Haftabúskapur hörmangara

Gjaldeyrishöftin hafa nú varað í 4 ár, en áttu að standa í um 4 mánuði.  Ástæða þess, að þau eru enn við lýði, er sú, að duglaus vinstri stjórn settist hér að völdum 1. febrúar 2009 í skjóli Framsóknarflokksins og hefur stundað slímsetu síðan í óþökk flestra og þ.á.m. Framsóknarmanna.  Þar er ekki einvörðungu um heybrókarhátt að ræða, heldur hefur berlega komið í ljós í hverju málinu á fætur öðru, að ráðherrarnir eru úrræðalausir og mistækir með afbrigðum.  Þetta vinstra fólk getur slegið um sig með innihaldslausum frösum og froðusnakki, og það getur verið fúlt á móti öllum framförum, en það hefur enga hæfileika til að byggja upp og leiða þjóðina út úr ógöngunum.  Þjóðin fór úr öskunni í eldinn.  

Ríkisstjórninni hefur haldizt illa á ráðherrum, en forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, sem Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra, lætur að liggja, að stigi ekki í vitið, og hún hefur aldrei afsannað það, hefur, dæmd manneskja, ríghaldið í forsætisráðherrastólinn, þrátt fyrir að hún hafi framið reginafglöp í embætti, sýnt ruddalega framkomu, svikið öll loforð, sem aðilum vinnumarkaðarins hafa verið gefin og margítrekað sannað, að hún er algerlega úti að aka eða úti á túni, eins og líka er sagt, en landbúnaðurinn á ekki skilið.

  Hvernig dirfist þetta fyrirbrigði að heimta það nú, að Sjálfstæðisflokkinum verði haldið áfram í stjórnarandstöðu eftir komandi Alþingiskosningar og Samfylkingin leiði ríkisstjórn að þeim afloknum ?  Samfylkingin er nú komin undir 20 % markið sitt og Vinstri hreyfingin grænt framboð stefnir á 10 %.  Sporin hræða, og þessir tveir stjórnmálaflokkar hafa gjörsamlega dæmt sig úr leik.  Kaffihús 101 hæfir þeim, en ekki Stjórnarráð Íslands.  Flokkarnir hafa á að skipa þröngsýnu afturhaldsfólki í þingliði sínu, sem enga samleið á með almannahagsmunum.  Landvættirnir munu tryllast, ef þessum andlegu örverpum tekst að krafla sig upp í valdastólana eftir næstu Alþingiskosningar á hækjum Guðmundar Steingrímssonar eða annarra pólitískra viðrina.

Haftabúskapur leiðir af gjaldeyrishöftum.  Einmitt slík varð þróunin hér eftir 1929, en þá hófst Kreppan mikla (The Great Depression).  Hún stóð í 10 ár, en haftabúskapur varði á Íslandi í 30 ár fram að Viðreisnarstjórninni, sem afnam haftabúskap og hóf mikið framfaraskeið undir forystu Ólafs Thórs og Bjarna Benediktssonar.  Nú mun koma í hlut annars Bjarna Benediktssonar af sama meiði að ganga á milli bols og höfuðs á afturhaldinu, sem grafið hefur um sig í Stjórnarráðinu, og hefja hér frelsisvakningu og framfarasókn eftir næstu Alþingiskosningar. 

"He has got the guts", segir Kaninn, og bíti hann í skjaldarrendurnar og varpi sér af eldmóði fyrirrennara sinna og ættmenna út í þessa baráttu, sem verður blóðug og hörð, þá hefur hann það, sem til þarf, svo að sigur náist. 

Milton Friedman, hagfræðiprófessor, reit í bók sína, "Frelsi og framtak": "Ekki er ofsagt, að atvinnufrelsinu í Bandaríkjunum er mesta skammtímahætta búin af, að Þriðju heimsstyrjöldinni undanskilinni, að sett verði á höft til að "leysa úr" einhverjum greiðslujafnaðarvanda.  Afskipti af alþjóðaviðskiptum eru sakleysisleg að sjá.  Margir, sem annars tortryggja mjög ríkisafskipti af atvinnumálum, aðhyllast þau.  Margir kaupsýslumenn telja þau jafnvel til "bandarískra lífshátta". 

Samt er fátt, sem getur borizt jafnvíða um og orðið að lokum svo skaðlegt einkaframtaki sem þetta.  Reynslan sýnir, að fyrsta skrefið á greiðfærustu leiðinni út úr frjálslyndisskipulagi og í stjórnlyndisskipulag eru gjaldeyrishöft.  Þetta fyrsta skref leiðir óhjákvæmilega til innflutningshafta, til afskipta af innlendum iðnaði, sem þarf innflutningsvörur eða sem framleiðir vörur í staðinn fyrir þær, og að lokum er komið í vítahring."

Þegar ofangreint er lesið, þarf ekki lengur vitnanna við um, hvers vegna höftin eru fremur fest í sessi en losað sé um þau af vinstri stjórninni.  Stjórnvöldin, amlóðarnir í Stjórnarráðinu, svo að ekki sé nú minnzt á garminn Ketil, skræk, þingmeirihlutann, sem var, og trotzkyistarnir á Svörtuloftum, sjá enga meinbugi á gjaldeyrishöftum; þau falla vel að stjórnlyndum lífsskoðunum þeirra, og þeim finnst þau vera að stjórna þjóðfélaginu með útdeilingu gjaldeyris til Péturs á gengi A og til Páls á gengi B.  Illvíg spilling grípur um sig, og stjórnmálamenn skekkja samkeppnisstöðu með tvöföldu gengi, þar sem gamlir bankagullrassar og útrásarsnillingar með erlendan gjaldeyri í fórum sínum fá keyptar krónur á útsölu.  Þetta er dæmigert ríkissukk í boði félagshyggjufólks.  Almenningi blæðir fyrir höftin.  Dæmigerð félagshyggja andskotans.

Íslenzku krónunni stafar mest hætta af núverandi stjórnvöldum.  Þau tala krónuna niður, þau nota bága stöðu hennar sem röksemd fyrir "upptöku evru", sem verður grafskrift ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, enda alheimskulegasta stefnumið í stjórnmálum, sem hægt er að hugsa sér, og þau standa í vegi fyrir erlendum fjárfestingum.  Á öllum vígstöðvum leggjast þau þvers.  Miklar erlendar fjárfestingar eru skilyrði þess, að krónan taki ekki dýfu við afnám gjaldeyrishaftanna, og það kann að þurfa að stjórna útflæðinu í fyrstu á meðan þrýstingurinn er mestur.  Þetta verður eitt af brýnustu verkefnum framfarastjórnar eftir næstu Alþingiskosningar.

Íslendingar standa nú frammi fyrir vali.  Skammtímaáhrif núverandi haftastefnu eru, að vextir verða tiltölulega lágir, og gengið mun veikjast hægt og rólega.  Langtímaáhrif haftanna verða minni hagvöxtur en ella vegna minni og óhagkvæmra fjárfestinga.  Ríkið mun halda áfram að þenjast út, þar sem það hefur aðgang að innilokuðu fjármagni, og sparnaður landsmanna mun lítinn sem engan ávöxt bera vegna lágra vaxta.  Þjóðfélagið hjakkar í sömu förum og sífellt sverfur að vegna atgervisflótta.

Því lengur, sem heykzt er á að afnema höftin, þeim mun erfiðara verður það, því að hagkerfið lagar sig að meininu, eins og líkami að lömuðum útlimi.  Gjaldeyrishöftin ýta mjög undir afskipti stjórnmálamanna af fyrirtækjum og þar með bönkum, og þetta jafngildir viðbjóðslegri spillingu, sem stjórnmálamenn á forsjárhyggjuvængnum upplifa sem eðlilegt og eftirsóknarvert ástand. 

Það er hægt að afnema höftin.  Það mun óhjákvæmilega valda tímabundnum sársauka.  Það kemur til greina að afnema verðtryggingu áður en gjaldeyrishöftin verða afnumin eða samtímis.  Draumórar sveimhuganna í þingflokkum ríkisstjórnarinnar um aðstoð frá ESB við afnám haftanna hafa orðið sér rækilega til skammar.  Yves-Thibault de Siguy færði skýr rök fyrir því í viðtali í Viðskiptablaðinu 27. september 2012, að landsmönnum stæði hvorki til boða flýtimeðferð í evruna né aðstoð við afnám haftanna.    

    

 

         

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi

Höftin verða afnumin. Það er nauðsynlegt að gera það hægt og rólega til að stofna ekki ofurviðkvæmu fjármálakerfi okkar í hættu með neikvæðum áhrifum fyrir alla landsmenn aftur, sér í lagi þegar litið er til þess að á svona tímum, þar sem efnahagslíf mjög margra þjóða er ekki uppi á marga fiska, flýr fjármagn í örugga gjaldmiðla.

Annars hafa sumar rannsóknir ekki fundið nein tengsl milli frjálsra fjármagnsflutninga og hagvaxtar meðan aðrar rannsóknir hafa fundið tengsl þar á milli. Öfgarnar í þessari umræðu hér á landi eru of miklar. [URL="https://scholarsbank.uoregon.edu/xmlui/bitstream/handle/1794/3427/UO-2006-10_magud_controls.pdf?sequence=1"]Sjá t.d. hér[/URL].

Bragi, 24.11.2012 kl. 00:03

2 Smámynd: Bragi

Jæja, þetta klúðraðist eitthvað hjá mér en ekkert mál að klikka á tengilinn engu að síður.

Bragi, 24.11.2012 kl. 00:05

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Bragi;

Þakka þér fyrir innlitið.

Það eru til dæmi um vel heppnað "pennastrik" í þessum efnum, og er mér efst í huga, er Dr Ludwig Erhard afnam öll höft á Vestur-Þjóðverjum á einni nóttu þvert gegn ráðleggingum eigin ráðgjafa og bandarísku herstjórnarinnar í V-Þýzkalandi. 

Það getur vel verið, að "salami" aðferðin verði samt ofan á hér hjá nýrri ríkisstjórn.  Áhættugreina þarf báðar aðferðirnar og velja þá, sem öruggari og sársaukaminni reynist.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 24.11.2012 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband