7.12.2012 | 21:28
Hið vanhelga bandalag gegn miðstéttinni
Ríkisstjórnin hefur gengið fram af fólki með sviksemi og óheilindum. Aðstandendur vinstri stjórnarinnar hafa opinberað sig sem samvizkulausa siðleysingja. Keisarinn er ekki í neinu, og sá bleiki er ei sjón í sólskini.
Forsjárhyggjuforkólfar hafa reynzt bandamenn bankanna gegn almenningi í landinu. Það byrjaði með afhendingu á bönkunum til erlendra vogunarsjóða, hélt áfram með Icesave-landssvikum, og nú hefur Hæstiréttur dæmt lög, sem Árni Páll Árnason, þáverandi bankamálaráðherra og núverandi vonbiðill Samfylkingar, keyrði gegnum þingið með offorsi í desember 2010, ólög. Þessi ólög voru mjög hliðholl fjármagnseigendum á kostnað lántakenda, eins og ríkisstjórnin hefur verið allt sitt skeið, sem nú er senn á enda runnið. Árni Páll gerir nú tilraun til að skapa af sér nýja ímynd hins frjálslynda jafnaðarmanns, en slík glansmynd er falsmynd og stenzt ekki, sé litið yfir feril hans, enda hér um gamlan Allaballa að ræða með kreftan hnefann syngjandi Nallann. Voru það bernskubrek eða siðferðisbrestur ?
Þar sem fyrri vonbiðill Samfylkingar var nefndur, er rétt að nefna Guðbjart Hannesson, fyrrverandi skólastjóra, en hann hefur orðið alræmdur af þrennu. Í fyrstu var hann vikapiltur Jóhönnu í þingnefnd þeirri, er aðallega fjallaði um Icesave. Það var alveg sama, hvaða ný gögn streymdu inn um málið; viðkvæði Guðbjarts var jafnan, að ekkert nýtt hefði gerzt í málinu. Það er hið sama uppi á teninginum núna í Velferðarráðuneytinu. Þó að hvert táknið af öðru um yfirvofandi hrun heilbrigðiskerfisins íslenzka birtist, þá er aðgerðarleysi þessa svifaseina ráðherra yfirþyrmandi. Það hefur nefnilega ekkert nýtt gerzt í málinu. Þerra heitir óhæfni í embætti. Maðurinn er kominn í embætti, sem hann ræður ekkert við, enda finnur Jóhanna, að Guðbjartur mun ekki skyggja á hana.
Þá voru dularfull undirmál á ferðinni í ráðuneyti Guðbjarts um launamál forstjóra Landsspítalans, sem eru ófagur vitnisburður um dómgreind Guðbjarts. Þetta brölt ráðherrans var neistinn, sem kveikti bálið, sem nú brennur á Landsspítalanum. Er þessi gegndarlausi ríkisrekstur e.t.v. kominn á leiðarenda. Það er alltaf hætta á því, að menn, sem skortir gripsvit, komist til valda í ráðuneytunum, og þá er talsvert öryggi að valddreifingu. Meira fyrir minna er reynsla Svía af einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum, og þangað má leita fyrirmynda. Það er engin þörf á að finna upp hjólið hér.
Þriðja og stærsta sorgarsena Guðbjarts er gjaldþrot Íbúðalánasjóðs, sem sorterar undir hann, en Guðbrandur, húsköttur hér á bæ, mundi áreiðanlega ekki hafa leyft sjóðinum að sigla upp á það harða sker, sem hann er nú á. Guðbrandur, húsköttur, hefði áreiðanlega reynzt úrræðabetri en Guðbjartur, fyrrverandi skólastjóri, enda virtist Bjart þennan ekki renna í grun fyrir nokkrum vikum í hvert heljarinnar óefni óskapnaður þessi er búinn að koma skattborgurum þessa lands. Það er auðvitað eftir öðru, að Bjartur þessi telji sig kjörinn til að leiða stjórnmálaflokk, svo úrræðalaus og klaufskur sem hann er, enda horfir hann stöðugt í baksýnisspegilinn, og þar af leiðandi sér hann breytingar í öðru ljósi en annað fólk.
Ríkisstjórnin hefur þverskallazt við að afnema verðtryggingu, en bankarnir eru einn aðalþrýstihópurinn, sem berst fyrir viðhaldi verðtryggingar. Hvernig stendur á því, að ráðherrar og þinglið vinstri flokkanna haga sér eins og umskiptingar, þegar þeir fá völdin ? Hér verður leitazt við að svara því:
Á pukurdagskrá Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er útrýming miðstéttarinnar á Íslandi. Það hefur komið berlega í ljós eftir því, sem liðið hefur á valdatíma þessara vesalinga. Þessir ofstækisflokkar, sem rekja uppruna sinn til blóðugra stéttaátaka, ætla að mynda Alþýðulýðveldið Ísland með því að ganga á milli bols og höfuðs á miðstéttinni. Þessi áform munu takast á næsta kjörtímabili, ef kjósendur sýna af sér það andvaraleysi að kjósa ríkisstjórnarflokkana eða útibú þeirra á borð við Guðmund Steingrímsson, er verður að telja ættlera miðað við glæsta sögu afa hans og föður.
Sameignarsinnarnir gerðu vanheilagt bandalag við fjármálaöflin um að ræna miðstéttina. Til þess eru skattahækkanirnar, lagasetning í þágu fjármálafyrirtækjanna, t.d. Árna Páls-lögin, fjárfestingarfjötrar og atlögur að greinum, þar sem einkaframtak innan vébanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur mátt sín mikils. Menn sjá nú t.d. útgerðarmenn leggja upp laupana vegna hreinnar eignaupptöku að hætti Marx/Lenínista, klædda í sauðargæru "gjaldtöku af auðlindarentu". Það er stríðsástand undir vinstri stjórn, og vantar aðeins Mólotoffkokkteilana til að borgarastyrjöld brjótist út. Í anda jólaföstunnar verður að vona, að af slíku verði ei.
Verði þessi ósvinna látin viðgangast fram á næsta kjörtímabil, gerist eitt af þrennu: miðstéttin verður eignalaus og myndar öreigastétt, eins og í Ráðstjórnarríkjunum, hún flýr land, eða miðstéttin rís upp og hristir af sér klafana. Hún er seinþreytt til vandræða, og hagsmunir innan miðstéttarinnar eru reyndar margvíslegir, en fari hún af stað í hefndarhug, vei þá þeim, sem fyrir henni verða. Nægt er þar aflið til að velta rotnum valdhöfum úr vegi.
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) og í mörgum Evrópulöndum er nú rætt um endurbætur á bankakerfinu til að draga úr hættu á holskeflum, eins og þeim, sem riðu yfir fjármálageirann og almenning haustið 2008 víða um heim. Evrópusambandið (ESB) með sínum hætti hefur ákveðið að stofna til sameiginlegs bankaeftirlits, a.m.k. innan evrusvæðisins. Átti það að verða á höndum seðlabanka evrunnar í Frankfurt am Main, en Þjóðverjar virðast telja slíkt utan verksviðs Seðlabanka evrunnar. Hinir fornu fjandmenn, Frakkar og Þjóðverjar, deila enn hart um útfærsluna á þessu, eins og mörgu öðru. Er þetta þó vafalítið framfaraspor, og fyrir Íslendinga hefði verið betra, að slíkt sameiginlegt bankaeftirlit hefði spannað starfsemi útblásinna íslenzkra banka, sem étnir höfðu verið innan frá með græðgi, störfuðu á alþjóðlegum markaði og íslenzka Fjármálaeftirlitið réði ekki við; var öllu heldur leiksoppur bankanna.
Nú fjarar undan Frakklandi og að verða deginum ljósara, að banamein evrunnar verður sú sögulega staðreynd, að Frakkar munu aldrei fara bónarveg til Berlínar. Afleiðingin verður sú, að Prússarnir munu enn einu sinni fara í sigurgöngu inn í París. Munurinn er sá, að gæsagangurinn hefur vikið fyrir samræmdu göngulagi tevtónskra iðnjöfra, sem lagt hafa franskan iðnað að velli.
Þar sem umræða um umbætur á fjármálageiranum fara fram, ber aðskilnaður fjárfestingastarfsemi og almennrar viðskiptabankastarfsemi með innlán og útlán til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, hátt. Þessa uppstokkun er nauðsynlegt að gera hérlendis um leið og ríkisábyrgð á fjármálagjörningum fjármálageirans verður afnumin. Þar með fæst heilbrigðari starfsemi í þessum geira og dregið verður úr fjárhagslegri áhættu almennings. Aðhald almennings með fyrirtækjum, sem hann hefur treyst fyrir ávöxtun fjármuna sinna, mun aukast, og samkeppnin verður á eðlilegri grundvelli um hylli viðskiptavina.
Vinstri stjórnin á Íslandi hefur ekki léð máls á þessu, enda er hún í skálkabandalagi við fjármálakerfið í viðleitni sinni að rústa miðstéttinni. Að bankakerfið skuli fara inn á þá braut að svelta gullgæs sína, miðstéttina, svo að hún missi allt sitt og/eða hverfi á braut, sýnir skammsýnina þar á bæ. Án miðstéttarinnar verður bankakerfið ekki svipur hjá sjón. Það er að koma fram, sem hyggnir menn óttuðust, þegar Steingrímur og Jóhanna gerðu sitt vanhelga bandalag við spákaupmenn og vogunarsjóði um yfirtöku bankanna, með pukri, óheilindum og ólýðræðislegum stjórnarháttum, sem tröllriðið hafa stjórnkerfinu frá valdatöku þeirra, sem sagan mun dæma sem slys, að skammtíma gróðasjónarmið mundu einkenna framferði bankanna. Viðbrögð banka, Fjármálaeftirlitsins, ríkisstjórnar og Alþingismeirihluta við a.m.k. fjórum Hæstaréttardómum um uppgjör ólöglegra lánasamninga við almenning, eru hneyksli, en, þegar öllu er á botninn hvolft, í samræmi við stéttastríð ríkisstjórnarinnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.