14.2.2013 | 21:22
Ræða Camerons
Þann 23. janúar 2013 hélt David Cameron, formaður brezka Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Breta, stórmerkilega ræðu í Davos í Sviss. Cameron sagði, að meginlandsþjóðirnar væru að breyta Evrópusambandinu, ESB, í átt að sambandsríki, sem ekki hefði verið lagt upp með, þegar Bretar samþykktu inngöngu í ESB. Hann taldi þess vegna, að Bretar væru í fullum rétti að fitja upp á annars konar breytingum. David Cameron vill halda í þveröfuga átt við helztu sameiningarsinnana. Hann vill flytja ákvörðunarvald frá Brüssel og aftur heim til Lundúna. Cameron vann sigur yfir Hollande um daginn varðandi fjárhagsáætlun ESB, þegar samþykkt var að draga saman seglin. Sannleikurinn er sá, að til langtíma stendur fjárhagur ESB-ríkjanna á brauðfótum, eins og nánar verður minnzt á í þessari vefgrein.
Þessi stefnumörkun Breta virðist vera voguð, hún markar þáttaskil í tilvist ESB, og hún skilaði Bretum og öllum norðurhluta ESB ávinningi 8. febrúar 2013, þegar langtíma fjárlagarammi ESB var í fyrsta sinn lækkaður. Bretar ætla að óska eftir samningaviðræðum, sem munu verða kosningamál á Bretlandi árið 2015. Íhaldsflokkurinn ætlar í þeim kosningum að berjast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu á Bretlandi um aðild að ESB á grundvelli nýrra aðildarskilmála; ella komi til úrsagnar Breta úr ESB. Það er mjög líklegt, að Bretar muni segja nei við ESB, nema Brüsselvaldið gangi að helztu kröfum þeirra. Þá kemur upp spáný og spennandi staða í Evrópu.
Þetta er sterkur leikur hjá Cameron, sem þegar hefur skilað Íhaldsflokkinum marktækri fylgisaukningu í fylgismælingum, en hann á í höggi við Sjálfstæðisflokk Stóra-Bretlands, sem vill úrsögn úr ESB. Boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla setur þrýsting á Brüssel um að sýna Bretum sanngirni og eftirgjöf. Annars eru þeir farnir, og það vilja Þjóðverjar ekki, þó að Gallarnir geti hugsað sér það.
Útlínur þess, sem koma skal, komu í ljós í átökunum um fjárlög ESB í viku 6/2013 í Brüssel. Þá skipuðu Bretar sér í forystu umbótasinna, þar sem eru Norðurríkin, og Frakkar með kratann Hollande í broddi fylkingar, skipuðu sér í forystu rómönsku ríkjanna og annarra Suðurríkja. Þjóðverjar með sína Angelu Merkel í stafni "sátu á girðingunni", þ.e. horfðu á atgang Engilsaxa og Galla og leituðust við að bera klæði á vopnin. Hollande er stór upp á sig að hætti Galla og lét sig vanta á boðaðan fund með Cameron og Merkel. Slíkt atferli kunna Germanir ekki að meta, enda argasti dónaskapur. Leikar fóru þannig, að Germanir hölluðust á sveif með Engilsöxum, Gallar máttu lúta í gras og gengu niðurlægðir af velli. Nú sjáum við sögulegan öxul í mótun, öxulinn Berlín - Lundúnir, sem löngu var tímabært að mynda.
Það vakti athygli eftir stefnumótandi ræðu Camerons um endurheimt völd frá Brüssel, að kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem sækist eftir endurkjöri haustið 2013, tók málflutningi Camerons vel. Sannleikurinn er sá, að Þjóðverjar eru hundóánægðir með "gúrkutilskipanir" frá Brüssel, sem þeir kalla svo, og eiga þá við afskiptasemi búrókratanna í Brüssel um smæstu atriði. Gúrkutilskipanir eru ær og kýr Frakka, sem búa í miðstýrðasta ríki Evrópu, og hefur svo verið frá dögum Napóleóns Bonaparte frá Korsíku. Gúrkutilskipun Brüssel fjallaði um leyfilegan beygjuradíus á agúrkum, og er nytsemi slíkrar tilskipunar flestum hulin.
AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) sendi frá sér nýja hagspá fyrir 2013 þann 23. janúar 2013. Þar kom fram, að verg landsframleiðsla 17 evruríkja mun dragast saman um 0,2 % og vaxa um 0,2 % í öllum ESB-löndunum 27. Á þessu ári hefst óheillavænleg langtímaþróun í ESB, og hún hófst á evru-svæðinu í fyrra. Fólki á vinnumarkaðsaldri, 20-64 ára samkvæmt skilgreiningu tölfræðinga ESB, mun taka að fækka á árinu 2013 úr hámarkinu í fyrra, 308,2 milljónum manna, og mun á næstu hálfu öld fækka niður í 265 milljónir árið 2060. Fólki á vinnumarkaðsaldri mun fækka, en gamalmennum mun fjölga. Þetta mun hækka öldungahlutfallið í ESB úr 28 % í 58 % árið 2060. Öldungahlutfall er skilgreint sem sem fjöldi fólks 65 ára og eldri sem hlutfall af fjölda á téðum vinnumarkaðsaldri. Þessi hroðalega þróun mun setja hagvexti í ESB þröngar skorður, því að hann er reistur á aukinni atvinnuþátttöku og aukinni framleiðni. Þessi þróun kallar á aukin útgjöld hins opinbera, sem hæpið er, að skuldug ríki ESB standi undir. Að tengjast slíkum þjóðum ríkjasambandi er alls ófýsilegt.
Þjóðverjar halda ESB uppi fjárhagslega og hafa orðið fyrir miklum fjárhagslegum útlátum síðustu misserin við björgun banka og ríkissjóða í öðrum löndum evru-svæðisins. Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur gefið til kynna, að ákvarðanatakan um þessi fjárútlát hafi á köflum ekki staðizt ákvæði í "die Verfassung", Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins, og flokkur Merkel, CDU, tapaði í janúar 2013 völdum í Nieder-Sachsen, Neðra-Saxlandi, þrátt fyrir klaufalegan kanzlarakandidat kratanna, SPD. Að þessum kratíska kanzlarakandídat er nú gert ótæpilegt grín í Sambandslýðveldinu. Þetta sýnir, að í Þýzkalandi er kraumandi óánægja með stefnuna í Berlín, því að leiðtogi CDU í Nieder-Sachsen naut persónulegra vinsælda. Allt sýnir þetta kraumandi óánægju í Evrópu.
Skýringin á þessum hræringum í Evrópu eru vandræðin, sem stafa af sameiginlegu myntinni, evrunni. Menn sjá, að hún stenzt ekki án stjórnmálalegs samruna, og mjög margir Evrópumenn, áreiðanlega drjúgur meirihluti þeirra, verða eins og broddgöltar við tilhugsunina um sambandríki. Líklegast er, að sameiningartilraunir búrókratanna í Brüssel springi í höndunum á þeim og úr þessari deiglu myndist þrískipt ESB, eins og kenning var sett fram um hér á vefsetrinu fyrir nokkru.
Þessi þrískipting yrði með þremur myntum og leidd af Berlín, París og Lundúnum. Sameiginlegur öllum hlutum ESB yrði Innri markaðurinn með frelsunum fjórum, en síðan væri mismikil miðstýring og mismunandi peningastefna á hverju svæði. París mundi fara fyrir Suður-Evrópu, sem búa mundi við veika peningamálastjórn og veikta evru, enda blasir nú þjóðfélagslegt ginnungagap við rómönskum og grískumælandi þjóðum. Berlín færi fyrir E-marki og sterkri peningamálastjórnun, en líklega minni miðstýringu en í Parísarhópinum. Lundúna-svæðið yrði með minnsta miðstýringu og nokkrar myntir, sem þó sennilega yrðu tengdar sterlingspundinu með vikmörkum. Það er ekki ósennilegt, að núverandi EES-lönd sæju hag sínum bezt borgið í þessu laustengda bandalagi með Bretum o.fl.
Fyrir Íslendinga er algerlega út í hött að standa í marklausum aðlögunarviðræðum við ESB í sinni núverandi mynd, enda reiknar Brüssel ekki lengur með aðild Íslands. Það er svo mikil óvissa uppi um framtíð Evrópusambandsins, að óráð er að sækjast eftir inngöngu þar nú. Fantabrögðin, sem ESB beitti Ísland frá haustinu 2008 þar til dómur EFTA-dómstólsins var kveðinn upp, 28. janúar 2013, voru til þess fallin að einangra landið stjórnmálalega og fjárhagslega og þannig að koma því á kné, svo að skattborgarar landsins gengjust í ábyrgð fyrir skuldir óreiðumanna og borguðu hundruði milljarða kr í vexti af lánum til að standa skil þar til þrotabúin lykju innheimtu.
Kló ESB læsti sig um Ísland frá Norðurlöndunum í austri til AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins - í vestri. Stálklónni var stjórnað frá Berlaymont. Hagsmunum Íslendinga átti að kasta algerlega á glæ og eyðileggja hér lífvænleg búsetuskilyrði vegna ótta búrókrata í Brüssel við bankaáhlaup. Í kjölfarið yrðu Íslendingar viljalaus verkfæri framkvæmdastjórnarinnar, nákvæmlega eins og Össur & Co. hafa allan tímann verið. Þetta var svo kaldrifjuð atlaga að smáþjóð í norðri, að augljóslega getur ekki gróið um heilt alllengi. Þess vegna hefur myndazt gjá á milli þjóðlegra, borgaralegra afla og stjórnarflokkanna, hverjir eru algerlega óstjórntækir af augljósum ástæðum þar til þeir hafa undirgengizt sína hundahreinsun. Þess vegna ber að slíta þeim aumkvunarverða læðupokahætti, sem utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg nú stundar í Brüssel, og honum mun verða slitið. Það ferli hefur þegar orðið landsmönnum allt of kostnaðarsamt og lítillækkandi.
Hlutur innlendra meðreiðarsveina Brüsselvaldsins er viðbjóðslegur og verður þeim til ævarandi minnkunar, svo lengi sem land þetta byggist. Undirlægjuháttur stjórnarflokkanna tveggja var slíkur, að þyrlað var upp miklu moldviðri um lagalega stöðu Íslands í Icesave-deilunni til að unnt væri að smeygja fátæktarfjötrum utan um íslenzka skattborgara, þannig að svo liti út, að tilskipun ESB um innlánstryggingar héldi vatni, en væri ekki moðsuða, eins og reyndin var.
Stjórnmálaflokkarnir tveir, sem að ríkisstjórnum Jóhönnu Sigurðardóttur hafa staðið, eru Trójuhestar innan borgarmúra íslenzks sjálfstæðis. Þeir hafa dreift hræðsluáróðri, sem reistur var á lygum og blekkingum frá Brüssel um lagalega stöðu Íslands eftir setningu Neyðarlaganna í október 2008. Stjórnmálaflokkar þessir eru báðir óalandi og óferjandi og engan veginn tækir í ríkisstjórnarsamstarf, enda hugmyndalegar eyðimerkur báðir tveir. Geir Hilmar Haarde, ríkisstjórn hans og Alþingismenn, sem samþykktu Neyðarlögin, reyndust bjargvættir Íslands, því að annars blasti þjóðargjaldþrot við. "Guð blessi Ísland" voru orð í tíma töluð, og forsætisráðherra var bænheyrður 28. janúar 2013. Myllur réttlætisins mala hægt, en mala þó.
Hér hafa orðið alvarlegir atburðir í innanlandsmálunum, og það er ekki hægt að láta sem ekkert sé, þegar hópur stjórnmálamanna virðist draga taum erlendra ríkja og ríkjasambanda á kostnað hérlendra manna. Við fyrsta tækifæri þarf að dusta rykið af þingsályktunartillögu um að rannsaka hlut íslenzkra stjórnvalda í þessu Icesave-máli öllu saman, þó að fnykinn leggi af því langar leiðir. Það verður að leiða hið sanna í ljós, svo að stjórnmálamenn og heilu flokkarnir geti ekki endalaust siglt undir fölsku flaggi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.