aðildarumsókn er langtímastefnumörkun.  Engin slík rannsókn fór fram, svo að vitað sé, að hálfu þeirra stjórnvalda, sem knúðu Alþingi til að samþykkja umsókn 16. júlí 2009.  Hins vegar fór slík rannsókn fram fyrir 5-7 árum og lauk með útgáfu vænnar og fróðlegrar skýrslu nefndar, sem starfaði á breiðum grundvelli, einnig í stjórnmálalegu tilliti, og gefin var út í marz árið 2007.  Forystu fyrir þeirri nefnd hafði Björn Bjarnason, þáverandi ráðherra. Meginályktunin, sem draga mátti af skýrslunni, var sú, að aðild að ESB þjónaði ekki hagsmunum Íslands og EES-samningurinn gegndi enn hlutverki sínu og hann mætti þróa að breyttum aðstæðum.
  3. Löggjafinn, Alþingi, þarf að hafa sannfæringu fyrir réttmæti þess gjörnings fyrir umbjóðendur sína að sækja um aðild, þó að ekki sé nú krafizt aukins meirihluta þar.  Þessari kröfu hefur aldrei verið fullnægt, nema síður sé.  Allmargir þingmenn, sem samþykktu að heimila umsókn, lýstu því með skýrum hætti, jafnvel örlagaþrungnum, að þeir samþykktu heimildina í blóra við sannfæringu sína um, hvort réttmætt væri að ganga inn.  Þannig hófst þessi óheillaganga með Stjórnarskráarbroti, því að þingmenn skulu við atkvæðagreiðslur fylgja samvizku sinni og engu öðru samkvæmt Stjórnarskrá.  Að öllum líkindum mundi umsóknin falla um sjálfa sig, ef borin væri nú upp til atkvæða þingsályktunartillaga um að stöðva aðildarferlið.  Hvers vegna í ósköpunum kemur slík tillaga ekki fram, þegar þess er gætt, að aðildarferlið stórskaðar þjóðina, kostar stórfé og tíma stjórnkerfis ríkis og hagsmunaaðila og mun valda þjóðinni vandræðum í samskiptum við Evrópuþjóðirnar, þegar aðildarviðræðurnar steyta á skeri, sem þær reyndar sennilega hafa þegar gert, þó að því sé haldið leyndu ?

Engar af þremur grundvallarforsendum umsóknar eru uppfylltar.  Því má reyndar bæta við, að óðagot Samfylkingarinnar er óskiljanlegt í ljósi þess, að hún stendur langt til vinstri við gildandi efnahagsstefnu ESB, sem er stefna markaðsbúskapar.  Samfylkingin er á móti markaðsbúskap a.m.k. í aðalatvinnuvegi landsmanna.  Hér er um flausturslega ákvörðun um ferð án fyrirheits að ræða.  Sértrúarsöfnuðurinn tilbiður goð, sem ekki hrærist í neinum takti við söfnuðinn.  

Fyrir löngu er komið á daginn, að vinstri grænir sigldu undir fölsku flaggi í Alþingiskosningunum í apríl 2009.  Enginn með óbrenglaða heyrn og sjón gat skilið neinn frambjóðanda þeirra til þings þannig þá, að þeir mundu strax eftir kosningar vilja hefja samningaviðræður um aðild Íslands að ESB.  Hér eru á ferðinni mestu kosningasvik í sögu landsins.  Það þarf ekki sagnfræðing til að átta sig á því. Aldrei hefur nokkur stjórnmálaflokkur snúið svo skyndilega og algerlega við blaðinu eftir Alþingiskosningar og Vinstri hreyfingin grænt framboð.  Hún snerist á punktinum 180° og snýr enn þannig.  Fyrir vikið hefur hún nú ekki meira traust kjósenda og annarra stjórnmálaflokka en alkinn, sem biður um sjúss og segist síðan munu hætta.  Vinstri hreyfingunni grænu framboði er ekki hægt að treysta fyrir horn.  Forystan er samvizkulaus og traðkar á kjósendum sínum valdanna vegna. 

Þetta framferði er eins ólýðræðislegt og hugsazt getur.  Það er ekki hægt að útiloka, að slíka vá kunni að bera að höndum, að stjórnmálaflokkur telji sig knúinn til að söðla um eftir kosningar.  Ekkert slíkt átti við í þessu tilviki. Sé söðlað um, ber viðkomandi stjórnarflokki að kalla fram Alþingiskosningar hið fyrsta til að fá staðfestan stuðning við gjörðir sínar eða falla ella.  Þetta hefur Vinstri hreyfingin grænt framboð ekki gert.  Til þess skortir hana bæði lýðræðistryggð og hugrekki.  Hún mun uppskera sem hún hefur sáð til. 

Þvert á móti.  Hún hefur hangið á völdunum eins og hundur á roði þrátt fyrir upplausn í eigin þingflokki, m.a. vegna ESB-málsins.  Vinstri grænir gefa lýðræðinu langt nef, og þingræðið á heldur ekki upp á pallborðið, sbr Búsáhaldabyltinguna.  Vinstri grænir brutust til valda með ofbeldi og haga sér eins og bolsévikar í Rússlandi 1917-1920.  Svíkja á báða bóga og reka stjórnmálaandstæðinga sína rýtingi. Þeir munu fá að finna til tevatnsins, og er óþarfi að sýta það.  Farið hefur fé betra. Að þeim verður landhreinsun.

Gulrótin fyrir inngöngu Íslands í ESB átti eftir Hrunið að verða evran.  Þessi gulrót leit býsna girnilega út í augum allmargra á sinni tíð, en árið 2010 tók hún að fölna, og árið 2011 fór hún að morkna og er nú á fyrsta ársfjórðungi 2012 orðin óæt að mati þeirra, sem býðst annað. Undantekning er þó téður sértrúarsöfnuður. Veldur því Grikklandsfárið 2011-2012, sem kann að enda með bandalagi Grikkja og Rússa á Eyjahafi.  Yrði það hrikalegur bjúgverpill fyrir Brüssel.   

Framtíð evrunnar er enn óráðin, en óttalegum barningi má búast við frá slíkum bastarði.  Eðli hennar er þannig, að hún hentar aðeins sterkustu hagkerfunum, sem nota hana, einkum og sér í lagi þýzka hagkerfinu.  Hún hentar ekki einu sinni franska hagkerfinu, sem þó er nálægt því að ganga í takti við þýzka hagkerfið, en þolið og krafturinn er mun minni.  Opinber rekstur og miðstýring er og hlutfallslega mun meiri í Frakklandi en í Þýzkalandi og hagkerfi Frakklands þess vegna veikara. Franska hagkerfið má lúta í gras undan því þýzka, og líklegast er, að suður-evrópsku hagkerfin taki kollsteypu.  Þau eiga sér ekki viðreisnar von undir evru.  Falli Ítalía, fellur evran.  Hvað tekur þá við ?

Íslenzki forsætisráðherrann, svo kallaður smali, á ekki sinn líka um víða veröld.  Hún reyndist þjóðinni ekki happafengur, heldur slys. Hún er sú eina í sinni stöðu, sem gerir lítið úr mynt eigin þjóðar og kveður hana ekki vera á vetur setjandi.  Þetta sjónarmið er reist á vanþekkingu á eðli mynta.  Gengi myntar er mælikvarði á styrk og væntingar til þess hagkerfis, sem notar hana.  Hún lagar sig að hagkerfinu.  Hún bjargaði landsmönnum frá hruni útflutningsatvinnuveganna eftir Hrun fjármálakerfisins.  Ef önnur mynt er, koma veikleikar hagkerfisins fram öðru vísi, þ.e. með stöðnun, jafnvel samdrætti, miklu atvinnuleysi og enn meiri skuldasöfnun en ella. 

Margir þeirra, sem vilja gefast upp á sjálfstæðri hagstjórn hérlendis, telja, að krónan verði landsmönnum fjötur um fót um ókomna tíð.  Það er of snemmt að fullyrða það, því að öguð og samræmd hagstjórn peningamála og ríkisfjármála hefur aldrei verið viðhöfð á Íslandi.  Það er hins vegar nú næg þekking til að viðhafa slíka hagstjórn.  Vilji er allt, sem þarf.  Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics, telur brýnt að afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst og telur, að það sé raunhæft í framkvæmd á 3 mánuðum.  Hér skal taka undir það og minna á pennstrik Dr Ludwigs Erhards um 1953 í Vestur-Þýzkalandi.  Þetta er þó aðeins ráðlegt, að tryggt hafi verið mikið og sjálfbært flæði erlends fjármagns til landsins á formi fjárfestinga.  

Í tímaritinu Þjóðmálum, á Alþingi og í stofnunum Sjálfstæðisflokksins, hafa sjálfstæðismenn lagt á ráðin um, hvernig ná megi stöðugleika í hagkerfinu.  Með hina miklu framleiðslugetu Íslands á mann er unnt að ná slíkum stöðugleika og honum verður að ná, hvað sem það kostar, hvort sem stefnt er að nýrri mynt eða ekki.  Það er mikill misskilningur að halda, að myntbreyting sé aðferð til að ná stöðugleika.  Um þetta eru ýmis dæmi.  Myntbreyting getur komið, eftir að búið er að ná stöðugleika, ekki á undan. 

Ef skipt yrði um mynt án þess fyrst að ná nauðsynlegum stöðugleika, eins og t.d. skilgreindur var í Maastricht í Hollandi um 1992 sem undanfari að evrunni, þá verður suður-evrópskt ástand í hagkerfinu, hagkerfið verður ósjálfbært, þ.e. það nær sér alls ekki á strik, það lendir í vítahring samdráttar og niðurskurðar innviða samfélagsins.  Þetta ástand mun valda samfélagslegum óróleika, verkföllum, óeirðum og að lokum verður þjóðargjaldþrot og viðjar hinnar framandi myntar verðar slitnar með látum.  Það er ekki flókið að gera upp hug sinn um, hvert skal halda, ef menn láta ekki flækjufætur villa sér sýn.  Flækjufætur sértrúarsafnaða eru óvænlegir til leiðsagnar og forystu.          

   Þróun EES-samningsins     

                              


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Bjarni minn ,,Aldrei fór ég suður,,

Helga Kristjánsdóttir, 24.3.2012 kl. 02:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Þú segir, eins og Loftur Jónsson í Odda:"Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu".

Meginmálið er, að fari menn suður, þá fari þar frjálsir menn og verði ekki stefnt utan til að sæta refsingum eða að meðtaka skyldugan boðskap.  Frelsið öllu ofar.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 24.3.2012 kl. 12:10

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

þetta er góður pistill að flestu leyti. Ef ekki væri þjóðarváin, flokkur frjálshyggjunnar handan við hornið þá væri einboðið að varpa þessari ríkisstjórn út úr stjórnsýslunni.

En svo fór ég að lesa næsta pistil á undan og hann er um verðmætasköpun. Þá féll mér allur ketill í eld. Það er semsagt samdóma álit ykkar Ragnars Árnasonar að aflamarkskerfið/ brottkastskerfið sé það ESB - himnaríki sem frjálshyggjuþjóðin Ísland eigi að treysta fyrir afkomendur sína.

Það á að vera refsivert að viðhalda stjórnkerfi í nýtingu lífríkis sem beinlínis krefst þess að afrakstri sé tortímt á jafn sóðalegan máta og aflamarkskerfið segir til um óbeinlínis.

Þú kaupir þér heimild til að veiða tonn af fisktegund.

Þú veiðir stærðarflokk sem skilar milljón.

Þú veist af öðru skipi sem er að veiða annan stærðarflokk og hann skilar þrem milljónum.

Þú átt þess kost að fleygja farminum og flytja þig þangað sem dýrari aflinn fiskast.

En þú ert strangheiðarlegur samkvæmt útrteikningi Ragnars Árnasonar og ferð í land með þinn afla og tapar tveim milljónum.

Eða hvað?

Í sóknarmarkskerfi (sem LÍÚ og Ragnar Árnason mega ekki heyra nefnt) átt þú einhvern ákveðinn fjölda veiðidaga. Hvort þú veiðir verðmætan fisk eða verðlítinn það skiptir máli en þú átt engan kost á því að hafa áhrif á verðmæti aflans. Allt sem þú kemur með í land eru verðmæti og allt sem þú hendir í sjóinn er hreint tap. ÖFUGT VIÐ ÞAÐ SEM GERIST 'I AFLAMARKSKERFINU !

Hvorki prófessorar við Háskóla né verkfræðingar geta boðið sjálfum sér upp á argasta bull í pólitískum ályktunum um mikilvægustu auðlind þjóðarinnar.

En gera það samt.

Hvers vegna í ósköpunum?

Árni Gunnarsson, 24.3.2012 kl. 17:42

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég þarf að leiðrétta nafnið á Oddahöfðingjanum hér að ofan.  Að sjálfsögðu var átt við Jón Loftsson, stórhöfðingja.

Sæll, Árni;

Þú gerir því skóna, að afnotaréttur á aflahlutdeild, s.k. kvótakerfi, sé líklegra til að leiða til ofveiði en t.d. sóknarmarkskerfi.  Þetta er órökstudd aðdróttun hjá þér og styðst ekki við nokkrar vísindalegar rannsóknir, svo að ég viti til, að ekki sé nú minnzt á öryggi sjómanna og meðferð aflans.  Þvert á móti benda allar rannsóknir, sem ég hef séð útlistaðar, til, að þetta afmarkaða eignarhald á kvótanum leiði til þess, að langtímasjónarmiðum sé gert hærra undir höfði í rekstrinum og þar af leiðandi sé umgengnin um auðlindina betri og nýting hennar líklegri til að vera sjálfbær en raunin er á um með önnur kerfi.  Í téðum pistli um Verðmætasköpun vitnaði ég í grein í enska tímaritinu "The Economist" þessu til sönnunar, og ég get vitnað í aðra grein í sama tímariti, "Lost property", frá 25. febrúar 2012, en þar segir í lauslegri þýðingu:

"Framar öðru þurfa sjómenn betri hvata til góðrar umgengni við lífríki sjávar.  Þetta hefur verið reynt með ýmsum hætti.  Á Íslandi og víðar er um að ræða framseljanlega hlutdeild úr vísindalega ákvörðuðum heildarafla.  Eða hægt er að veita sjómönnum langæ réttindi - í líkingu við eignarréttindi - yfir ákveðnum miðum eða svæðum, eins og sniglaveiðimenn í Chile hafa.  Samkvæmt rannsókn herra Costello, Gaines og annarra, þá virkar þessi aðferðafræði: fiskimið, þar sem slík réttindi eru við lýði eru helmingi ólíklegri til að hrynja vegna ofveiði en fiskimið eru að meðaltali."

Árni Gunnarsson: nú stendur upp á þig að finna stað kenningu þinni um, að sóknarmark leiði til betri umgengni um miðin en aflamark.  Það er ekki nóg að setja sig á háan hest, ef hrossið reynist argasta bikkja,eys og prjónar.  Þá verða aðrir á undan, jafnvel fótgangandi.

Kveðja /

Bjarni Jónsson, 24.3.2012 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband