Afturhaldið reiðir til höggs

Fikt og fúsk Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, er siðlaust og þjóðhagslega stórskaðlegt. Allt snýst í höndum siðblindra hatursmanna athafnalífsins, enda skilja slíkir fátt og alls ekki, hvernig verðmætin verða til.  Hinar skapandi stéttir eru í öllum starfsgreinum, en ekki einvörðungu á ríkisjötu sameignarsinnanna.  Hinar skapandi stéttir eru ekki froðusnakkar á fjölmiðlum.  Stefna hinna vinstri sinnuðu stjórnmálamanna við völd er að koma einkaframtakinu á kné, svo að fleiri verði háðir ölmusu frá stjórnmálamönnum.  Þetta er ráðstjórn að verki.  Þjóðin er að átta sig á lygavef vinstri stjórnarinnar, og talsmenn þessara brengluðu sjónarmiða munu ekki ríða feitum hesti frá næstu Alþingiskosningum og vonandi ekki þar næstu heldur.

Ofstækismennirnir fullyrtu, að þeir væru að leiða "auðlindarentuna" ofan í vasa almennings.  Þetta er hræsni froðusnakka, sem bera ekkert skynbragð á umfjöllunarefnið eða vinna markvisst að því að grafa undan arðbærni einkaframtaks í sjávarútvegi. Ekkert er fjær sanni en einvörðungu sé lagt hald á auðlindarentuna.  Það er vegna þess, að vegna niðurskurðar aflaheimilda og sérsköttunar á formi auðlindagjalds, sem þegar er fyrir hendi hér, en hvergi annars staðar á byggðu bóli, finnst engin auðlindarenta í sjávarútveginum nú, enda á hann í harðvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg erlendis.  Fé verður hins vegar, gangi áform óvitanna eftir, veitt úr vösum almennings til milliliða á vegum ríkisins, til ríkisleiguliða og að lokum til niðurgreiðslna á ósjálfbæru stjórnkerfi fiskveiða.  Stærsti "kvótagreifinn" verður sjávarútvegsráðherra.  Þetta er tær afturhaldsstefna, enda er hér horfið aftur til fortíðar í stjórnarháttum. 

Ráðstjórnarkerfi sjávarútvegsráðherra leiðir til mun verri afkomu sjávarútvegsins í heild og almennings í landinu en núverandi aflahlutdeildarkerfi.  Eignarhlutdeild í veiðiheimildunum og frjálst framsal eignarhlutdeildar er fyrirkomulag, sem gefur mest til íslenzka þjóðarbúsins og þar með í vasa almennings. Þetta hefur verið sýnt fram á af virtum innlendum hagfræðingum, og þetta er í samræmi við alþjóðlegar niðurstöður.  Framleiðni hvers íslenzks sjómanns er 80 föld meðalframleiðni hvers sjómanns í heiminum. 

Allir hagfræðingar, sem vilja láta taka sig alvarlega, og allir höfundar umsagna um skaðræðisfrumvörp sjávarútvegsráðherra, eru á einu máli um þjóðhagslega kollsteypu, ef skaðræðisfrumvörp Steingríms Jóhanns verða að lögum.  Þá standa eftir hugleiðingarnar um réttlætið.  Hvaða réttlæti er fólgið í því að rífa eignir (aflahlutdeildir) og réttmæt réttindi til ráðstöfunar á þeim af einum og færa þær öðrum á silfurdiski ? Það er réttlæti þess með horn og klaufir, sem alls staðar hefur endað með hörmungum, þar sem það hefur verið reynt. Stjórnmálamenn eiga ekki að handstýra atvinnuvegunum.  Það eru hins vegar ær og kýr vinstri manna að útdeila "réttlætinu" eftir eigin höfði, en það leiðir undantekningarlaust til lægri tekna, aukins kostnaðar, missis viðskiptavina og að lokum til upplausnar og fátæktar. Réttlætið er raunar aðeins í nösunum á þeim, því að tilgangurinn helgar meðalið.  Markmið allaballanna gömlu er að koma hér á ráðstjórn.  Sannast mun hér hið fornkveðna, að skamma stund verður hönd höggi fegin.   

Einn étur upp eftir öðrum, að útgerðarmenn eigi ekki fiskinn í sjónum.  Það er merkikertisleg og framsetning á einfaldri staðreynd.  Enginn á óveiddan fisk í sjónum, enda syndir hann inn og út úr landhelginni.  Fiskimiðin eru hins vegar almenningur, þar sem Alþingi hefur falið framkvæmdavaldinu að takmarka veiðarnar til að hámarka afraksturinn til langs tíma, og allir viðurkenna nauðsyn þess að ákvarða veiðimagnið með vísindalegum hætti, af því að veiðigetan er miklu meiri en sjálfbær afrakstursgeta.

Einn hópur manna, útgerðarmenn, hefur hætt fé sínu til fjárfestinga í veiðiréttindum og fiskiskipum ásamt búnaði.  Enginn annar en þessi hópur á siðferðilegan rétt á að njóta hagnaðar, sem af þessari starfsemi kann að hljótast.  Það er hér, sem öfundarmenn og hælbítar athafnamanna, andlegir kreppumenn Karls Marx, koma til skjalanna og beita fyrir sig innantómum frösum um, að þjóðin verði að fá að njóta arðsins af eign sinni, fiskveiðiauðlindinni. Þjóðin er ekki í neinum skilningi eigandi, sem gert getur kröfu um arð af sjávarauðlindinni umfram skattheimtu, sem tíðkast af öðrum fyrirtækjum. Hér er staðreyndum þess vegna snúið á haus og mikil ósanngirni höfð í frammi gagnvert fjárfestunum og starfsmönnum þeirra, enda er það mála sannast, að ekkert fyrirkomulag fiskveiða er betur fallið til sjálfbærrar nýtingar til langs tíma og hámarks afraksturs þjóðarbúinu öllu til handa.

Í frumvarpi hins heillum horfna allsherjarráðherra, hins stjórnmálalega svikula Steingríms Jóhanns Sigfússonar, er að finna áform um stórtæka skerðingu veiðiréttar aflamarksskipa.  Tekinn er umtalsverður hluti aflamarks í flestum tegundum og 40 % af aukningu aflamarks umfram skilgreind mörk í þorski, ýsu, ufsa og steinbít af aflamarksskipum og færð yfir til ríkisins.  Þetta er eignarnám og stjórnarskráarbrot. Þessu aflamarki á síðan að ráðstafa til leigu á kvótaþingi, og er ætlunin m.a. að stuðla að nýliðun í greininni.  

Þetta er forkastanleg ráðstöfun, ólögmæt og hagfræðilegt glapræði, vegna þess að fleiri menn og fleiri skip munu verða um sömu hituna, því að ekki fjölgar fiskunum í sjónum við ríkisleigu á auðlindinni til leiguliða, sem ríkið mun okra á.  Þessi ráðstöfun felur í sér sóun, sem óhjákvæmilega kemur niður á almennum lífskjörum í landinu.  Fiskveiðistefna síðustu þrjá áratugina á Íslandi hefur snúizt um að auka hagkvæmni sjávarútvegsins og arðsemi fyrir þjóðarbúið með því að aðlaga afkastagetu fiskiskipaflotans afrakstursgetu fiskistofnanna.  Þetta hefur tekizt ágætlega, svo að íslenzkur sjávarútvegur er líklegast með mestu framleiðni í heiminum, sem ber frjálsu framtaki og tækniþróun fagurt vitni. 

Fiskveiðistefna ríkisstjórnarinnar, sem endurspeglast í frumvörpunum tveimur, er umhverfisslys og halda má því fram, að ein alvarlegasta hlið þessarar gæfusnauðu fiskveiðistefnu sé sú, sem snýr að umgengni um auðlindina.  Nýliðun í krafti fjölgunar fiskiskipa, sem gera út á leigukvóta, er umhverfislega skaðleg og felur í sér sóun.  Útgerð reist á leigukvóta ætti að heyra sögunni til, enda er slæm reynsla af slíkum útgerðum.  Það er með ólíkindum í ljósi reynslu af hrikalegu brottkasti og sóun verðmæta, að stjórnvöld skuli nú ætla að hvetja til slíks með ríkisleigu á aflaheimildum.  Ríkisstjórnin brýtur niður stoðir nútímasamfélags á Íslandi með því að innleiða úreltar, ósanngjarnar, rándýrar og hagfræðilega óverjandi aðferðir við stjórnun fiskveiða í nafni lýðskrums. Afturhaldið stígur hér yfir 30 ár aftur í tímann, en er e.t.v. að taka spor í átt að óstjórn Evrópusambandsins, ESB, með þessari endaleysu. 

Ríkisstjórnin hefur tekið viðbótar óheillaspor á grundvelli óinnheimtrar ofurskattheimtu af sjávarútveginum.  Hún ætlar að stofna til alls kyns gæluverkefna, ríkisfjárfestinga með blóðpeningum frá sjávarútveginum.  Hagfræðilega heimskulegasti ríkisboðskapur lýðveldistímans hefur séð dagsins ljós.  Uppgjafalæknirinn, varaformaður Samfylkingar, og hinn tilkippilegi varaformaður VG ásamt lífvana stjórnmálamanni, Guðmundi Steingrímssyni, sem allt í einu þykist hafa sýnt frumkvæði, en Steingrímur segir hins vegar hafa komið að málinu á síðustu metrunum, hafa lagt fram endemis viðbjóð, þar sem stjórnmálamenn eiga eftir næstu kosningar að ráðstafa fé sjávarútvegs og söluandvirði banka til gæluverkefna, sem sögð eru framkalla 11000 störf.  Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega í fólki á síðasta snúningi síns stjórnmálalega ferils ?

Ein atvinnugrein er lögð í rúst með hrikalegri eyðingu verðmæta sem afleiðingu og tapi fjölmargra starfa, því að fara þarf saman fé, þekking og markaður til að skapa önnur störf til skamms eða langs tíma.  Eftir að hafa stöðvað alla viðleitni einkaframtaksins til atvinnusköpunar í sjávarútvegi, nýsköpun og virkjunum, fara afturgöngur Karls Marx nú á stúfana og þykjast ætla að skapa störf.  Allir vita, að störf sköpuð af stjórnmálamönnum eiga enga lífs von, og talan 11000 með afleiddum störfum, eins og mannvitsbrekkan Dagur nefnir, er algerlega út í loftið.  Hér er ekki um neina útflutningsstarfsemi að ræða, og þess vegna stækkar kakan ekki neitt, enda um fjármögnun með skattfé að ræða, og engin afleidd störf geta orðið til af svona afturfótafyli.  Stjórnmálalega hræsni er hægt að kalla málatilbúnað af þessu tagi, og stjórnmálamenn leggjast vart lægra.  

Hér sýna öfgafullir og hæfileikasnauðir vinstri menn rækilega á spil sín.  Allt, sem frá þeim kemur, er til þess fallið að viðhalda stöðnun samfélagsins, geigvænlegu atvinnuleysi og aukinni fátækt landsmanna í samanburði við t.d. Norðurlöndin.  Fyrirbrigðið, sem kallar sig ríkisstjórn Íslands, er ekki "norræn velferðarstjórn" fyrir fimm aura.  "Norræn velferðarstjórn" gengur ekki í skrokk á undirstöðuatvinnuvegum landsins, girðir fyrir erlendar fjárfestingar og eykur eigin fjárfestingar í atvinnulífinu.  "Norræn velferðarstjórn" leyfir einkaframtakinu að stækka kökuna, en hefur reyndar farið út í algerlega óhóflega skattheimtu á Norðurlöndunum, sem borgaraleg ríkisstjórn Svíþjóðar hefur þó leiðrétt þar í landi. 

Hérlendis verður að söðla algerlega um og fara að hleypa heilbrigðri skynsemi að ákvarðanatöku um opinber málefni í stað eitraðrar blöndu vanþekkingar, óhæfni og ofstækis í garð athafnalífsins.  Fjárfestingum verður að ná upp í 400 mia kr á ári, þar sem bróðurparturinn verði á höndum athafnalífsins, um leið og saxað er á skuldir ríkisins við útlönd, m.a. með sölu ríkiseigna, til að draga úr vaxtakostnaði við útlönd, sem nú slagar upp í 100 mia kr á ári.  Auk þess verður að afnema gjaldeyrishöftin hið bráðasta með pennastriki Dr Ludwigs Erhards, fyrrverandi efnahagsráðherra V-Þýzkalands, svo að íslenzka krónan nái að styrkjast við aukið innflæði gjaldeyris og verðbólgan verði þar með hamin.  Kosta verður öllu til í baráttunni við verðbólguna, sem er illvígur arðræningi. 

Evran í maí 2012   

       

 

              


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband