Af gallagripum

Það er enn í fersku minni, hvernig gallagripum skolaði inn fyrir þröskuld Stjórnarráðsins í kjölfar mestu óeirða í sögu lýðveldisins í ársbyrjun 2009, sem nærri höfðu brotið niður hetjulega vörn ríkislögreglunnar um Alþingishús og Stjórnarráð.  Rómverjar spurðu: "Cuo bono", þ.e. hverjum í hag, þegar þeir leituðu sökudólga.  Þetta ástand var ýmsum í stjórnarandstöðunni í hag, og að torvelda vinnu rétt kjörins löggjafa og að velta valdhöfum með ofbeldi stendur nærri hugmyndafræði stjórnmálaafla á vinstri kantinum hér.  Þó að enn eigi eftir að upplýsa um þessa atburði til fulls, leikur þó vart á tveimur tungum, að vinstri-öfgamenn í landinu æstu margt sárreitt fólk upp, og nokkrir gripu til óyndisúrræða.  Ekki voru allir innan þinghússveggja með hreinan skjöld á þessum gjörningatíma.  Stjórnarskrá lýðveldisins, hins vegar, stóðst þetta "álagspróf" og það, sem fylgdi í kjölfarið, með sóma.  Hún er þess vegna blóraböggull að ósekju.  Hlálegt er, þegar verið er að gera lítið úr henni fyrir danskan uppruna sinn, sérstaklega í ljósi þeirrar moðsuðu, sem nú er búið að kokka upp sem valkost við þá gömlu góðu, sem stendur á evrópskum mergi.  Óskalisti draumórafólks er ónýtt plagg sem Stjórnarskrá lýðveldisins.  Moðsuðan er svo illa úr garði gerð, að lögspekingar hafa tjáð sig á þann veg, að hún muni skapa hér margvíslega réttaróvissu.  Lögspekingarnir hafa fært fyrir þessu haldgóð rök, og þar með hefur stjórnlagaráðið fallið á prófinu.  Aðferðarfræðin við að semja nýja Stjórnarskrá var dæmd til að mistakast.  Plaggið er einskis virði, en úr ríkissjóði mun á endanum  fara yfir einn milljarður kr út af þessari fordild forsætisráðherra.   

Ofstækisöfl stöðvuðu endurreisnarvinnu ríkisstjórnar eftir holskeflu bankagjaldþrota í alþjóðlegri fjármálakreppu, sem var í vissu hámarki haustið 2008, þó að verra ástand sé væntanlegt fyrir hagkerfi heimsins.  Þegar mest reið á að mynda samstöðu á meðal þjóðarinnar til lausnar á aðsteðjandi vanda og til að verjast árásum erlendis frá, þá sýndu forkólfar vinstri aflanna í landinu þarna sitt rétta eðli, og það var sannarlega "skítlegt eðli". 

Gallagripir, sem lengi höfðu gapað um eigið ágæti, án innistæðu, tóku nú við stjórnartaumunum og unnu allt með öfugum klónum, eins og þeim einum er lagið, og hefur ekki linnt niðurrifsstarfsemi þeirra gagnvart atvinnuvegum, skattkerfi, hagkerfi og fullveldi við ríkisstjórnarborðið frá 1. febrúar 2009 og í Alþingishúsinu frá 10. maí 2009. 

Hefur uppstytta ekki orðið á afglöpum gallagripa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, svo að þjóðfélagið hefur orðið af stórfelldum tekjum og mátt þola bruðl með skattfé.  Tekjutapið gæti numið a.m.k. 300 milljörðum kr á ári eða um einni milljón kr á ári á hvert mannsbarn í landinu.  Icesave-klafinn, sem svikahrapparnir ætluðu að smeygja um háls landsmanna, fæddra og ófæddra, og þegar hefði orðið að greiða, ef veitleysan hefði ekki verið stöðvuð, nemur svipaðri upphæð.  Er þá ótalin öll vinstri-skattheimtan á almenning, sem rýrt hefur kaupmátt hans verulega án þess að hagur ríkissjóðs hafi vænkast þess vegna.  Ríkisstjórnin þykist samt ekki hafa hækkað skatta, af því að skatttekjur hins opinbera hafa lækkað.  Sýnir sá málflutningur annaðhvort fádæma ósvífni að hætti Lyga-Marðar eða ótrúlega vanþekkingu á hugtökunum skattheimta og skatttekjur, svo að ekki sé nú minnzt á boðskap Lafflers og hans Laffler parabólu.   

 

Lýðskrumarar höfðu þegar haustið 2008 hátt um, að blóraböggull Hrunsins væri Stjórnarskrá lýðveldisins, eða hún væri a.m.k. einn af blórabögglunum.  Lýðskrumararnir fundu enga sök hjá sér, enda ekki við því að búast af mönnum lítilla sanda og lítilla sæva.  Hér var hráskinnaleikur ósvífinna afglapa á ferð með óhreint mjöl í pokahorninu.  Ásökunin á hendur Stjórnarskránni er tilhæfulaus og foráttuvitlaus, enda liggur þar fiskur undir steini.  Stjórnarskráin stóðst áraunina í Hruninu, þó að sumir stjórnmálamenn hafi bilað. Neyðarlögin, sem björguðu landinu frá gjaldþroti, stóðust Stjórnarskrána.  Landið hélt fullveldi sínu.

Núgildandi Stjórnarskrá lýðveldisins er helzta brjóstvörn fullveldis landsins, því að hún bannar framsal fullveldis í verulegum mæli.  Þannig girðir hún fyrir, að svikulir þingmenn geti með meirihlutasamþykkt framselt tiltölulega nýfengið fullveldi til annarra ríkja eða ríkjasambanda. Stjórnarskráin girðir fyrir afglöp þings, t.d. inngöngu í ESB. Verulegt fullveldisframsal nú krefst Stjórnarskráarbreytingar, sem útheimtir samþykki tveggja þinga.  Þunglamalegt fyrirkomulag, en í mörgum löndum torsóttara, því að þar er farið fram á aukinn meirihluta þings, og breyting á Stjórnarskrá á ekki að vera auðveld.  

Um þetta snýst sviksamlegt bröltið með "endurskoðun Stjórnarskráarinnar".  Lýðskrumarar og loddarar geta aldrei nefnt hlutina réttum nöfnum.  Þeir, sem harðast berjast fyrir nýrri Stjórnarskrá, sigla undir fölsku flaggi.  Þeir vilja afnema fullveldisvarnir Stjórnarskráarinnar. Í drögum þingskipaðs hóps, sem lætur, eins og hann hafi verið þjóðkjörinn, sem sendi tillögu um nýja Stjórnarskrá til Alþingis, er búið að afnema þennan varnagla fullveldisins. Téð drög, sem með alveg ótrúlega gösslaralegum og ólýðræðislegum aðdraganda hefur nú verið ýtt á flot og kjósa á um 20. október 2012, undir yfirskyni spurningavaðals eða skoðanakönnunar, eru sniðin að áformum Brüsselvina til að unnt verði í fyllingu tímans að auðvelda inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, jafnvel að smygla landinu þar inn í blóra við vilja meirihluta þjóðarinnar, ef samþykki fyrir slíku skyldi nást á Alþingi með einum eða öðrum hætti. 

Þess finnast engin dæmi í heiminum önnur en á Íslandi, að staðið hafi verið svo endemis flausturslega og ólýðræðislega að grundvallarbreytingum á grundvallarlögunum.  Í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna hefur sú leið verið valin að fá aðila utan þings til að gera tillögu um stjórnarskráarbreytingar, en þá voru atkvæðisbærir íbúar undantekningarlaust spurðir að því í almennri atkvæðagreiðslu, hvort þeir vildu hafa þann háttinn á.  Auðvitað átti að sýna íslenzkum ríkisborgurum þá lágmarksvirðingu að spyrja þá í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort þeir vildu, að 

  • Alþingi hefði forgöngu um endurskoðun Stjórnarskráarinnar 
  • valinkunnir stjórnlagafræðingar yrðu fengnir til verksins
  • kosið yrði til stjórnlagaþings

Þetta var sjálfsagt upphaf í ljósi þess, að Stjórnarskráin sjálf mælir svo fyrir um, að fyrsti hátturinn hér að ofan skuli viðhafður, og að sjálfsögðu hljóta allar tillögur um breytingu á íslenzku Stjórnarskránni að koma til umfjöllunar Alþingis.  Hroki einstaka stjórnlagaráðsaðila er yfirþyrmandi, þegar þeir leyfa sér að setja Alþingi lífsreglurnar um það, hvernig skuli meðhöndla tillögurnar.  Þessir stjórnlagaráðslimir skilja ekki einu sinni, að þeir eru ekki þjóðkjörnir, og hafa ekki hærri stöðu en aðrar þingskipaðar nefndir.    

Drögin, sem kjósa á um, minna á "sálina hans Jóns míns", sem kerling tróð í skjóðu sína, batt rammlega fyrir og tókst að fleygja inn um Gullna hliðið, framhjá Sankta -Pétri.  Kerlingin er í þessu tilviki þekktur lýðskrumari í þokkabót.

  1. Af þessum sökum er einboðið að segja nei við fyrstu spurningunni á atkvæðaseðlinum og hafna þannig kolrangri aðferðarfræði, flausturslegu fúski og torskilinni moðsuðu, sem setur hvorki löggjafanum né framkvæmdavaldinu nægar skorður.
  2. Önnur spurning fjallar um þjóðnýtingu náttúruauðlinda.  Hér er ætlunin að smygla ákvæði í anda Karls Marx og Vladimirs Leníns inn í Stjórnarskrána, sem sagt gjaldþrota hugmyndafræði.  Er það dæmigert fyrir verk þetta allt að reyna að smygla afar umdeildri og misheppnaðri sameignarstefnu inn í Stjórnarskrána.  Þetta ákvæði stríðir algerlega gegn núverandi eignarréttarákvæði Stjórnarskráarinnar, sem er hornsteinn markaðskerfisins, sem eitt getur tryggt Íslendingum lífskjör, er samkeppnihæf séu við næstu lönd.  Þeir, sem festa fé sitt í vinnslu auðlindarinnar, hver sem hún er, eiga rétt á að nýta hana undir vísindalegri stjórnun hins opinbera, sem tryggir sjálfbæra nýtingu.  Ef sá, sem nýtir, hefur ekki sjálfur mestan hag af góðri umgengni við auðlindina, þá munu almannahagsmunir bíða tjón af. Hér ber þess vegna að segja nei.
  3. Þriðja spurningin er dæmigerð fyrir tvískinnunginn og óheilindin í sambandi við þessa endurskoðun Stjórnarskráar.  Spurt er, hvort kjósandinn vilji, að í nýrri Stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi.  Af hverju er ekki komið beint að efninu og spurt, hvort kjósandinn vilji hafa þjóðkirkju á Íslandi eða ekki ?  Það er stjáklað eins og köttur í kringum heitan graut um afnám þjóðkirkjunnar.  Með því að segja já hér, er ekki einu sinni víst, að þjóðkirkjan haldist, en með neii hverfur hún auðveldlega.  Hér eru mikil óheilindi á ferð.
  4. Fjórða spurningin er um persónukjör, þ.e. hvort kjósandinn vilji heimila persónukjör í meira mæli en nú er.  Spurningin er eins gagnslítil og hugsazt getur um þetta efni, því að komi auknar heimildir, geta þær spannað mjög vítt svið.  Það er rétt að ýta undir persónukjör, svo að litlaust og gagnslaust fólk geti síður flotið inn í skjóli stjórnmálaflokkanna.  Svarið er já.
  5.  Fimmta spurningin virðist í fljótu bragði vera sú skýrasta í þessum spurningavaðli fyrir utan þá fyrstu, en þegar betur er að gáð, er hér flagð undir fögru skinni.  Spurningin vitnar um falskan uppruna sinn, því að það er rétt einu sinni verið að spyrja um allt annað en samkvæmt orðanna hljóðan.  Það er í raun verið að spyrja kjósandann, hvort hann vilji hafa landið eitt kjördæmi, því að það er eina leiðin til að uppfylla skilyrðið, sem spurt er um.   Spurningin fjallar um það, hvort kjósandinn vilji hafa ákvæði í Stjórnarskrá um, að atkvæði allra kjósenda hafi sama vægi.  Um þetta má hafa mörg orð, en í stuttu máli verður ekki böl bætt með því að bæta við öðru verra.  Dreifbýlið stendur veikt gagnvart þéttbýlinu, en það verður ekki fallizt á að bæta úr því með því að láta hvert atkvæði dreifbýlisins vigta langt umfram hvert atkvæði úr þéttbýlinu, þegar riðið er til þings.   Það kemur vel til greina að setja mótvægisákvæði í Stjórnarskrá, sem styður við hagsmunagæzlu á Alþingi í þágu dreifbýlis, sem er aðaltekjuaflvaki landsins, gegn því að gera atkvæðisréttinn jafnari en nú er.  Það kemur þar að auki vel til greina að auka hlut sveitarfélaganna enn í heildartekjum hins opinbera um leið og fleiri verkefni ríkisins verða flutt til sveitarfélaganna.  Ræða þarf, hvaða tekjustofnar og verkefni mundu þá flytjast, en nefna má tekjuskatt af fyrirtækjum, svo að ekki sé nú minnzt á hið umdeilda og stórgallaða auðlindagjald.  Ef spurningin hefði verið opnari, t.d. þannig: vilt þú hafa kosningalöggjöfina þannig, að hlutfall fjölda kjósenda á bak við hvern þingmann geti hvergi orðið hærra en 1:1,15, hefði málið horft allt öðru vísi við en þegar aðeins er boðið upp á eina lausn, þ.e. vægið 1:1.  Rétta svarið hér er þess vegna nei.   
  6. Síðasta spurningin fjallar um beint lýðræði, sem er mikils um vert að fá í Stjórnarskrá, enda tímanna tákn, en þessu er hægt að klúðra líka.  Veldur þar hver á heldur.  15 % atkvæðisbærra manna á að geta krafizt þjóðaratkvæðis um öll mál, einnig varðandi fjárlög og samninga við erlend ríki, og einnig 40 % þingmanna eða 25 þingmenn, en þá er óþarft að halda þessum rétti hjá forseta lýðveldisins. Tímanna tákn er að svara já hér.  

Einkennilegt er, að í þessum spurningavaðli skuli ekkert vera spurt um forsetaembættið.  Samt eru skoðanir manna mjög skiptar um framtíðarskipan forsetaembættisins.  Það felast ákveðin tækifæri til enn skýrari valdmarka hinna þriggja greina ríkisvaldsins, löggjafans, ríkisstjórnar og dómskerfis, með því að endurskilgreina forsetaembættið og koma á laggirnar Stjórnlagadómstóli.  Forsetinn þarf að fá skýrara hlutverk innan stjórnskipanarinnar á kostnað framkvæmdavaldsins, þó að ekki verði horfið frá þingræðisfyrirkomulaginu.  Stjórnlagafræðingar eru betur í stakkinn búnir til að gera skýra tillögu um þetta til Alþingis en glergrísir og froðusnakkar, sem telja sig vinna úr hugmyndum óljóss Þjóðfundar um heilindi, réttlæti og samvinnu, sem endurspeglað hafi vilja þjóðarinnar vegna handahófsvals.  Þetta er raunar óboðleg "hundalógík".  Nær hefði verið að leita í smiðju stjórnlaganefndarinnar, sem gaf út um 500 bls. ritverk og var forveri Þjóðfundar.  Allt þetta afspyrnu ólánlega ferli, sem var illa til stofnað af ógæfufólki, eins og hér hefur verið rakið, mun líklega kosta ríkissjóð yfir einn milljarð króna áður en endir verður á það bundinn.  Er þetta hægt, Matthías ?    

Hlutverk Stjórnarskráar er m.a. að kveða greinilega á um valdmörk allra þriggja greina ríkisvaldsins og um hlutverk, skyldur og ábyrgð innan hverrar greinar.  Þetta er gert með ófullnægjandi hætti í tillögu Stjórnlagaráðs, eins og prófessor emeritus, Sigurður Líndal, o.fl. lögfróðir menn hafa bent á.  Stjórnarskrá á að vera krystaltær, án orðagjálfurs (knöpp) og stefnuyfirlýsinga, auðskilin hverju mannsbarni, enda réttindaskjal almennings í landinu.  Það er tillaga Stjórnlagaráðs ekki, svo að vægilega sé til orða tekið, og þess vegna þarf að taka þessa stjórnlagavinnu nýjum og föstum lýðræðislegum og faglegum tökum í senn.   

  Hraunfoss 1  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband