8.6.2012 | 22:50
Þrautir Heraklesar
Í æsku var höfundi gefin lítil bók með ofangreindu heiti, og las hann hana oftar en einu sinni sér til ómældrar ánægju. Ekki þarf að orðlengja, að hér var um grísk ævintýri eða öllu heldur goðsagnir að ræða.
Grikkir hafa ýmsa fjöruna sopið í sögunni, og harka þeirra, seigla og hátt menningarstig mótaði grundvöll vestrænnar menningar í sinni núverandi mynd. Nú er öldin önnur og Grikkjum kennt um ófarir Evrópusambandsins, ESB. Slíkar ásakanir hitta ESB fyrir og lánadrottnana, sem dældu í Grikki lánum á lágum vöxtum. Þessum lánum var of sjaldan varið til arðsamra verkefna, og því fór sem fór.
Grikkjum var hleypt inn í evrusamstarfið á veikum forsendum og eru nú gerðir að blórabögglum ófara evrunnar. Þetta er afar ósanngjarnt, því að evrusamstarfið gat aldrei gengið upp fyrir Grikki né marga aðra. Barnaskapur var að ímynda sér, að Maastrichtskilyrðin héldu. Þau héldu ekki einu sinni gagnvart Frökkum og Þjóðverjum, hvað þá gagnvart þjóðum Suður-Evrópu, sem búa við menningu, sem gerir það að list að sniðganga Maastricht. Þessi afdrifaríku mistök Frakka og Þjóðverja hafa leitt niðurlægingarskeið yfir Evrópu, sem sér ekki fyrir endann á og gæti varað þennan áratug. Næstu fórnarlömb evrunnar eru á Pýreneaskaganum. Spánn er kominn að fótum fram, enda fjármálakerfi Spánar ónýtt og reyndar hagkerfið í heild sinni. Vandræði evrunnar hafa verið metin til fjár.
Talið er, að fjármagnsflutningar til ríkja í vanda á evrusvæðinu þurfi að nema 200 milljörðum evra á ári. Þetta er ósjálfbært ástand. Þjóðverjar hafa komizt að þessari niðurstöðu og lízt ekki á blikuna. Verið er að leita að blóraböggli til að kenna um væntanlegt fall evrunnar og upplausn ESB. Böndin berast að Þýzkalandi, en slíkt er auðvitað tóm vitleysa. Þjóðverjar setja krók á móti bragði og heimta sameiginlega stjórn yfir ríkisfjármálum evrulands. Það verður aldrei samþykkt, að Berlín stjórni Evrópu með þessum hætti. Þar með munu Þjóðvarjar geta skákað í því skjólinu, að ekki hafi verið farið að ráðum þeirra. Á máli Breta heitir þetta: "Germany is calling the shots". Má furðu gegna, hversu yfirburðir Þjóðverja eru miklir í Evrópu núna, en það stafar að miklu leyti af því, hversu lélegir aðrir eru, ekki sízt Frakkar. Nú verður spennandi að sjá, hvort hið sama á við í Evrópumeistarakeppni landsliða í knattspyrnu. Höfundur þessa pistils veðjar þar líka á BRD.
Evrópumenn upplifa síðan árið 2010 niðurlægingarskeið álfunnar. Hagkerfi Evrópu eru stöðnuð og eru talin vera dragbítur á hagvöxt í heiminum. Lækkun á mörkuðum nú um stundir á verðbréfum og vörum, þ.á.m. útflutningsvörum Íslendinga, sjávarafurðum og áli, er rakin til óvissunnar í Evrópu í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. Sjálfur aðalbankastjóri ECB, seðlabanka evrunnar, er ómyrkur í máli um dökkt útlit, og eru yfirlýsingar Draghis í raun ákall drukknandi manns til stjórnmálamanna Evrópu um að koma sér saman um alvöru björgunaráætlun. Allar aðgerðir stjórnmálamannanna hingað til hafa verið hálfkák eitt vegna ágreinings um meginmál. Á því verður engin breyting.
Sameiginlegur gjaldmiðill 17 ríkja Evrópusambandsins, ESB, er að falla. Atvinnulausum fjölgar ískyggilega í ESB, nemur nú yfir 10 % í heild, og stjórnmálalegur órói dylst engum. Hérlendis berja áhangendur og viðhlæjendur ESB höfðinu við steininn og eru ófærir um að færa viðhlítandi rök fyrir áframhaldandi aðlögun stjórnkerfis Íslands að ESB ásamt aðlögunarviðræðum, en tönnlast á því, að skoða verði, hvað Brüssel býður. Þetta sjónarmið er orðið óskiljanlegt í ljósi staðreynda málsins og virðist reist á illa upplýstri óskhyggju þeirra, sem tekið hafa þá trú, að líf landsmanna verði mun einfaldara og auðveldara hinum megin, þ.e. innan vébanda ESB. Hér er gamla sagan um, að beljan heldur grasið vera grænna hinum megin. Þessu er öfugt varið í raun. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis hefur nú bitið hausin af skömminni og virðist vera gjörsamlega utan gátta og heillum horfinn. Upp á landsfeður af þessu tagi er ekki hægt að bjóða Íslendingum. Algerlega er augljóst, að um er að ræða bæði vitgrannt fólk og illa að sér.
Fimmtudaginn 24. maí 2012 voru greidd atkvæði um tillögu Vigdísar Hauksdóttur, Alþingismanns, um að gera hlé á viðræðunum við ESB unz landsmönnum gæfist kostur á að tjá hug sinn til framhalds þessara viðræðna um aðlögun/inngöngu. Tillagan var kolfelld, sem sýnir jarðsambandsleysi og firringu meirihluta þingheims, því að skoðanakannanir gefa allt aðra mynd af afstöðu þjóðarinnar til málsins. Að halda því fram, að almenningur viti ekki sínu viti í þessum efnum, en undirlægjur ESB hljóti að vita betur, er mesta fásinna. Almenningur er með á nótunum, en Trójuhestarnir hafa brotið allar brýr að baki sér.
Flestir fylgismenn inngöngu Íslands í ESB hérlendis, þ.á.m. á Alþingi, virðast vera þeirrar skoðunar, að efnahagsvandamál ESB-ríkjanna verði skammvinn, og senn muni renna upp bjartari tímar með blóm í haga. Er eitthvað, sem bendir til, að svo verði ? Nei, þvert á móti, það er margt, sem bendir til, að ESB sé síðan 2010 á langvinnu hrörnunarskeiði og muni dragast alvarlega aftur úr öðrum þróuðum ríkjum. Af þessu hafa mannvitsbrekkur Samfylkingar og vinstri grænna ekki frétt enn þá, enda bæði blindir og heyrnarlausir í stjórnmálalegum skilningi. Verður nú gerð grein fyrir nokkrum þessara áhættuþátta ESB.
1. Meðalaldur Evrópubúa er hærri en annars staðar, og hann hækkar hratt. Afleiðingin af þessu er lítil og minnkandi atvinnuþátttaka og sífellt færri standa undir framfærslu sífellt fleiri þegna. Þetta leiðir til lífskjararýrnunar heildarinnar.
2. Athafnalífið í Evrópu er víðast hvar þrúgað af ósveigjanleika á vinnumarkaðinum, og samningar, reglugerðir og lög um vinnumarkaðinn virka fremur letjandi en hvetjandi til nýráðninga. Svört vinna er sums staðar landlæg af þessum sökum. Það er dýrt að ráða nýtt fólk inn vegna hárra launatengdra gjalda, og það er einnig afar kostnaðarsamt að segja upp starfsfólki.
3. Athafnalíf ESB er í helgreipum reglusmiða í Brüssel, sem í góðri trú unga út alls konar fyrirmælum, tilskipunum og reglugerðum, sem eru meira eða minna íþyngjandi fyrir athafnalífið. Þetta virkar hamlandi fyrir samkeppnihæfni fyrirtækja í ESB, því að þessi tilhneiging er meira áberandi í ESB en annars staðar í frjálsum löndum.
4. Þá er það Akkilesarhæll ESB, evran. Hún átti að efla athafnalífið með minnkun kostnaðar og greiða fyrir viðskiptum innan ESB. Hún átti líka að verða heimsmynt og stolt Evrópu. Allt hefur snúizt á verri veg. Evran hefur valdið miklu efnahagslegu ójafnvægi innan evruríkjanna og á milli þeirra. Hún hefur valdið mikilli þenslu, t.d. á Írlandi, Spáni, Portúgal og á Grikklandi vegna lágra vaxta, þegar þýzka hagkerfið átti undir högg að sækja. Í Suður-Evrópu ríkir nú herfilegur samdráttur. Hún er enn miklu sterkari gjaldmiðill en flest ríki evrusvæðisins þola, og þess vegna hafa útflutningsgreinar þessara ríkja farið halloka. Þýzka hagkerfið hefur hins vegar notið kosta evrunnar vegna þess, að Þjóðverjar tóku til í eigin ranni eftir fjárfestingar í Austur-Þýzkalandi upp á hátt í tvær trilljónir evra (trilljón=þúsund milljarðar).
5. Mikill halli er á fjárlögum flestra Evrópulanda, enda eru ríkisútgjöld yfir 40 % af vergri landsframleiðslu (VLF) í þeim flestum og jafnvel yfir 50 % í sumum og ríkisstarfsmenn um 30 % af fjölda starfandi manna. Þetta eru hættumerki í hverju þjóðfélagi, sem gefa til kynna, að uppbrots og endurskipulagningar og mikillar einkavæðingar sé víða þörf. Þá er víða brotalöm í skattheimtunni. Afleiðingin af þessu öllu er gríðarleg skuldasöfnun Evrópuríkjanna. Vegna þessa og stöðnunarinnar í hagkerfum ríkjanna, sem lýst er hér að framan, eru nú matsfyrirtæki tekin að lækka lánshæfismat Evrópuríkjanna, nema Þýzkalands og örfárra annarra. Bankar, jafnvel þýzkir, eru teknir að verða fyrir lækkun lánshæfismats, enda miklar afskriftir fjármuna framundan á Spáni. Þetta flýtir fyrir hruni evrulands. Lánshæfismat Bretlands mun reyndar ekki hafa verið lækkað enn, og segir það mikla sögu um gagnsemi eigin gjaldmiðils, þegar á móti blæs. Hátt lánshæfismat Bretlands vekur undrun miðað við miklar skuldir og halla á fjárlögum ríkisins.
Augljóslega er ekki hlaupið að þeirri þjóðfélagslegu uppstokkun, sem nauðsynleg er til að koma Evrópu aftur í gang. Það virðist ennfremur lítill stjórnmálalegur áhugi fyrir því, eins og kosning kratans Francois Hollande sem forseta Frakklands gefur til kynna, en hann lofaði í kosningabaráttunni að fjölga opinberum starfsmönnum og lækka ellilífeyrisaldurinn úr 62 árum að hætti krata. Þá virðast hófsamir stjórnmálamenn álfunnar óttalega kraftlitlir, og kjósendur hrekjast til öfgaflokka á báðum vængjum. Almenn uppgjöf hefur gripið um sig, og nú eru þjóðirnar að venjast skipunum frá Berlín. Jafnvel franskur almenningur hefur misst trú á eigin stjórnmálamenn, en er tekinn að reiða sig á skynsamleg fyrirmæli frá Berlín. Öðru vísi mér áður brá. Þetta getur aðeins gengið að vissu marki, og svo verður sprenging.
Glíman við evruvandann tekur nú mestan tíma stjórnmálamanna í evrulöndunum. Evran hefur leitt til efnahagslegra hamfara. Fátækt hefur sorfið að, og miðstéttin ber ekki sitt barr. Ljóst er, að núverandi ástand er ósjálfbært. Eina aflögufæra landið er Þýzkaland, en almenningur í Þýzkalandi telur með réttu, að yfirfærslur peninga frá þeim til bágstaddra evrulanda leysi engan vanda til lengdar. Stjórnmálamenn Þýzkalands munu t.d. ekki þora að samþykkja sameiginlega skuldabréfaútgáfu, þar sem ábyrgðin mun á endanum falla á þýzka ríkissjóðinn. Þjóðverjar ætla ekki að fá Evrópu á sitt framfæri. Þeir hafa einvörðungu hug á að verzla við hana.
ESB er á hægfara leið til upplausnar evrunnar. Fjármagnsflótti er hafinn til Þýzkalands og til Bandaríkjanna. Þjóðverjar fá nú raunvaxtalaus lán. Evran fellur nú og mun falla svo mikið, að verðbólgan í Þýzkalandi mun verða vel yfir 2 % á ári. Þá mun Seðlabanki Evrópu, ECB, hækka vextina, og við það verður líklega verðhjöðnun í mörgum jaðarlöndum ESB. Þetta er langdregið og sársaukafullt ferli. Það er sama, hvernig velt er vöngum. Teningunum er kastað. Þjóðverjar halda yfir Rubricon fljót, en Caesar áður, og Evrópa er að hefja langdregið hrörnunarskeið, og verður í efnahagslegum lamasessi um mörg ókomin ár með einstaka undantekningum.
Þetta mun óhjákvæmilega hafa áhrif á íslenzka hagkerfið til hins verra, og þegar er reyndar tekið að brydda á lægri verðum á mörkuðum Íslendinga í Evrópu. Verð á eldsneyti lækkar líka sem og hráefni, sem vinnur gegn neikvæðu áhrifunum á hagkerfið. Þetta undirstrikar mikilvægi þess fyrir hagsmuni okkar að hafa ekki öll eggin í einni körfu, heldur leita viðskiptavina um allan heim. Það verður að vona, og til þess eru góðar líkur, að Evrópa nái vopnum sínum á ný, en það er algerlega út í hött að leita núna eftir inngöngu í klúbb þann, sem Evrópusamband heitir, hvað sem síðar kann að verða um þann klúbb. Aðlögunarferlið er dýrt og skaðlegt og ber að stöðva hið fyrsta. Jafnfram ber að brjóta Trójuhestana mélinu smærra og nýta til kyndingar. Það verður að hleypa hér að "no nonsense" stjórnmálamönnum.
Ekki má gleyma Bessastaðabóndanum, sem kosinn verður 30. júní 2012. Ef pistilhöfundi skjöplast ekki, er Ólafur Ragnar Grímsson eini frambjóðandinn, sem lýst hefur yfir andstöðu við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Er slíkt næg ástæða til að veita frambjóðandanum brautargengi, enda í fullu fjöri.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir Bjarni Jónsson. þetta var góð lesning og styrkjandi.
Hrólfur Þ Hraundal, 9.6.2012 kl. 21:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.