26.4.2013 | 23:43
Brýn þörf breytinga
Íslenzka hagkerfið hefur enn ekki náð sér á strik eftir bankahrunið haustið 2008. Hagkerfið er enn 5 % minna en það var árið 2007, er það náði hámarki. Þessi kreppa Íslendinga er þess vegna orðin ein langdregnasta efnahagskreppa síðari tíma á Vesturlöndum. Ástæðurnar eru tvíþættar:
Aðalástæðan er sú, að landsmenn hafa frá 1. febrúar 2009 búið við stjórnvöld, sem hafa framfylgt afar andframfarasinnaðri stefnu, ótrúlega þröngsýnni afturhaldsstefnu, sem lýsir sér í því, að þau hafa beitt skattkerfinu ótæpilega til að drepa niður framtak einstaklinga og fyrirtækja, smárra sem stórra, og þau hafa beinlínis fjandskapazt við atvinnulífið í landinu og unnið gegn nýfjárfestingum erlendra sem innlendra aðila. Nóg er að nefna beinan hernað gegn sjávarútveginum, sem er þess vegna, því miður, tekinn að drabbast niður, og fáránlega stefnumörkun ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem hefur af ótrúlegri afdalamennsku verðlagt sig út af markaðinum. Þrátt fyrir lækkandi orkuverð í heiminum vegna aukins framboðs jarðgass og minnkandi eftirspurnar vegna bættrar nýtni og efnahagserfiðleika hvarvetna, hefur Landsvirkjun spennt bogann svo hátt, að hún hefur ætíð skotið yfir markið í viðræðum sínum við fjárfesta undanfarin ár, sem flestir hafa hrökklazt burt.
Hin ástæða erfiðleikanna á Íslandi er, að hagkerfi heimsins er að mestu staðnað, og sums staðar ríkir kreppa. Evrópa er á hrörnunarbraut vegna spennitreyju evrunnar, og ESB, Evrópusambandið, býr við vaxandi vantraust íbúanna í ESB-löndunum, þannig að hátt yfir helmingur íbúanna vantreystir nú Berlaymont , Bandaríkin eru í langvarandi stöðnun undir demókratanum Obama, og Kína er statt í minnkandi hagvexti vegna óhemju sóunar í ríkisstýrðu auðvaldskerfi. Þetta hefur leitt til lækkunar á afurðaverði Íslendinga. Ferðamennskan lofar þó enn góðu, og er það ánægjulegt, þó að kaupmáttur erlendra ferðamanna fari minnkandi.
Íslenzka hagkerfið er allt of lítið til að geta séð öllum landsins börnum fyrir atvinnu, sem kæra sig um að vera á vinnumarkaðinum. Vinnumarkaðurinn þarf að stækka um 10 % á tveimur árum til að fullnægja eftirspurninni. Gjaldeyrisöflunin er allt of lítil, og þarf að aukast um a.m.k. 20 % á 4 árum. Að öðrum kosti mun landflótti halda hér áfram og landið lenda í greiðsluvandræðum gagnvart lánadrottnum. Það er lífsnauðsynlegt að hverfa frá afturhaldsstefnu í landsmálum á Alþingi og til framfarastefnu á öllum sviðum. Hvernig ?
- Endurskoða Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda, þar sem hlutlægt mat sérfræðinga ráði. Til að kveða niður ýfingar út af þessu máli mætti leyfa þjóðinni að velja á milli gömlu og nýju Rammaáætlunarinnar. Íhlutunarsamir stjórnmálamenn vinstri vængsins eyðilögðu Rammaáætlun undir kjörorðinu: "vér einir vitum". Ef slagorðið um náttúruna, sem á að njóta vafans, á að leggja til grundvallar, þá er hægt að stöðva öll framfaramál. Skynsamlegra er, að almannahagsmunir njóti vafans.
- Endurnýja stjórn Landsvirkjunar og setja henni ný markmið um öflun nýrra viðskiptavina og aukningu á viðskiptum við þá gömlu. Landsvirkjun sem ríkisfyrirtæki ber að leggja rækt við þjónustu við allar framleiðslugreinar í landinu, landbúnað, sjávarútveg/vinnslu og iðnað, en hverfa frá þóttafullri framkomu við þessa aðila og daðri við gæluverkefni á borð við vindmyllur og sæstreng. Ný ríkisstjórn á að hafa frumkvæði að sjóðstofnun fyrir þrífösun sveitanna á 10 árum með jarðstrengjum og niðurrifi loftlína, sem margar eru afar hrörlegar. Þetta þýðir flýtingu á jarðstrengjaáætlun RARIK um 15 ár og framtíðarfjárfestingu hins opinbera í miklum tækifærum landbúnaðarins í eldsneytisframleiðslu (repja, nepja), fóður- og matvælaframleiðslu.
- Stjórnvöld verða að taka af skarið um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins. 400 kV hálendislína er bezta lausnin. Með framförum í burðarþolsfræði eru að koma fram línustólpar, sem eru lítt áberandi eftir að hafa verið málaðir í felulitum. Með þessum hætti verður flutningsgetan tryggð á milli landshluta og stöðugleiki kerfisins í bilunartilvikum tryggður, en hann er ekki fyrir hendi með núverandi álagi og veikri Byggðalínu. Þessi lausn dregur úr þörf á stórum línum í byggð, sem t.d. Skagfirðingar hafa áhyggjur af.
- Vestfirðir eru framtíðar vaxtarsvæði vegna gjöfulla fiskimiða í grennd, gríðarlegra möguleika í fiskirækt og í ferðamennsku á sjó og landi. Innviðir þeirra hafa verið skammarlega vanræktir. Koma þarf á uppbyggðum hringvegi um Vestfirði, svo að komast megi eftir nútímalegum vegum um sunnanverða Vestfirði til Ísafjarðar og til baka um Djúpið og Steingrímsfjarðarheiði. Raforkukerfi og ljósleiðarakerfi Vestfjarða þarf líka að vera hringtengt til að ná viðunandi afhendingaröryggi.
- Illgirni í garð sjávarútvegs í bland við fjárhagslega og rekstrarlega fávísi hefur tröllriðið húsum, þegar stjórnvöld hafa sífellt aukið afskipti sín af sjávarútveginum að því er virðist til að brjóta hann á bak aftur. Vinstri flokkarnir hafa alið á úlfúð og öfund í garð útgerðarmanna, eins og kommúnistar gerðu alltaf til að "réttlæta" þjóðnýtingu. Látið er í veðri vaka, að útgerðarmenn njóti sérstöðu umfram þann atvinnurekstur, sem þarf að kaupa hráefni sitt af öðrum. Þetta er dauðans vitleysa, og stjórnvöld verða að taka þveröfuga stefnu og vinna með sjávarútveginum. Það er dýrt að sækja sjóinn, og útgerðarmenn þurfa að leggja í miklar fjárfestingar til að nýta miðin. Þar að auki ganga réttindin til að nýta miðin kaupum og sölum, og flestir útgerðarmenn hafa keypt þann kvóta, sem þeir ráða yfir núna. Þess vegna er tómt mál að tala um auðlindarentu í þessari grein, og slíkt er aðeins gert í áróðursskyni, en engin hagfræðileg rök búa að baki. Þó að í lögum standi, að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar, má ekki misbeita skattlagningarvaldinu með herfilegum hætti í nafni þjóðareignar. Hverjir hafa hætt fé sínu til að sækja sjóinn ? Téð lagagrein færir ríkinu rétt til að stjórna veiðunum, hversu mikið, hvar og hvenær úr hverjum stofni. Markmiðið er að hámarka afrakstur auðlindarinnar, og það er alþjóðlega viðurkennt, að íslenzka kerfið er þar í fremstu röð, og æ fleiri taka það nú upp. Flaustursleg tilraunastarfsemi með þessa grundvallaratvinnugrein landsins er óábyrg og óverjanleg í ljósi þess, að íslenzki sjávarútvegurinn á í höggi við meira eða minna niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa, og engum dettur þar í hug að setja á auðlindagjald, hvað þá með þeim búrókratísku afglöpum, sem viðvaningar í íslenzku stjórnsýslunni hafa gert sig seka um.
- Menntakerfið íslenzka er óskilvirkt og beinir nemendum á rangar brautir, sem eru þjóðhagslega óhagkvæmar og henta þeim ekki. Það verður að fjárfesta meir í verkmenntun og tæknimenntun landsmanna til að sjá vaxandi framleiðslugreinum fyrir fagþekkingu og sérþekkingu í fremstu röð. Ísland á að verða framleiðsludrifið hagkerfi, og í þeim efnum eigum við að leita fyrirmynda hjá vinum okkar Þjóðverjum, hverra nákvæmni, skipulag og tækniþróun er undirstaða öflugusta framleiðsluhagkerfis í heimi, þegar framleiðni og gæði eru tekin með í reikninginn. Við getum átt gott samstarf við þá, þó að við göngum ekki ESB á hönd, sem sumir segja jafngilda því að játast undir agavald Berlínar.
- Öflugt, gjaldeyrisskapandi atvinnulíf, er undirstaða velferðarsamfélags á Íslandi. Til þess að knýja áfram athafnalífið þarf markaðshagkerfi og þar með frjálsa samkeppni, þar sem henni verður við komið. "Marktwirtschaft" kalla Þjóðverjar þetta, og eftir hrun Þriðja ríkisins varð þetta að "Wunderwirtschaft" eða efnahagsundri. Íslendingar geta eignast sitt efnahagsundur, ef þeir kjósa til Alþingis fordómalaust fólk gagnvart athafnalífinu ("no nonsense persons") og jafnframt fólk með þekkingu á lögmálum hagkerfisins.
Hlustum ekki á niðurrifsraddir nöldurseggja. Veitum Sjálfstæðisflokkinum og glæsilegri og þróttmikilli ungri forystu flokksins tækifæri til að sýna, hvað í henni býr.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.