15.11.2012 | 20:59
Fjandsemi í garð arðsemi
Leiðarstef núverandi stjórnarflokka er fjandskapur í garð atvinnulífsins, enda er kjarni úreltrar og skaðlegrar hugmyndafræði þeirra að ganga á milli bols og höfuðs á sjálfstæðum atvinnurekendum, sem mynda hryggjarstykki miðstéttarinnar. Í öllum efnahagslega þróuðum samfélögum er öflug miðstétt, sem hefur frelsi til athafna og svigrúm til að bæta kjör sín.
Ef einhvers staðar finnst arðsemi, læsa þessir afdönkuðu stjórnmálaflokkar, sem illu heilli eru nú við stjórnvölinn á Íslandi, klónum í hana. Í tilviki sjávarútvegsins kalla þeir óskapnað sinn auðlindagjald, sem í raun er afar ósanngjörn skattlagning, sem grefur undan eignamyndun í sjávarútvegi og samkeppnihæfni hans við aðrar greinar innanlands og á erlendum mörkuðum. Um er að ræða fimmföldun á fyrra auðlindagjaldi, sem jafngildir eignaupptöku. Þess aðför að sjómönnum og útgerðarmönnum verður að stöðva strax og afl fæst til. Gera þarf vandaða hagfræðilega greiningu á því, hvort þetta örverpi, auðlindagjald, gefur nokkurn skapaðan hlut til samfélagsins, þegar öllu er á botninn hvolft.
Nú neyðast sjávarútvegsfyrirtækin til að færa niður eignasafn sitt, sem skaðar hagkerfi Íslands, því að fjárfestingargeta fyrirtækjanna rýrnar við slíkt. Fjárfestingar sjávarútvegsins hafa verið í lágmarki undanfarin ár vegna stríðs ríkisstjórnarinnar við útgerðarmenn. Að færa eignir í veiðiheimildum úr ISK 200 miö niður í 170 mia árið 2012 er grafalvarlegt mál fyrir hagkerfið. Þetta er enn eitt dæmið um, hversu dýr vinstri stjórnin er íslenzka hagkerfinu. Við höfum ekki efni á vinstri stjórn, og meirihlutinn hefur ógeð á henni.
Þegar búið verður að kasta þessu furðufyrirbrigði út úr Stjórnarráðinu og á öskuhauga sögunnar, mun koma í ljós beint tap og glataðar tekjur á kjörtímabilinu, t.d. vegna minni hagvaxtar, sem nema yfir ISK 2000 miö eða töluvert meiri fjármunum en andvirði einnar landsframleiðslu á ári.
Það er sannað mál með samanburðarrannsóknum á milli landa, að þjóðhagslega hagkvæmast er, að sjávarútvegur lúti markaðslögmálum og fái frið fyrir stjórnvöldum að öðru leyti en því, að þau ákvarði heildaraflamagn í hverri tegund á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Vitleysan krystallast í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar, en þar hefur froðusnakkurinn D.B. Eggertsson, læknir, kynnt nokkur gæluverkefni til sögunnar, sem fjármagna á með ránsfeng ríkisins frá sjávarútveginum. Það er ekki heil brú í vinstri mönnum. Þetta er eintóm fjársóun, sem verður að kasta út í hafsauga. Íslendingar þurfa fjárfestingar, sem mala gull, en ekki blúndulagnir og bróderingar, sem fáir geta lifað af.
Auk þess að mismuna sjávarútveginum með auðlindagjaldi, sem hvergi annars staðar þekkist og er hagfræðilegt glapræði, hafa stjórnvöld á Íslandi skipt sér af tekjumyndun í sjávarútvegi með fúski, sem dregið hefur úr þjóðhagslegri hagkvæmni sjávarútvegsins. Inngrip stjórnvalda, sem draga úr arðsemi sjávarútvegsins, eru forkastanleg, enda eru þau þjóðhagslega óhagkvæm. Stjórnmálalegir sérvitringar og blýantsnagarar í Stjórnarráðinu eiga ekki að hafa vald til aðgerða, sem hygla einum hópi á kostnað heildarinnar. Með því ganga þeir á stjórnarskráarvarinn rétt eins hóps til atvinnufrelsis.
Eitt dæmi um þetta er línuívilnun. Henni komu stjórnmálamenn á til að kaupa sér vinsældir á meðal smábátasjómanna, sem sáu þarna leið til að auka veiðiheimildir sínar í nafni byggðastefnu á kostnað annarra miklu hagkvæmari útgerða og á kostnað tækniþróunar í greininni og gæða framleiðslunnar. Með því að handbeita línu í landi og takmarka sókn við dagróðra fær útgerðin 20 % ívilnun (aukningu) við kvóta sinn. Þetta virkar augljóslega letjandi á tækniþróun útgerðarinnar, því að hún er verðlaunuð fyrir að nota úrelt vinnubrögð, sem eru erfið, óþrifaleg og illa launuð. Óhagkvæmt er að fjárfesta í línubeitingarvél um borð, þegar kvótaaukning fæst gegn handbeitingu. Með þessum hætti á hið opinbera ekki að beita sér. Ef ríkisvaldið á að skipta sér eitthvað af atvinnuvegunum, á það að vera með framleiðnihvetjandi aðgerðum.
Á fundi á Patreksfirði vorið 2012 upplýsti stjórnandi í fiskvinnslu á svæðinu, að fyrirtæki sitt hefði tekið beitingarkerfi úr 300 t vertíðarbáti til að gera hann út á dagróðra með handbeitingu. Áður hafði þessi bátur róið á útilegu í 3 daga í senn.
Áhrif þessara breytinga útgerðarinnar til að nýta sér öfugsnúna hvata, sem stjórnmálamenn höfðu illu heilli sett inn í fiskveiðistjórnunarkerfið, voru eftirfarandi:
- gæði aflans rýrnuðu
- kostnaður við sóknina stóróx
- róa þurfti á heimamið einvörðungu vegna tímamarka
- ekki var unnt að sækja fjarlægari og gjöfulli mið
- olíukostnaður á veitt kg var mun meiri
- dýrara var að handbeita og beitunýting versnaði
Vegna línuívilnunar þótti samt borga sig fyrir útgerðina að stíga þetta skref, sem er augljóslega þjóðhagslega óhagkvæmt. Þarna voru inngrip stjórnmálamanna í markaðskerfið vissulega til óþurftar, eins og allt of oft er raunin.
Smábátakerfið er annað dæmi um skaðleg inngrip stjórnmálamanna í markaðskerfi sjávarútvegsins. Hámarksstærð innan þessa kerfis er 15 t/bát. Þetta er of lítil stærð til að unnt sé að koma við nútímalegri vinnuhagræðingu um borð. Menn kasta þess í stað fiskinum nokkra metra um borð, sem gerir starfið óþarflega erfitt og dregur verulega úr gæðum aflans. Það vantar rými um borð fyrir búnað til að bæta meðferð afla, t.d. blóðgunarbúnað. Með 5 m lengri bátum en leyfðir eru mætti bæta úr þessu öllu. Þar að auki mundi draga úr eldsneytisnotkun per sjómílu, því að þessir stuttu bátar kljúfa vatnið illa og mynda hvirfla í kjölfarið.
Það er óráð og dýrkeypt forræðishyggja að hálfu stjórnmálamanna að ákveða bátsstærð. Útgerðarmaður með aflahlutdeild á bát á að hafa frelsi til ákveða bátsstærðina sjálfur. Þannig hámarkar hann arðsemi sína og tryggir beztu hagkvæmni fyrir þjóðarbúið á sama tíma.
Ekki tekur betra við, þegar kemur að strandveiðunum. Taka má dæmi af Ísafirði. Þar er kvóti tekinn af togaranum Páli Pálssyni, ÍS-102, og færður bílstjóra, bankastjóra, atvinnurekanda og öðrum, sem geta stundað fiskveiðar í frístundum sínum.
Bílstjórinn, bankastjórinn og atvinnurekandinn geta ekki keppt við togarann Pál Pálsson um hagkvæmni. Jaðarkostnaður togarans, þ.e. kostnaður við hvert veitt viðbótar tonn, er aðeins brot af kostnaði þremenninganna í strandveiðunum. Strandveiðarnar eru í raun niðurgreiddar af hinu opinbera með valdboðinni kvótatilfærslu. Þessi inngrip stjórnmálamanna í markaðskerfi sjávarútvegsins eru þjóðinni dýrkeypt. Svo er röflað um að flytja þurfi arðinn af auðlindinni til þjóðarinnar. Hvílíkur tvískinnungur og blekkingarleikur. Atvinnusköpunin orkar og tvímælis. Hvert tonn, sem Páll Pálsson landar, fer til vinnslu í Hnífsdal, en stór hluti strandveiðiaflans er seldur á markað og fluttur burt óunninn. Hér hafa lýðskrumarar vélað um mikla hagsmuni og valdið lýðnum stórtjóni.
Það, sem hér hefur verið upp talið um forræðishyggju stjórnmálamanna, er þó barnaleikur hjá því, sem koma skal, ef sjávarútvegsóráð núverandi stjórnarflokka nær fram að ganga. Allar ofangreindar aðgerðir þeirra draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni útgerðanna, en stefna Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs mun keyra útgerðina í þrot. Arðsemi er eitur í þeirra beinum, og með ofríki á Alþingi ætla þeir að uppræta hana. Ríkið skal þá verða allt um vefjandi, og fúskarar í gervi stjórnmálamanna og embættismanna taka allar ákvarðanir fyrir útgerðirnar, þ.e. um, hvað skuli veiða, hvenær, hvernig og hver skuli veiða. Þar með verður réttlæti vinstri manna og andskotans fullnægt, en samfélagið, einkum við sjávarsíðuna, mun lepja dauðann úr skel.
Sjávarútvegsóráð ríkisstjórnarinnar á sér hvergi nokkra hliðstæðu í heiminum, og virðist hafa verið kokkað upp á kaffihúsi í R-101. Aflahlutdeildarkerfið, aftur á móti, sem á Íslandi hefur viðgengizt í þrjá áratugi í grundvallaratriðum, er þekkt um allan heim og viðurkennt sem árangursríkasta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þekkist, bæði m.t.t. hagkvæmni og stjórnunar á nýtingu auðlindarinnar, sem í raun er umhverfisvernd á hafi úti á háu stigi.
Chile er dæmi um land, þar sem ofveiði úti fyrir 4000 km langri strandlengjunni var að gera út af við fiskistofnana, þegar Chilemenn settu á kvótakerfi árið 2001, mjög keimlíkt hinu íslenzka, þar sem kvótar voru ákvarðaðir á grundvelli veiðireynslu og úthlutað án endurgjalds. Kvótarnir eru frítt framseljanlegir. Þetta markaðskerfi í sjávarútvegi Chile vann kraftaverk, þar sem stofnarnir brögguðust, skipum og útgerðum fækkaði og arður varð af veiðunum. Í sumum tegundum hefur að vísu orðið svo mikil samþjöppun, að 91 % veiðiheimildanna hefur safnazt á 4 fyrirtæki. Þetta er meiri samþjöppun en leyfð er hér.
Ríkisstjórn Chile vill nú setja á auðlindagjald, sem nemur 3,3 % af bókfærðum verðmætum aflahlutdeildarinnar á ári. Við íslenzkar aðstæður mundi þetta jafngildi auðlindagjaldi um 6,6 milljörðum kr á ári, sem er útgerðinni þungbært, en samt mun lægra en vinstri stjórnin á Íslandi stefnir á, sem er þrefalt hærra en þetta chileanska auðlindagjald. Útgerðarmenn í Chile mótmæla og vilja, að ríkisstjórnin láti sér duga tekjuskatt af útgerðinni. Á þessu ári, 2012, eru stefnumótandi umræður á þingi Chile um fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar.
Sjávarútvegurinn stendur víða á tímamótum og brýnt er að láta hagkvæmnisjónarmið ráða. Það, sem er gott fyrir sjávarútveginn, er gott fyrir þjóðina. Ef sjávarútvegurinn á Íslandi kiknar undan byrðunum, brestur íslenzka hagkerfið. Þess vegna ber að veita íslenzka sjávarútveginum frið fyrir öðrum inngripum yfirvalda en ákvörðunum um árlega heildarnýtingu auðlindarinnar auk lokunar svæða o.þ.h. Það mun reynast heildinni affarasælast, og sú mun vonandi verða raunin áður en yfir lýkur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.