Dómur markar þáttaskil

Þann 28. janúar 2013 kvað EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg upp tímamótadóm.  Dómurinn virðist vera lögspekilegt meistaraverk og ber með sér, að dómararnir hafa brotið málið til mergjar.  Ekki er víst, að málflutningur varnaraðila hafi skipt sköpum, því að rökstuðningur í dómsorði er frumlegur, og málstaður Íslands var góður.  Það er þess vegna tímaskekkja hjá Steingrími Jóhanni nú eftir dómsuppkvaðningu að halda því fram, að óvissa hafi verið mikil um það, hvort hagstæðara væri að semja eða leggja málið í dóm.  Það er einfaldlega komið í ljós nú, að stuðningsmenn samninga höfðu rangt fyrir sér, en stuðningsmenn dómstólaleiðar höfðu rétt fyrir sér.  Steingrímur talar enn, eins og enginn dómur hafi verið upp kveðinn.   

Dómararnir virðast mjög sjálfstæðir í hugsun og ekki vera undir áhrifum frá hagsmunaaðilum.  Samt voru gríðarlegir hagsmunir í húfi, sérstaklega fyrir minni aðilann, en þetta var í raun viðureign Davíðs og Golíats, endurtekin, þar sem Ísland átti ekki einvörðungu í höggi við ESA, eftirlitsstofnun EFTA, heldur allt Evrópusambandið, ESB, sem gerðist meðflutningsaðili málsins.  Þetta var allan tímann barátta upp á líf og dauða við ESB.  Þess vegna eru svik hér innanlands grafalvarlegt mál, föðurlandssvik. 

Hvers vegna lagði ESB svona ríka áherzlu á þetta mál ?  Það var vegna þess, að búrókratarnir í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel, óttuðust áhlaup á bankana og hrun bankakerfis Evrópu, ef ríkissjóðir í öllum löndum EES stilltu sér ekki upp sem bakhjörlum og ábyrgðust skuldir bankanna.  ESB þvingaði Íra til að gera þetta, enda eru Írar ekki fjarri greiðsluþroti ríkissjóðs.  Nú hefur ESB stofnað til bankasambands, þannig að eitt ríki stendur ekki lengur eitt uppi með hrunið bankakerfi.

ESB beitti öllum ráðum, fortölum, fjárhagsþvingunum með áhrifum sínum innan AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og áhrifamætti á meðal Norðurlandanna og víðar, nema Færeyja, og hótunum gagnvart íslenzkum stjórnvöldum um að girða fyrir aðild Íslands að ESB.  Vinstri stjórnin brást Íslendingum, af því að hún lagði ofurkapp á að styggja ekki valdsmenn í Brüssel vegna aðildarumsóknarinnar.

Það var til að þóknast ESB, sem vinstri stjórnin ákvað að semja við Breta og Hollendinga, hvað sem það kostaði.  Til marks um það var, að ráðherrar virðast hafa áritað Svavarssamninginn ólesinn og keyra átti hann gegnum þingið umræðulítið.  Það stóðu engin eðlileg rök til að samþykkja þá afarkosti, sem þá var samið um við Breta og Hollendinga.  Það voru stórhættulegir samningar með vaxtabyrði upp á um 200 milljarða kr og afborganir, sem gátu verið á bilinu 600 - 1000 milljarðar kr, ef heimtur í þrotabúið yrðu slæmar.  Ekkert mark var tekið á rökföstum grasrótarhreyfingum og vel ígrunduðum lögfræðigreinargerðum um, að rétturinn væri okkar megin, og þess vegna ætti ekki að ganga að afarsamningum.  Jafnvel eftir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna var enn haldið út á foraðið og reynt að semja.  Allt var þetta til að blíðka framkvæmdastjórn ESB. 

Fyrrverandi forsætisráðherra var leiddur fyrir Landsdóm, jafnvel þó að málatilbúnaðurinn væri til þess fallinn að skaða málstað Íslands gagnvart viðsemjendum og dómstólum.  Málafylgja á erlendri grundu var nánast engin til að halda uppi íslenzkum málstað, en forseti lýðveldisins bjargaði því, sem bjargað varð.

Það varð einfaldlega allt undan að láta vegna þess, að á bak við var ESB froðufellandi af ótta við bankahrun, ef smáríkið Ísland mundi brjótast undan oki þess um ríkisábyrgðir á innistæðum einkabanka.  Þetta framferði ríkisstjórnarinnar og einkum forsætisráðherrans, fjármálaráðherrans og utanríkisráðherrans, er slíkur undirlægjuháttur og þjónkun við erlent vald, ofurvald, að hvorki er hægt að láta átölulaust né refsingarlaust.  Það er lágmark, að stjórnarandstaðan leggi fram vantraust á Steingrím Jóhann Sigfússon og helzt á ríkisstjórnina alla.  

Í ljósi þess, að ríkisstjórnin hafði framan af uppi mjög slælegar varnir fyrir Íslands hönd, hvað þá að henni hugkvæmdist gagnsókn, er óhjákvæmilegt að rannsaka gjörðir og vanrækslu stjórnvalda.  Á grundvelli slíkrar rannsóknar kann að verða tilefni til málsóknar fyrir landráð.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Alveg með ólíkindum, ógeðslegt bara, og í alvöru engu við pistilinn að bæta, nema taka undir að Jóhanna, Steingrímur og Össur mega ekki komast upp með að hafa unnið af öllu afli gegn eigin landi og þjóð, sem þau áttu að vera að vinna fyrir.  Og með stærðar heimsveldum sem kúga og þvinga minni ríki.  Þau ætti að rannsaka.

Elle_, 29.1.2013 kl. 23:02

2 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Bjarni Jónsson ég er algjörlega sammála þér!

Elle Sammála þér líka!

Eyjólfur G Svavarsson, 30.1.2013 kl. 00:48

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Flærðin og undirlægjuhátturinn í fari ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming.  Til að þóknast húsbændunum í Brüssel var öllu kostað til að smeygja fátæktarhlekkjum um háls þjóðarinnar, og síðan hælzt um og kallaður glæsilegur árangur.  Dómararnir sögðu við fólkið: keisarinn er ekki í neinu.  Hið sama höfðu margir sagt áður, en ríkisstjórnin setti jafnan upp hundshaus, af því að hún var önnum kafin við að ganga erinda annarra en þeirra, sem kusu hana.  Svikarar er orðið yfir slíka.

Bjarni Jónsson, 30.1.2013 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband