14.3.2013 | 21:04
Á vegum vinstri grænna
Stjórnarflokkarnir hafa troðið einstrengingslegum og skaðlegum stefnumálum sínum upp á landsmenn í skjóli alþjóðlegrar peningakreppu, sem reið þremur bönkum hér að fullu haustið 2008. Þó að þessum bönkum væri stjórnað af sjúklegri áhættusækni, er kollhnís banka ekki einsdæmi á Norðurlöndunum eða annars staðar í seinni tíð, nema síður sé.
Norska bankakerfið lagðist á hliðina árið 1990, og uppdráttarsýki herjaði á sænska bankakerfið um sömu mundir. Munurinn á Íslandi og Noregi var, að norsku bankarnir voru ekki jafnsvakalega þandir (uppgíraðir) og íslenzku bankarnir, og vegna olíuauðsins hafði norska ríkið meira svigrúm til að hlaupa undir bagga. Neyðarlögin voru hin íslenzka sérlausn. Allar bólur ber að forðast og kæfa í fæðingunni.
Alþekkt er andstaða vinstri manna gegn bifreiðum, vegalagningu og brúarsmíði. Aðalfórnarlambið undir niðurskurðarhnífi Steingríms, þáverandi fjármálaráðherra, varð Vegagerð ríkisins, og voru græningjar þar samir við sig. Fjárveitingar til hennar voru fundið fé fyrir vinstri menn, og þar var höggvið í sama knérunn hvað eftir annað í algerri blindni forstokkaðra stjórnmálamanna gegn viðvörunarorðum sérfræðinga og ýmissa stjórnmálamanna. Mun niðurskurður til viðhalds vega hafa numið 15 milljörðum kr á ári, og blasir nú við, hvílíkt fádæma glapræði það var, enda vöruðu verkfræðingar Vegagerðarinnar alvarlega við þessari skómigu ríkisstjórnarinnar. Hún fussaði og kvað þá bara míga upp í vindinn.
Ríkisstjórn Jóhönnu hefur stöðvað nánast allar vegaframkvæmdir í landinu og skorið viðhaldsfé Vegagerðarinnar niður um helming. Þetta hefur valdið stórtjóni og aukið slysahættu. Á sama tíma hefur sú arma ríkisstjórn hækkað álögur á bifreiðaeigendur og á eldsneyti upp úr öllu valdi. Þessu verður að linna, og þessari öfugþróun verður að snúa við. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 hét að hefja þá vegferð við fyrsta tækifæri. Lætur nærri, að ríkissjóður hafi hirt árlega um 10 milljarða kr af viðbótar skattfé, sem renna ætti í viðhaldssjóð Vegagerðarinnar. Þar með hefur hún rænt ökutækjaeigendur 25 milljörðum kr á ári, og er þá vægt reiknað. Svo berja þessir garmar sér á brjóst og þykjast erfiða við að bjarga þjóðinni, þegar sannleikurinn er sá, að þetta kann ekkert til verka, og öll orkan fer í innbyrðis deilur. "Hvílíkur Jón í Hvammi."
Ríkisstjórnin, sem virðist vera skipuð óvitum, sem engan gaum gefa að afleiðingum gjörða sinna, heldur setja undir sig (heimskan) hausinn og kæra sig kollótta. Hún skal aldrei greina afleiðingar gjörða sinna áður en haldið er af stað, og þess vegna er undir hælinn lagt, hvort hún lendir úti í mýri með mál eða ekki. Oftast fréttist af þessu fyrirbrigði utan vegar. Síðast var Guðmundur Steingrímsson gerður út af örkinni frá hjáleigunni til að ýta. Það breytti þó engu.
Nú blasir við, að téður "sparnaður" ríkisstjórnarinnar var tóm tjara. Undirlag veganna er að brotna undan umferðarþunganum og vegna hönnunar þeirra og öldrunar. Upp vellur tjara. Styrkja verður vegina umtalsvert, svo að þeir þoli þungaflutninga til samræmis við þá, sem leyfðir eru á vegum Evrópu, 49 t. Til þess þarf að endurhanna þá áður en að viðhaldi þeirra kemur. Að þessu verður næsti samgönguráðherra að snúa sér af alvöru, láta Vegagerðinni í té allt fé, sem eyrnamerkt er bílum og umferð á vegum skattheimtunnar og gefa skýr fyrirmæli um að uppfylla Evrópustaðla í vegagerð. Þetta er stórfellt öryggis-og hagsmunamál, og fátt er jafnarðsamt og fjárfesting í vegaumbótum.
Innanríkisráðherra er að gæla við strandsiglingar m.a. til að hlífa vegunum. Ef hann kemst að því, að þær beri sig, er það gott og blessað, en eftir því sem næst verður komizt hafa engar grundvallarbreytingar orðið á hagkvæmni strandsiglinga síðan Ríkisskip voru lögð niður vegna taprekstrar í tíð Halldórs Blöndals, þáverandi samgönguráðherra, ef þann, sem hér heldur á fjaðurstaf, misminnir ekki.
Vegakerfi Íslands er landsmönnum enn ekki sæmandi, og verður svo ekki fyrr en vegirnir standa tæknilega og öryggislega undir þeirri umferð, sem þar er og verður. Einbreiðum brúm á hringveginum og á öðrum þjóðvegum verður að útrýma á næstu 10 árum öryggisins vegna. Þjóðvegirnir eru skammarlega mjóir víða, krókóttir og mishæðóttir, og víða vantar vegrið við kanta, þar sem bratt er niður. Aðgreining umferðarstefna með vegriði hefur aukið öryggið mikið, þar sem slíkt hefur verið sett upp. Það er engin goðgá að gera slíkt á milli einfaldra akreina á hættulegum köflum. Markmiðið hlýtur að vera 0 dauðaslys á vegum landsins.
Á skattasviðinu hefur vinstri stjórnin farið hamförum og fengið Alþingi til að samþykkja gamla drauma flokka sinna um skattlagningu, sem hafa valdið stórtjóni á hagkerfinu og keyrt það í stöðnun, ef ekki samdrátt árið 2012, sem slær öll met niður á við norðan Alpafjalla. Vinstri flokkarnir líta ekki á skattkerfið sem tekjuöflunarkerfi hins opnbera, heldur tekjujöfnunarkerfi yfirvalda á þegnana. Ríkisstjórnin hefur ekki sniðið skattheimtuna við hámörkun opinberra tekna, heldur við mismunun þegnanna eftir tekjustigi. Þetta glapræði að hálfu ríkissjóðs hefði engum getað dottið í hug, nema hagfræðingi menntuðum í austur-þýzka alþýðulýðveldinu. Þetta hefur komið alveg einstaklega illa við ungt fólk, sem er að koma undir sig fótunum í atvinnulífinu og að stofna til heimilis. Þessi hópur þarf mest á háum ráðstöfunartekjum að halda, og þessi hópur er dýrmætastur hverju samfélagi. Einmitt þessi hópur hefur flúið land. Afleiðingin af óréttlátri og óhóflegri skattheimtu ríkisstjórnarinnar er, að hagkerfið hjakkar í sama farinu og nær sér alls ekki á strik, þar sem umgjörð yfirvaldanna er afar letjandi. Þetta er skýringin á langvinnustu kreppu í vestrænu samfélagi, sem um getur á seinni tímum, ef Grikkirnir með sinn hrikalega vanda af völdum evrunnar, sem þeir tóku upp á fölskum forsendum, eru undan skildir. Þess má geta í framhjáhlaupi, að Samfylkinguna virðist dreyma um upptöku evru á fölskum forsendum, því að allar lausnir hennar á vandanum í núinu snúast um gjaldmiðilsskipti strax. Ef af því yrði, væri það algert brot á Maastricht-sáttmálanum og þar með án réttra forsendna gjaldmiðilssamstarfs ESB, EMU II. Samfylkingarmenn halda því líka fram, og benda þá á Eystrasaltslöndin, að við það að taka stefnuna á evruna muni efnahagsstjórnunin lagast. Hér skal ekki mótmæla þessu, en hvað þýðir það að taka stefnuna á evruna. Það þýðir að gera Maastricht-skilyrðin að stefnumiði. Sá, hér heldur á fjaðurstaf, vill gjarna leiða Maastricht-skilyrðin til öndvegis við hagstjórnina, en þó að það sé gert, liggur ekkert á að blanda sér í þá gjörningahríð, sem væntanleg er innan ESB. Það er komið í ljós, að Þýzkaland og Frakkland geta ekki búið við sama gjaldmiðil, og skyldi engan undra, og Englendingar kunna að segja skilið við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017; spurning hvað Skotar gera.
Atvinnulífið hefur verið þrúgað undir sameignarsinnunum. Er kominn tími til, að ríkisvaldið hætti hernaði sínum gegn fólki og fyrirtækjum í landinu, sem stundaður er í nafni úreltra og heimskulegra hugmynda um stéttabaráttu og ríkiseign á öllu, smáu sem stóru. Verst hafa stjórnvöld farið með sjávarútveginn, og varðar sú mismunun í skattlagningu, m.v. fyrirtæki í öðrum greinum, sennilega við ákvæði í Stjórnarskrá um atvinnufrelsi, jafnrétti og eignarrétt. Skattheimtan á útvegsfyrirtækin og fiskvinnsluna tekur út yfir allan þjófabálk, og hún er svo þungbær, að fyrirtækin rísa ekki undir henni. Verður að afnema hið stórskaðlega og afspyrnu heimskulega veiðigjald strax og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og þing kemur saman. Sjávarútvegurinn getur sáralítið fjárfest undir klafa sameignarsinna, en við eðlileg skilyrði þarf hann og getur fjárfest fyrir ISK 15 mia.
Íslenzki sjávarútvegurinn stendur í harðri samkeppni við norska sjávarútveginn og sjávarútveg ESB, og flausturslegt fikt við afkomu hans og stöðugleika er stórkaðlegt, og vegna umfangs hans í þjóðarframleiðslunni eru atlögur stjórnvalda gegn honum þjóðhættulegar. Það er lágmarksskylda stjórnvalda að tryggja sjávarútveginum jafna rekstraraðstöðu á við annan fyrirtækjarekstur í landinu. Túðrinu um meinta auðlindarentu verður að linna. Það mun aldrei takast að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi einum af allri sjávarútvegsstarfsemi við Norður-Atlantshaf. Annaðhvort er hún þar alls staðar eða hvergi.
Menn hafa velt fyrir sér, hvar fjárfestingartækifæri væru á Íslandi á næstunni. Sá, er hér heldur á fjaðurstaf enn einu sinni, telur reyndar vera gríðarleg tækifæri í nýjum orkukræfum verksmiðjum, en hér skal minnast á annað og síður umdeilt svið, þar sem er fiskeldið. Þar hentar Ísland vel frá náttúrunnar hendi, eins og Noregur, sem hefur náð góðum árangri á þessu sviði og við getum lært margt af. Fyrir 30 árum sleit þessi grein barnsskónum í Noregi og setti sér þá markmið um að framleiða 1 milljón tonna af eldisfiski um 2010, og þeir hafa nú náð þessu marki. Við erum nú að slíta barnsskónum á þessu sviði og ættum að gera áætlun um fimmtánföldun framleiðslunnar á 15 árum. Til þess þarf fjárfestingarfé, þekkingu og talsverðan mannafla, sem mun bæta hag dreifðra byggða, t.d. á Vestfjörðum. Til að komast upp úr algerri stöðnun, sem vinstri stjórnarhættir og glópahagstjórn hefur leitt yfir okkur, verður að þrefalda fjárfestingar hið minnsta frá því, sem nú er.
Menntakerfið er fjarri því að fullnægja þörfum athafnalífsins, enda hefur menntamálaráðherra engan hug á því, og hefur ekki ákvarðað forgangsröðun til menntamála með hagsmuni helztu atvinnugreina á Íslandi í huga. Landbúnaðurinn hefur sína sérskóla, og þar þarf fyrir atbeina ríkisins að efla fræðslu fyrir fiskeldið. Það er þörf á eflingu menntunar fyrir sjávarútveginn á sviði skipstjórnunar, vélstjórnunar, rafvirkjunarstarfa um borð og framleiðslustjórnunar um borð og í landi, svo að fátt eitt sé talið. Stóriðjan er alger hornreka í menntakerfinu. Áherzlur menntamálaráðherra eru á sviði hugvísinda á kostnað raunvísinda, og hún eykur einsleitni á kostnað fjölbreytni með því að þrengja að einkaskólum. Áherzlur vinstri manna eru á öllum sviðum sama markinu brenndar, þ.e. að auka miðstjórnarvald fremur en að auka heildarskilvirkni kerfisins.
Eitt ráð til að auka framleiðni er að leyfa fyrirtækjum að vaxa til að þau geti nýtt hagkvæmni stærðarinnar. Norðmenn leyfa hámarksumfang hvers útgerðarfyrirtækis í hverri tegund upp undir 25 %. Hér er markið 12 % af aflahlutdeild og er tekið að standa frekari hagræðingu fyrir þrifum. Væri rétt að tvöfalda þetta mark í 4 þrepum á 8 árum.
Framleiðni í fjármálageiranum er of lág, sem ásamt öðru veldur of háu vaxtastigi í landinu. Starfsemi bankanna er með ríkistryggingu, sem ýtir ekki undir hagræðingu. Það gengur ekki að vera með ríkistryggingu á starfsemi fjárfestingarbanka. Hana á að taka af, nema bankarnir kljúfi fjárfestingastarfsemina frá innlánastarfseminni, og Samkeppnisstofnun ætti í kjölfarið ekki að standa gegn sameiningu tveggja af þremur stærstu innlánastofnununum.
Framsóknarflokkurinn siglir nú beggja skauta byr í fylgismælingum. Hófst fylgisaukning flokksins fyrir alvöru með uppkvaðningu dóms EFTA dómstólsins í janúar 2013. Þá kom í ljós, að Framsóknarflokkurinn hafði sýnt heilsteyptustu dómgreindina í Icesave-málinu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mestu staðfestuna. Nú vill fólk veðja á þennan unga mann og láta reyna á hann og hans fólk við stjórnvöl landsins. Það er vel skiljanlegt og hægt að samfagna með Framsóknarmönnum, enda gengur ekki hnífurinn á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það er engin þörf fyrir Sjálfstæðismenn að hengja haus, svo lengi sem summa fylgis flokkanna er vel yfir 50 %. Borgaraleg ríkisstjórn er það, sem þetta land þarf nú, og nú stefnir í, að hún verði undir forsæti Framsóknarflokksins. Í ljósi stjórnmálastöðunnar í landinu núna er það engin goðgá. Tveir jafnstórir flokkar geta myndað stálbryddaða ríkisstjórn.
Á sama tíma er formanni Samfylkingar siginn larður í 12,5 %. Sá maður er svo leiðinlegur á að hlýða, að með eindæmum er. Að annarri eins loðmullu og froðusnakki er leitun. Nýjasta spekin frá þeirri mannvitsbrekku er, að gengisfelling krónunnar hafi ekkert gagnazt sjávarútveginum, af því að útflutningsmagnið hafi staðið í stað. Þessi ESB-taglhnýtingur á bágt. Hann veit ekki, að það er fiskveiðistjórnunin, aflamarkskerfið, reist á vísindalegri ráðgjöf, sem setur veiðunum skorður. Afkastageta flotans og útflutningsgeta sjávarútvegsfyrirtækjanna er miklu meiri.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Menntun og skóli | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.