4.10.2012 | 20:30
Um hvað eiga stjórnmál að snúast ?
Nú eru Alþingiskosningar í nánd, og þess vegna ekki að ófyrirsynju að líta yfir völlinn í tilraun til að gera sér grein fyrir meginlínum stjórnmálanna á Íslandi. Grundvöllur stjórnmálabaráttunnar hér er frelsi til tjáningar með málefnalegum hætti.
Stjórnmálin ættu að snúast um þjóðfélagsleg markmið og leiðir til að ná þeim. Því miður er hvort tveggja í nokkurri þoku, af því að menn sjá ekki upp úr skotgröfunum vegna púðurreyks. Sem dæmi má taka eftirfarandi spurningar um stöðu mála árið 2020:
- Hvernig viljum við, að fullveldi landsins verði háttað ?
- Hvar viljum við, að hagkerfi landsins verði á vegi statt ?
- Hvernig viljum við, að ríkisbúskapurinn standi ?
- Hvernig á að haga skattheimtunni ?
Hér koma dæmi um möguleg markmið og leiðir að þeim. Vegna skiptra skoðana á þeim aðhyllist fólk ómeðvitað eða meðvitað mismunandi stjórnmálastefnur og raðar sér í mismunandi stjórnmálaflokka, eins og drepið verður á hér að neðan:
- Hér er spurningin í reynd sú, hvort menn telji landi og þjóð til meiri farsældar, að endanlegt ákvörðunarvald um landsmálefni verði í Reykjavík eða utan landsteinanna. Um þetta eru skiptar skoðanir. Í sögulegu samhengi má benda á til glöggvunar, að framfarir á öllum sviðum þjóðlífsins tóku stakkaskiptum með Heimastjórn 1904. Það má ótvírætt rekja til innlends ráðherra í Reykjavík, en áður sat Íslandsráðherrann í ríkisstjórninni í Kaupmannahöfn og var jafnan danskur. Gríðarleg óánægja er á meðal sumra evruþjóða með miklar fjárhagsskuldbindingar þeirra vegna lána til illa staddra evruþjóða. Brüssel vill sameiginlega skuldabréfaútgáfu, og þá munu allir sitja í súpunni. Þýzka ríkisstjórnin stendur gegn þessu, og Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur úrskurðað, að Bundestag verði að samþykkja allar nýjar skuldbindingar Þjóðverja, sem ígildi séu fullveldisafsals að einhverju leyti. Þjóðirnar eru annars ekki spurðar, og það er verulegur lýðræðishalli á ESB-Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn telur hag lands og þjóðar bezt borgið með Heimastjórn, en Samfylkingin vill flytja endanlegt ákvörðunarvald til Brüssel. Aðrir eru beggja blands. Í þessu máli er ekki hægt að vera "opinn í báða enda". Barnalegasta skoðun, sem haldið hefur verið á lofti hérlendis í háa Herrans tíð, er sú, að afstaðan til aðildar ráðist af því, hvað komi upp úr poka jólasveinsins í Brüssel. Viðbáran er í senn hláleg og grátleg, af því að hún lýsir í senn yfirdrepsskap og og einfeldni. Í pokanum verða sáttmálar ESB með mismunandi aðlögunarákvæðum, sem til lengdar skipta engu máli, enda haldlausir gagnvart Evrópudómstólinum. Ólíkt var staðið að 1949, þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði spilin á borðið og kvað upp úr um, að Íslendingar yrðu að taka afstöðu í Kalda stríðinu og skipa sér í lið samkvæmt þeirri afstöðu. Þá var ekki siglt undir fölsku flaggi hugleysis, eins og stjórnarflokkarnir gera nú. Þannig taldi Sjálfstæðisflokkurinn öruggast árið 1949 að ganga í NATO til að tryggja fullveldið. Aðrir flokkar voru í raun klofnir um þetta eða á móti. Þá var að hrökkva eða stökkva. Öryggishagsmunir landsins í stórveldaátökum þess tíma voru í húfi. Með inngöngu í ESB mundum við lenda í suðupotti margs konar átaka, t.d. á milli norðurs og suðurs og í togstreitu á milli Þjóðverja og Frakka. Forveri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var á móti aðild að NATO og VG er enn á móti, þó að hún geri ekkert með það stefnumið sitt í ríkisstjórn frekar en ýmis önnur. Óheilindi vinstri flokkanna láta ekki að sér hæða.
- Verg landsframleiðsla, VLF, þarf árið 2020 að nema um ISK 2400 milljörðum til að ríkissjóður, sem nú skuldar um ISK 1508 milljarða, eigi sér viðreisnar von. Til að svo verði þarf hagvöxtur á ári hverju að verða 5,0 % að jafnaði. Svo öflugur hagvöxtur næst aðeins með fjárfestingum, sem nema um 20 % af VLF eða ISK 330 milljörðum á ári. Fjárhagslega og tæknilega er þetta raunhæft, ef hér sezt framfararíkisstjórn að völdum, en með afturhaldsríkisstjórn, eins og nú lafir við völd, er slíkt algerlega borin von, eins og dæmin sanna. Hagvöxtur fer nú minnkandi hérlendis. Hagvöxtur árið 2011 var 2,6 %, en var fyrstu 6 mánuði 2012 2,4 %. Þetta er allt of lágt til að hagkerfið braggist, en þessi lági hagvöxtur er í boði vinstri stjórnarinnar og bein afleiðing af sinnuleysi hennar, doða og ómennsku. Fólki á vinnumarkaði fer nú fækkandi beinlínis vegna stjórnarstefnunnar, sem er haldin þversögn. Á sama tíma og leitast er við að finna leiðir til að orða samkomulag við stækkunarstjóra ESB með einhverjum þeim hætti, sem höfðað gæti með jákvæðum hætti til meirihluta landsmanna, sem er vinna unnin fyrir gýg, þá er fjandskapazt út í erlenda fjárfesta á öllum vígstöðvum, nema eigendur vogunarsjóða, sem Steingrímur J. Sigfússon og ríkisstjórn hans færði bankana á silfurfati um leið og hann færði skuldarana undir fallöxina. Fyrir þennan og fleiri gjörninga, s.s. svo nefnda Icesave-samninga, er ei nema réttmætt að hann svari til saka fyrir Landsdómi. Þar er um margfalt verra brot að ræða en í Tamílamálinu, danska Landsdómsmálinu, sem Evrópuráðið hefur ekki fett fingur út í, þó að það muni fordæma málareksturinn gegn Geir Haarde, enda hvað annað átti Geir að gera en hann gerði ? Halda fund ? Þessar fjárfestingar verða að megninu til að snúast um að auka útflutningsverðmætin eða framleiðnina í útflutningsatvinnuvegunum. Frekari skuldasöfnun ríkisins upp fyrir 100 % af VLF, eins og stefnir í undir óráðsíustjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er þjóðhættuleg og mun enda með hræðilegri kjaraskerðingu landsmanna og þjóðargjaldþroti, eins og Argentínumenn o. fl. hafa mátt líða fyrir.
- Það verður strax að stöðva hallarekstur ríkissjóðs, og það væri vert að auka fjárhagslegt aðhald með Alþingismönnum með því að fylgja fordæmi Þjóðverja um að setja í Stjórnarskrá strangar takmarknir á hallarekstri ríkissjóðs. Það væri þó líklega nóg að kveða á um aukinn meirihluta þingheims, t.d. 2/3 eða 42 talsins, sem skilyrði fyrir samþykkt fjárlagafrumvarps með halla. Núverandi hallarekstur er með öllu siðlaus lántaka hjá afkomendum okkar að þeim forspurðum, sem þeir munu sjálfir þurfa að greiða að meira eða minna leyti. Núverandi skuldabaggi, um 100 % af VLF, er stórfelld ógn við fullveldi landsins, því að það þarf ekki að verða óvenjuleg náttúruvá eða kreppa til að afkomugrundvellinum sé kippt tímabundið undan útflutningsatvinnuvegunum, og ríkissjóður lendi þannig í greiðsluvanda og fái lágt lánshæfismat. Málpípur ríkisstjórnarinnar, geimverur og spunasnatar, halda á lofti blekkingum um, að ríkisreksturinn sé í góðu lagi. Þeir fara með ósannindi. Vinstri stjórnin hefur ekki ráðið við það verkefni að hemja ríkisútgjöldin og auka tekjur ríkissjóðs með eflingu hagkerfisins. Hagkerfið er í raun enn minna en árið 2006. Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde gerði samkomulag við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, AGS, haustið 2008 um ríkisbúskapinn og endurfjármögnun hans. Þar var mikilvægur áfangi fólginn í að ná jafnvægi í grunnþáttum ríkisbúskaparins, þ.e. án vaxtaliða, árið 2011. Ríkisstjórnin gafst upp við þetta, og árið 2011 var 43 milljarða kr halli á grunngerð ríkisbúskaparins. Ríkissjóður er stjórnlaus. Ríkisstjórnin hefur ekki stjórn á neinu, sem máli skiptir fyrir þjóðarheildina, en vill vera með nefið niðri í hvers manns koppi, eins og forræðishyggjufólki er tamt. Téð ríkisstjórn Geirs bjargaði landinu frá gjaldþroti með Neyðarlögunum. Steingrímur J. Sigfússon, sem aldrei hefur verið sterkur á svellinu, þegar að fjármálum kemur, er nú tekinn til við að þakka sér þau á erlendum vettvangi, en hann var andsnúinn þeim á Alþingi haustið 2008 sem andsetinn væri. Steingrímur minnir nú á Björn að baki Kára.
- Ferill ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á skattasviðinu hefur sannað Laffler-ferilinn um samband skattheimtu og skatttekna. Mikil skattheimta, eins og ríkisstjórnin tíðkar, minnkar skattstofninn miðað við það, sem annars væri, og að því kemur, að skatttekjur lækka vegna gegndarlausrar skattheimtu. Vinstri stjórnin skeytir ekkert um slíkt. Hagvöxtur er ekki á dagskrá hennar, og hún hirðir ekkert um eyðingu starfa með hækkandi skattheimtu. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur stórskaðað skilvirkni skattkerfisins með því að hækka jaðarskatta og flækja skattkerfið. Ofan af öllu þessu er nauðsynlegt að vinda, og réttlætismál er að afnema ójafnræði á milli fyrirtækja og rekstrarforma gagnvart skattlagningu. Þannig ætti að lækka efsta virðisaukaskattsþrepið um 2,0 % á ári fyrsta kjörtímabilið um leið og miðþrepið væri afnumið og ýmist fært í neðsta (7,0 %) eða hæsta þrepið. Þjónusta hins opinbera skal bera VSK til jafns við þjónustu einkaaðila. Tekjuskatt einstaklinga skal einfalda niður í eitt þrep og frítekjumark. Eignaskatt ber að afnema, eins og alla aðra tvísköttun. Fjármagnstekjuskattur skal vera 10 % án undantekninga, en skal ekki reikna af verðbótum. Þessar skattkerfisbreytingar og aðrar umbætur á því munu ýta undir aukna veltu í þjóðfélaginu og minnka svarta markaðinn. Lækkun á tekjuskatti fyrirtækja úr 20 % í 14 % mun ýta undir fjárfestingar. Allt mun þetta skapa heilbrigðan hagvöxt og stækka skatttekjugrundvöllinn, sem leiða mun til aukinna skatttekna. Það verður hins vegar líka að spara í ríkisrekstrinum til að ná endum saman og til að tryggja sjálfbæran hagvöxt. Þetta þarf að gera með uppskurði á bótakerfinu, mati á nauðsyn hvers liðar og athugun á því, hvort einkarekstur getur tekið að sér sömu þjónustu með lægri tilkostnaði án þess að draga úr gæðum. Með þessu móti á ríkissjóður að geta greitt vexti og afborganir skulda á bilinu 100-150 milljarðar kr á ári, er frá líður, og lækkað þannig skuldabyrðina.
Lausnin á kreppunni er ekki að breiða yfir mistökin með peningaprentun, eins og eru ær og kýr vinstri manna, og heldur ekki að berjast við vindmyllur eins og upprætingu leti eða græðgi, enda standa þessir eðlisþættir djúpum rótum í manninum. Þótt náttúran sé lamin með lurki, þá leitar hún út um síðir, sögðu Rómverjar. Hér er rétt að leita í smiðju til Adams Smiths, sem benti á lausnina í skipulagi, þar sem lestir mannanna eru beizlaðir og beint í jákvæðan farveg fyrir samfélagið.
Fyrsta skrefið er að átta sig á því, að peningaprentun veldur ekki því, að samfélag geti eytt meiru en það aflar. Peningaprentun umfram raunverulega verðmætasköpun í þjóðfélaginu veldur alltaf verðbólgu, sem er þjófnaður hins opinbera á fé borgaranna. Það er heldur ekki lausn á vandanum, að skuldir brenni upp á verðbólgubáli eða að skuldir séu afskrifaðar. Slíkt hefur það einvörðungu í för með sér, að lánadrottnar verða að taka á sig tapið, og þeir verða þá að sama skapi að hafa minna umleikis í framtíðinni. Kjósendur verða að átta sig á því, að ekki er endalaust unnt að reka ríkissjóð með halla, heldur verða stjórnmálamennirnir að sníða ríkissjóði, og þar með velferðarkerfinu og öðrum útgjaldaliðum, stakk eftir vexti. Bezta ráðið til að halda aftur af stjórnmálamönnunum er að takmarka seðlaprentunarvald Seðlabanka og bankakerfis. Það ætti að gera samhliða annarri uppstokkun bankakerfisins, þar sem afnám ríkisábyrgðar og aðskilnaður innláns- og fjárfestingarstarfsemi er lykilatriði. Slíkt yrði í takti við tilhneiginguna annars staðar í Evrópu í samskiptum ríkis og fjármálastofnana um þessar mundir.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.