21.3.2013 | 21:43
Nauðsyn nýs vinnulags
Sú grautargerð, sem undanfarin 4 ár hefur viðgengizt við stjórn landsins, einkennist af undirmálsvinnubrögðum, sem stefna landinu til hræðilegs ófarnaðar. Stefnumörkun stjórnvalda hefur borið merki hefndarþorsta í garð stjórnmálalegra andstæðinga og svo ófaglegra vinnubragða á öllum sviðum, að undrum sætir. Fórnarlambið er almenningur, og hagur hins vinnandi manns hefur algerlega verið fyrir borð borinn.
Dæmi um undirmálsvinnubrögð eru legíó, en nefna má samningana við Hollendinga og Breta um uppgjör útibúa Landsbankans þarlendis, Icesave-málið, svik við aðila vinnumarkaðarins, sem leiddi til trúnaðarbrests, fjárlög og rekstur ríkissjóðs og aðförina að atvinnuvegunum. Peningamálastefnan er kapítuli út af fyrir sig, þar sem gjörsamlega úreltum vinnubrögðum er beitt.
Hatrið í garð stjórnmálaandstæðinga náði sögulegu hámarki með því að kalla saman Landsdóm til höfuðs einum manni, Geir Hilmari Haarde, sem mátti bera syndir heimsins, en var sýknaður af öllum ákærum, nema einu léttvægu atriði um skort á formlegri dagskrá ríkisstjórnarfundar, og ákærendum gert að greiða allan sóknar-og varnarkostnað. Hvílík sneypuför vesalinga við völd.
Þeir hatursfullu einfeldningar, sem að þessu stóðu, hafa samt ekkert lært. Þeir góla enn á torgum um, að Hrunið sé Sjálfstæðisflokkinum að kenna, þrátt fyrir það, að Landsdómur hafi enga sök fundið hjá formanni hans, sem þá stóð í stafni. Hvergi nokkurs staðar í heiminum er slík fáfræði og grunnhygni við lýði að kenna stjórnmálamönnum um hrun peningakerfis heimsins haustið 2008. Hvað segja vinstri-grænir og fylkingarfélagar annars um hrunið á Kýpur núna ? Hefur evran orðið Kýpverjum björgunarhringur eða baggi ?
Það verður að setja íslenzka þjóðfélaginu skynsamlegri og verðugri markmið en núverandi valdaflokkar og allt kraðakið í kringum þá eru færir um að gera. Þar er nú ekki feitan gölt að flá. Þá verður að gjörbreyta forgangsröðun stjórnvalda, svo að kraftarnir beinist allir að því að stækka hagkerfið, eins og það framast þolir, til að losna sem fyrst út úr þeirri fátæktargildru, sem vinstri flokkarnir hafa leitt þjóðina í og tölur Hagstofunnar sýna svartar á hvítu; hagkerfið er botnfrosið.
Gamlir amlóðar, sem trúðu á roðann í austri, hafa valdið alkuli (-273°C) hagfótarins með flónslegum uppátækjum sínum, sem þá hefur dreymt um áratugum saman að prófa hér. Almenningur á Íslandi er nú fórnarlamb þjóðfélagstilrauna, sem alls staðar hafa leitt til hörmunga, þar sem jafnaðarmenn og aðrir sameignarsinnar hafa brotizt til valda. Nú í vor verður þetta lið, sem fimmtungur þjóðarinnar fylgir enn að málum, brotið á bak aftur og fátæktarhelsi þess kastað á ruslahauga sögunnar. Fréttastofa RÚV, sem gárungarnir kalla Tass, blandar sér nú blygðunarlaust í kosningabaráttuna fyrir afturhaldið í landinu. Hart er að þurfa að borga bullið úr eiginn vasa.
Í öndvegi verður að setja eftirfarandi stefnu, markmið og forgangsröðun:
Stefna: allar ráðstafanir hins opinbera skulu virka hagvaxtarhvetjandi. Aðgerðirnar skal vera unnt að rökstyðja sem hagvaxtarhvetjandi annaðhvort til skemmri eða lengri tíma eða hvort tveggja.
Markmið: stækkun hagkerfisins að raunvirði um a.m.k. 16 % á næstu 4 árum.
Forgangsröðun: (1) að koma rekstri ríkissjóðs á heilbrigðan grundvöll, þ.e. hann skili tekjuafgangi án þess að eyðileggja innviði samfélagsins, s.s. sjúkrahúsin, vegakerfið og menntakerfið. Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs verður að samræma getu hans m.v. stærð hans, sem verði minni en 35 % af VLF, og draga verður úr ríkisábyrgðum í íbúðalánakerfi og hjá Landsvirkun. Stækkun skattstofnanna er lykilatriði til að ná þessu.
(2) Peningamálastefnan hafi hagvöxt og stöðugt verðlag að leiðarljósi. Dregið verði úr peningum í umferð með því að draga stórlega úr möguleikum bankanna til að búa til peninga með uppgíruðum lánveitingum m.v. eigið fé. Grunni vísitölunnar verði breytt til samræmis við Eurostat, hagstofu ESB, og spár um neyzlumynztur í stað þess að nota alltaf úreltan grunn.
(3) Hefja tangarsókn gegn gjaldeyrishöftum með samningaviðræðum um miklar erlendar fjárfestingar í landinu, sem skapa mjög mikið innflæði gjaldeyris í landið, og langvarandi auknar útflutningstekjur, og hins vegar harðar viðræður við eigendur bankanna og innistæðueigendur um afskriftir og skattlagningu útflæðis gjaldeyris. Að undangenginni áhættugreiningu varðandi gengi krónunnar skal aflétta höftunum í einu vetfangi í anda Dr Ludwigs Erhards.
(4) Gera skal samkomulag um stefnumörkun við aðila vinnumarkaðarins um áætlun til 4 ára, er spanni skattalækkanir, verðbólguþróun, atvinnustig og launahækkanir. Áður en kjörtímabilið verður á enda runnið skal vera búið að einfalda skattkerfið og lækka skattheimtuna verulega með það að markmiði að afnema allar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar á 6 árum. Áætlun nýrrar ríkisstjórnar um skattalækkun og stöðugleika mun strax hafa jákvæð áhrif til aukinnar neyzlu og fjárfestinga. Á árinu 2013 á að vera unnt að rífa hagkerfið upp úr feni samdráttar, og árið 2015 á hagvöxtur að geta náð 3 % á sjálfbærum grunni.
Hagtölur ársins 2012 sýna, svo að ekki verður um villzt, að efnahagsáætlun vinstri stjórnarinnar og AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hefur steytt á skeri. AGS ginnti ráðherra vinstri stjórnarinnar til að láta ríkissjóð taka rándýr lán af AGS, sem AGS græðir vel á vegna umframvaxta af Íslandi í nafni meiri áhættu, sem nemur um 30 milljörðum kr á ári. Það er afar slæm ráðstöfun að hálfu íslenzka ríkisins að taka slíkt lán fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn. Þarna hafa ráðherrarnir verið plataðir með svipuðum hætti og í Icesave-samningunum og afhendingu bankanna til kröfuhafanna. Hvert glappaskot flónanna hefur rekið annað, og hvert þeirra er dýrkeypt.
Einkaneyzla á mann á árinu 2012 var heldur minni en árið 2003 eða um MISK 1,75 á mann á verðlagi ársins 2005, þ.e. lífskjörin höfðu þá rýrnað sem svarar til afturhvarfs um 9 ár. Hrunið fór með einkaneyzluna 10 ár aftur í tímann eða aftur til 1998, úr MISK 2,15 á mann í MISK 1,62 eða 33 %. Þetta þýðir, að á 4 árum duglausrar ríkisstjórnar vinstri flokkanna hefur okkur aðeins miðað fram um eitt ár til að bæta lífskjarahrapið upp. Miðað við þróun hagkerfisins árið 2012 og nú 2013 er ljóst, að stjórnmálaflokkar núverandi ríkisstjórnar munu aldrei draga hagkerfið upp úr feninu.
Ráðherrarnir og ráðgjafar þeirra eru eitthvert glámskyggnasta fólk, sem um getur, enda dettur fáum í hug að veita þeim áframhaldandi ábyrgðarhlutverk. Steingrímur J. Sigfússon reit grein í Fréttablaðið 8. júní 2012 undir fyrirsögninni: "Batinn rækilega staðfestur." Þar sagði: "Síðustu daga hafa okkur birzt jákvæðir hagvísar úr ólíkum áttum. Opinberar tölur og greiningar staðfesta æ betur, að efnahagsbatinn er kominn á nokkuð traustan grunn." Á þessu skeiði var hagkerfið algerlega staðnað og jafnvel komið í samdrátt. Þetta túður ráðherrans sannar glámskyggni hans. Það er ekkert að marka manninn. Loddari heitir slíkur.
Í byrjun júlí 2012 skrifaði Gylfi, nokkur, Zoëga, fulltrúi ríkisstjórnarinnar í Peningastefnunefnd Seðlabankans, grein í Vísbendingu, sem hann nefndi Viðsnúning. Greinin er eins og eftir umsnúna endagörn: "Hvern skyldi hafa grunað, að kreppulokin yrðu án þess, að þeim væri veitt eftirtekt ?", stóð þar. Þetta var heilaspuni. Téða Gylfaginningu lásu margir yfir fyrir Gylfa auk ritstjóra Vísbendingar, s.s. Katrín Ólafsdóttir í Peningastefnunefnd Seðlabankans, Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri og í Peningastefnunefnd, Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og í Peningastefnunefnd, og Björn Rúnar Guðmundsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst, að mælingakerfi Seðlabanka Íslands á hagþróun er handónýtt. Bankinn er allur í skötulíki undir núverandi stjórn. Hvaða ályktun á að draga um fólk, sem falið er að stjórna einhverju, en hefur eftir mörg ár ekki áttað sig á, að mælitækið á árangurinn er handónýtt. Skattgreiðendur ættu að setja það á guð og gaddinn.
Alger uppstokkun verður að eiga sér stað í Seðlabankanum, og innleiða verður nýja aðferðafræði við stjórnun peningamálanna. Eins og staðan er núna, er engin áætlun í gangi um losun gjaldeyrishaftanna. Höftin eru þó mesta efnahagsvandamál Íslands. Seðlabankastjóri falast eftir meiri völdum með svo kölluðum "þjóðhagsvarúðartækjum". Þau jafngilda ráðstjórn á Íslandi, og hugmyndin gæti verið komin frá Leon Trotzky. Peningamálastefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar fær falleinkunn, nema hjá hagfræðingum menntuðum í þýzka alþyðulýðveldinu, Deutsche demokratische Republik.
Vandinn, sem við blasir út úr hagvaxtartölunum, er allt of lítil framleiðniaukning. Hagvöxtur er samsettur úr auknu vinnuframlagi og framleiðniaukningu. Samkvæmt Hagstofunni voru ársstörf 1,1 % fleiri árið 2012 en 2011. Ef Hagvöxtur varð á sama tímabili 1,6 %, varð framleiðniaukning 0,5 %. Það er allt of lítið. Hún þarf að vera a.m.k. 3 % á ári, ef við eigum að verða samkeppnifær. Ef samdráttur varð í hagkerfinu á þessu tímabili, varð minnkun framleiðni. Þessi ömurlega þróun varð vegna mjög lítilla fjárfestinga. Þetta er ávísun á versnandi lífskjör, eins og í DDR forðum. Það er alveg fullreynt, að engin aukning verður á fjárfestingum með núverandi stjórnarstefnu við lýði. Borgaralegu flokkarnir eru eina von kjósenda í þessu tilliti.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Kjaramál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.