5.6.2013 | 20:45
Kviðrista í kjölfar kosninga
Öllum er í fersku minni sögulegt afhroð afturhaldsins í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013. Þar fékk afturhaldið ærlega á baukinn fyrir andstöðu sína við öll framfaramál á Íslandi, er til tekjuauka þjóðarbúsins gátu horft, fyrir undirgefni sína og auðsveipni við erlend ríki og Evrópusambandið-ESB og fyrir ósanngjarnt arðrán sitt á formi ósvífinnar skattheimtu, þar sem þeir, sem aukalega leggja á sig erfiði, oft við heimilisstofnun, eru skattpíndir mest. Mannvitsbrekkur afturhaldsins tala nú um að hafa misst tengslin við fólkið og þykjast horfa upp á handstýrða iðnvæðingu landsins. Allt er það hlálegt og vandræðalegt tal.
Afturhaldið hugði á hefndir eftir ófarir Alþingiskosninga, og var vettvangurinn valinn sveitarstjórnarkosningar að ári. Nú hefur Samfylkingin í Reykjavík með fyrrverandi varaformann flokksins í broddi fylkingar, sem er sannkölluð kjósendafæla vegna leiðinda, og er í borgarstjórn með kjölturakka í eftirdragi, hins vegar séð til þess, að lýðum verður ljóst um allt land, að þessi ósköp sinna ekki almannaheill, heldur sérhagsmunum, þ.e. hagsmunum fárra, og aðallega sérgæðingshætti og sérvizku.
Dagur ei meir hefur kynnt almenningi drög að Aðalskipulagi Reykjavíkur. Drög þessi eru svo meingölluð, að þau eru ekki pappírsins virði og eiga ekki erindi annað en beint í ruslafötuna. Þau munu verða skólabókardæmi um víti til varnaðar, þar sem þröngsýnir og ýtnir stjórnmálamenn láta meiri hagsmuni víkja fyrir minni. Það má furðu gegna, að farið skuli nú á flot með mál, sem vænn meirihluta borgarbúa er andsnúinn og landsmenn almennt andvígir.
Ekki nóg með þetta, heldur hefur úttekt á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar leitt í ljós, að stjórnkerfi borgarinnar er í skötulíki. Ritað var beinum orðum í úttektarskýrslu, að yfir borginni væri enginn framkvæmdastjóri, ábyrgðarskipting væri óljós og boðleiðir flóknar. Stjórnun borgarinnar og þar með þjónustan við borgarana og meðferð skattfjár er þar af leiðandi óskilvirk. Með öðrum orðum stundar meirihlutinn í borgarstjórn stjórnleysi og sóun almannafjár. Svo kallaður borgarstjóri virkar engan veginn sem slíkur, heldur er hann skemmtanastjóri borgarinnar og kemur fram sem slíkur í ýmsum gervum. Þetta minnir á úrkynjun Rómverja á sinni tíð. Sá, sem spilar undir á meðan Róm brennur, er hins vegar Dagur ei meir.
Núverandi borgaryfirvöld reka sérlundaða og þröngsýna stefnu um þrengingu byggðar, sem þau kalla byggðaþéttingu og er ættuð úr erlendum arkitektaskólum, þar sem landleysi er vandamál.
Þetta á hins vegar ekki upp á pallborðið hjá mörgum hérlendis, sem fremur kjósa gott andrými í kringum sig. Sérvizka borgaryfirvalda hefur fælt fjölda manns frá því að búa sér bólstað í Reykjavík. Þessi fjölmenni hópur hefur flutt til nágrannasveitarfélaganna, sem hafa þanizt út, og borgaryfirvöld setið eftir "með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða. Borgaryfirvöld hafa látið undir höfuð leggjast að skapa framboð hentugra lóða fyrir barnafjölskyldur, og þess vegna fækkar börnum í borginni. Það er þó ekki vegna úrkynjunar, nema hún sé í borgarstjórn. Borgin hrörnar undir óstjórn dagdraumamanns um stjörnustríðshetjur og ákvarðanafælins læknis.
Það er vel skiljanlegt, að fólk á ákveðnu aldursskeiði kjósi að setjast að í vesturhluta borgarinnar, og fínast þykir nú í mörgum borgum að búa á hafnarsvæðum, þar sem áður var mikil atvinnustarfsemi. Þegar fólk eignast börn, verða straumhvörf, og þá verða oftast önnur viðhorf ráðandi. Barnafjölskyldur sækja í blómleg úthverfi, en sérvitringarnir í borgarstjórn kæra sig ekki um slíka byggð. Þessi hrikalega forsjárhyggja er andstæð almannahagsmunum og hefur valdið fólksfækkun í borginni. Það er vel stætt miðaldra fólk, sem sækir í húsnæði, þar sem þrenging byggðar á sér stað. Þetta er yfirleitt dýrt húsnæði og hentar illa barnafólki. Af þessum sökum er það algerlega undir hælinn lagt, hvort spurn verður eftir íbúðum í Vatnsmýrinni. Það væri nú eftir ráðsmennskunni í Reykjavík að hrekja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og standa svo uppi með óseljanlegar lóðir þar. Þessi ráðsmennska borgarstjórnar, sem líklega er að meirihluta til skipuð vesturbæingum, er með slíkum endemum, að réttast er, að Alþingi taki af skarið um það með lagasetningu, að á ríkislóðinni í Vatnsmýrinni skuli stunduð flugstarfsemi, þ.e. farþegaflug með áætlunarflugi og leiguflugi, sjúkraflug, kennsluflug og einkaflug.
Sveitarfélagið hefur skipulagsvaldið, en ef skipuleggjendunum þóknast að skipuleggja eitthvað nýtt á eignarlóð annarra, þá stöðvast téð skipulag við eignarréttinn. Úr geta orðið málaferli, en eignarrétturinn ræður, nema þjóðarhagsmunir liggi við. Í þessu tilviki liggja þjóðarhagsmunir við, að eignarrétturinn fái að halda sér og núverandi starfsemi í Vatnsmýrinni að blómstra. Svo kann að fara, að skaðabótamál verði höfðað gegn borginni, ef hún torveldar svo rekstrarskilyrði á flugvellinum í Vatnsmýri, að hann verði óstarfhæfur, en það mun gerast með fækkun flugbrauta, ef engin slík kemur í staðinn annars staðar. Á Lönguskerjum nálgast flugvallarskilyrði mest að verða sambærileg við Vatnsmýrarvöllinn. Sambærilegur flugvöllur þar gæti kostað um 40 milljarða kr, og þetta er þá væntanlega skaðabótarkrafan, sem óvitar borgarstjórnar baka borginni með samþykkt Aðalskipulags, en enn er aðeins um drög að ræða.
Með drögum að Aðalskipulagi kastar tólfunum. Þar kynna Dagur ei meir og skemmtanastjórinn, sem nýlega er þó búinn að skrifa undir samkomulag við fyrrverandi innanríkisráðherra um byggingu flugafgreiðsluhúss fyrir farþegaflug og vöruflutninga, áform sín um að hrekja Reykjavíkurflugvöll, miðstöð innanlandsflugs, einkaflugs og kennsluflugs, ásamt varavelli alþjóðaflugs, úr Vatnsmýrinni, og þar með að lama þessa starfsemi algerlega strax árið 2016, því að fáránlegt er að halda úti Reykjavíkurflugvelli með einni flugbraut, þó að Dagur ei meir telji öðrum það gerlegt. Þarna á að fórna gríðarlegum almannahagsmunum, atvinnustarfsemi með a.m.k. 1700 störfum, tómstundaaðstöðu, flugöryggi, sjúkraflugi og samgönguæð fyrir óljósa og þokukennda hagsmuni um 4000 íbúðaeigenda, sem kjósa að búa sem næst miðborginni. Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur, og engin vitglóra í þessu ráðslagi, enda er það segin saga, að mál, sem Samfylkingin ber fyrir brjósti, eru undantekningarlaust sérvitringsleg gæluverkefni, sem oftar en ekki fela í sér hættu á stórtapi. Nægir að minna á gjörsamlega misheppnaða lagasmíð Samfylkingar á síðasta kjörtímabili.
Stór hluti borgarstjórnar er haldinn sjálfstortímingaráráttu. Reykjavíkurborg er núna samgöngumiðstöð landsins, en hún mun missa fjölmarga erlenda ferðamenn, sem kjósa að fljúga á milli viðkomustaða á Íslandi. Þeir munu fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli. Innlendum farþegum innanlandsflugs mun stórfækka, sem leiðir til fjölgunar á vegunum. Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt.
Þjónustustigið við sjúka og slasaða stórversnar. Nú eru flogin um 1000 sjúkraflug á ári til Reykjavíkur. Flutningstími sjúklings mun tvöfaldast hið minnsta við flutning um Keflavíkurflugvöll. Sjúkraflug fer mjög illa saman með alþjóðaflugi og herflugi og kosta verður upp á hraðafgreiðslu sjúkraflugs þar.
Að leggja af Reykjavíkurflugvöll setur kennsluflug í algjört uppnám, því að það á engan veginn heima með þeirri umferð, sem er um Keflavík. Til að viðhalda fullu öryggisstigi Reykjavíkurflugvallar þarf hann á að halda öllum sínum þremur flugbrautum. Ekkert minna en hámarks öryggi er viðunandi. Um það ætti ofangreind lagasetning Alþingis að fjalla.
Ísland hefur þá sérstöðu í samgöngumálum að vera án járnbrautarlesta. Þegar um samgöngur á milli landshluta er að ræða, má segja, að flugið hafi komið í staðinn. Þetta er mjög hagkvæmur valkostur við einkabíl og langferðabíla (rútur), en kannski borgarstjórnin hugsi sér strætóferðir í fjarlæga landshluta sem valkost við flugið. Hún hefur reynt að þrengja að fluginu með yfirgengilegum hætti, og afturhaldsríkisstjórnin 2009-2013 gerði sitt til að fækka farþegum og kippa afkomugrunninum undan áætlunarfluginu með þreföldun skattheimtu af greininni. Allt er þetta á sömu bókina lært. Afturhaldið leggur ábatasamar atvinnugreinar í einelti til að geta komið að eigin sérvizku og niðurgreitt hana. Nú er komið að því að vinda ofan af vitleysunni og leyfa atvinnulífinu að blómstra, launþegum og samfélaginu öllu í hag.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Samgöngur, Sveitarstjórnarkosningar | Facebook
Athugasemdir
Ekki hægt að orða þetta betur.
M.b.kv
Sigurður Kristján Hjaltested, 6.6.2013 kl. 17:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.