14.4.2013 | 09:31
Hvað er um að vera ?
Sjálfstæðismenn rekur í rogastans. Fylgiskannanir frá uppkvaðningu dóms EFTA-dómstólsins í máli ESA og ESB gegn Íslandi benda til flótta ótrúlega margra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins til Framsóknarflokksins. Þetta er að mörgu leyti furðulegt, því að þetta flóttafólk hefur væntanlega stutt flokkinn af hugsjónaástæðum og vill enn vinna þeim hugsjónum brautargengi. Heldur þetta fólk, að hægt sé að kjósa Framsóknarflokkinn til að framfylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins ? Því fer víðs fjarri, að það sé raunhæft. Téður flótti er ei til farsældar fallinn, og hætt er við, verði kosningaúrslit í líkingu við núverandi spár, að margt borgaralega sinnað fólk eigi eftir að verða fyrir megnum vonbrigðum. Enn er unnt að stemma á að ósi.
Framboðakraðakið fyrir Alþingiskosningarnar í apríl 2013 er afbökun á lýðræðinu, af því að nýju framboðin eru einfaldlega ekki nógu frumleg og uppbyggileg, hafa upp á lítið bitastætt að bjóða. Þetta eru mest megnis niðurrifsöfl og naflaskoðarar, en frá því eru þó undantekningar. Þau bera þess vegna í sér dauðann og valda því, að mikill fjöldi atkvæða mun falla dauður niður, og þau taka athygli og kynningartíma frá þeim stjórnmálasamtökum, sem einhvern raunhæfan möguleika eiga til áhrifa á komandi Alþingi. Þau eiga ekki erindi sem erfiði. Guði sé lof fyrir 5 % þröskuldinn.
Þrennt skýrir Spútnikferli Framsóknarflokksins, þó að óljóst sé um skotpall þessa Spútniks, sem reyndar er dæmdur til að verða skotinn niður, vonandi þó fyrir kosningarnar, enda er flugskeytum nú beint að þessum furðulega Spútniki. Hann er með nokkra frambærilega frambjóðendur, t.d. Vigdísi Hauksdóttur, en líka afleita frambjóðendur, eins og Eygló Harðardóttur, sem studdi alræmda, háðuglega sneypuför vinstri sinnaðra ofstækisþingmanna á síðasta þingi á hendur fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmari Haarde, sem vann það sér þó til ágætis að vera í forystusveit þeirra, sem björguðu landinu frá gjaldþroti með Neyðarlögunum.
Hér skal fullyrða, að hvert og eitt einasta atkvæði greitt Framsóknarflokkinum í kosningunum 27. apríl 2013 mun færa okkur nær nýrri vinstri stjórn í landinu, sbr hegðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og kumpána hans veturinn 2009, er hann kom vinstri stjórn á koppinn og varði hana síðan falli. Ástæðan er þessi:
veiktum Sjálfstæðisflokki mun ekkert verða ágengt með stefnumál sín í stjórnarmyndunarviðræðum við styrktan og óbilgjarnan Framsóknarflokk, sem mun telja sig geta deilt og drottnað sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins, þó að allt sé slíkt á röngum forsendum og náð með hreinum spuna glannafenginna áróðursmanna, sem tóku mikla áhættu í þessu tilviki, enda mun fall þeirra verða mikið. Eftir að upp úr þeim viðræðum slitnar, mun Framsóknarflokkurinn óðara, ef ekki áður, svo óheill, sem hann hefur löngum verið, snúa sér til vinstri, og lamaðir og laskaðir vinstri flokkar munu fórna öllum sínum stefnumálum fyrir það að fá að skríða undir pilsfald maddömunnar. Ef það er rétt, að aðalútrásargaurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, hafi nú ákveðið að veðja á Framsóknarflokkinn í stað Samfylkingar, kann að verða stutt í, að Framsóknarflokkurinn söðli aftur um í afstöðunni til ESB. Miðjumoðsflokka skortir alla kjölfestu.
Í Morgunblaðinu 13. apríl 2013 birtist viðtal Péturs Blöndals, blaðamanns, við formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Við lestur viðtalsins rennur það upp fyrir lesanda, að meginkosningaloforð Framsóknarflokksins er reist á draumsýn og er í raun hreinræktað lýðskrum. Hugmyndin um endurgreiðslur úr ríkissjóði, því að ríkið á allt það fé, sem hugmyndin er að svíða út úr lánadrottnum gömlu bankanna, renni til allra þeirra, sem skulduðu í íbúðahúsnæði, þegar Hrunið varð, er jafnfráleit og hún er ósanngjörn. Ástæður þessa eru eftirfarandi:
- Eignastaða þeirra, sem lán tóku fyrir íbúðahúsnæði fyrir árið 2006, er að öðru jöfnu betri núna en áður en þeir fjárfestu í téðu húsnæði, þ.e. téð húsnæði er meira virði núna að raunvirði en fyrir 2006. Þetta fólk getur þess vegna losað sig úr kröggum, hafi það lent í greiðsluvanda, þó að laun séu að raunvirði lítið lægri en fyrir 2006, með því að selja og/eða skipta um húsnæði.
- Að sáldra hundruðum milljarða til allra, sem skulduðu í húsnæði í október 2008, er mjög ósanngjörn stjórnvaldsaðgerð gagnvart þeim, sem svo stóð ekki á, að þeir skulduðu, og mun óhjákvæmilega valda deilum um framkvæmdina, og ójafnræðið, sem slík framkvæmd hefur í för með sér, stríðir gegn lögum og Stjórnarskrá. Þetta stærsta kosningaloforð sögunnar á Íslandi er svo stórt í sniðum, að það mun kveikja hér verðbólgubál, verði það raungert, og er þá augljóslega ver farið en heima setið.
- Það er tóm vitleysa hjá Framsóknarmönnum, að íslenzka ríkið eigi varðandi gömlu bankana að mestu leyti í höggi við einhverja hrægammasjóði. Gömlu lánadrottnarnir eru þarna að mestu leyti enn þá, þó að þeir hafi að sumu leyti, e.t.v. að helmingi, fengið verktökum það verkefni að innheimta kröfur sínar. Með Neyðarlögunum haustið 2008, sem Geir H. Haarde hafði forgöngu um, var Íslandi bjargað frá gjaldþroti í óþökk fjármálaveldis heimsins, ekki sízt innan Evrópusambandsins, ESB. Þá urðu þessir lánadrottnar að taka á sig skellinn af því að hafa verið blekktir upp úr skónum af óprúttnum og glannafengnum stjórnendum gömlu bankanna. Hart var sótt að Íslandi út af þessu frá haustinu 2008 til 28. janúar 2013, þegar EFTA-dómstóllinn kvað upp sinn dóm. Nú ætlar Framsóknarflokkurinn að höggva í sama knérunn. Að höggva tvisvar í sama knérunn þótti ógæfumerki til forna, og í þessu tilviki er ekki hægt að bera fyrir sig þjóðhagslega neyð, upplausn heils samfélags. Framsóknarmenn eru þess vegna á mjög hálum ís, ef þeir ætla í eignaupptöku erlendra eigna á hæpnum forsendum. Framferði Framsóknarmanna er gáleysislegt, og þeir gætu með gösslarahætti eyðilagt möguleika Íslands á eðlilegri lánafyrirgreiðslu erlendis frá um mörg ókomin ár. Framsóknarmenn eru þess vegna á stórhættulegri braut, og þeir eru að ljúga sig inn á almenning með mjög illa ígrunduðum og ósvífnum yfirboðum.
- Málflutningur framsóknarmanna nú í aðdraganda kosninganna 27. apríl 2013 veikir samningsstöðu Íslendinga eftir kosningarnar, því að framsóknarmenn hafa sýnt viðsemjendunum, lánadrottnunum, á spil íslenzku samningamannanna og skuldbundið sig til að ná tilteknum árangri innan ákveðins tíma. Þetta er vandræðalega barnaleg hegðun hjá barninu með djúpu röddina. Með þessu valda framsóknarmenn landsmönnum ómældu tjóni. Með öðrum orðum er aðalkosningaloforð framsóknarmanna nokkuð, sem óábyrgt er að gera að kosningamáli.
Það fer hins vegar ekki á milli mála, að fjárhagsstaða flestra, sem festu kaup á sínu fyrsta húsnæði á árunum 2006, 2007 og 2008 er grafalvarleg, og þar er bæði um skuldavanda og greiðsluvanda að ræða. Ástæðurnar eru þær, að á þessum árum geisaði eignabóla í boði Framsóknarflokksins, sem hafði lengi verið ábyrgur fyrir húsnæðismálum í ríkisstjórn fram á árið 2006, og nægir að nefna 90 % lán Íbúðalánasjóðs í því sambandi, sem var peningalegt glapræði, eins og síðar kom á daginn, þannig að eignastaða þessara lántakenda er neikvæð, og vegna verðbólgu og ægilegra skattahækkana vinstri manna er þessu unga fólki gert ókleift að losna út úr vítahringnum. Það stendur uppi stórskuldugt, þó að það selji, og launin duga ekki fyrir afborgunum, vöxtum og verðbótum. Það er skylda þjóðfélagsins að hlaupa undir bagga með þessu unga fólki, og Sjálfstæðisflokkurinn er með raunhæft tilboð til þessa fólks með því að létta undir bagga með því með almennum skattalækkunum, sértækum skattaívilnunum og möguleika á að beina séreignarsparnaði í lífeyrissjóði til höfuðstólslækkunar. Jafnframt ber að stöðva þegar útburð þessa fólks úr íbúðum sínum og veita opinbera aðstoð til að koma þessu fólki á réttan fjárhagslegan kjöl. Margt af þessu fólki er reyndar flutt utan í neyð sinni, og það á að laða fólkið til heimflutnings með því að efla hér efnahagslífið með erlendum fjárfestingum, sem auka spurn eftir hvers konar vinnuafli og munu auka atvinnuþátttökuna, fjölga fólki á vinnumarkaði um u.þ.b. 13 þúsund, sem eðlilegt væri. Ef ríkissjóði skyldi áskotnast eitthvað í viðureigninni við téða lánadrottna, hvort sem er gjaldeyrir eða íslenzkar krónur, á hispurslaust að nota slíkt fé til að grynnka á skuldum ríkissjóðs, utanlands sem innanlands.
Halda menn, að þjösnaskapur framsóknarmanna gagnvart erlendum lánadrottnum muni auðvelda þann bráðnauðsynlega gjörning að laða hingað erlenda fjárfesta ? Loforðaglamur framsóknarmanna er ekki einvörðungu ótrúverðugt og undir hælinn lagt með efndirnar, heldur getur það stórskaðað traustið, sem reyndar er enn af skornum skammti erlendis vegna Hrunsins og vegna skattahegðunar og ummæla vinstri stjórnarinnar. Þetta traust er forsenda fjárfestinga. Amen.
Annar hópur fólks, sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur leikið grátt, eru eldri borgarar. Grein Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 9. apríl 2013, sýnir svart á hvítu, að hann er þess albúinn að leiðrétta óréttlætið, sem þessi þjóðfélagshópur hefur verið beittur. Sjálfstæðisflokkurinn mun, fái hann til þess afl, afnema kjaraskerðingu, sem aldraðir og öryrkjar voru beittir 1. júlí 2009. Hún átti að vera tímabundin, en ríkisstjórnin sveik loforð um afturköllun. Þá hafði verið lögfest, að lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins skyldi hækka eins og lægstu laun. Þarna var þessi viðmiðun afnumin, og nemur sú kjaraskerðing um 20 % síðan.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur bent á, að ríkisstjórnin hefur dregið úr framlögum ríkissjóðs til málefna aldraðra um 13 milljarða kr á valdatíma sínum. Fyrir þennan gjörning verða aldraðir að refsa ríkisstjórnarflokkunum þann 27. apríl 2013, og greiða frambjóðendum atkvæði sitt, sem skilning hafa á málefnum þeirra. Aldraðir eru fastir í fátæktargildru ríkissjórnarinnar. Þeim er refsað fyrir að afla sér tekna, og þær nánast allar hirtar af þeim. Þeim er refsað fyrir að hafa greitt í lífeyrissjóð, svo að lífeyrissjóðirnir hafa algerlega misst marks. Þetta er reginhneyksli, og skal hér taka undir með Halldóri Blöndal, fyrrverandi ráðherra, en hann reit frábæra grein í Morgunblaðið, þann 13. apríl 2013, undir fyrirsögninni, "Köllum til baka kjaraskerðingu aldraðra", og vitnaði til Grímnismála:
Askur Yggdrasils
drýgir erfiði
meira en menn viti,
hjörtur bítur ofan,
en á hliðu fúnar,
skerðir Níðhöggur neðan.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Bjarni, því miður er greining þín að miklu leyti röng. Þú segir: »því að ríkið á allt það fé, sem hugmyndin er að svíða út úr lánadrottnum gömlu bankanna«. Enginn rökstuðningur fylgir þessari fullyrðingu. Hvers vegna ætti ríkið að eiga þetta fé?
Það er einmitt kjarni málsins, að til að ná þessum peningum þarf að beita hörku við Hrægammana. Þeir sem lúffuðu fyrir Icesave-kröfum nýlenduveldanna eru ekki líklegir til að hafa manndóm til að gæta hagsmuna þjóðarinnar gagnvart Hrægömmunum.
Það er einnig rangt hjá þér að fylgistap Sjálfstæðisflokks megi rekja til úrskurðar EFTA-dómstólsins frá 28. janúar 2013. Sumir hafa raunar bent á Landsfundinn 24. febrúar 2013, sem orsakavald. Báðar hugmyndir eru rangar, því að fylgistapið var hafið fyrir ársbyrjun 2013. Línulegt fall í fylgi flokksins, segir okkur að það eru ekki einstakir atburðir sem skýra það.
Samkvæmt Capacent-Gallup var fylgi Sjálfstæðisflokks 36,3% þann 28. desember 2012. Samkvæmt MMR 37,7% þann 13. nóvember 2012. Samkvæmt Fréttablaðinu/Stöð2 40,7% þann 17. janúar 2013. Í öllum könnunum síðan hefur útkoma Flokksins lækkað frá þessum tölum. Kannanirnar voru gerðar einhverjum dögum fyrir birtingu þeirra.
Vandi Sjálfstæðisflokks er miklu víðtækari en hver er formaður og hver er varaformaður. Vandinn er sá, að forusta Flokksins nýtur ekki trúnaðar-trausts og upphaf þess má rekja til stuðningsins við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-deilunni. Ekkert hefur skeð síðan sem réttlætir traust á forustunni og útþynning tillagna sem lagðar voru fyrir Landsfundinn hjálpaði ekki til.
Að mínu mati er miklu meiri hætta á, að Sjálfstæðisflokkur taki Samfylkinguna í sátt og myndi með henni ríkisstjórn, en að Framsóknarflokkur leiti þangað. Sjálfstæðisflokkur myndaði ríkisstjórn 2007 með Samfylkingu og ætlaði að fara með landið inn í Evrópusambandið. Flokkurinn gekk til liðs við Samfylkinguna í Icesave-deilunni. Forusta Flokksins afneitar samþykktum Landsfundar um tafalaus slit á viðræðum við ESB. Forustan gerir einnig grín að þeirra kröfu Landsfundar, að Evrópustofa verði lögð niður.
Það eru því mjög gild rök fyrir því að þeir kjósendur sem einhvern tíma hafa kosið Sjálfstæðisflokk, láti það ógert að þessu sinni. Framsókn, undir stjórn Sigmundar Davíðs og Vigdísar Hauksdóttur, er vel treystandi til að gæta hagsmuna Íslands, sérstaklega gagnvart Hrægömmum og ESB.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 14.4.2013 kl. 15:01
Sæll, Loftur Altice;
"Errare Humanum est", en mér þykir nú skörin vera tekin að færast upp í bekkinn, ef þú heldur því fram, að féð, sem fengizt með hugsanlegum útgönguskatti á fé kröfuhafanna úr landi eða sem samningamenn ríkisins hugsanlega næðu samkomulagi um, að kröfuhafar gæfu eftir í samningum, falli ekki til ríkisins. Þú skuldar öðrum virkilega útskýringu á því, hver hinn dularfulli eigandi er þá.
Þú vilt "beita hörku við Hrægammana". Það er auðvelt að berja sér á brjóst, en yrðu landsmenn eitthvað bættari með "Phyrrosarsigur" í þessu máli ? Eiginleikar, sem hér er þörf á, eru seigla, þekking á sviði lögfræði og fjármála, og reynsla af samningum af þessu tagi.
Ég ætla ekki að þrátta um ástæður téðs fylgistaps. Á því hefur hver sína skoðun. Meir er mér í mun að snúa þessari þróun við. Ég er ekki úrkula vonar um, að vendipunktur hafi orðið í þessum efnum.
Varðandi hugsanlega stjórnarmyndun eftir kosningar er lítið hægt að tjá sig, en sem stendur virðist Samfylkingin ekki vera mikið meira en "eitrað peð".
Með kveðju /
Bjarni Jónsson, 14.4.2013 kl. 22:51
Sæll Bjarni.
Ég held að hrægammarnir telji sig eiga Snjóhengjuna og það telja raunar einnig ýmsir í hópi stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Guðmundur Gunnarsson er einn þessara manna og hefur hann nýlega ritað:
Ég fjalla um afstöðu Guðmundar hér:
Kjölturakkar ESB hafa ekkert lært af endalokum Icesave-deilunnar
Um bræðslu Snjóhengjunnar hef ég ritað grein sem bíður birtingar í Morgunblaðinu. Ég tel að fastgengi sé auðveldasta leiðin, auk þess sem fastgengi fylgja margir efnahagslegir kostir.
Fljótlega kemur í ljós, hvort vonir þínar um aukið fylgi Sjálfstæðisflokks muni rætast. Á meðan Flokkurinn skerpir ekki áherðslurnar í anda samþykkta Landsfundarins, tel ég líklegt að þú verið fyrir vonbrigðum.
Samfylkingin er réttnefnd “eitrað peð” og betur verður staða þess flokks ekki orðuð.
Með kveðju.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 14.4.2013 kl. 23:37
Svo er það Landspítalamálið. Á að setja milljarða í steinsteypu, þegar illa gengur að borga laun og lækningatæki. Byggja svo á þeim stað, þar sem ekki er hægt að komast að í hasti. Ég lennti í því að koma illa veikum hjartasjúklingi á Lsp að morgni dags. Svo bætist við áætlanir um að þétta byggð í Vatnsmýrinni sem er gott mál, en varla bætir það aðkomu að risaspítala.
Þetta er svo arfavitlaust að minnir á orð Putins um vilja Rússa til að byggja geimstöð á tunglinu, þótt vitað sé að fólk býr við skort strax utan borgarmarka Moskvu. Ég hef ekki séð sjálfstæðismenn beita sér gegn þessarri vitleysu.
Það er ekkert að Bjarna, bara rangur maður á röngum stað. Maður úr viðskiptalífinu er nú jafn hátt skrifaður og einhver úr Hrauninu. Þeir eru þá amk smáþjófar. Bjarni er líklega sá besti sem gæti komið úr þeirri átt, það dugar bara ekki. Val á Bjarna sýnir því skammsýni Sjálfstæðismanna að hugsa bara hvað hentar þeim sjálfum best. Án miklillar sóknar að miðju og til kvenna, verður fylgið lítið. Leggja verður áherslu á dómsmál og einkum það sem snýr til framtíðar. Þar vantar alla framtíðarsýn.
Í sjálfu sér er ég sammála skólabróður mínum, Hannesi Hólmstein, um nauðsyn frelsis og ekki eigi að gefa peninga, sem maður eigi ekki sjálfur. En þá er ekki síður mikilvægt að stöðva þjófa og nútíma bankaræningja. Það má aldrei aftur gerast að örfáir tugir einstaklinga geti með gerðum sínum gert landi og þjóð óbætanlegan skaða.
Ég legg til eftirfarandi aðgerðir:
1. Endurskoðendur vinni fyrir dómsmálaráðuneytið og það rukki kostnaðinn hjá fyrirtækinu. Ef endurskoðandi finnur eitthvað misjafnt þá fengi hann bónus. Núverandi kerfi í þessum málum er engin raunveruleg endurskoðun.
2. Innherjalöggjöf og löggjöf um eignatengsl verði yfirfarin
3. Skattlaggning verði hófleg á fyrirtækjum, en tryggt að skattlagning fari þar fram þar sem peningarnir verða til.
4. Hlutverk seðlabanka þarf að endurskoða hér sem annars staðar. Venjulegir peningar eru bara fá prósent af heildinni. Venjulegir bankar "prenta" peninga með því að lána og kortanotkun gerir þörf fyrir nýja hugsun, (sjá Silfur Egils "Positiv money")
Ofangreindar reglur koma frá ESB og eru meginástæða fyrir hruninu. Við þurfum að skerpa þær og það þarf ESB að gera einnig, en stórt og sljótt bjarndýr mun koma því í framkvæmd þegar það er allt of seint. Núverandi kerfi gerir næsta hrun óumflýjanlegt. Okkar menn úr viðskiptalífinu eru ekki meiri glæponar en flest fólk, en meðan möguleikarnir standa opnir þá er of létt að stela. Við gætum skerpt löggjöfina og síðan "selt" hana til ESB! en sleppt því að láta þá "kaupa" okkur! Við hrundum fyrst en verðum þá fyrst til að rísa upp varanlega. Ný stjórnarskrá er ágæt, en ekki það sem leysir vandann og hindrar nýtt hrun.
Sigurður Gunnarsson, læknir
Sigurður Gunnarsson, 15.4.2013 kl. 07:26
Sigurður, Landsfundur 2013 gerði eftirfarandi samþykkt:
Samþykktin frá 2013 er í samræmi við tillögu Velferðarnefndar flokksins, sem lögð var fyrir Landsfundinn. Því miður voru margar tillögur nefnda útþynntar á Landsfundinum. Það var forusta flokksins sem kom þar að verki, líklega með það að markmiði að hafa frjálsar hendur eftir kosningar.
Í sumum tilvikum náði forustan ekki að sveigja vilja flokksmanna, en halda samt áfram andstöðu við samþykkta stefnu. Formaður og varaformaður hafa verið staðin að málflutningi gegn þeirra stefnu sem Landsfundur markaði.
Seðlabankann þarf að leggja niður og ekki að auka miðstýringuna. Það er rangt að »venjulegir peningar séu bara fá present af heildinni.« Velta viðskiptabanka er ekki peningaprentun, eins og sumir vankunnandi hafa staðhæft. Aukin veltuhraði innlána og útlána hjá bönkunum, er því ekki aukin peningaprentun. Þessar hugmyndir um aukna miðstýringu fjármálakerfisins eru stór hættulegar og fela í sér að að viðskiptabankarnir verði lagðir niður.
Landsfundur Sjálfstæðisflokks sem markaði tímamót - fastgengi í augsýn
Peningastefna stjórnmálaflokkanna í aðdraganda kosninga 2013.
Hugmyndir um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka, eru einnig skaðlegar því að þær fela í sér ríkisábyrgð á innistæðum. Forgangur innistæðueigenda verður gagnslaus, ef viðskiptabankar fjármagna sig einungis með innlánum. Við sjáum þessar staðreyndir glöggt, með samanburði á Icesave og Laiki bank á Kýpur.
Efnahagsvandi Kýpur og Íslands - samanburður er lærdómsríkur
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 15.4.2013 kl. 10:15
Varðandi bankastarfssemi er svar þitt Loftur algerlega á misskilningi byggt. Ég er bara að tala um löggæslueftirlit. Það er búið að ræna bankanna innan frá einu sinni og það þarf að hindra það að það gerist aftur. Þótt eigandi eigi hlutafé í bankanum, þá á hann ekki innistæðurnar. Að fá lán án trygginga sem fyrri eigendur bankanna fengu er ekkert annað en bankarán innan frá. Þetta má ekki gerast einu sinni enn. Sjálftaka og þjófnaður er svo stórfenglegur að glæpir venjulegra þjófa eru hreinir smámunir. Þetta var nálægt því að stefna Íslandi í algera glötun og mætti nánast flokka sem landráð sem fyrir nokkrum árum gat varðað dauðasök. Nú er ég ekki að mæla með því í dag, bendi bara á hve alvarlegir þessir glæpir eru. Vandinn er bara sá að löggjöf ESB sem við förum eftir er gölluð og þess vegna koma þessi mál upp á Írlandi, Spáni, Portúgal, Grikklandi og Kýpur og eiga sjálfsagt eftir að koma víðar. Mér sýnist einnig ríkissjóður Bandaríkjanna stefna beint í gjaldþrot. Einnig þar er bein og óbein peningaprentun komin alveg út fyrir hættumörk. Ef við söfnuðum skuldum með sama hraöa (mælt í prósentum) sem einstaklingar og Bandaríkin, þá væru bankarnir búnir að setja okkur í fjárhagslega gjörgæslu.
Löggæsla og eftirlit hefur ekkert með eignarhald og skerðir ekki frelsi. Það má frekar færa rök fyrir því að þar sem landi er stjórnað af glæpalýð, þá sé ekkert frelsi. Með núverandi ástandi með svikum á markaði, innherja viðskiptum og viðlíku má segja að trú manna á hlutabréfum sé verulega skert. Ef ég vissi að raunveruleg endurskoðun hefði farið fram og uppgjör sannleikanum samkvæmt, þá get ég keypt í fyrirtækinu, annars er nánast öruggt að ég sé plataður. Þess vegna kaupi ég ekki og það leiðir til minni einkreksturs og minni hagvaxtar, ekki öfugt eins og þú vilt halda fram.
Sigurður Gunnarsson, 15.4.2013 kl. 16:56
Sigurður, þú virðist hafa miskilið og haldið að ég væri einungis að svara þinni athugasemd. Svo var ekki, en ég tel að orð mín séu mikilvæg. Ástæða er til að endurtaka þau:
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 15.4.2013 kl. 17:19
Sælir, herramenn, og takk fyrir áhugaverð skoðanaskipti;
Það er ljóst, Loftur, að fastgengi hefur sína galla, sérstaklega í hagkerfi, sem er svo sveiflukennt sem okkar. Fastgengi er ekki nýlunda hér, en stjórnvöld hafa jafnan gefizt upp á því. Hefur þú, Loftur, rannsakað það, hvort fastgengi eða flotgengi er líklegra til að skila hagkerfinu meiri hagvexti ? Ég tel, að hagvöxtur eigi að vera mælikvarðinn á gæði hagstjórnar og hagstjórnaraðferða.
Sigurður: hugmyndir þínar, t.d. um endurskoðendur, eru frumlegar, a.m.k. hef ég ekki séð þær annars staðar. Hefur þú viðrað þær við lögfræðinga ? Varðandi 3. töluliðinn hjá þér um skattlagninguna vil ég nefna víti til varnaðar, þar sem framlegð sjávarútvegs er skattlögð. Slík skattlagning drepur alla atvinnustarfsemi. Það á að skattleggja hagnaðinn hóflega, því að annars ná fyrirtækin ekki að endurnýja sig og þróa til að standast öðrum snúning, t.d. erlendum fyrirtækjum.
Það er sammerkt með öllum úr heilbrigðisgeiranum, sem ég hef rætt við, að þau gjalda varhug við núverandi byggingaráformum. Þar eru ályktanir Landsfundar, sem Loftur vitnar til hér að ofan, í góðum samhljómi við starfsfólkið. Af lýsingum að dæma er rekstrarástand, álag á starfsfólk, aðbúnaður o.þ.h., óviðunandi. Má ekki draga úr álaginu á Landsspítalann með því að efla heilsugæzlu og langleguaðstöðu í öllum landshlutum og með eflingu sjúkrahúsanna á landsbyggðinni ? Frestun á stórframkvæmd sparar mikinn fjármagnskostnað, hugsanlega hærri upphæð en þarf í téðar umbætur, sem mikil spurn er eftir á meðal neytenda.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 15.4.2013 kl. 20:50
Bjarni, það fyrirkomulag gengis sem sumir hérlendis hafa nefnt fastgengi, er í raun það sem rétt er að nefna tyllt-gengi. Í grein sem ég skrifaði í janúar 2009, útskýri ég meðal annars tyllt-gengi og benti á, að munurinn á flotgengi og tylltu gengi er fólginn í útliti fallferils Krónunnar:
Ábyrgð og úrræði í efnahagsmálum
Mér virðist augljóst að fastgengi skilar meiri árangri en flotgengi, því að verðbólga er sannanlega skaðleg og eignabruni sem fylgir gengishruni, eins og við höfum nýlega upplifað, setur allt hagkerfið í uppnám.
Verðbólgu fylgir stöðugt kapphlaup einstaklinga og fyrirtækja, til að vinna upp verðbólgu-tapið. Allur kraftur fer í þetta kapphlaup, sem örugglega skilar engum raunverulegum verðmætum. Ef verðbólgan er sköpuð til að lækka laun almennings, verður hún stöðugt að vera vaxandi. Vísvitandi verðbólga er álíka skynsamleg og að pissa í skóinn ef manni er kalt – skammgóður vermir.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 15.4.2013 kl. 23:42
Sæll, Loftur;
Þetta er áhugavert hagfræðilegt álitaefni. Til að hagsæld verði tryggð með einhvers konar fastgengi, verður verðbólga að vera minni í fastgengislandinu en í helztu viðskiptalöndum þess, og sveiflur þjóðartekna verður að jafna innanlands, t.d. á vinnumarkaðinum. Hitt er ljóst, að hvaða fyrirkomulag, sem valið er í gengismálum, mun útheimta svipaðan eða meiri aga hér í ríkisfjármálum, peningamálum og launamálum, og viðgengst í helztu viðskiptalöndunum, svo að komizt verði hjá kollsteypum. "Ordnung muss sein."
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 16.4.2013 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.