Akkilesarhæll Evrópu

"Evruvandinn mesta ógnin" er fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu 23. maí 2012.  Þessi greining var ekki gerð í Hádegismóum, heldur hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni.  Síðan degir:

"Helzta ógnin við efnahagsbata í heiminum er skuldavandi og stöðnun í 17 ríkjum evrusamstarfsins, segir í nýrri skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD."  Christine Lagarde, forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Frakklands, tók á dögunum afstöðu með þeim, sem vilja, að Seðlabanki ESB, ECB, gefi út ESB-skuldabréf.  Þar með hefur hún lagzt á sveif með Hollande og Suður-Evrópublokkinni gegn Þýzkalandi og Norður-Evrópu.  Hljóðið í Þjóðverjum er þannig, að mjög ólíklegt er, að þýzka þingið muni samþykkja þetta fyrir kosningarnar haustið 2013.  Nú er svo komið, að kratar gætu hæglega komizt í ríkisstjórn Sambandslýðveldisins eftir þessar kosningar, og þá óttast margir Þjóðverjar kúvendingu í þessum efnum.

Þýzka þjóðin er ekki lengur haldin sektarkennd stríðskynslóðarinnar og þeirra næst á eftir.  Hún telur ósanngjarnt og algerlega vonlaust verk að ausa úr sjóðum Þýzkalands í botnlausa hít Suður-Evrópu, þar sem er gríðarlegur opinber rekstur og landlæg spilling. 

Hæll Akkilesar er mjög í umræðunni þessi misserin vítt og breitt um heiminn og ekki sízt í Evrópu.  Evrópa er talin sjúklingurinn í efnahagslífi heimsins, og það versta er, að verði, meinið ekki fjarlægt, á sjúklingurinn sér enga batavon. Það, sem átt er þá við, er evran.  Sameiginlega myntin, sem verið hefur 12 ár við lýði, er að ganga af hagkerfi margra Evrópulanda dauðu, en hagkerfi, sem ekki getur séð þegnum sínum nokkurn veginn fyrir fullri vinnu til langframa er einskis nýtt og raunar dautt.  Þessi kunna að verða örlög flestra landa evrusvæðisins, þar sem vextir eru nú hærri en hagkerfin ráða við með örfáum undantekningum.  Nafnvextir á þýzkum ríkisskuldabréfum eru hins vegar komnir niður í 0, og raunvextirnir eru þess vegna neikvæðir.  Þetta ástand er sjúklegt, og hlýtur að enda með ósköpum.  

Íslendingar búa reyndar nú við óskiljanlega háa vexti, þó að þeir hafi ekki tekið upp evru og skorti reyndar allar forsendur til þess undir frámunalega lélegri stjórn peningamála og ríkisfjármála.  Alls staðar sitja þar gamlaðir vinstri menn á fleti fyrir, og furstinn af Svörtu loftum, gamall aðdáandi Trotzkys, byltingarforingja bolsévíka, verður embætti sínu reyndar hvað eftir annað til háborinnar skammar. 

Í evrulöndunum eru svo hrikalegar andstæður, að nánast óhugsandi er, að þetta harðlæsta myntsamstarf fái þrifist að óbreyttu.  Stærstu þjóðirnar munu þurfa að gjörbreyta um stefnu, ef dæmið á að ganga upp.  Með öðrum orðum þarfnast evran umbóta á efnahagskerfi Frakklands, sem er allt of miðstýrt og ríkissjóður Frakklands mergsýgur franska hagkerfið í anda Napóleóns Bónaparte; Þjóðverjar þyrftu að tileinka sér eyðslusemi og sætta sig við mun meiri verðbólgu en nú er í Þýzkalandi og meiri en tíðkast í hinum ríkjunum, og Ítalir þurfa að tileinka sér aukinn stjórnmálaþroska, en þar hefur ríkt stjórnmálalegur óstöðugleiki frá lokum Heimsstyrjaldarinnar seinni, og þeir sitja nú uppi með ókosinn forsætisráðherra í skjóli búrókratanna í Brüssel.

Þjóðverjar bera nú orðið Ægishjálm yfir aðrar þjóðir evrusvæðisins, hvað samkeppnihæfni varðar.  Ástæðan er m.a. sú, að eftir endursameiningu Þýzkalands árið 1990 varð verðbólga í Þýzkalandi meiri en Þjóðverjum þótti góðu hófi gegna.  Það varð því þjóðarsátt í Þýzkalandi um að herða sultarólina og stöðva launahækkanir um hríð.  Ríki og fylki tóku líka til hjá sér.  Þjóðverjar náðu verðbólgunni vel niður fyrir 2,0 %, sem er viðmið ECB, banka Evrópusambandsins, ESB, þó að hún sé um þessar mundir 2,1 % vegna hækkana á eldsneyti, hrávöru og matvælum.

Um miðjan 1. áratug 21. aldarinnar höfðu aðhaldsaðgerðir Þjóðverja staðið í einn áratug og borið svo góðan árangur, að hagkerfi þeirra var orðið hið samkeppnihæfasta á evrusvæðinu.  Er þarna fagurt fordæmi fyrir Íslendinga að leita í smiðju Þjóðverja um styrka hagstjórn, sem nýtur svo mikils trausts fjármálamarkaða, að vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins eru engir orðnir. Nú rotta skussarnir sig saman og munu reyna að fá Þjóðverja til að borga sukkið.  Það hriktir í stoðum ESB.   

Aðrar þjóðir sváfu flestar á verðinum og vöknuðu upp við það, að framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuvega þeirra var kominn algerlega úr böndunum.  Evran hafði hækkað upp úr öllu valdi vegna hins gríðarlega styrks þýzku útflutningsvélarinnar.  Nú höktir allt evrusvæðið utan Þýzkalands og mænir til Þjóðverja eftir ölmusu.  Það er borin von þessara landa, að Þjóðverjar breyti nú lifnaðarháttum sínum og hætti á, að verðbólgan grafi um sig í þjóðfélagi þeirra.  Hin ríkin munu þess vegna aðeins ná sér á strik, ef verðbólgan hjá þeim verður minni en í Þýzkalandi, og þá eiga þessar þjóðir á hættu vítahring verðhjöðnunar, en út úr honum getur reynzt erfitt að komast.  Evrulöndin eru í illvígum vítahring, en þau skyldu minnast þess, að það voru ekki Þjóðverjar, sem báðu um þessa evru.  Það voru Frakkar, sem gerðu það að skilyrði fyrir samþykkt á endursameiningu Þýzkalands, að Þjóðverjar legðu niður stolt sitt, die Deutsche Mark, DEM. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verst hafa Grikkir farið út úr evrusamstarfinu.  Á 6 ára skeiðinu, 2007-2012, hefur samdráttur gríska hagkerfisins numið um 20 %.  Þetta er með ólíkindum og sýnir, að gríska hagkerfið er að hruni komið.  Þar er atvinnuleysi ungmenna 50 % og í heildina líklega að verða 25 %.  Miðstéttin er að verða fátækt að bráð, og það á við víðar í Suður-Evrópu.  Þess vegna mun allt fara í bál og brand. 

Árið 2013 munu ríkisskuldir Grikklands nema rúmlega 160 % af VLF þrátt fyrir allar niðurfellingarnar.  Það ræður engin þjóð við svo miklar skuldir, sízt af öllu þjóð í stöðugum samdrætti.  Þetta getur aðeins endað á einn veg fyrir Grikkjum; með þjóðargjaldþroti.  Afleiðing núverandi ástands er stjórnmálaleg upplausn, og hún mun valda því, að björgunarsjóður evrunnar mun halda að sér höndum, og þá er evrusagan öll í Grikklandi.

Þar með munu þeir hrökkva út úr evrusamstarfinu.  Þegar tekur að kvarnast úr því, er líklegt, að ekki verði ein báran stök. Löndin á Pýreneaskaganum verða næstu fórnarlömbin á eftir Grikkjum.  Hvorki Portúgalir né Spánverjar geta búið við núverandi vexti Mario Draghi í Frankfurt né ávöxtunarkröfu yfir 6 % á ríkisskuldabréfum, sem nú er reyndin.  Mia EUR 100 vantar inn í spænska banka, því að vanskilin eftir eignabólu og í miklu (yfir 20 %) langvarandi atvinnuleysi eru gríðarleg.

Francois Hollande ætlar að blása lífi í hagvöxt Frakklands með lántökum að hætti krata og með fjölgun opinberra starfa.  Hollande hefur sennilega búrókratana í Berlaymont á sínu bandi og sömuleiðis Suður-Evrópu.  Á móti þessu standa Þjóðverjar og fjármálamarkaðirnir, sem lánað hafa þessum löndum stórfé.  Þeir trúa ekki á aukningu ríkisumsvifa sem lausn á vanda þessara ríkja.  Allt stefnir í átök norðurs og suðurs, og evran í sinni núverandi mynd mun auðvitað ekki lifa þau af.

Inn í þetta öngþveiti eiga Íslendingar náttúrulega ekkert erindi.  Evran var aldrei annað en stjórnmálaleg della.  Landsmenn verða að ná tökum á sínum málum sjálfir.  Að því loknu geta þeir tekið sjálfstæða ákvörðun um, hvaða mynt þeir kjósa að nota.  Það er hjákátlegt að halda viðræðum áfram um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, sem logar stafnanna á milli, en hefur samtímis í margvíslegum hótunum við Íslendinga út af Icesave fyrir Eftadómstólinum og í samkrulli við samkeppniaðila okkar og frændur, Norðmenn, út af makrílnum, sem nýhlaupinn er á snæri okkar Íslendinga og skilar um þessar mundir um 30 milljörðum kr útflutningsverðmætum.  Stuðningsmenn áframhaldandi aðlögunarviðræðna á þingi hafa undarlega innréttað toppstykki, svo að vægt sé til orða tekið.

Það á að binda endi á þessar viðræður strax með fyrirvara, leggja spilin á borðið fyrir kjósendur og leita staðfestingar þeirra á viðræðuslitum samhliða næstu Alþingiskosningum.  Til þess eru næg efnislek rök, sem beita má á þann hátt, að mótaðilinn þurfi ekki að ganga sneyptur frá borði, heldur hafi ástæðu til að skilja, að forsendur "samningaviðræðna", sem í raun eru ekkert annað en aðlögun að kröfum og stjórnkerfi ESB, hafa tekið kollsteypu.            

      Akkilesarhæll 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband