29.3.2012 | 21:46
Hagsmunavernd
Hverjir eru meginhagsmunir íslenzkrar alþýðu ?
- að geta búið að sínu í góðu öryggi í frjálsu landi
- að í landinu sé mikil (yfir 80 % af vinnufærum) atvinnuþátttaka og lítið (minna en 3% af launþegum) atvinnuleysi
- hár kaupmáttur og ráðstöfunartekjur, þ.e. sambærilegur við það bezta, sem gerist á Norðurlöndunum
Ísland er stórt land m.v. mannfjölda, þ.e. aðeins um 3,1 íb/km2. Þetta er einn af kostum búsetu á Íslandi að margra mati, en jafngildir hærri samfélagslegum kostnaði en annars staðar, þó að land sé vissulega ódýrara fyrir vikið. Landið er fjarri alfaraleið, sem einnig er kostur að sumra mati, en hækkar óneitanlega verðlag í landinu, eins og fámennið sjálft. Á móti þessum kostnaðaraukum kemur t.d. gnótt endurnýjanlegra orkulinda og þar af leiðandi lágur orkukostnaður. Til þess að gæta hagsmuna almennings, sem taldir eru upp að ofan, og samtímis að standa undir tiltölulega háum búsetukostnaði í landinu, er aðeins ein leið: að atvinnugreinar landsins sýni hærri framleiðni en víðast hvar þekkist og að auðlindir landsins séu nýttar, eins og sjálfbærni og afturkræfni leyfir. Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:
- Orku-og iðnaðarmál: Það ber að setja vatnsaflsvirkjanir á oddinn samkvæmt hinni raunverulegu Rammaáætlun, en ekki afbökun Svandísar Svavarsdóttur á miklu og faglegu starfi undir stjórn Sveinbjörns Björnssonar, fyrrverandi háskólarektors. Það er áhugi hjá erlendum stórfyrirtækjum fyrir fjárfestingum hérlendis, t.d. í álgeiranum. Borgaraleg ríkisstjórn mun vafalaust, eftir næstu Alþingiskosningar, kynna hugsanlegum kaupendum raforku gjörbreytt viðhorf íslenzkra stjórnvalda um eflingu íslenzks atvinnulífs með uppbyggingu iðnaðar í landinu, sem þarf mikla raforku. Verður þar heilbrigð skynsemi leidd til öndvegis, en sérvizkulegum og hugdettum sérvitringa kastað fyrir róða, enda gjörsamlega framfarahamlandi og þar með ávísun á stöðnun atvinnulífs og lakari lífskjör. Samkvæmt óbrenglaðri Rammaáætlun má enn virkja og framleiða um 10 TWh/a af vatnsorku án þess að ganga á verðmæt náttúrufyrirbæri. Þetta er nóg fyrir eitt nýtt stórt álver og viðbætur annars orkukræfs iðnaðar. Það hlýtur ennfremur að verða settur kraftur í að framleiða metanól og etanól úr repju og öðru til blöndunar í jarðefnaeldneyti og sem hreint eldsneyti á farartæki og fiskiskipaflotann. Til þess þarf varmaorku og þar kemur jarðgufan til sögunnar sem kjörinn orkugjafi og hráefnisgjafi í slíka framleiðslu. Með jarðvarmanýtingu til eldsneytisframleiðslu fæst viðunandi nýting á jarðgufunámunni og gjaldeyrissparnaður gæti numið 50 miö. kr á ári. Tafastefna ríkisstjórnarinnar á þessu sviði er hamlandi fyrir viðreisn lands og þjóðar.
- Sjávarútvegsmál: Stórhættulegt einkenni á stjórnmálamönnum, sem hallir eru undir forræðishyggju, er, að þeir telja sig vita betur en atvinnulífið, hvernig reka ber fyrirtæki, og hvernig hagkvæmast er fyrir þjóðfélagið að haga leikreglum í athafnalífinu. Algengasta meinloka þessara "besserwissera" eða beturvita, sbr menningarvita, er að taka markaðsöflin úr sambandi í sótthitakenndri tilraunastarfsemi í nafni "sanngjarnrar dreifingar á auðlindaarði (auðlindarentu)". Slagorð er gert að undirstöðu aðfarar að sjávarútveginum og niðurrifi atvinnuöryggis og launatekna fjölda fólks ásamt rýrnandi tekjum til hins opinbera. Því fer víðs fjarri, að stjórnarflokkar og Hreyfing hafi hugsað þetta mál af viðunandi íhygli og þekkingu né reiknað dæmið til enda. Með nýja frumvarpinu um stjórnun fiskveiða er verið að saga í sundur greinina, sem þjóðin situr á. Lýðskrumið endurspeglast í eftirfarandi slagorði: "Þjóðinni tryggður réttmætur arður af auðlindum sjávar". Um þetta eiga við fleyg orð Sir Winston Churchills, foringja íhaldsmanna Bretlands á örlagastundu: "Socialism is about equal sharing of misery" eða "Jafnaðarstefnan snýst um jafna útdeilingu eymdar". Hverju er almenningur í þessu landi bættari með þjóðnýtingu aflamarksins og ofurskattlagningu á sjávarútvegsfyrirtækin ? Eigið fé fyrirtækjanna hverfur, framlegðin hverfur nánast alveg, svo að engin geta verður til fjárfestinga, launagreiðslugeta snarminnkar, atvinnuöryggi minnkar, og tekjuskattur til ríkisins nánast hverfur. Eftir standa tímabundnar tekjur af veiðileyfagjaldi, sem vinstri stjórnin mun nýta í gæluverkefni svo lengi sem á nefinu stendur. Þessi fáránleiki er tortímingarárátta vinstri manna gagnvart verðmætasköpun í atvinnulífinu. Hún hefur alls staðar gefist ömurlega, og það er hreinræktuð heimska að halda lengra inn á þessa braut. Auðvelt er sýna fram á það reikningslega, að þjóðhagslega verður af þessu tjón, sem færa mun hreinar tekjur landsmanna umtalsvert niður. Það er verið að undirbúa mikinn verðmætabruna í nafni ofangreinds slagorðs. Þessi árátta vinstri manna hefur haldið sjávarútveginum í spennitreyju óvissunnar allt kjörtímabil núverandi Alþingis. Þetta brölt stjórnmálamanna með undirstöðuatvinnuveg landsmanna á eftir að koma heiftarlega niður á lífskjörum í landinu, ef þeir ná fram ætlunarverki sínu að afnema afnotarétt útgerðarmanna á aflahlutdeild ásamt frjálsum framsalsrétti og veðsetningarrétti. Það er margsannað, að frjáls markaður tryggir hámarksarðsemi af auðlindum, og fyrirtæki á frjálsum markaði greiða hærri laun og hærri opinber gjöld en fyrirtæki í spennitreyju opinberra afskipta. Ef sjávarútvegurinn fær ekki frið fyrir barnalegri tilraunastarfsemi um leigu afnotaréttar og sérskattlagningu, sem nefnd er því vitlausa nafni auðlindagjald, en er sérskattlagning á fyrirtæki í harðri alþjóðlegri samkeppni, svo vitlaust, sem það nú er, þá missir hann stöðu sína til að standa uppi í hárinu á niðurgreiddum samkeppniaðilum á erlendum mörkuðum. Þessi þjóðnýting er þjóðhættuleg og gegn henni verður barizt með öllum tiltækum ráðum, ekki sízt í dómssölum. Það er ekki hægt að saka höfund þessa pistils um að vera handhafa téðs afnotaréttar, en hann telur einsýnt, að þjóðhagsleg hagkvæmni sjávarútvegs muni hrapa með fyrirhuguðu glapræðislegu inngripi stjórnvalda, sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar. Það er kominn tími til í þessu landi að líta raunsætt á rekstrarmál og arðsemi fyrirtækja. Hagsmunir launþega, ríkissjóðs, sveitarsjóða og alls almennings eru háðir sterkum og vel reknum fyrirtækjum. Sameignarstefna ríkisstjórnarinnar drepur niður samkeppnihæfni sjávarútvegs, alþjóðlega markaðsstöðu hans, launagreiðslugetu og greiðslugetu í sameiginlega sjóði landsmanna. Hér má bæta við, að sjómannasamtökin eru gegn veiðigjaldinu, eins og höfundur þessa pistils. Hann er jafnframt þeirrar skoðunar, eins og þau, að gögn um verðlagningu fiskjar eigi að vera aðgengileg og sannreynanleg af endurskoðendum og fulltrúum sjómanna, og e.t.v. eru þau það nú í flestum tilvikum, enda er t.d. hætta á, að ella verði misbrestur á samningsbundnum launagreiðslum til sjómanna.
- Peningamálastefnan: Til að fyrirtækin í landinu og þjóðlíf allt þrífist, verður fullt frelsi að ríkja á peningamarkaðinum. Núverandi stjórnvöldum vex mjög í augum að afnema gjaldeyrishöftin. Ferill vinstri stjórna Íslandi er með þeim hætti, að því má gera skóna, að vinstri mönnum sé ekki svo leitt sem þeir láta að viðhalda höftum og treysta þau í sessi. Má í því sambandi benda á feril þeirra á síðasta haftatímabili, 1930-1960, sem stóð lengur á Íslandi en í nokkru öðru lýðræðisríki. Notuðu stjórnmálamenn í valdaaðstöðu sér purkunarlaust þetta kerfi til að hygla vinum og vandamönnum og þeim fyrirtækjum, sem þeim voru þóknanleg. Var svo kölluð höfðatöluregla illræmdust, en hún var til þess fallin að efla kaupfélögin á kostnað kaupmanna, því að fyrirtækin fengu úthlutaðan gjaldeyri í réttu hlutfalli við félagsmenn í samvinnufélaginu eða fjölskyldustærð kaupmanns. Má gera ráð fyrir, að spilling sé þegar tekin að grafa um sig vegna gjaldeyrishaftanna, og menn farnir að auðgast á gengismismuni hérlendis og erlendis. Vinstri menn fara hins vegar undan í flæmingi, þegar afnám haftanna ber á góma, og eru þá jafnráðalausir og gagnvart öllum öðrum opinberum viðfangsefnum, sem þeir hafa spreytt sig á. Til að stemma stigu við útstreymi fjár, sem læstist hér inni við Hrunið, þarf að setja löggjöf um hámark útstreymis Jöklabréfa o.þ.h. á ári, þannig að eigendurnir geti farið utan með féð á 10 árum, ef þeir kæra sig um það, en gjaldeyrisviðskipti almennings og fjármagnsflæði á vegum fyrirtækja, innlendra og erlendra, verði gefin frjáls. Fyrst þarf þó að undirbúa miklar erlendar fjárfestingar í landinu til eflingar krónunni. Ríkisstjórnin er ófær um að móta peningamálastefnu, sem tryggir stöðugleika til langframa, en ætlar þó inn í ESB og taka upp evru. Þetta er algerlega ósamrýmanlegt. Hjá vesalings vinstri stjórninni rekur sig hvað á annars horn. Stöðugleiki peningamálanna er grundvöllur að öflugu hagkerfi og kjarabótum almennings. Það er hárrétt hjá verkalýðshreyfingunni, ASÍ, og annað er íbúum þessa lands ekki bjóðandi, enda tæki og tól fyrir hendi til að framkvæma þetta með almennilegum meirihluta á Alþingi.
Það er ljóst, að núverandi ríkisstjórn gerir allt þveröfugt við það, sem gagnast má hag almennings í þessu landi. Þetta er öfugmælaríkisstjórn með hagsmuni almennings á vörunum, en öll hennar verk eru til þess eins fallin að útdeila eymdinni jafnt á meðal fólks, eins og íhaldsmaðurinn og leiðtogi Stóra-Bretlands á ögurstundu hafði á orði um jafnaðarmenn.
Á hinn bóginn er fyrir hendi góð þekking á því, hvaða aðferðir duga bezt til að bæta kjör alls almennings með varanlegum hætti, og hefur það að nokkru verið rakið hér. Aðeins borgaralegu stjórnmálaflokkarnir eru líklegir til að nýta sér þau tæki og tól með ákvörðunum á Alþingi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.