Kreppan og koss dauðans

Helmut Schmidt, 94 ára fyrrverandi formaður SPD, Jafnaðarmannaflokks Þýzkalands, og kanzlari Sambandslýðveldisins, kveður atvinnuleysi ungs fólks í löndum ESB, Evrópusambandsins,  vera hneyksli utan samjafnaðar, þ.e. mesta þjóðfélagshneyksli í manna minnum. 

Það er hægt að taka undir þessa hneykslun hins aldurhnigna þýzka höfðingja, enda er nú farið að tala um hina týndu kynslóð.  Á yfirborðinu er einn sökudólgur, sem heitir Evra, en mynt getur ekki verið annað en blóraböggull.  A.m.k. helmingur ríkjanna, sem nú eru með evru, var vanbúinn og reyndar alls ekki í stakkinn búinn til að fara í myntbandalag með Endursameinuðu Þýzkalandi.  Þjóðverjar eru nú jafnvel teknir að senda gömlum erkiféndum sínum, Frökkum, (Friðrik mikli mundi ekki samþykkja þetta orðalag, mikill aðdáandi franskrar menningar) tóninn og hóta þeim viðurlögum ESB, ef þeir geri ekki umbætur í frjálsræðisátt á vinnumarkaði sínum og víðar.   Umsaminn vinnutími Frakka er sá stytzti í Evrópu, en umsaminn vinnutími Íslendinga er einnig tiltölulega mjög stuttur.  Við þurfum að nýta umsaminn vinnutíma betur til að auka framleiðnina.  Við megum þakka fyrir, að vinstri stjórn Jóhönnu, lökustu ríkisstjórn í manna minnum, tókst ekki að teyma Íslendinga inn í ESB, hið brennandi hús Evrópu.  Der Spiegel, víðlesið þýzkt tímarit, kveður nú stórfelld mistök búrókratanna í Berlaymont og leiðtogaráðs ESB jafngilda kossi dauðans fyrir Evrópusambandið.  Höfundur hallst að því, að þessi spá Þjóðverjanna sé rétt.

Kreppa Evrópu er grafalvarleg fyrir íslenzka hagkerfið og afkomu almennings á Íslandi.  Það gerir illt verra, að hvergi í heiminum er hagvöxtur, sem orð er á gerandi.  Afurðaverð Íslendinga hefur lækkað vegna minni kaupmáttar, minni eftirspurnar og aukins framboðs.  Norðmenn og Rússar hafa aukið veiðar sínar á þorski í Hvítahafinu.  Þetta aukna framboð hefur valdið okkur tjóni vegna verðfalls.

Spurn eftir áli hefur minnkað á heimsmarkaði, eins og eftir flestum öðrum vörum.  Framboðið hefur ekki minnkað, og stórar álverksmiðjur í smíðum, og stækkanir eldri álvera standa yfir.  Verð á áli hefur þess vegna lækkað svo, að mörg álver eru nú rekin með tapi.  Nú kemur tæknilegur styrkur álvera með vandasama og vandaða sérvöru sér vel, jafnvel þó að framleiðni sé ábótavant, því að hærra verð fæst fyrir téða vöru en framleiðslu, sem t.d. þarf að fara í endurbræðslu.  Hverjir eru þá framtíðar horfur í álgeiranum ?

Núverandi ástand á mörkuðunum er tímabundið.  Þegar hagkerfi heimsins hafa rétt úr kútnum, en nú er enginn hagvöxtur, nema í Kína, og hann fer minnkandi, þá mun spurn eftir áli vaxa á ný, og spáin um 4 % árlegan vöxt álnotkunar stendur enn, sé litið til næsta aldarfjórðungs.  Tökum dæmi af bílaiðnaðinum.  

Nú nemur fjöldi seldra bifreiða af fólksbílagerðum (light vehicles) um 70 milljónum eintaka á ári.  Að 7 árum liðnum, árið 2020, er því spáð, að salan muni nema tæplega 110 milljónum eintaka.  Þetta er aukning um 40 milljónir bíla eða 8 % á ári.  Ef reiknað er með um 200 kg/ál í hvern bíl að meðaltali á þessu tímabili, jafngildir þetta eftirspurnaraukningu um 8 milljónir/t Al eða 1.1 milljón/t Al á ári.  Þessi árlega aukning er 30 % meira en nemur núverandi framleiðslugetu íslenzkra álvera saman lagðri.

Þetta jafngildir rúmlega helmingi spáðrar eftirspurnaraukningar áls í heiminum, en hinn helmingurinn kemur þá frá aukningu umbúða, byggingarplatna og -bita og rafmagnsleiðurum.  Innviðauppbygging í Kína, á Indlandi, í Suður-Ameríku og í Afríku, mun standa undir þessari eftirspurn.  Í ljósi þessa vaxtar er rétt að hafa í huga, að nóg er af báxítinu, sem er meginhráefnið, og að framleiðslan er öll endurvinnanleg með tiltölulega litlum tilkostnaði. 

Það er hins vegar orkan, sem er flöskuhálsinn í þessu ferli, sem er mjög orkukræft.  Það eru gríðarlegar endurnýjanlegar orkulindir óvirkjaðar í heiminum, og mest munar þar um vatnsorkuna, því að áhöld eru um, að jarðgufan sé endurnýjanleg.  Hún er það með hæfilegri nýtingu.  Í Afríku og Suður-Ameríku er t.d. enn feiknarlega mikið af hagkvæmum ónýttum virkjanakostum, en það eru þó ýmis ljón þar í vegi fjárfesta, sem með eðlilegum stjórnarháttum ættu ekki að vera hérlendis.  

Einn fjárfestingarkostur blasir við.  Það er álver í Helguvík.  Forráðamenn Norðuráls hafa lýst því yfir, að þeir bíði eftir að geta haldið framkvæmdum áfram í Helguvík.  Sérfræðingar Norðuráls hafa undirbúið samninga við alla helztu búnaðarbirgja.  Helguvík sem staðsetning fyrir álver hefur ýmsa góða kosti, s.s. góða höfn, alþjóðaflugvöll í næsta nágrenni, nægilega stóran vinnumarkað í grennd og  sérfræðiþjónusta innan seilingar. 

Veikleikarnir eru orkuflutningar og orkuöflun.  Helguvík verður úti á enda langrar línu, en ekki nálægt meginstofnkerfinu, eins og ISAL og Grundartangaverksmiðjurnar.  Sami veikleiki á reyndar við um Fjarðaál.  Hugmyndin var að auka afhendingaröryggi orku til Helguvíkur með tengingu við Reykjanesvirkjun og fleiri jarðgufuorkuver á Reykjanesi.  Snurða virðist hafa hlaupið á þráðinn varðandi orkukaupin, og það er hárrétt, sem núverandi fjár- og efnahagsmálaráðherra hefur sagt, að við slíkar aðstæður er réttlætanlegt, að ríkisvaldið reyni að liðka til fyrir samningum.  Til þess hefur ríkisvaldið fjölmörg tól og tæki. 

Núverandi iðnaðarráðherra, sem er þingmaður Suðurkjördæmis og þar með Suðurnesja, hneykslaðist oft með réttu á afstöðu vinstri-stjórnar viðrinisins til uppbyggingartilrauna sveitarfélaganna á Suðurnesjum, en téð viðrinisstjórn var þessum sveitarfélögum óþægur ljár í þúfu varðandi atvinnuuppbyggingu til að ráða bug á sáru atvinnuleysi og fólksflótta.  Setti þetta stjórnvaldsfyrirbrigði sveitarfélögunum stundum stólinn fyrir dyrnar. Nú fær Ragnheiður Elín gullið tækifæri til að láta drauma sína rætast til hagsbóta fyrir Suðurnesin, Suðurlandið með virkjunum og landið allt með umtalsverðri aukningu landsframleiðslunnar.

Ragnheiður Elín, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og allir hinir ráðherrar Laugarvatnsstjórnarinnar, munu á vegferð sinni þurfa að kljást við dragbíta í stjórnkerfinu.  Ráðherrarnir verða þess vegna sjálfir að fylgja málum eftir og hafa stjórnkerfið undir argusaraugum, ef sá árangur, sem að er stefnt, á að nást. Þeir, sem ekki standa sig, eða halda áfram að spila með hinu liðinu, verða að víkja af vettvangi. 

Það er engin goðgá að stefna að 5. álverinu í landinu.  Það gæti t.d. verið við Þorlákshöfn.  Með tilkomu þess yrði framleiðslugeta landsins allt að 2 milljónir tonna af áli á ári, sem verður svipað hlutfall heimsframleiðslunnar og sjávarafli Íslendinga er af heimssjávaraflanum.  Það er ekki úr vegi að byrja með að kanna jarðveginn hjá eigendum álveranna í Straumsvík og á Reyðarfirði, en það eru margir fleiri leikendur á sviðinu.  Kröfur Íslendinga væru bezta fáanlega tækni við framleiðslu og mengunarvarnir og orkuverð, sem greiðir mannvirki upp á 20-25 árum. 

Tromp Íslendinga er sem fyrr endurnýjanleg orka.  Slíkar virkjanir hafa svo langan tæknilegan afskriftartíma, að vel má hugsa sér að koma til móts við fjárfestana með afslætti niður að kostnaðarverði viðkomandi virkjana fyrstu 5 árin og árlega stighækkandi verð næstu 5 árin ásamt afnámi rafskatts á öll fyrirtæki og heimili, þó að endurgreiðslutími yrði 30 ár.  Um þessar mundir er þungur róður fyrir álframleiðendur, en framtíðin er björt fyrir þá, sem hafa tryggt sér orku til langs tíma, t.d. 35 ára, á samkeppnihæfu verði.

Ráðherratossarnir, sem hér héngu með lítilmótlegum hætti við völd í rúm 4 ár til 23. maí 2013, sýndi smánarlega afstöðu til umhverfismála.  Hin alræmda Svandís Svavarsdóttir, dæmd af Hæstarétti fyrir yfirtroðslu gagnvart sveitarfélagi og ólýðræðislega framgöngu, hafði horn í síðu vatnsaflsvirkjana, af því að þær eru undirstaða iðnvæðingar landsins, en lét lífsnauðsynlegar mengunarvarnir jarðvarmavirkjana, í grennd við mesta þéttbýlissvæði landsins, sem eyðileggja loftgæði í heilsuspillandi mæli, reka á reiðanum. 

Svandís sýndi með forgangsröðun sinni öfugsnúið viðhorf sitt til umhverfisverndar.  Umhverfisvernd í huga hennar líka er aðeins tól afturhaldsins til þess að hindra framfarir á formi nýrrar atvinnustarfsemi í alþjóðlegri eigu.  Þá skal "náttúran njóta vafans", en fólkið, t.d. atvinnulaust fólk, skal aldrei fá að njóta vafans í huga "nómenklatúrunnar", sem allt þykist betur vita en aðrir og þykist fætt til að fara með forræði annarra, svo að ekki sé nú talað um vænan hluta launa almennings.

Pálmi Stefánsson, PSt, efnaverkfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið, 23. maí 2013:"Reykjavík og hveralyktin - vá í lofti".  Þar kemur fram, að loftgæði í Reykjavík eru orðin einna lélegust í heiminum, þegar litið sé til ýmissa ofnæmisvaldandi efna, s.s. í öndunarfærum og á húð, t.d. brennisteinstvíildis, SO2.  Pálmi talar um manngert umhverfisslys, sem vart eigi sinn líka, og á þar við dreifingu eiturgufunnar brennisteinsvetnis, H2S, og SO2, yfir mesta þéttbýlissvæði landsins.

Samkvæmt PSt er styrkur SO2 í andrúmslofti langhæstur í Reykjavík af 46 borgum í 6 heimsálfum eða 21 ug/m3 að jafnaði yfir árið.  Mælt yfir árið 2009 var 33 % meiri styrkur SO2 í andrúmslofti Reykjavíkur en Mexíkóborgar og 40 % meiri en í Nýju Jórvík, Hong Kong og Pittsburg. Flestar aðrar borgir voru með 10 % - 25 % SO2 á við Reykjavík.  WHO (Alþjóða heilbrigðismálastofnunin) ráðleggur nú leyfilegan hámarksstyrk af SO2 20 ug/m3 í einn sólarhring.  Höfuðborgarsvæði Íslands er yfir þessum mörkum allt árið að meðaltali, svo að furðu má gegna, að umhverfisverndaryfirvöld hérlendis skuli ekki hafa vaknað upp af Þyrnirósarsvefni.  Svandís Svavarsdóttir setti kíkinn fyrir blinda augað.  

Nýr íslenzkur staðall fyrir H2S í andrúmslofti er væntanlegur í júlí 2014.  Sá staðall mun alls ekkert taka á vandamálinu, heldur festa réttinn til heilsuspillandi mengunar í sessi með lögum.  Þetta er reginhneyksli, sem ákveðið var á vakt Svandísar Svavarsdóttur, en er óhjákvæmilegt að vinda ofan af, eins og margri dauðans vitleysunni frá vinstri stjórninni.  

Olíubrennsla er líka sökudólgur, en jarðvarmavirkjanir í innan við 50 km fjarlægð frá meginþéttbýlinu með ríkjandi vindátt í stefnu frá virkjunum til þéttbýlis er mesti sökudólgurinn.  Í starfsleyfi slíks virkjunarsvæðis þarf að setja losunarmörk H2S og SO2, sem eru 10 % af núverandi losun, og verði þessu náð í áföngum í síðasta lagi 1. janúar 2020 að viðlögðum refsingum á formi sektargreiðslna á hvert tonn H2S og SO2, sem losað er.  

Það eiga ekki endilega að gilda sömu ákvæði um jarðvarmavirkjanir, sem lengra eru frá byggðu bóli.  Þannig mundu hálendisvirkjanir njóta ákveðins forskots, þó að einnig verði að gefa gaum að gróðurskemmdum og súru regni og miða mengunarmörk við slíkt þar.

Hér hefur verið sýnt fram á, að umhverfisvernd Svandísar Svavarsdóttur jafngildir kreppu og kossi dauðans.  Brýnt er að snúa þessari öfugþróun við.  Atvinnuskapandi og gjaldeyrisskapandi fjárfestingar verður að laða fram um leið og ströngustu mengunarvarnakröfur eru gerðar til fyrirtækjanna, svo að Ísland geti boðið íbúum sínum hreinasta loft og vatn og heilbrigðasta lífríki, sem um fyrirfinnst á Vesturlöndum.  Ekkert minna er nógu gott.  ALDREI AFTUR VINSTRI STJÓRN.      

Dettifoss

   

   

 

           

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband