"Primus inter Pares"

Þrútinn þjóðfélagsrýnir og stjórnmálafræðingur (Samfylkingar) við HÍ birtist í fréttatíma sjónvarps allra landsmanna, RÚV, að kvöldi sunnudagsins 11. nóvember 2012.  Honum var mikið niðri fyrir að kynna niðurstöðu rannsóknar sinnar á vel heppnuðu prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum daginn áður.

Þessi mannvitsbrekka hélt því blákalt fram, að niðurstaðan hefði orðið formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni (BB), áfall.  Hvað skyldi nú vera til í þeim sleggjudómi mannvitsbrekkunnar, sem er á launum hjá skattborgurum landsins ?:

  • Gild atkvæði í prófkjörinu voru 4911
  • BB fékk 2728 atkvæði í 1. sætið eða tæplega 56 % af gildum atkvæðum
  • BB fékk fleiri atkvæði í 1. sætið en nokkur hinna 6 frambjóðenda, sem næstir komu, fengu alls í sætið, sem þeim hlotnaðist, að viðbættum atkvæðum í sætin þar fyrir ofan
  • Frambjóðandinn, sem varð nr 2, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fékk t.d. 2153 atkvæði í 1.-2. sætið.  Munar þarna 27 %, sem er mun meira en nemur mismuni sætanna nr 2-6.
  • Næst flest atkvæðin, þannig talið, fékk Óli Björn Kárason í 1.-6. sæti, alls 2642
  • Að formanninum var sótt úr tveimur áttum, sem hlaut að hafa áhrif á atkvæðafjölda hans í 1. sætið
  • Frambjóðendafjöldinn var 16, og með svo miklum fjölda er eðlilegt að búast við talsverðri dreifingu atkvæða, eins og raunin varð 

Sanngjarnt er að veita þessum úrslitum þá umsögn, að Bjarni Benediktsson sé fremstur á meðal jafningja, eða "Primus inter Pares", eins og Rómverjar nefndu Octavíanus áður en hann var krýndur Ágústus, keisari.

Listi Sjálfstæðismanna í Kraganum er vænn yfirlitum og líklegur til að fá 6 menn kjörna í komandi Alþingiskosningum, því að þingmönnum kjördæmisins mun þá fjölga um einn.

Hvað er þá að frétta af garminum honum Katli ?  Samfylkingin hélt prófkjör sitt í Kraganum þennan sama laugardag, og þar urðu reyndar tíðindi á landsvísu.  Er þá ekki vísað til þess, að í ljós kom, rétt einu sinni, að Samfylkingarsauðirnir, sem við atkvæðatalningu fást, kunna ekki að telja.

Tíðindin urðu þau, að flokksfólk Samfylkingar í Kraganum hafnaði fjármálaráðherra landsins.  Katrín Júlíusdóttir fór fram á að verða sett í oddvitasæti lista Samfylkingar í Kraganum, en fólkið hafnaði þessari ósk, og setti hana nr 2.

Þetta er líklega fordæmalaus niðurlæging fyrir fjármálaráðherra Íslands, og ein mesta sneypuför, sem slíkur hefur farið, þegar hann hefur sótzt eftir stuðningi flokksfélaga sinna.  Þegar þess er gætt, að fjármálaráðherrann tapaði fyrir brottreknum ráðherra, sem er í ónáð hjá forsætisráðherra landsins, er ekki annað hægt en að setja upp skeifu.  Úrslitin hjá Samfylkingunni þessa helgina urðu ríkisstjórninni áfall, sbr einnig úrslitin í NA-kjördæmi.

Þessar sögulegu ófarir fjármálaráðherra landsins fóru algerlega framhjá þrútnum þjóðfélagsrýni og stjórnmálafræðingi við Háskóla Íslands, sem taldi sig eiga erindi sem erfiði í fréttatíma RÚV.  Væri nú til of mikils mælzt, að gervivísindum verði ekki dembt ómældum yfir landslýð, heldur gerðar lágmarkskröfur til "fræðimanna" um að rökstyðja mál sitt um leið og litið er yfir völlinn allan.   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég missti af þessu,kannsi sem betur fer,því skap mitt er óbeislað,þegar stjórnmálarýnir RÚV.tekur til við útskýringar sínar,stundum fáránlegar.Ég geri ráð fyrir að þar hafi verið Gunnar Helgi,sem er jafnan kallaður til að túlka ræður forsetans,þegar liggur beinast við að spyrja forsetann sjálfan,en RÚV. hefur nægt fé til að hleypa bull-áróðri yfir landsmenn.

Helga Kristjánsdóttir, 13.11.2012 kl. 02:06

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Undarlegust var þó sú skýring "fræðimannsins" að Sjálfstæðisflokkurinn hefði "aftursætisbílstjóra", staðsettann í Hádegismóum. Það er ekkert undarlegt þó afdankaðir stjórnmálamenn á vinstrivængnum fullyrði svona bull, í hita leiksins og af einskæru hatri. En þegar fræðimenn fara að tala á þennan hátt er lítið að marka orð þeirra. Þeir dæma sig þá burt af vettvangi fræðanna.

Gunnar Heiðarsson, 13.11.2012 kl. 06:52

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Þegar  einhverjum Bausmiðlunum varð það á að benda á að væntanlegur formaður Samfylkingarinnar fékk 48% atkvæða í prófkjörinu í kraganum varð allt vitlaust. Ekki er vitað hvort fjölmiðlamaðurinn heldur starfinu. Jón Ásgeir eiginmaður eiganda fjölmiðlanna er a.m.k. ekki ánægður með skrifin.

Bjarni, toppblogg. 

Sigurður Þorsteinsson, 13.11.2012 kl. 09:10

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Heil og sæl, öll hér fyrir ofan, og takk fyrir innlitið og umsagnirnar.

1) Helga, rétt til getið, sá er maðurinn.  Mér er farið, eins og þér, að blöskra loddarahátturinn gagnvart áheyrendum/áhorfendum.  Undir yfirskyni fræðilegra rannsókna stunda sumir starfsmenn háskólanna hreinræktaðan flokkspólitískan áróður, og helzti vettvangur þeirra er RÚV.  Þar á bæ virðist faglegur metnaður vera á ótrúlega lágu plani.  Þar sem ég var einn af þeim rúmlega 5000, sem nýttu sér lýðræðislegan rétt sinn til að hafa áhrif á val þingmannsefna D-listans í Kraganum, þá gat ég ekki orða bundizt.

2) Gunnar: Ritstjórar Morgunblaðsins eru afar pennaliprir menn, og annar þeirra, sá sem "fræðimaðurinn", gjörsamlega röksemdalaust, þóknast að kalla "aftursætisbílstjóra" Sjálfstæðisflokksins, er svo listfengur, að unun er að lesa margar ritsmíða hans.  Ritstjórar Morgunblaðsins hafa alltaf verið áhrifamenn í þjóðfélagsumræðunni, og formenn Sjálfstæðisflokksins trúi ég hafi löngum fylgzt með málflutningi Morgunblaðsins.  Er ekki handbendi Samfylkingarinnar að kasta steinum úr glerhúsi, þegar hann talar um "aftursætisbílstjóra" ? Gæti verið, að "aftursætisbílstjóri" Samfylkingarinnar búi utan landsteinanna nú um stundir ?

3) Sigurður: Tilgáta mín er sú, að hið afkáralega útspil Gunnars þessa Helga, sem hér er umræðuefnið, eigi meiri rætur að rekja til prófkjörs Samfylkingar í Kraganum en Sjálfstæðisflokksins.  Þyrlað er upp moldviðri vegna vals á D-listann, en tíðindin urðu við val á S-listann, þar sem efsti maður, vonbiðill formennskunnar, hlaut innan við helmingsstuðning, og fjármála-og efnahagsráðherra landsins var neitað um forystuhlutverk innan Samfylkingar í Kraganum.  Slík niðurlæging fjármálaráðherra að hálfu flokksmanna sinna er ekki í manna minnum.  Þessi ráðherra kemur auðvitað stórskaddaður út úr þessari viðureign, og það átti að fela.  Fjármálaráðherra er skjólstæðingur forsætisráðherra, og Samfylkingarfólk í Kraganum og Norð-Austurlandi voru að lýsa frati á forsætisráðherra og ríkisstjórnarómyndina.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 13.11.2012 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband