ESB-friðarbandalag eða harðsvírað hagsmunabandalag

Hvers konar fyrirbrigði er Evrópusambandið-ESB ?  Forveri þess, Kola-og stálbandalagið, var stofnað af Frökkum, Þjóðverjum og Benelúxmönnum í kjölfar heimsstyrjaldarinnar seinni.  Haft var á orði, að þetta samstarf ætti að hindra um aldur og ævi endurtekningu hildarleiksins 1939-1945.  Var eitthvað hæft í þessu ?  Nei, friðartalið, svo göfugt sem það var, var huliðshjálmur harðsvíraðra hagsmunaafla.  Nú vilja jafnaðarmenn Íslandi ganga þeim á hönd, hvað sem það kostar, en þeim mun ekki verða kápan úr því klæðinu.  Eftirsókn jafnaðarmannanna í auðvaldssamkundu þessa mun verða þeim fjötur um fót um alla framtíð.  

Það var vísast engin þörf á stofnun Kola-og stálbandalagsins og síðar Evrópubandalagsins, nú Evrópusambandsins, ESB, til að varðveita friðinn, því að fælingarmáttur kjarnorkusprengjunnar var nægur gagnvart því að hefja vopnuð stórveldaátök.

Ástæða var til þess fyrir Þjóðverja að sjá á eftir Elsass og Lothringen yfir til Frakklands og undarlegt, að ekki skyldi vera haldin atkvæðagreiðsla um það í þessum héruðum, hvorum megin landamæra Frakklands og Þýzkalands íbúarnir skyldu búa.  Ekki verður hér fjölyrt um þá stóru fláka, sem skornir voru af Þýzkalandi austanverðu og færðir Póllandi, og má þar nefna Slesíu og Austur-Pommern. Hvort sem ESB er á dögum eður ei, er samt útilokað, að til styrjaldar komi í Vestur-Evrópu vegna landamæradeilna.

ESB var í raun ekki stofnað til að varðveita friðinn, heldur til að koma ár Evrópuríkjanna, gömlu nýlenduveldanna, fyrir borð í heimi, þar sem þessi ríki hvert um sig höfðu ekki lengur bolmagn til að láta að sér kveða. Þetta kom ljómandi vel fram í áhugaverðu viðtali við einn af iðnjöfrum Þýzkalands, Carl H. Hahn, í Sunnudags-Mogganum 24. júní 2012.  Þar segir hann m.a.:

"Hins vegar má ekki líta fram hjá því, að fyrir 120 árum bjuggu í Þýzkalandi 7 % af jarðarbúum.  Eftir nokkur ár verðum við, þökk sé fæðingartíðni, sem er í algeru mótvægi við frjósemi Íslendinga, 0,7 % jarðarbúa. Þar sem sama þróun virðist vera að eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, er fyrirsjáanlegt, að íbúar álfunnar allrar verði brátt 6-7 % jarðarbúa. Þess vegna er nú svo mikilvægt, að við látum ekki evruna verða til þess, að við förum út af sporinu í samruna Evrópu, ef við viljum gegna hlutverki í heimsskipan morgundagsins, hlutverki, sem við getum ekki gegnt sem stakar þjóðir."

Þetta er kjarni málsins um eðli Evrópusambandsins.  Það er stórveldisbragur og löngunin til að viðhalda stórveldisstöðunni í heiminum að baki þessu fyrirbrigði, og erfitt er að koma auga á, að hagsmunum smáríkja geti verið betur borgið þar innanborðs en sem sjálfstæð og fullvalda ríki.  Betra er að vera barður þræll en feitur þjónn skrifaði Halldór Laxness.  Það er mikið til í því, en samlíkingin við ESB á þó illa við, því að margt bendir til, að afkoma þjóða þar innanborðs verði töluvert lakari en hinna, sem utan við standa. Nákvæmlega þessi er einnig niðurstaða Carls Hahns, því að hann segir í téðu viðtali:

"Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum.  Ísland er langt í burtu, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar.  Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað beztri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn."       

Þetta hagsmunamat hins margreynda og hæfa þýzka iðnjöfurs er í fullu samræmi við hagsmunamat meirihluta íslenzku þjóðarinnar og í fullkominni andstöðu við hagsmunamat ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þetta síðast talda hagsmunamat er sífelld uppspretta furðu, því að það er ekki heil brú í því hagsmunamati, að hagsmunum íslenzku þjóðarinnar sé bezt borgið í ríkjasambandi, sem stefnir á að verða voldugt sambandsríki á borð við Bandaríki Norður-Ameríku.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gerir langtíma hagsmunamat að umræðuefni af kögunarhóli sínum á síðum Fréttablaðsins á Bastilludaginn 2012. Hann spyr, hvernig andstæðingar aðildar að ESB ætli að forða Íslandi frá einangrun, ef það standi utan ESB.  Svona spyrja aðeins þeir, sem hafa asklok fyrir himin.  Það verður auðvitað að horfa til heimsins alls, þegar samband Íslands við umheiminn er mótað.  Svigrúm íslenzkra stjórnvalda til samskipta út fyrir ESB yrði mjög takmarkað með aðild, en auðvitað yrðu samskiptin við önnur ESB-löndin náin, þegar búið væri að deila með þeim fullveldinu.  Þegar kæmi að hagsmunamálum Íslands, er mjög mikil hætta á, að Íslendingar yrðu ofurliði bornir og hagsmunum Íslands fórnað á altari sáttmála ESB og hausatalningar.  Sverð okkar og skjöldur í hagsmunabaráttunni við aðrar þjóðir er fullveldið, heilt og óskipt, eins og dæmin sanna.  Makríldeilan við ESB ætti að færa mönnum heim sanninn um þetta.

Þá minnist téður Þorsteinn á gjaldeyrismálin.  Hann telur íslenzku krónuna ekki á vetur setjandi, en evruna eina raunhæfa úrræði landsmanna í myntmálum.  Um krónuna er það að segja, að gengi hennar er aðeins mælikvarði á gæði hagstjórnar í landinu í samanburði við hagstjórn annarra þjóða.  Veikleikar íslenzkrar hagstjórnar eru þekktir, og það er líka þekkt, hvað þarf til, svo að stöðugleiki verði í peningamálum landsins og gengið styrkist. Núverandi hagstjórn með bullandi halla á ríkissjóði, 90 miö kr, er dæmi um arfaslaka hagstjórn. Verði peningamálunum hér komið í nýtt horf, sem Frosti Sigurjónsson gerði grein fyrir í sumarhefti Þjóðmála 2012, eða skipað með öðrum árangursríkum hætti, t.d. af næstu ríkisstjórn, skal spá því hér, að evran verði fyrr lögð niður í sinni núverandi mynd en íslenzka krónan.  Engin samstaða er um þau einu úrræði, sem duga innan ESB til bjargar evru í sinni núverandi mynd, en fái borgaralegu flokkarnir myndarlegan meirihluta í næstu Alþingiskosningum, sem skötuhjúin Jóka og Grímsi vinna nú hörðum höndum að, verður hægt að ýta nýju peningamálakerfi úr vör hérlendis undir merkjum stöðugleikans.    

Stofnað var til evrunnar í stjórnmálalegu augnamiði af "pólitískum oflátungum", eins og ritstjóri Morgunblaðsins orðar það í forystugrein 20. júlí 2012.  Hún átti að ryðja brautina frá ríkjasambandi til sambandsríkis.  Þessi þróun hefur orðið hægari en bjartsýnustu sambandssinnar vonuðu, og þess vegna hefur evran lent varnarlítil í ólgusjó spákaupmennsku, svo að henni er ekki hugað líf að óbreyttu.  Af þessu hefur Carl Hahn áhyggjur, og hefur eftirfarandi um málið að segja:

"Ef evran hryndi, mundi vissulega koma bakslag í samruna Evrópu.  Reglan er sú í sögunni, að slíkur samruni hefur verið afleiðing stríðs.  Svo er líka hægt að ná saman með friðsamlegum hætti, eins og við hófumst handa um eftir stríð, sem hefur skilað okkur vel á veg, og við getum verið mjög stolt af árangrinum.  Þess vegna verðum við, tel ég, að bjarga evrunni.  Það snýst ekki um evruna sem slíka, heldur um það bakslag í samruna Evrópu, sem mundi hljótast af falli hennar."

Hér fer ekkert á milli mála.  Þýzka iðnaðinum, fjármálaveldinu, stjórnmálaelítunni, gamla aðlinum, og jafnvel verkalýðshreyfingunni, er umbreyting ESB yfir í sambandsríki mikið kappsmál til að tryggja sér markaði og til að geta haft áhrif á gang heimsmálanna, en Carl Hahn ráðleggur Íslendingum að standa utan við þetta stórríki.  Það er heiðarleg og stórmerkileg ráðlegging manns, sem kemur úr innsta hring þýzkrar hagsmunagæzlu. 

Hér skal ekki fara út í vangaveltur um, hvernig Carl Hahn og hans líkar sjá fyrir sér þetta sambandsríki, en líklega sjá þeir Bandaríki Evrópu, BE, fyrir sér sem útvíkkun á Sambandsríkinu Þýzkalandi.  Öflugasta þjóðin þar innanborðs mun þá verða stefnumótandi fyrir Evrópu að landamærum Hvíta Rússlands, Úkraínu, Rússlands, Tyrklands og suður að Afríku. Ósjálfrátt hvarflar hugurinn þá til Þriðja ríkisins, þó að ósanngjarnt sé að nefna það.   

Íslendingar eru farnir að finna smjörþefinn af hagsmunagæzlu ESB.  Það kom fram í Icesave-málinu, þar sem ríkjandi stefnu ESB um að ausa fé úr ríkissjóðum til að bjarga bágstöddum bönkum var reynt að þröngva upp á Íslendinga. Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde markaði gjörólíka og miklu farsælli stefnu, en vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur glúpnaði strax undan þrýstingi ESB og bankaveldisins.  Nú virðist nýr aðalbankastjóri ECB, seðlabanka evrunnar, í nauðvörn fyrir evruna vera að móta nýja stefnu, keimlíka stefnu ríkisstjórnar Geirs Hilmars að þessu leyti. 

Ekki eykst nú risið á bönkunum eftir LIBOR hneykslið.  Það sýnir meira svínarí í bankaheiminum en flesta óraði fyrir, og var þó vitað, að bankamenn eru engir englar; jafnvel ekki englar með sviðna vængi. LIBOR-hneykslið hefur þegar framkallað miklar sektir, og fangelsanir munu vafalítið fylgja í kjölfarið.  Einhverjar tennur verða dregnar úr sjálftökuliðinu.   

Maria Damanaki, grískur sjávarútvegsstjóri ESB, var hér á dögunum og var ómyrk í máli.  Ef Íslendingar gefa ekki upp á bátinn sjálfstæða stefnu sína um nýtingu makríls í lögsögu Íslands, þá verður sett á löndunarbann og aðrar viðskiptaþvinganir ásamt stöðvun aðlögunarferlisins að ESB.  Það eru trakteringar að tarna.  Hvernig halda menn, að meðhöndlunin á eyþjóðinni hefði orðið, ef hún hefði við erfiðar aðstæður glæpzt á að gerast aðili að þessum klúbbi ?  Gömul nýlenduveldi kunna hreðjatökin.

Nú sjáum við skína í tennur Brüssel-valdsins enn á ný, og hefur reyndar Stóra-Berta verið dregin fram, því að hvorki meira né minna en hafnbanni er nú Íslendingum hótað fyrir að veiða makríl í eigin lögsögu.  Írar hafa orðið sér til skammar, skrækróma dvergar í fylgd stóru strákanna.

Hvernig bregðast íslenzk stjórnvöld við þessari grafalvarlegu hótun ?  Með flaðri barins hunds.  Þau leggjast á bakið og tifa upp tánum.  Grænlendingum er meinað að landa makríl á Íslandi.  Þó eigum við ekki í neinum deildum við Grænlendinga, nágranna okkar. Þetta er helber lágkúra.

Viðbrögð utanríkisráðherra, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og forsætisráðherra eru til háborinnar skammar, því að þau einkennast af fleðulátum og undirlægjuhætti.  Ný ríkisstjórn verður að endurreisa orðstýr Íslands sem fullvalda þjóðar, sem glúpnar ekki, þó að tannlaust tígrisdýr láti skína í hvoftinn.

Öðru vísi mér áður brá, er vinstri stjórn Hermanns Jónassonar, 1956-1958, með Lúðvík Jósepsson sem sjávarútvegsráðherra, færði landhelgina út í 12 mílur og fékk opna byssukjafta brezka flotans sem svar.  Þá var staðið í ístaðinu og tjaldað því, sem til var, eins og Bretar gerðu sumarið 1940 eftir fall Frakklands.  Við höfðum sigur og Bretar höfðu sigur.  "Aldrei hafa jafnmargir átt jafnfáum jafnmikið að þakka og nú", var nokkurn veginn það, sem WC hafði á orði um The Royal Airforce.  

Á dögum téðrar vinstri stjórnar Hermanns, og seinna, voru uppi kenningar um, að sameignarsinnar væru að espa til átaka á milli Natolanda til að þóknast Sovétherrunum.  Hér skal láta það liggja á milli hluta, en núverandi viðbrögð vinstri stjórnarinnar benda til, að barátta fyrir raunverulegum hagsmunum íslenzku þjóðarinnar sé fjarri vinstri mönnum, en þeir leggi jafnan megináherzlu á að þóknast erlendum valdsmönnum, sem þeir telja sig skuldbundna með einhverjum hætti.

Þetta eitt út af fyrir sig er nægjanleg ástæða til að halda vinstri mönnum utan stjórnarráðsins um aldur og ævi.

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll          

           

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir kjarnyrta og hnitmiðaða grein Bjarni. Ég er hræddur um að stór hluti Íslensku þjóðarinnar sé hjaranlega sammála þér og muni sýna það við kjörborðin í næstu kosningum.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 20:19

2 identicon

"hjartanlega" sammála á þetta að vera.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 20:20

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ef við myndum grandskoða heims-krosseigna-tengsl gamla kola og stálbandalagsins, þá myndum við hvergi finna það gamla bandalag, né neitt mannúðlegt frá því "hugsjónarbandalagi".

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.7.2012 kl. 21:14

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, bæði;

Það þarf ekki víða að rata hérlendis nú um stundir til að finna, hvernig landið liggur.  Stjórnvöld með allt áhælunum, fremjandi hvert axarskaptið á fætur öðru og flaðrandi upp um þá, sem í argvítugum hótunum hafa við landsmenn, eiga auðvitað ekki upp á pallborðið, og skyldi engan undra. 

"Vegggenglar" eru þau nefnd í forystugrein Morgunblaðsins í dag, sem ekkert virðast skilja, hvað er að gerast í heiminum í kringum þau, en flana í fang ríkjasambands, þar sem öxullinn á milli Berlínar og Parísar er að bresta, samkvæmt grein Joschka Fischer í Morgunblaðinu 19. júlí 2012.  Hvaða áhrif halda menn, að slík pólskipti innan ESB hafi ?

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 20.7.2012 kl. 22:08

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

(-: Já væri Bjarni í boði,Kristján, annars hjartans þakkir fyrir greinina Bjarni.

Helga Kristjánsdóttir, 20.7.2012 kl. 23:01

6 Smámynd: Elle_

Ekkert kemur á óvart frá hinu svokallaða friðarbandalagi sem hagar sér eins og ófriðarbandalag.  Skil ekki að nokkur maður skuli hafa fallið fyrir þessari ofurglæru trú Jóhönnu, Þorsteins og Össurar.  Rangtrú þeirra á ekki að vera vandamál heillar þjóðar og verður að koma þeim burtu úr stjórn og halda þeim úti, já um aldur og ævi.

Elle_, 21.7.2012 kl. 12:04

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Góð grein að vanda, Bjarni. Germansk-Rómanska bandalagið verður aldrei, þar sem því er ætlað að koma í veg fyrir hrun Frakklands (og Spánar og hinna) en skuldinni verður strax skellt á Þýskaland þegar franska sligaða kerfið gefur sig loksins, eftir margra ára fölsun.

PS: Ég bendi fólki hér á grein þína um framtíð áliðnaðarins, sem er skyldulesning hverri hugsandi manneskju.

Ívar Pálsson, 21.7.2012 kl. 14:09

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Varðandi "friðarbandalagið" býður manni í grun, að friðþægja eigi sjávarbyggðir ESB með því að fýla grön við Íslendingum, Færeyingum og Grænlendingum.  Hlutur jafnaðarmannastjórnarinnar í Ósló er hvorki stórmannlegur né mótaður af framsýni.  Hann er músarholulegur, eins og búast mátti við. Íslendingum og Norðmönnum ríður þó á samstöðu sín á milli gegn ásælni germansk-rómanska bandalagsins, sem Ívar Pálsson nefnir hnyttilega hér að ofan.  Hann hefur mikið til síns máls í greiningu sinni.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.7.2012 kl. 14:28

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, norskir eru búnir að koma sér ansi vel fyrir, bæði gagnvart ESB og norðurslóðarnágrönnum. Ég efast um að íslenskum gagnist það á nokkurn hátt að leita eftir samstöðu úr þeirri átt.

Kolbrún Hilmars, 21.7.2012 kl. 15:42

10 Smámynd: Ívar Pálsson

En Kolbrún, Norðmönnum er mikið í mun að verða stóri bróðir Norðurlandanna og passa upp á Pólinn og Norður- Atlantshafið. Við leyfum þeim að nota olíupeningana í flottasta her í heimi og gæta hagsmuna okkar allra í vörnum og hagsmunavörslu þegar syrtir í suðrinu. En það er óþarfi að gefa þeim makríl sem matast hér.

Ívar Pálsson, 21.7.2012 kl. 15:54

11 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ívar, þú meinar 1262 "all over again" :)

Kolbrún Hilmars, 21.7.2012 kl. 16:15

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, sagan endurtekur sig, er sagt.  Það er dálítil örlagahyggja fólgin í því, en varðandi Norðmenn má gjarna líta til sögunnar.  Á ári Gamla sáttmála, sem Kolbrún Hilmars nefnir, var Noregur stórveldi á Norður-Atlantshafi.  Þeir réðu Íslandi, Færeyjum og stórum hluta Írlands og Skotlands.  Árið 1262 gerði Hákon gamli úrslitatilraun til að ná tangarhaldi á Skotlandi, en mikilli sjóorrustu við strönd Vestur-Skotlands lyktaði með jafntefli, og eftir það náði Skotakonungur undirtökunum á Skotlandi.  Kraftur fór úr Norðmönnum í miklum pestum, sem gengu á 14. öld, og þeir máttu sæta danskri og sænskri yfirstjórn, en nú eflast þeir um hríð vegna eldsneytisauðlinda sinna.  Hagkerfi þeirra stendur samt að sumu leyti veikt vegna olíuauðsins og stjórnarfars jafnaðarmanna, sem veikt hafa atvinnulífið og skapað marga þurfalinga til að viðhalda völdum sínum.  Norsku þjóðinni er hlýtt til Íslendinga, en Stór-Norðmenn í Ósló ganga stundum fyrir öðru, eins og dæmin sanna. Það ætti með lagni að mega tjónka við þá.

Bjarni Jónsson, 21.7.2012 kl. 17:01

13 Smámynd: Ívar Pálsson

Milliríkjasamningar, eins og EES eða NATO eru eitt, en ríkjasamband er allt annað. Við höldum bara áfram að stjórna eigin málum (þ.e. þegar þessi stjórn er farin) og getum gert flesta samninga í skjóli EES og NATO eins og okkur lystir. Það er þá alltaf á fullveldisgrundvelli.

Ívar Pálsson, 21.7.2012 kl. 18:28

14 Smámynd: Kolbrún Hilmars

En hver er nógu laginn til þess að "tjónka við" norska, eins og Bjarni orðar það.

Engan slíkan er að finna hjá núverandi stjórnvöldum.

Kolbrún Hilmars, 21.7.2012 kl. 18:53

15 Smámynd: Bjarni Jónsson

Að tjónka við norska jafnaðarmenn er vissulega ekki á færi íslenzkra jafnaðarmanna, sem glúpna jafnan, ef erlendir kratar byrsta sig.  Nei, á þessu kjörtímabili er einskis að vænta, nema klúðurs innanlands og illa ígrundaðrar eftirgjafar gagnvart erlendu valdi.  Því miður.  Að tjónka við norska stjórnarráðsmenn bíður nýrra manna og kvenna í íslenzka Stjórnarráðinu.  Hvað sem öðru líður, mun nýtt fólk ekki vera með þeim böggum hildar að styggja ekki Brüssel, svo að búrókratar þar slíti ekki aðlögunarferlinu.

Bjarni Jónsson, 21.7.2012 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband