Markaðshyggja andspænis forsjárhyggju

Inngrip stjórnvalda í athafnalífið eru oft stórskaðleg.  Nýlegt dæmi á Íslandi er banvæn skattheimta á sjávarútveginn, sem dregur úr honum allan mátt og hefur þannig neikvæð áhrif á landsframleiðsluna og þar með hagvöxtinn og hag almennings.

Annað sláandi dæmi er munurinn á árangri Bandaríkjamanna og Evrópumanna í loftslagsmálum.  Eins og kunnugt er, tóku Bandaríkjamenn ekki þátt í Kyoto-bókuninni á sínum tíma, en Evrópumenn börðu sér á brjóst og settu sér markmið um 20 % minni losun gróðurhúsalofttegunda 2020 en 1990.

Reyndin er athygliverð.  Í Bandaríkjunum (BNA) er brennt minna af kolum ár frá ári, en í Evrópusambandinu (ESB) meira og meira.  Skýringin er sú, að bandarísk stjórnvöld hafa greitt götu þróunar á vinnslu setlagagass, stundum nefnt leirsteinsgas, en stjórnendur ESB hafa lagt stein í götu slíkrar þróunar og staðið að langtíma samningum við Gazprom, rússneska gasrisann, um afhendingu á miklu magni af gasi til Evrópu.  Afleiðingin er sú, að gasverð í Evrópu er þrisvar sinnum hærra en í BNA.  Þarna kostar forræðishyggjan og stjórnlyndið fyrirtæki og almenning stórfé og veldur aukinni mengun, eins og fram kemur síðar í greininni.  Markaðshyggjan er jafnan almenningi hagfelldari, því að hún framkallar lægra vöruverð vegna meiri framleiðni og vegna meiri hagvaxtar en forræðishyggjan getur framkallað.  Það er tækniþróunin, sem hefur gert kleift að bæta kjör almennings.  Verðmæti hafa aldrei orðið til við samningaborð verkalýðsforkólfa og vinnuveitenda.   

Það er ekki nóg með þetta, heldur hafa þýzk stjórnvöld þröngvað "Energiwende" upp á Þjóðverja, en orðið má þýða sem orkuviðsnúningur.  Þjóðverjar nota oft "die Wende" um endursameiningu Þýzkalands 1989.  Með orkuviðsnúningi er endurnýjanlegum orkugjöfum, t.d. sólarrafhlöðum, vindmyllum og lífmassa, gert hátt undir höfði og veittur forgangur að þýzka stofnkerfinu á kostnað eldsneytisorkugjafa og kjarnorkuvera.  Segja má, að hagkvæmninni sé snúið á haus, enda kemur þetta heldur betur við buddu notenda. 

Eigendur þessara orkugjafa senda þá orku inn á stofnkerfið á daginn, þegar eftirspurn er mest og orkuverðið hæst.  Þetta grefur undan fjárhag orkufyrirtækjanna, því að í raun og veru ýta endurnýjanlegir orkugjafar með þessum hætti gasinu út af markaðinum, svo að Moody´s telur blikur á lofti á fjárhagshimni orkufyrirtækjanna. Viðsnúningur þessi virkar því nokkuð viðundurslega á hagkerfið, eins og vanreifuð inngrip stjórnvalda í markaðinn ætíð gera.    

Til að bjarga sér frá taprekstri reyna orkufyrirtækin nú að framleiða eins mikið og þau geta með kolum og draga úr framleiðslu með gasi, af því að þau tapa 11,70 evrum/MWh á raforkuvinnslu með gasi, en hagnast um 14,22 evrur/MWh með raforkuvinnslu úr kolum.  Kolaverð á heimsmarkaði hefur lækkað vegna minni eftirspurnar frá Kína að undanförnu og vegna um 10 % minni kolanotkunar í BNA árið 2012 en árið 2011, þar sem Bandaríkjamenn eru að skipta yfir í gasið. Frá ágúst 2011 til ágúst 2012 féll heimsmarkaðsverð kola um þriðjung, þ.e. niður fyrir 100 USD/t.  Þetta verð er fýsilegt fyrir evrópsk kolakynt orkuver, en sumarið 2012 var gasverð í Evrópu hins vegar þrefalt á við í BNA, og þó að Gazprom hafi dregizt á 10 % verðlækkun 2013, mun hún litlu sem engu breyta um þessa evrópsku óheillaþróun í orku- og loftslagsmálum.  

Kolakynt raforkuver menga mest og mynda mest af gróðurhúsalofttegundum per MWh (megawattstund raforku), en þau sjá samt íbúum jarðar fyrir 40 % af allri framleiddri raforku, og kolakynt orkuver standa að baki 70 % þeirrar tvöföldunar, sem átt hefur sér stað á heimsvísu á áratuginum 2001-2010.  Árið 2018 verður hlutur kola í heildarorkunotkun heimsins jafnmikill og olíu með sama áframhaldi, eða um 4,6 milljarðar tonna olíujafngilda, en árið 2001 voru kolin aðeins hálfdrættingur á við olíuna.

Meginskýringin er aukning á orkuvinnslu Kínverja, en árið 2011 fóru Kínverjar fram úr Bandaríkjamönnum sem mesta raforkuvinnsluríki heims.  Samkvæmt International Energy Agency nam notkun Kínverja á kolum árið 2001 um 600 milljón tonnum af olíujafngildum (25 exajoule).  Árið 2011 hafði kolanotkun Kínverja þrefaldazt.  Svipaða sögu er að segja af Indverjum.  Árið 2010 framleiddu þeir 650 TWh (terawattstundir) af raforku, Íslendingar um 17 TWh.  Til þess notuðu Indverjar 311 milljón tonn af olíujafngildum af kolum, og kolanotkun vex þar um 6 % á ári.  Í Kína og á Indlandi hafa yfirvöld ekki enn innleitt neina hvata til að draga úr kolanotkun, og lífinu á jörðunni er tekin að stafa ógn af þessu, því að hlýnun jarðar er afleiðingin.  Þarna er umtalsverð umhverfisvá á ferðinni.

Gas er mun umhverfisvænni orkulind til raforkuvinnslu en kol, bæði hvað varðar mengandi rykagnir og gróðurhúsalofttegundir.  Í BNA hafa verið settir inn alls kyns hvatar til að draga úr mengun, og þess vegna hefur framboð á eldsneytisgasi stóraukizt.  Árið 2015 taka t.d. gildi strangar kröfur um lágmörkun á losun kvikasilfurs, brennisteinstvíildis og níturoxíða.  Þá hefur Environmental Protection Agency í BNA í raun bannað ný kolakynt orkuver eftir 2013, nema koltvíildinu sé safnað saman og dælt niður í jörðina.  Kostnaður við slík orkuver er tvöfaldur per MW á við kostnað gaskyntra orkuvera.  Allt þýðir þetta, að á tímabilinu 2012-2017 gæti kolakyntum orkuverum að aflgetu 50 GW (gígawött, tífalt virkjanlegt afl á Íslandi) eða 1/6 allra kolakyntra vera í BNA hafa verið lokað.    

Aukið framboð hefur valdið verðlækkun á gasi.  Í apríl 2012 féll verðið undir 7 USD/MWh varmaorku.  Nú í ársbyrjun 2013 var það um 12 USD/MWh, sem þýðir raforkukostnaðarverð um 30 USD/MWh, sem er lægra verð en til íslenzkrar stóriðju.  Þess vegna hafa orkufyrirtækin tekið upp gasbrennslu í stað kolabrennslu í orkuverum, og þess vegna er verðlagsstefna Landsvirkjunar á raforku úrelt, enda hefur engum samningi í anda hennar verið landað.   

Þegar mest var, 1988, sáu kol BNA fyrir 60 % af raforku þeirra.  Árið 2010 nam þessi hlutdeild kola 42 %, en um mitt ár 2012 hafði hlutdeild kola lækkað niður í þriðjung og var þá svipuð og hlutdeild gass.  Þróunin er önnur og verri í Evrópu.  Um þessar mundir eykst orka, sem framleidd er með kolum í sumum Evrópulöndum, um 50 % á ári.

Á Íslandi ber einn raforkuframleiðandi, Landsvirkjun, höfuð og herðar yfir aðra slíka.  Fyrirtækið er 100 % í eigu ríkissjóðs.  Þar sem fyrirtækið framleiðir sjálfbæra raforku og getur fengið aðgang að miklum umhverfisvænum orkulindum, er framtíð Landsvirkjunar björt, enda gæti fyrirtækið orðið um ISK 500 milljarða virði innan 5 ára. Í ljósi þess, sem að framan er skrifað um loftslagsvanda og orkuiðnað heimsins, er ljóst, að fyrirtækið á og rekur gullmyllur, þar sem eru vatnsorkuver þess. 

Fyrirtækið er mjög skuldugt, og nema skuldir þess um þessar mundir um 350 milljörðum kr, en framlegðin er slík, að það getur greitt upp allar núverandi skuldir sínar á innan við 10 árum.  Allt tal um lága arðsemi fyrirtækisins er reist á skilningsleysi á löngum afskriftatíma tekjuskapandi eigna Landsvirkjunar. Þetta mun koma í ljós, ef farið verður inn á braut markaðsvæðingar Landsvirkjunar, en það er orðið nauðsynlegt, m.a. af þjóðhagslegum og samkeppnilegum ástæðum, eins og rakið verður seinna í grein á þessu vefsetri.    

Ýmislegt bendir til, að um þessar mundir sé stjórnun og stefnumörkun fyrirtækisins ábótavant.  Nefna má verðlagningarstefnu raforku, sem er eins og út úr kú, sbr hér að ofan, enda hafa engir umtalsverðir samningar verið gerðir frá 2010 og hugsanlegir viðskiptavinir hrakizt á brott til BNA.  Það þarf að verða stefnubreyting á mörgum sviðum hjá Landsvirkjun, og róttæk breyting á stefnu og starfsháttum verður varla án einkavæðingar fyrirtækisins.  Það verður þó að stíga varlega til jarðar til að hagur almennings, núverandi eigenda, verði sem bezt tryggður og andvirði sölunnar nýtist sem bezt.  Hluti þess þarf að verða í gjaldeyri, og afsláttarleið Seðlabankans kemur ekki til greina.    

Tvö andvana fædd gæluverkefni hafa orðið fyrirferðarmikil í stefnumörkun Landsvirkjunar, þ.e. vindmyllutilraunir með 2x900 kW myllur við Búrfell og sæstrengsraunir, þ.e. hagkvæmniathugun á hönnun, gerð og lagningu allt að 1000 MW DC sæstrengs á milli Íslands og Skotlands, sem líklega kostar um ISK 500 milljarða eða jafngildi markaðsvirðis Landsvirkjunar í náinni framtíð.

Þessi undarlegu mál gefa furðulega forgangsröðun til kynna og þar með er líklegt, að hagsmuna eigendanna, almennings í landinu, sé ekki gætt sem skyldi.  Af þessum ástæðum má búast við, að ríkissjóður geti grætt á því í bráð og lengd að einkavæða Landsvirkjun.  Ef ríkið selur í vel ígrunduðum áföngum á nokkurra ára bili t.d. 65 % af Landsvirkjun, mundu koma inn um ISK 325  milljarðar kr, sem gætu farið til að grynnka á skuldum ríkissjóðs og minnka ISK 90 milljarða árlega vaxtabyrði um ISK 30 milljarða.

Ef ríkið selur íslenzkum lífeyrissjóðum 35 % af Landsvirkjun fyrir um ISK 175 milljarða kr og setur 30 % á almennan markað, má búast við, að rekstur Landsvirkjunar batni og árlegar tekjur ríkissjóðs á formi arðgreiðslna og tekjuskatts hækki verulega umfram núverandi tekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu.  Landsmenn munu þá ekki þurfa að deila um fjárfestingar og stefnumörkun Landsvirkjunar né heldur raforkuverðið, sem hún semur um, enda verður þá tryggt, að starfsemi fyrirtækisins verður alfarið á viðskiptalegum grunni.  Þessi einkavæðing hefði þannig aukna arðsemi fyrirtækisins og auknar tekjur ríkisins af því að leiðarljósi, en það verður samtímis að setja því almennar skorður um verðlagningu á orku til almenningsveitna.

Slík markaðsvæðing hefði góð áhrif á hagkerfið og þar með hag almennings.  Vextir gætu lækkað, því að fjárþörf ríkissjóðs mundi minnka og áreiðanleikamat á ríkissjóði mundi hækka.  Minni hlutdeild ríkissjóðs í hagkerfinu mun ýta undir hagvöxt og framleiðniaukningu, en hvort tveggja er lykilatriði við úrlausn á vanda mjög skuldugra heimila (nota meira en 40 % ráðstöfunartekna til íbúðarhúsnæðis), sem eru um 11 % heimila í landinu, og við úrlausn á vanda ríkissjóðs.  

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur varla haft uppi nokkra tilburði til að leysa vanda ríkissjóðs.  Hún hefur stungið hausnum í sandinn.  Skuldir ríkisins nema nú 1509 milljörðum kr eða 86 % af vergri landsframleiðslu, VLF.  Með mjög bjartsýnni spá um hagvöxt, 4,0 % á ári, tæki 10 ár að koma skuldum ríkissjóðs undir 60 % viðmið Maastrichtsamningsins.  Fyrr mun ESB ekki leyfa okkur að taka upp evru, eða halda menn, að Berlaymont sé áframt ginnkeypt fyrir grísku bókhaldi.  Er ekki heill stjórnmálaflokkur að berjast fyrir inngöngu í ESB strax til að unnt verði að taka upp evru sem fyrst ?  Allt er það tóm endaleysa. 

Það er ekki hægt að ljúka pistli að þessu sinni án þess að minnast á aðdáunarverðan, orkukræfan gjörning, sem var för ungrar, íslenzkrar konu, Vilborgar Örnu Gissurardóttur, á Suðurpólinn, sem lauk í janúar 2013. Þetta er ekki hægt án þess að búa yfir og rækta með sér ýmsa eftirsóknarverða eiginleika, sem æska Íslands getur og ætti að hafa að leiðarljósi.  Sem dæmi má taka skipulagshæfni, áræðni og þrautseigju.  Hún sýndi það líka í Kastljósi í gærkvöld, að hún hefur góða frásagnargáfu og er vel máli farin.     

  Vetur á Íslandi

 

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband