Stjórnarandstaða skipuð geimverum

Eftirmæli afturhaldsins, sem ráðherrastólana kvaddi þann 23. maí 2013, verða óbeysin.  Mistökin eru legíó, og kosningaúrslitin innsigla falleinkunn þessa dæmalausa fyrirbrigðis, sem er lægsta einkunn nokkurrar ríkisstjórnar á Íslandi og þótt víðar væri leitað. 

Landsmenn sluppu fyrir horn, eftir að meirihluti í sárum færði óhæfu fólki völdin í apríl 2009. Forsætisráðherrann fráfarandi færði arftakanum einhverja bók um jafnrétti, sem hún sagði honum að lesa vandlega, en hér skal draga í efa, að Jóhanna Sigurðardóttir hafi nokkurn tíma lesið þá bók fremur en mikilvægari stjórnarskjöl, sem hún þó samþykkti og skipaði þingmönnum að gera slíkt hið sama.

Þessi óábyrgasti forsætisráðherra Íslandssögunnar, sem hóf sig aldrei upp fyrir gæluverkefnastigið, hrósaði sér og ríkisstjórn sinni fyrir að hafa aukið jafnréttið á Íslandi.  Þessi lokaræða var tóm vitleysa.  Hún var þá sennilega að vísa til hins illræmda skattpíningarkerfis síns, þar sem skattkerfið sem tekjuöflunarkerfi hins opinbera var herfilega misnotað, en alhæfing hennar var samt allsendis ósönn.  Á tíma Samfylkingarformannsins, fyrrverandi, í forsæti fyrir jafnréttismálum á Íslandi, jókst launamisrétti kynjanna hjá hinu opinbera umtalsvert.  Það fóru aldrei saman orð og efndir. Þessi fyrrverandi forsætisráðherra var svo siðblind, að hún lét sig hafa það að kveðja með ósannindi á vörum.  Nú reynir arftaki hennar á formannsstóli Samfylkingar að blása í glæðurnar og ætlar að vinna sigur í sveitarstjórnarkosningum að ári.  Honum mun ekki verða kápan úr því klæðinu.  Fyrrverandi varaformaður flokksins, Dagur ei meir, er búinn að sjá til þess.

Umsagnir leiðtoga stjórnarandstöðunnar á þingi um stefnuyfirlýsingu Laugarvatnsstjórnarinnar einkennast af nöldri, gremju og furðulegu hugmyndaleysi.  Þau éta það hvert upp eftir öðru, að stefnuyfirlýsingin sé ekki nógu ítarleg og að hún sé óútfærð.  Þetta á líka við um álfinn út úr hól, vinstra megin við velsæmi.

Það er munur á stefnu og markmiðum.  Stefnuyfirlýsing er leiðsögn um það, hvert halda skal, en markmið er mælanlegur og tímasettur áfangi.  Á þessu virðist stjórnarandstaðan ekki kunna skil, enda nokkrir gatistar þar á ferð.

 Það hefði auðvitað verið ábyrgðarleysi af formönnum Laugarvatnsflokkanna að setja á langar fundarsetur síns fólks til að útbúa markmið á hæpnum forsendum upplýsinga úr ranni fráfarandi ráðherra.  Á meðan hefði landið verið stjórnlaust, sem hefði kannski ekki verið stór breyting, segja sumir.  

Formenn Laugarvatnsflokkanna kunna greinilega að vinna.  Þeir stika gróflega leiðina og leggja línurnar.  Síðan er það ráðherranna og þingmannanna að móta, hvað, hvernig, hvar og hvenær á að framkvæma.  Strax í upphafi kemur sem sagt fram gríðarlegur munur á aðferðarfræði stjórnar og stjórnarandstöðu og þarf ekki að orðlengja, hvor er gæfulegri.  Eins og fram er sett ábending um í forystugrein Morgunblaðsins 28. maí 2013 munu formenn stjórnarflokkanna vonandi nota sumarið vel og koma vel skæddir og brýndir til leiks með markmið ríkisstjórnarinnar til haustþings 2013.   

Formaður og varaformaður Samfylkingar halda áfram að klappa evrusteininn og vilja helzt, að evran verði lögeyrir á Íslandi sem allra fyrst, ef rétt er skilið.  Annaðhvort fylgjast þau ekki með hagmálum evrulanda, eða þau eru dómgreindarlaus, þ.e.a.s. þau gera sér ekki grein fyrir því, hvaða efnahagslegu forsendur þarf að uppfylla til að evran sem lögeyrir geti orðið Íslandi til framdráttar í stað þess að verða hræðilegur baggi.  

Efnahagsleg og stjórnmálaleg staða í ESB-Evrópusambandinu stefnir í hreina upplausn.  Það eru meiri líkur en minni á að evran verði ekki til í sinni núverandi mynd að tveimur árum liðnum.  Til marks um þetta er forsíða tímaritsins, The Economist, 25. - 31. maí 2013, en þar er birt mynd af leiðtogum ESB gangandi fram á hengiflugið og þeir kallaðir svefngenglar.  Í undirfyrirsögn er síðan textinn: "A euro disaster waiting to happen"   eða evrukollsteypa á næsta leiti.  Það er til marks um ótrúlega þráhyggju og þrákelkni, sem er komin út fyrir stjórnmálalega rökræðu og þarfnast útskýringa af sálfræðilegum toga, að meginkeppikefli Samfylkingar og Bjartrar framtíðar er enn að ná samningum við ESB til að Ísland geti gengið í ESB og geti öðlazt þar einhvern yfirnáttúrulegan stuðning til að auðvelda Seðlabankanum gjaldmiðilsskipti yfir í evru.  Ef "The Economist" mundi frétta af þessu háttarlagi Samfylkingarforystunnar og hjáleigunnar, sem kannski á eftir að breytast í höfuðból jafnaðarmanna, þá mundu blaðamenn tímaritsins líklega velja sterkari nafngift en "svefngenglar".   Eftir á að hyggja er þetta þó lýsandi nafngift fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Upp er kominn í Þýzkalandi nýr stjórnmálaflokkur, Alternative für Deutschland, AfD, sem hefur það á stefnuskrá sinni, að Þýzkaland gangi úr myntsamstarfinu og endurreisi Deutsche Mark, DEM.  Flokkurinn gæti hæglega orðið í oddaaðstöðu á Sambandsþinginu í Berlín eftir þingkosningarnar í september 2013.  Suðrænu þjóðirnar eru hart leiknar af ESB, ECB og AGS (þríeykinu), en það réttlætir ekki orðbragð þeirra gagnvart núverandi stjórnvöldum Þýzkalands.  Þeim er líkt við leiðtoga Þriðja ríkisins, og slíkt nær náttúrulega ekki nokkurri átt.  Mörgum Þjóðverjum mislíkar þetta svo, að þeir vilja losna úr þessu myntsamstarfi.       

Öxullinn Berlín-París er brotinn og viðhorf Frakka og Þjóðverja til stjórnmálalegra og efnahagslegra viðfangsefna verða nú ólíkari með hverju misserinu, sem líður.  Þetta veldur pólun og innri spennu í ESB, þar sem Frakkar eru að skipa sér í forystu fyrir suðrænu þjóðunum, og Þjóðverjar fyrir norrænu þjóðunum, en Austur-Evrópa á enn erfitt með að fóta sig.  Þróunin á Bretlandi er með þeim hætti, að ljóst er, að þeim vex þar nú ásmegin, sem vilja úrsögn Stóra-Bretlands úr ESB, þó að atvinnurekendasamtökin maldi í móinn.  Frjálslyndi flokkurinn kemur í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu nú um veru Bretlands í ESB, en Cameron lofar Bretum henni, vinni Íhaldsflokkurinn næstu þingkosningar og fái meirihluta á þinginu.  Sjálfstæðisflokkur Bretlands undir formennsku hins snjalla Nigel Farage ógnar nú stöðu Íhaldsflokksins, eins og í ljós kom í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. 

Það hljóta að vera geimverur, sem við þessar aðstæður láta áróður sinn í stjórnarandstöðu á Íslandi hverfast um það, að Ísland gangi sem fyrst í ESB, þó að bilið á milli stefnu Íslands og ESB í málefnum sjávarútvegs og landbúnaðar, svo að tvær greinar séu nefndar, hafi aldrei verið breiðara en nú, þrátt fyrir 4 ár frá umsókn um aðild og einn milljarð kr í kostnað.  Þetta heitir að ganga með steinbarn í maganum, og maður getur fengið skeifu við tilhugsunina.  Slíkir flokkar eru alls ekki í takti við tímann, og þeirra hljóta að bíða þau örlög að verslast upp; geimverurnar munu ekki fá þrifizt á þinginu. 

Hér að neðan eru ekki geimverur, heldur þátttakendur í reiðhjólakeppni fyrirtækja, sem lauk í gær, 28. apríl 2013, og má sjá höfund þarna í fullum skrúða.      

 BJo_GHe_KOM_21_05_2013                                                                     BJo_KOM_DIB_SBH_GNG_21_05_2013 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Austmann,félagasamtök

Vel skrifuð og hnitmiðuð færsla.

Austmann,félagasamtök, 31.5.2013 kl. 16:08

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég vildi geta sagt með sanni: "You ain´t seen nothing yet".  Hver veit ?

Þakka hrósið.

Bjarni Jónsson, 31.5.2013 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband