Að breyta vatni í vín

Fyrirsögnin á uppruna að rekja til Biblíunnar.  Hér eru þó trúmál ekki viðfangsefnið, heldur auðlindamál.  Athygli landsmanna hefur enn verið vakin á gríðarlegum auðlindum landsins.  Þær eru ekki gríðarlegar á heimsvísu, heldur á hvern íbúa landsins.

Auðvitað er aðalatriðið við nýtinguna, að innviðir landsins styrkist við auðlindanýtinguna.  Að fyrirtæki hagnist, er þó ekki tabú í þessu sambandi. Þrennt er óhjákvæmilegt, ef nýting auðlinda Íslands og lögsögu þess á að heppnast íbúum landsins alls til velfarnaðar:

  1. Tækniþekking:  Hún sprettur ekki af sjálfri sér, heldur er áunnin yfir dágóðan tíma með erfiði.  Það er stórhættulegt og hefur gefizt illa að þykjast þekkja til tæknilegra ferla og látast geta þess vegna unnið við þá eða við að setja þá upp, bæta þá eða bæta við þá.  Það hefur hörmulegar afleiðingar, þegar í ljós kemur, að um einskæra yfirborðsmennsku, mannalæti og gaspur var að ræða.  Í mörgum tilvikum, þegar um auðlindanýtingu er að ræða, þarf að flytja þekkinguna inn, en svo er þó ekki alltaf.  Dæmi má taka af áliðnaðinum.  Árið 1967 var nánast engin þekking fyrir hendi á framleiðsluferlum áls hérlendis. Alusuisse, svissneskur álframleiðandi, reisti þá fyrstu álverksmiðjuna hérlendis.  Í stað þess að flytja inn starfsfólk fyrir verksmiðjuna, ISAL, voru Íslendingar sendir utan til þjálfunar í verksmiðjum Alusuisse.  Þetta urðu brautryðjendur álframleiðslu á Íslandi.  Arftakar þeirra tóku við góðu kefli og hafa, í samstarfi við erlenda starfsbræður og -systur, þróað verksmiðjuna til að verða í fremstu röð á mörgum sviðum.  Sprotafyrirtæki hafa þróazt í samstarfi við áliðnaðinn oftast með því að frumkvöðlar þeirra hafa aflað sér dýrmætrar reynslu innan vébanda áliðnaðarins, t.d. í Straumsvík.  Ef hins vegar tæknifólk hefur ætlað sér um of, þótzt í stakk búið að veita ráðgjöf, án þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og reynslu af viðkomandi ferlum fyrst, hefur það endað með ósköpum. 
  2. Fjármagn: Á Íslandi námu fjárfestingar 14,9 % af vergri landsframleiðslu árið 2012.  Þetta er mjög lágt, og umsóknin um aðildina að Evrópusambandinu, ESB, hefur þar engu breytt.  Það var rétt eitt innantóma glamrið úr aðildarsinnum.  Þetta er hættulega lágt fyrir íslenzkan þjóðarbúskap, enda svipað og í Grikklandi, þar sem hagkerfið er við dauðans dyr.  Skýringanna er ekki einvörðungu að leita í gjaldeyrishöftunum, heldur ekki síður í öfugsnúnum stjórnvöldum, sem með fjárfestingafjandsamlegri stefnu sinni, miklum skattahækkunum og viðundurslegum aðferðum, hafa fælt frjárfesta frá, svo að ekki sé nú minnzt á gáleysislegt tal á borð við "you ain´t seen nothing yet" fjármálaráðherrans, þáverandi. Bein afleiðing lítillar fjármunamyndunar í landinu er lágur hagvöxtur, en hann hefur aðeins verið um 2,5 % árin 2011-2012.  Þessi litli hagvöxtur er einn versti áfellisdómurinn yfir vinstri stjórninni. Þetta er ótrúlega lélegur árangur í hagstjórn eftir stórfellt samdráttarskeið.  Með vinstri flokkana við völd er engin von um meiri fjárfestingar og hærri hagvöxt, hversu lengi sem þeir þæfa Berlaymont karla og kerlingar.  Stöðnun hagkerfisins er bein afleiðing stjórnarstefnunnar.  Þar má nefna skattpíningu á formi nýrra skatta og skattahækkana, sem nemur 90 milljörðum kr, bæði á einstaklinga og fyrirtæki.  Þar má líka nefna sífellt meiri skriffinnsku ("red tape"), eyðublaðaútfyllingar og gagnslítið eftirlitskerfi opinberra aðila, sem ESB (Evrópusambandið) heimtar í mörgum tilvikum og stjórnarflokkunum þykir sjálfsagt að skella á fyrirtækin, þó að þetta dragi augljóslega úr atvinnusköpun.  Tryggvi Þór Herbertsson ritaði um þetta góða grein í Morgunblaðið 12. janúar 2013, "Rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja".  Hann bendir þar á, að lítil og meðalstór fyrirtæki, líklega frá 1-100 manns, veita 90 % mannaflans vinnu á Íslandi.  Þessi fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar í reglugerða frumskóginum, sem forræðishyggjan er búin að koma á.  Þetta er farið að virka hamlandi á fjárfestingar þessara fyrirtækja og þar með atvinnusköpun.  Þess vegna verður einn þáttur í að auka fjárfestingar á Íslandi upp í 20 % - 30 % af VLF, eins og brýna nauðsyn ber til, svo að þjóðarkakan nái að stækka ört, að grisja þetta illgresi, sem engu skilar öðru en skjalaflutningi á milli búrókrata.  Tryggvi skrifar: "Ísland hefur undirgengizt miklar kvaðir með samningum um hið Evrópska efnahagssvæði.  Eftirlitsþátturinn er umfangsmikill og margbrotinn.  Reglugerðir eru flóknar og dýrar í framkvæmd.  Tafsamt og dýrt er að afla opinberra leyfa og uppfylla skilyrði þeirra.  Svona mætti lengi telja.  Þá hafa Íslendingar sjálfir leitt í lög og sett í reglugerðir kröfur, sem enn þyngja rekstrarumhverfið.  Hvaða vit er t.d. í því, að það þurfi 13 leyfi og mikinn eftirlitskostnað, ef einyrki vill fara út í skelrækt, eða af hverju þarf fullkomna slátrunaraðstöðu og ómælt eftirlit, ef bóndi vill slátra búpeningi sínum heima á býli ?  Það hlýtur að vera hægt að fara einhvern milliveg frá því, sem nú er", skrifar TÞH.  Það er auðvitað hægt að skera forræðishyggjuna niður við trog, og það verður að gera það til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast eðlilega.  Það verður líka að stórlækka tryggingargjald, sem er launatengt gjald, sem hamlar fjárfestingum og nýjum störfum.  Lækkun úr um 8 % niður í 5 % mundi skila sér í minni þörf á atvinnuleysisbótum og aukinni veltu í þjóðfélaginu.  Skattaívilnanir vegna hlutafjárkaupa koma til greina, skrifar Tryggvi, og skal taka undir það.  Gjörbreyting verður að eiga sér stað á framkomu stjórnvalda í garð atvinnulífsins til að örva fjárfestingar, og gjörbreytingu verður að gera á auðlindastefnunni.  Núverandi stjórnvöld virðast líta á það sem sitt helgasta hlutverk að gera auðlindanýtingu tortryggilega og eins óaðlaðandi og óhagvæma fyrir þann, sem vill hætta fé sínu í slíka starfsemi, og mest má vera.  Þessi gróðaótti er sjúklegur.  Ávinningsvonin knýr atvinnuþróunina, og gróðinn safnast sjaldan undir kodda. Ofan af þessari afturhaldshugmyndafræði verður að vinda.  Stjórnvöld hérlendis hafa gjörsamlega farið offari gagnvart auðlindanýtendum.  Svo hart er gengið að sjávarútveginum, að fyrirtæki þar eru tekin að leggja upp laupana og önnur fækka fólki, skreppa saman, geta lítið fjárfest og missa slagkraft á erlendum mörkuðum.  Orkuverð til orkukræfs iðnaðar er við hámark þess, sem gerist á meðal slíkra fyrirtækja, sem standa þurfa óstudd á markaðinum, þó að hann taki dýfu, og samt bæta stjórnvöld á Íslandi gráu ofan á svart með því að skella óvænt á tímabundnum rafskatti og bíta svo hausinn af skömminni með því að framlengja hann viðræðulaust.  Þessar aðfarir hafa rýrt mjög traust erlendra fjárfesta til íslenzkra stjórnvalda, og glatað traust tekur alltaf langan tíma að endurheimta, ef það er þá hægt.  Íslendingar eru að tapa að minnsta kosti 100 milljörðum af árlegri landsframleiðslu vegna fjandsamlegra og afturhaldssinnaðra stjórnvalda.  Um þetta segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, í viðtali í Morgunblaðinu 12. janúar 2013 við Hörð Ægisson: "Það er mjög grátlegt, og í raun algjör óþarfi, að við skulum ekki hafa nýtt allan þennan tíma til að leggja grunn að því að efla útflutningsgetu þjóðarbúsins."   Síðasta dæmið um afturhaldssinnuð sjónarmið stjórnvalda er afstaðan til olíuvinnslu á Drekasvæðinu.  Þar hefur íslenzkum stjórnvöldum tekizt að unga út flóknara og illvígara skattkerfi en Norðmönnum, og er þá langt til jafnað, svo að afleiðingin verður sú, að borað verður Noregsmegin og dælt upp úr brunnum Íslendinga.  Ekkert öflugt olíufélag léði máls á þátttöku vegna ofurskattlagningar íslenzku ríkisstjórnarinnar á olíuvinnsluna og hálfvelgju ríkisstjórnarinnar.  Hvers konar endemis barnaskapur er það að hálfu þessarar kjánalegu ríkisstjórnar að leggja öll íslenzku olíuleitareggin í körfu Norðmanna, sem eru nágrannar á Drekasvæðinu og ætla augljóslega að ráða þar framvindunni beggja vegna markalínunnar ?  Við svo búið má ekki standa, ef mönnum er alvara í, að þjóðin auðgist á þessari auðlind.   Með þessu áframhaldi verða allir fundir Noregsmegin.  Vinstri kálfarnir halda, að til þess að ná hámarksarði auðlindarinnar, þurfi að keyra skattheimtuna í botn.  Það er fjarri lagi, eins og kennt er á undirstöðunámskeiðum auðlindanýtingar.  Hér ráða blindingjar, sem virðast hafa dottið ofan úr tunglinu, eru ofan dottnir, og aldrei lært neitt af viti.  Skattheimtan verður að vera lægri en sú norska til að fá alvöru samstarfsaðila, sem skákað geta "Ola Nordmann og Kari".  Á rannsóknarstiginu geta Norðlendingar vafalaust aflað verðmætra þjónustuverkefna.  Það er svo eftir öðru, að Vinstri hreyfingin grænt framboð virðist vera á móti rannsóknum þar norður frá, þó að formaður þeirra hafi látið undan öðrum þrýstingi um úthlutun sérleyfa.  Hláleg eru rökin um, að Íslendingar eigi að láta lindir sínar liggja ónýttar.  Það mun engu breyta fyrir lofthjúp jarðar.  Ofstækismenn, sem blásið hafa á rök stóriðjusinna um minni mengun á Íslandi við álframleiðslu en annars staðar, ættu að hafa hægt um sig í þessum efnum.
  3. Stjórnmálalegur vilji: Hér mun allt hjakka í sama vonleysisfarinu og verið hefur, nema skipt verði um stjórnvöld og stjórnarstefnu.  Ríkisstjórnin þarf að fara út á fjármálamarkaðinn og kynna rækilega breytingu á stjórnarstefnu og stjórnarháttum.  Orðum verða að fylgja athafnir á formi skattalækkana, sem gera landið aðlaðandi fyrir fjárfesta.  Þannig munu skatttekjur ríkisins vaxa vegna öflugri skattstofns.  Þetta skilja vinstri menn ekki.  Annars væru þeir ekki vinstri menn.  Við þurfum að verða á pari við Írska lýðveldið, sem er furðu borubratt þrátt fyrir ægilegar klyfjar, sem Evrópusambandið neyddi ríkissjóð þeirra til að taka á sig til að bjarga einkabönkum á Írlandi frá gjaldþroti.  Ástæða þess, að Írar eru furðu rófusperrtir, er, að erlendir aðilar hafa fjárfest í samkeppniiðnaði á Írlandi, sem boðið hefur upp á hagkvæmt skattaumhverfi.  Vitneskjan ein um gas- og olíulindir í lögsögu þjóða hefur jákvæð áhrif á lánadrottna.  Dæmi um þetta eru Kýpverjar, en þeir eru í raun gjaldþrota núna með sína evru og aðild að ESB.  Kýpur fór nýlega fram á lánveitingu að upphæð 17,5 milljarðar EUR, sem jafngildir hvorki meiru né minnu en einni landsframleiðslu Kýpverja.  Hér yrði þess vegna um risalánveitingu að ræða í krafti þess, að talið er, að árið 2019 muni Kýpverjar geta séð ESB fyrir um 10 % af gasþörf þess.  Á íslenzka hluta Drekasvæðisins eru talin vera vinnanleg olía og gas að jafngildi 10 milljörðum tunna.  Andvirði þessarar auðlindar má meta á 1000 milljarða evra, en hafa ber í huga, að stinninginn kostar að ná þessari auðlind upp og koma henni í hendur viðskiptavinarins.                

Gaslindir í Kanada-sept-2010Olíuborun á ísi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband