Afstaðan til ESB

Tilvitnun í Olli Rehn, fyrrverandi stækkunarstjóra Evrópusambandsins, ESB:

First, it is important to underline that the term “negotiation”can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Finnski framkvæmdastjórinn í ESB, sem nú um stundir mun hafa peningamál ESB á sinni könnu, muni höfundur réttilega, segir hér fullum fetum, að orðið "samningaviðræður" geti valdið misskilningi.  Aðildarviðræður snúist um skilyrði og tímasetningu á upptöku, innleiðingu og notkun ESB-regluverks á u.þ.b. 90 000 blaðsíðum.  Þessar reglur, sem nefndar eru á frönsku "acquis", það sem hefur verið samþykkt, eru ekki umsemjanlegar.  Fyrir umsækjendur snýst málið um upptöku og innleiðingu ESB reglna og verklagsreglna.  Fyrir ESB er mikilvægt að fá tryggingu fyrir tímasetningu og árangri hvers umsækjanda á innleiðingunni.

Svo mörg voru þau tilvitnuðu orð.  Af þessu er ljóst, að Alþingi var haft að ginningarfífli 16. júlí 2009, er forkólfar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kreistu út úr öfugsnúnu Alþingi heimild til ríkisstjórnarinnar um að hefja samningaviðræður um aðild að ESB.  Það var aldrei minnzt á aðlögun.  Síðan var stofnuð "samninganefnd" og látið var í veðri vaka, að hún væri að semja um aðildarskilmála, en ekkert hefur verið birt opinberlega af þessum samningum enn þá.  Með málið er farið sem ríkisleyndarmál í anda Icesave-samnings I.  Með nýjum utanríkisráðherra eftir komandi Alþingiskosningar fer þó ekki hjá því, að afraksturinn verður birtur fljótlega.  Mun um hann mega segja, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús.

Af tilvitnuðum texta er alveg ljóst, að aðildarferlið snýst ekki um "að kíkja í pakkann", eins og haldið hefur verið að landsmönnum og ólíklegustu menn ginið við. Þeir, sem trúa þeirri skreytni, vilja margir leiða þessar viðræður til lykta og taka síðan afstöðu til samningsins, þegar hann liggur á borðinu.  Þessir menn hafa verið blekktir, og er tími til kominn að gera sér grein fyrir því.  Það verður ekki samið um neitt annað en skilmála aðlögunar að regluverkinu, samkvæmt Olli Rehn hér að ofan.  Ef menn halda, að ESB hafi svo mikinn hug á að fá Ísland inn, að slegið verði varanlega af kröfunum, og þar með gefið fordæmi og vakin upp óánægja innan ESB, þá eru menn barnalegri í hugsun en þeir hafa leyfi til að vera.  Það eru þvert á móti uppi háværar kröfur innan ESB um að taka ekki fleiri inn fyrr en leyst hefur verið úr vandamálum evrunnar, sem nú ógna sjálfri tilvist ESB.  Þó að áhugi sé í vissum "kreðsum" innan ESB á að fá Ísland inn, verður hann útundan, þegar hvert stórvandamálið rekur annað.

Svo óhönduglega tókst til um úrlausn peningavandamála Kýpverja, að efnahagshrunið stefnir í 20 % af VLF, sem er hlutfallslega meira en tvöfalt stærra en íslenzka Hrunið, og atvinnuleysið stefnir á 25 %.  Ekki nóg með þetta, heldur kippti Brüssel gólfhleranum undan auðvaldskerfinu, sem Íslendingar voru af ESB sakaðir um að gera og ESB reyndi að hengja þá upp í hæsta gálga fyrir, þ.e. að ganga á hlut innistæðueigenda.  Þessi umpólun í Berlaymont átti sér stað eftir ströng skilaboð frá Berlín, þar sem stjórnmálamenn hafa skynjað hug þýzkrar alþýðu til tíðra björgunaraðgerða ("Bail-outs") á kostnað þýzkra skattborgara, og ótti valdamanna um úrslit þýzku Sambandsþingskosninganna fer vaxandi.

Nýjasta brýna úrlausnarmálið er Portúgal, þar sem forseti landsins talar um "neyðarástand".  Þar er kominn upp stjórnlagavandi, þar sem niðurskurðaraðgerðir, sem Berlaymont heimtaði og voru skilyrði neyðarástands, hafa verið dæmdar ólöglegar.  Það er dauðlegum mönnum hulin ráðgáta, hvernig einn stjórnmálaflokkur getur gert það að miðlægu atriði í boðskap sínum nú í apríl 2013, að lausnarorðið fyrir þjóð norður í "Ballarhafi" sé að fórna mynt sinni fyrir þessa mynt, sem svo mikilli ógæfu hefur valdið sem raun ber vitni um.    

Á meðal aðlögunarmála er hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB og reglur um frjálsan flutning lifandi dýra og dýraafurða með öllum þeim sýklalyfjum í íslenzkan búsmala, sem slíkt mundi leiða til ásamt hættu á dýrapestum, eins og dæmin sanna.  Aðlögunarferli á þessum sviðum mundi leiða til mikilla breytinga til hins verra hérlendis.  Stjórnvöld hafa reynt að knésetja íslenzkan sjávarútveg á kjörtímabilinu, sem er senn á enda runnið.  Þau ætluðu að brjóta hann á bak aftur með ofurskattlagningu, sem í raun er eignaupptaka, og þau ætluðu að ræna hann undirstöðu sinni, eignarhaldinu á aflahlutdeildinni, og að gera útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins, svo geðslegt sem það nú hljómar.  Hið fyrra tókst, en verður vonandi lagfært í byrjun nýs kjörtímabils.  Hið síðara mistókst, þótt kroppað hafi verið í kvótann með lýðskrumsaðferðum, sem dregið hafa úr arðsemi sjávarútvegsins sem heildar fyrir þjóðarbúið. 

Varðandi afleiðingar hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu á sjávarútveginn ættu menn að leita frétta af afleiðingunum fyrir enskan, skozkan, írskan og danskan sjávarútveg.  Orðið hrun lýsir afleiðingunum bezt.  Íslenzki sjávarútvegurinn er með hæstu þekktu framleiðni í heimi og er rekinn sem hágæða matvælaframleiðsla eftir óskum markaða.  Fiskveiðistefnan, sem er reist á vísindalegri ráðgjöf, er tekin að bera árangur fyrir lífríki hafsins, sérstaklega eftir að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um 20 % aflamark úr hrygningarstofnum var tekið upp árið 2007, svo að nú er hrygningarstofn þorsks í vexti, sem gæti gefið þjóðarbúinu um 10 milljarða kr aukalega á næsta fiskveiðiári, ef úrvinnsla og markaðssetning verður, eins og bezt verður á kosið.    

Óheilindin, sem höfð eru í frammi að hálfu téðra stjórnarflokka í þessu óláns umsóknarferli, er meginskýringin á hertri afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins, eins og hún var mótuð á Landsfundi hans í febrúar 2013, að mati höfundar.  Það gefur t.d. auga leið, að eftir stöðvun aðlögunarferlisins missir upplýsingaskrifstofa ESB, svo kölluð Evrópustofa, algerlega marks.  Henni verður þá sjálfhætt, og það er nánast öruggt, að Berlaymont mun átta sig á því að fyrra bragði.  Ályktun Landsfundar um Evrópustofu fjallar í raun um, að framkvæmdastjórn ESB verði bent á þetta, ef nauðsyn krefur.  Það er búið að þyrla upp ótrúlegu moldviðri vegna téðrar ályktunar Landsfundar, og sumir sjálfstæðismenn hafa jafnvel virzt fara hjá sér við að útskýra og styðja þessa ályktun.  Það er óþarfi, því að ályktunin er fullkomlega rökrétt og markar engin sérstök þáttaskil í sjálfri sér í samskiptum Íslands við ESB.  Hún er sjálfsögð árétting sjálfstæðs fólks gagnvart ríkjasambandi, enda hafa bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur markað þessa stefnu.     

Hrottaleg meðferð leiðtoga ESB-ríkjanna og búrókratanna í Berlaymont á grískumælandi Kýpverjum er að vissu leyti svakalegri en meðferð ESB-manna á Aþenu-Grikkjum.  Við urðum þarna vitni að því, hvernig smáríki verður fórnarlamb hinna stærri, og farið er mjúkum höndum um stórlaxana á meðan almúganum blæðir.  Peðin verða alltaf fórnarlömb í valdatafli hinna voldugu. Sennilega hefur Vladimir Putin hringt í Angelu Merkel og bent henni á, að Kýpurbanki er með útibú í Moskvu og að Þjóðverjar fá megnið af sínu eldsneytisgasi frá Rússum, því að frú Merkel gaf umsvifalaust fyrirmæli um eða samþykkti opnun útibúsins í Moskvu, og þar tóku rússneskir stórinneignamenn út sínar inneignir eins og þá lysti, en almúginn á Kýpur fær að taka út 300 evrur á dag.  Það er ekki sama Jón og séra Jón.  Við Íslendingar þekkjum þessa harkalegu meðferð ESB á smáríkjum frá hrottafenginni meðferð í kjölfar Hrunsins og frá Icesave-hildarleiknum, en þar urðu kaflaskipti með dómi EFTA-dómstólsins.  Hver veit, nema ESB eigi eftir að sýna brunnar vígtennurnar, þegar næsta ríkisstjórn fer að taka á kröfuhöfum þrotabúa gömlu bankanna.  Mismunurinn á okkur og téðum fórnarlömbum gammanna í Berlaymont er fullveldið, sem reyndar er í stórhættu.    

Á Kýpur eru ekki einvörðungu gjaldeyrishöft, þ.e. bann við gjaldeyrisviðskiptum, heldur peningaleg höft og takmarkanir á kortaviðskiptum.  Jafnvel Íslendingar hafa ekki þurft að sæta slíku, enda bjuggu þeir við sjálfstæðan Seðlabanka, þegar mest á reið.  

Nú er staðfest, að evran er ekki lengur jafngild hvar sem er.  Kýpverskar evrur eru mun verðminni utan Kýpur en t.d. þýzkar.  Það er nýtt af nálinni, að evra sé ekki ein og sú sama óháð því við hvaða evruland hún er kennd.  Þetta er nýjasti naglinn í líkkistu evrunnar.  Hún er dæmd til að klofna eða ríki munu hrökklast úr myntsamstarfinu.  Samt rekur Samfylkingarforystan enn trúboðið um hjálpræði evrunnar á Íslandi, og má slíkt furðu gegna og mun verða talin saga til næsta bæjar, enda er Samfylkingin að breytast í sértrúarsöfnuð með um 10 % fylgi.  Það er auðvitað hægt að taka upp fastgengisstefnu hérlendis, en þá verða menn að vera tilbúnir að taka upp efnahagslægðir með launalækkunum eða atvinnuleysi.  Leiðin til stöðugleika liggur um Maastricht-skilyrðin og að afla meiri gjaldeyris en eytt er.  Ef við getum ekki búið við krónu, þá getum hvorki búið við evru, bandaríkjadal né sterlingspund.  Þá er ræfildómurinn kominn í slíkar hæðir, að ekki er annað eftir en að segja sig til sveitar.   

Um árabil hafa vextir verið ólíkir í evrulöndunum háðir tiltrú fjárfesta á efnahagskerfi viðkomandi landa.  Ef Ísland væri nú með evru, er þess vegna algerlega undir hælinn lagt, hvort raunvextir væru þá lægri eða hærri á Íslandi en raunin er á núna.  Það er líka alveg óvíst, að við gætum notað okkar evrur erlendis.  Við gætum hæglega staðið í sporum Kýpverja.  Hjal einfeldninga hérlendis um bjargræði erlendra mynta sem lögeyrir á Íslandi er algerlega fótalaust.   

Það er þess vegna með eindæmum að bera það á borð í þessari kosningabaráttu, sem lýkur 27. apríl 2013, að hag almennings verði bezt borgið innan vébanda ESB og með evru sem lögeyri.  Leyfum rykinu að falla í Evrópu áður en við fullyrðum slíkt.  Þar á mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en jafnvægi hefur komizt á.  Spennan á milli ríkja evrusvæðisins er gríðarleg og fer vaxandi og sannast sagna blasir ekki við, hvernig í ósköpunum öll núverandi evruríki geta verið til lengdar með sömu mynt.  Hún virkar sums staðar sem skelfileg spennitreyja á hagkerfið, en annars staðar sem örvunarlyf.  Að meðaltali er samt útkoman slæm með hagvöxt nálægt núlli og atvinnuleysi 12 % og vaxandi.    

  Kýpur

  Laufblað á steini

  

  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Sæll Bjarni.

Takk fyrir frábæra grein og greinargóðar útskýringar.

Högni Elfar Gylfason, 10.4.2013 kl. 23:28

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Högni Elfar;

Þessi ESB-vegferð ríkisstjórnar vinstri manna var illa ígrunduð, eins og spár ráðherra, t.d. Össurar og Árna Páls, um tímalengd viðræðna, sýndu.  Þeir áttu von á lyktum aðlögunarferlisins árin 2011-2012.  Dómgreindarleysi forystumanna stjórnarflokkanna og þjónkun þeirra við valdsmennina í Berlaymont allt kjörtímabilið með augljósum undirlægjuhætti í Icesave-málinu hefur rúið þessa flokka trausti almennings.  Ekki eru nema 4 ár síðan það var stefna Framsóknarflokksins að sækja um aðild að Evrópusambandinu.  Hann hefur nú snúið við blaðinu.  Fólk treystir þeirri stefnubreytingu Framsóknarflokksins.  Um Sjálfstæðisflokkinn má hins vegar taka sér í munn orð Lafði Thatchers: "The Lady is not for turning".

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 11.4.2013 kl. 21:44

3 Smámynd: Sigurður Gunnarsson

Við eigum ekki að aðlagast einhverju sem er ekki nógu gott. Reglur ESB voru höfuðorsök fyrir hruninu og ESB þarf að bæta þær, en þar tekur slíkt langan tíma. Sjá innlegg mitt um hvað er að gerast..

Sigurður Gunnarsson, 15.4.2013 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband