Einstrengingsháttur í atvinnumálum

Frjálslynd ríkisstjórn hefur tekið við völdum í landinu af forpokuðu afturhaldi.  Það eru himinn og haf á milli stjórnarhátta slíkra afla.  Borgaralega viðhorfið er að leyfa þúsund blómum að blómstra, þó að þetta sé haft eftir illvígum fjöldamorðingja, Mao Tse Tung, fyrrverandi formanni kínverska kommúnistaflokksins, á meðan forpokunin felst í að fordæma vissar atvinnugreinar, leggja stein í götu atvinnulífsins almennt og leika hvern tafarleikinn á fætur öðrum, eins og Svandís Svavarsdóttir varð alræmd fyrir.  

Afleiðingin af þessu eru fjárfestingar í sögulegu lágmarki, hagkerfisstöðnun og geigvænlegur halli á rekstri ríkissjóðs með botnlausri skuldasöfnun hins opinbera sem afleiðingu.  Hrokagikkir afturhaldsins á borð við téða Svandísi reyna enn að þyrla upp moldviðri til að hylja sporin og tuða um góðan viðskilnað hjá sér, þegar hið sanna er, að þjóðfélagið er á bjargbrún greiðslufalls hins opinbera vegna óstjórnar, þröngsýni í stjórnarháttum, mistaka og getuleysis við að leiða vandasöm viðfangsefni til lykta.  Eitt viðfangsefnanna er að straumlínulaga stjórnkerfið.  Umhverfisráðuneytinu hefur verið misbeitt til að þvælast fyrir, og það hefur ekki aukið við faglega umfjöllun, heldur aukið andstæðurnar í stjórnkerfinu.  Auðvitað er það rétt hjá dýralækni framsóknarmanna í ríkisstjórn, að hafa þarf umhverfislegar afleiðingar í huga við allar ákvarðanir í öllum ráðuneytum, en ekki að kasta málefnum á milli ráðuneyta og láta hina umhverfislegu ábyrgð aðeins liggja á einum stað.  Með því að leggja umhverfisráðuneytið niður má spara í rekstri ríkisins og flýta fyrir afgreiðslu mála, sem sparar öllu þjóðfélaginu stórfé.  Umhverfismeðvitund þarf að vaxa í stjórnsýslunni.  Hún hefur t.d. ekki verið upp á marga fiska varðandi ferðamennskuna, eins og æ betur er að koma í ljós. Lausnin er hins vegar ekki að banna fólki að njóta náttúrunnar, heldur að sjá til, að slíkt gerist með sjálfbærum og afturkræfum hætti.

Annað dæmi um öfugsnúna umhverfisvernd er glannaskapur R-listans, sem fór með völdin í Reykjavík, þegar Orkuveita Reykjavíkur (OR) tók áhættu í blóra við greinargerðir jarðvísindamanna og viðvaranir sjálfstæðismanna í minnihluta borgarstjórnar, sem nú er að koma fyrirtækinu, OR, og Reykjavíkurborg hroðalega í koll.  Stjórnmálamenn hafa riðið OR svo á slig, að óvíst er, að fyrirtækið ráði við þá stöðu, sem nú er komin upp, þegar ofan á geigvænlega skuldastöðu bætist tekjumissir og jafnvel útgjaldaauki við orkukaup af Landsvirkjun eða öðrum til að standa við gerða orkusölusamninga.  Það er alveg ljóst, að stjórnmálamenn ráða ekki við að stunda fyrirtækjarekstur af þessu tagi einir.  Þar að auki brýtur vinnslumynztur OR gegn samkeppnireglum á raforkumarkaði, þar sem einokunarstarfsemin hitaveiturekstur er stunduð af sama fyrirtæki.  Nú ógnar ofnýting jarðhitasvæða á Hellisheiði í þágu raforkuvinnslu hitaveitustarfseminni, sem er þó hið mikla hagsmunamál íbúa höfuðborgarsvæðisins, að sé sjálfbær.

Að fást við kröfuhafa föllnu bankanna var ekki á færi vinstri manna, enda verður sú viðureign Heljarslóðarorrusta.  Afturhaldið hafði ekki einu sinni manndóm í sér til að krefjast þess með lagasetningu frá Alþingi að skrá um nöfn, kennitölur og heimilisföng kröfuhafanna verði birt opinberlega.  Þetta er þó fyrsta atriðið í viðureigninni við kröfuhafanna.  Þeir, sem leggjast gegn slíkri lagasetningu, munu óhjákvæmilega liggja undir grun um að ganga erinda þeirra, sem makað hafa krókinn á þrotabúunum.  Slitastjórnirnar ná ekki máli.  Þær skammta sér þóknun, sem virðist ekki standa í réttu hlutfalli við árangurinn af störfum þeirra.  Hvers vegna er vinnu þeirra ekki lokið ?  Slitastjórn "Lehman Brothers", sem keyrðir voru í gjaldþrot 15. september 2008 af Seðlabanka Bandaríkjanna og fjármálaráðuneyti ríkisstjórnar BNA, hefur þegar lokið störfum.  Starfi slitastjórnanna á Íslandi má hins vegar helzt líkja við skít, sem sígur fyrir barð.  

Álverð 7. júní 2013      Hér til hliðar er graf um álverð samkvæmt stöðunni 7. júní 2013.  Grafið sýnir rísandi álverð með afhendingartíma, sem gefur til kynna væntingar markaðarins um hærra álverð í nánustu framtíð.  Verðið 2300 USD/t, sem vænta má um næstu áramót, er viðunandi fyrir alla álframleiðendur á Íslandi.  Fyrir nýtt álver á Íslandi er lágmarksverð 2500 USD/t til að standa straum af miklum stofnkostnaði fyrstu 5 rekstrarárin.  Að 1-2 árum liðnum má gera ráð fyrir hærra verði en téðu lágmarki vegna aukinnar eftirspurnar og lokunar gamalla úreltra álvera. 

Það er þess vegna ólíklegt, að afturhaldinu verði að von sinni um, að enginn fjárfestir hafi hug á að kanna möguleika á frekari orkukaupum til álvinnslu.  Þá veltur mest á stjórnvöldum um niðurstöðuna.  Ríkið á stærsta orkuframleiðandann með húð og hári, og sá á meirihlutann í flutningsfyrirtækinu.  Það er réttmæt gagnrýni, sem sett hefur verið fram á flutningsfyrirtækið, að það stundi bútasaum, þegar kemur að umhverfismati.  Landsnet hefur gefið út kerfisáætlun með ýmsum sviðsmyndum, sem háðar eru þróun orkumarkaðar, og eðlilegt næsta skref til að vinna tíma er að kynna áætlun um umhverfismat á hagkvæmustu lausnunum m.v. fyrirsjáanlega þörf, s.s. Sprengisandslínu til að tengja saman meginorkuvinnslusvæðin með öflugum hætti, en öflug lína á milli landshluta er brýn nauðsyn til að draga úr tjóni vegna orkuskorts og til að stofnkerfið sé ekki dragbítur á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. 

Landsnet hefur líka verið gagnrýnt fyrir að fara með úreltar tölur um kostnaðarmun á 220 kV loftlínu og jarðstreng.  Það er tiltölulega auðvelt að fá óvilhallt mat á þessum kostnaðarmun.  Nú eru Danir að færa loftlínur sínar í jörðu að miklu leyti.  Þessu verkefni stjórnar Íslendingur, Dr Unnur Stella Guðmundsdóttir.  Það ættu að vera hæg heimatökin að leita í smiðju til hennar.

Í hönnun eru líka lítt áberandi möstur fyrir loftlínur með nýjum tökum á burðarþolsfræði.  Það er áreiðanlega með góðum vilja unnt að ná samkomulagi um jarðstrengi á viðkvæmustu svæðunum og jarðstrengjavæðingu upp í 132 kV á næstu 25 árum.   

Eigandi Landsvirkjunar, fjármála-og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins, þarf að berja í brestina í stjórn Landsvirkjunar.  Það er kunnara en frá þurfi að segja, að gæluverkefni þar á bæ hafa vakið undrun margra, svo og verðlagningarstefna fyrirtækisins, sem hvorki tekur tillit til jaðarkostnaðarverðs raforku í landinu né þróunar orkuverðs á heimsvísu.  Sem dæmi um hið síðast nefnda má nefna, að vegna nýrrar tækni við gasöflun úr jörðu í Bandaríkjunum og Kanada hefur gasverð í Norður-Ameríku lækkað um 70 % á fáeinum árum.  Eigandinn verður að fá viðskiptalega sinnað fólk í stjórn fyrirtækisins, þ.e. fólk, sem hefur getið sér gott orðspor í viðskiptum, og forystu með jarðsamband, sem eyðir ekki kröftunum í sýndarmennsku.

Næsta skrefið varðandi Landsvirkjun þarf síðan að verða að gera hana óháðari ríkisvaldinu en nú er til að skapa meiri stöðugleika við stjórnun hennar og efla langtímasýn stærsta orkuvinnslufyrirtækis landsins.  Það verður hins vegar alltaf að vera grunnstef fyrirtækisins að þjóna þjóðinni og atvinnuvegum landsins með hagstæðustu þjónustu í Evrópu, og þótt víðar væri leitað.  Núverandi forstjóri hefur ekki fylgt þessari línu, heldur boðað spákaupmennsku.  Ef sæstrengshugmyndir hans yrðu að veruleika, mundi orkuverð á Íslandi stórhækka til almennings og samkeppnistaða atvinnuveganna stórversna.  Að mismuna þegnum á EES-svæðinu með einhvers konar millifærslum úr sjóðum Landsvirkjunar stríðir gegn reglum ESB um jafnræði.

Á næstu árum verður verðmæti Landsvirkjunar líklega metið 400-500 milljarðar kr.  Til að bæta rekstur fyrirtækisins, eins og að framan var tíundað, þarf að fá nýja eigendur inn og draga eignarhlut ríkisins niður í 60 % - 75 % í byrjun.  Með þessu móti verður dregið úr stjórnmálalegu reiptogi um fyrirtækið og meira hugað að arðsemi, þó að girt verði fyrir spákaupmennsku og sett í stefnumörkun, að hlutverk fyrirtækisins sé að vera íslenzku athafnalífi og fyrirtækjum bakhjarl fremur en að skara eld að eigin köku.  Arðsemin þarf þannig að koma frá arðsömum samningum við stóriðjuna og frá aðhaldi í rekstri.  Landsvirkjun getur selt almenningsveitum í landinu orku á lægsta verði, sem þekkist, vegna hagkvæmra virkjana sinna og hagstæðra samninga við stóriðjuna, sem skapa tekjur í gjaldeyri og greiða upp virkjanirnar á um 20 % af endingartíma mannvirkjanna.

Grundvöllur sóknar í atvinnumálum, sem Laugarvatnsstjórnin hefur boðað, hvort heldur er á sviði fiskeldis, sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, er menntun.  Þar hefur nýr menntamálaráðherra heldur betur verk að vinna, því að sjónhverfingameistaranum, forvera hans, var síður en svo annt um, að menntakerfið þjónaði þörfum atvinnulífsins.  Menntakerfi landsins hefur dregizt aftur úr menntakerfi annarra þjóða, eins og alþjóðlegar kannanir á borð við PISA o.fl. hafa sorglega sýnt.

Nýr mennta-og menningarmálaráðherra ætti af siglfirzkri seiglu og vestfirzkri vígfimi að róta upp í stöðnuðu kerfi, sem álfur út úr hól hefur stjórnað allt of lengi, hækka laun duglegra kennara, sem sýna betri árangur en aðrir, og ekki vera feiminn við að auka samkeppni innan kerfisins, t.d. á milli skóla.  Hann ætti að einbeita sér að því að auka bæði magn og gæði verklegs náms og gæta vel að því, að engin námsbraut sé botnlangi.  Tilraunastofur þarf að reisa og tæknivæða aðstöðu til verklegs náms.  Mesta sinnuleysi Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, kom fram í því að láta stórfellt brottfall, einkum drengja, viðgangast.  Þetta jafngildir hræðilegri sóun hæfileika og er hrikalegur áfellisdómur yfir kerfinu og stjórnendum þess.  Lausnin er að auka veg verklegs náms og tæknináms, þ.e. að auka raunverulega fjölbreytni, en hún sé ekki bara látbragðsleikur í ræðupúlti einhverra búálfa, sem hafa veruleikafirrtar hugmyndir um hlutverk menntakerfisins.   

Illugi Gunnarsson þarf ekki að finna upp hjólið, enda hefur hann ekki tíma til þess.  Teikningin er til, og hún er með þýzkum texta.  Þýzka meistarakerfið, sem aðlaga má íslenzkum aðstæðum, fóðraði þýzka efnahagsundrið, "Wirtschaftswunder", og er enn undirstaða útflutningsdrifinnar kraftvélar þýzka iðnaðarins.  Gæðastimpill kerfisins er, að atvinnuleysi þýzkrar æsku er meðal hins lægsta, sem þekkist, eða 7,6 % um þessar mundir.

ipu_dec_5-2011Sæmundur á selnum

   

 

               

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góður pisstill Bjarni!

Ágúst H Bjarnason, 12.6.2013 kl. 21:18

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góður pistill vildi ég skrifað hafa, reyndar mjög góður :-)


Ágúst H Bjarnason, 12.6.2013 kl. 21:20

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ágúst H. Bjarnason.  Ég met umsögn þína mikils, enda minnist ég enn vinsamlegrar og faglegrar handleiðslu þinnar í verklegum æfingum í verkfræðideild Háskóla Íslands.

Með beztu kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.6.2013 kl. 21:42

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Bjarni.

Við sem störfum við ráðgjöf og hönnun höfum undanfarið fundið fyrir mikilli kólnun og samdrætti í öllum framkvæmdum innanlands. Við erum sífellt með fingurna á púlsi atvinnulífsins og skynjum vel hver lífsmörkin eru.


Ástandið hér á landi er líklega mun verra en fyrir ári síðan og erfitt að greina að botni kreppunnar hafi verið náð.


Við getum aðeins vonað að nýir stjórnmálamenn með ferskar hugmyndir beri gæfu til að snúa vörn í sókn. Ef það tekst ekki á allra næstu mánuðum, þá er illt í efni, því búast má við að ungir Íslendingar leiti tækifæra erlendis frekar en að stunda hark hér heima.


Stór hluti íslenskra tæknimanna stundar nú verkefni á vegum íslenskra verkfræðistofa erlendis, og þarf ekki mikið til að þeir sjái hag sínum betur borgið að ráða sig til starfa beint hjá erlendum stofum og iðnfyrirtækjum. Þeir eru þegar með annan fótinn erlendis og þurfa ekki annað en lyfta símtólinu.  Það er í mínum huga ljóst að mikill spekileki er yfirvofandi nema eitthvað mikið fari að gerast. 

Með góðri kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 13.6.2013 kl. 06:34

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú hefur lög að mæla, Ágúst.  Ég hef orðið var við þetta sama eymdarástand, sem er viðskilnaður vinstri stjórnarinnar.  Hagkerfið er á leið í samdrátt, og það mun taka tíma að snúa þessari öfugþróun við.  Sökudólgurinn er óhæf ríkisstjórn Jóhönnu, sem reyrði allt í klakabönd ofurskattlagningar og brenndi fé í gæluverkefnum, sem aldrei gefa neitt af sér.  Það verður að leita allra ráða að endurlífga fjárfestingarnar, en það er hægara sagt en gert með heimshagkerfið í dvala.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 13.6.2013 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband