20.6.2013 | 21:11
Ógöngur opinberra orkufyrirtækja
Það kom mörgum leikmanni í opna skjöldu, að stöðugt þurfi að bora viðhaldsholur á háhitasvæðum, þar sem mikil aflvinnsla er stunduð, því að lykilorð tengt þessari umræðu er sjálfbærni. Þetta ástand vitnar um ójafnvægi í viðkomandi gufuforðageymi, þar sem allt of hröð nýting hefur leitt til ofálags á gufuforðageyminn. Þegar virkjunaráfangi er tífaldur ráðlagður áfangi að hálfu jarðvísindamanna að stærð, er ekki nema von, að keraldið leki. Stjórnmálamenn Reykjavíkurborgar hafa leikið fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur (OR) svo grátt, að hún hefur varla efni á þeim mótvægisaðgerðum, sem nauðsynlegar eru. Hver hola kostar um 0,5 milljarða kr og tenging við Hverahlíð 2-3 milljarða kr. Eigendurnir, skattborgararnir, sitja uppi "með skeggið í póstkassanum" eftir að hafa valið fólk á borð við Dag og Svandísi í sveitarstjórnarkosningum.
Það er augljóst mál, að nýting t.d. jarðgufunnar á Hellisheiði er ósjálfbær, ef dregur niður í nýttum gufugeymi neðanjarðar um 2,3 % á ári. Þetta er meira en tvöfaldur venjulegur niðurdráttur og þýðir kostnaðarauka um a.m.k. 0,5 milljarða kr á ári, sem Guðmundur Þórodsson, fyrrverandi forstjóri OR segir, að hafi verið vitað frá upphafi, og hann hlýtur þá einnig að hafa reiknað inn í kostnaðarverð raforkunnar og samið um orkusölu út frá því.
Í þessu ljósi skýtur skökku við, að engar viðhaldsholur skuli hafa verið boraðar hingað til, heldur hafi OR látið skeika að sköpuðu og sé nú komið í þá stöðu, að þurfa að kaupa raforku frá Landsvirkjun til að uppfylla raforkusamninga sína. Hætt er við, að þetta sé OR mun óhagkvæmari kostur en að bæta 0,5 milljörðum kr við árlegan rekstrarkostnað sinn. Er þetta ekki dæmigerð strútshegðun hins opinbera fyrirtækis, sem stjórnað er aðallega af sveitarstjórnarmönnum í Reykjavík ? Bágur hagur Orkuveitunnar skýtur ekki stoðum undir málflutning Guðmundar Þóroddssonar, þó að þess beri að geta, að fjármálastjórnun fyrirtækisins var í ólestri og olli því miklu tjóni. Á öllum sviðum var tekin áhætta, sem kom því í koll. Einkafyrirtæki hefði ekki getað hagað sér með þessum hætti, enda væri það þá vísast gjaldþrota nú.
Hið alvarlega í þessu máli er ráðstöfun háhita jarðvarmaauðlindarinnar, sem er í næsta nágrenni Reykjavíkur. Hér er átt við það, að nýtingarmáti OR með um 300 MW vinnslu raforku felur í sér orkusóun, sem nemur um 1700 MW. Ef þetta er ósjálfbær vinnsla, er þessi sóun algerlega óásættanleg, af því að þá eyðileggur OR vinnslumöguleika framtíðarinnar á hagkvæmu heitu vatni til upphitunar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, og hvaðan á þá að leiða hitaveituvatn til höfuðborgarsvæðisins ? Hið merkilega er, að höfundur þessa pistils er hér sammála Sóleyju Tómasdóttur um, að OR verður að snúa af þessari braut með framtíðar hagsmuni íbúanna í huga. Téð orkusóun er óviðunandi.
Það verður hið snarasta að finna út, hvort Hellisheiðarsvæðið annar 300 MW raforkuvinnslu með fleiri vinnsluholum, þannig að hvíla megi svæði og leyfa gufuþrýstingi að byggjast þar upp að nýju. Ef þetta tekst, verður unnt að huga að aflaukningu í 30-50 MW skrefum, en þó er lítil skynsemi í því, nema sem aukaafurð framleiðslu á heitu vatni, því að þá eykst nýtnin úr undir 15 % í yfir 50 %.
Guðmundur Þóroddsson talar um, að framleiðslugeta alls jarðgufuforða Hengilskerfisins sé 1000 MW af raforku. Í ljósi reynslunnar er af og frá, að slík afltaka sé sjálfbær, enda telur Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, að þetta hámark liggi nær 350 MW samkvæmt viðtali í Fréttablaðinu 15. júni 2013. Ályktunin er sú, að í mesta lagi geti orðið raunhæft eftir 5-10 ár að bæta við 40 MWe gufuhverfli og 40 MW rafala. I upphafi hafa verið gerð mikil mistök við áætlunargerð um aflgetu svæðisins og gráu bætt ofan á svart með allt of hraðri virkjanauppbyggingu. Í þessu sambandi er hundalógík að bera því við, að markaðurinn hafi heimtað meiri orku.
Af tölum, sem gefnar eru upp um Sleggjuna, sem er 90 MW virkjun á 24 milljarða kr, er unnt að fullyrða eftir einfalda útreikninga, að ekki er nokkur viðskiptalegur grundvöllur fyrir orkusölu til stóriðju frá þessari virkjun. Arðsemisjónarmið hafa einfaldlega ekki verið höfð að leiðarljósi, þegar stjórnmálamenn í borgarstjórn Reykjavíkur veittu blessun sína yfir þessa samninga. Stjórnmálamenn eru búnir að koma eigendum OR, skattborgurum sveitarfélaganna, sem hlut eiga að máli, í stórvanda. Það ætti að leitast við að draga úr fjárhagslegri ábyrgð skattborgaranna á þessu gönuhlaupi eftir fremsta megni og nauðsynlegt er að skilja að vinnsluhluta heits og kalds vatns og rafmagns, fjárhagslega, eins og unnt er, því að ella er hætt við, að kaupendur heits vatns og jafnvel kalds líka séu að greiða raforkuverðið niður, en raforkan á að vera á samkeppnimarkaði.
Það er ábyrgðarleysi af eigendum og rekstraraðilum jarðvarmavera í grennd við þéttbýli að virkja 300 MW að mestu á 5-10 árum á jarðhitasvæði, sem stendur ofan á stórum hvikupotti, sem gefur frá sér eiturgös, án þess að vita, hvernig á að gera eiturgas á borð við H2S skaðlaust og hindra þá um leið umtalsvert tjón á viðkvæmum og dýrum búnaði í sama þéttbýli af völdum tæringar. Brennisteinsvetni í andrúmsloftinu hvarfast og myndar lituð, lítt vatnsleysanleg sambönd með málmum á borð við silfur, kopar, tin, blý í súru umhverfi, en með nikkel, járni, sinki og mangan í lútuðu umhverfi.
Heilsufarsáhrifin eru háð styrk gassins, sem er sterkt taugaeitur, bindst hemóglóbíni blóðsins og ryður þar burt súrefni og myndar veika sýru í rökum lungunum. Hið oxaða gas brennisteinsvetnis er enn viðsjárverðara og myndar astma í viðkvæmum einstaklingum. Það blasir við út frá mælingum á þessum gösum á höfuðborgarsvæðinu, að heilbrigðisyfirvöld hafa sofið á verðinum og umhverfisyfirvöld hafa sett kíkinn fyrir blinda augað. Heilsufar höfuðborgarbúa líður fyrir sofandahátt yfirvaldanna. Skylt þessu sleifarlagi er eftirlitsleysið með áburði bænda. Með tveggja ára millibili er greindur ofstyrkur Kadmiums í áburði. Kadmium er þungmálmur, sem safnast fyrir í vefjum líkamans. Hvers vegna eru viðbrögð yfirvalda svo ræfilsleg, sem raun ber vitni um ? Engar sektir og engin svipting við endurtekið brot eftir tvö ár ! Eftirlitsiðnaðurinn hefur vaxið mjög að umfangi á undanförnum árum, en hann virðist engan veginn vera nógu skilvirkur. Er úthýsing e.t.v. lausnin, eins og á sviði rafmagnsöryggismála ?
Öfugsnúin viðhorf Svandísar Svavarsdóttur til umhverfismála, sem hún stillir alltaf upp gegn framförum í atvinnumálum, endurspeglast í þessum sofandahætti og að setja hvern steininn á fætur öðrum í götu vatnsaflsvirkjana. Hvers vegna leyfði Svandís Svavarsdóttir þessari gríðarlegu og hættulegu mengun á Hellisheiði að viðgangst, en lagðist öndverð gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá, þar sem engin mengun verður samfara virkjunum ? Það er einhver stjórnmálafnykur af þessum málatilbúnaði hennar, en hvorki umhyggja fyrir fólki né náttúru í sinni víðustu mynd.
Laugarvatnsstjórnin á og ætlar að snúa þessari óheillaþróun í virkjunarmálum við. Allar vatnsaflsvirkjanir á undan Kárahnjúkavirkjun voru sjálfbærar og afturkræfar, en Kárahnjúkavirkjun var óvenjuleg að því leyti, að hún fólst í einstæðum vatnaflutningum. Lagarfljótið ber ekki sitt barr með foraðið Jökulsá á Brú innanborðs. Í þessu sambandi ber að hafa í huga, að þessir vatnaflutningar urðu að raunveruleika, eftir að alræmdir "umhverfisverndarsinnar" lögðust af mikilli hörku gegn lóni á Eyjabökkum vegna meintrar truflunar á hamskiptum gæsa. Það er ekki öll vitleysan eins, að Kárahnjúkavirkjun skuli þannig með vissum hætti mega rekja til "umhverfisverndarsinna". Það skal taka fram, að Kárahnjúkavirkjun var verkfræðilegt afrek.
Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 af ríkinu og Reykjavíkurborg til að koma íslenzka raforkukerfinu og þar með atvinnulífinu á Íslandi inn í 20. öldina. Íslenzka Álfélagið var stofnað með lögum frá Alþingi árið 1966 og skyldi kaupa orku af Landsvirkjun samkvæmt framlengjanlegum orkusamningi til 35 ára til starfrækslu álvers í Straumsvík. Ötulustu brautryðjendur þessarar gifturíku stefnumörkunar í atvinnusögu landsins voru sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, og Jóhann Hafstein, iðnaðarráðherra. Kratar Viðreisnarstjórnarinnar studdu gjörninginn, enda hefur iðnvæðing landsins bætt hag hins vinnandi manns ótæpilega. Arftaki Alþýðuflokksins, Samfylkingin, er hins vegar viðrini, sem á engar rætur í verkalýðshreyfingunni, heldur er hún tannlaust tól háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og fáeinna (annarra) sérvitringa. Þetta viðrini hefur nú orðið bert að blekkingum um ríkisfjármálin fyrir kosningar í tilraun til að svíkja sig enn einu sinni inn á kjósendur. Það mistókst. Ástæða er til að taka saman hvítbók um samskipti Íslands og Evrópusambandsins, ESB, 2008-2013, með samtölum og minnisblöðum ráðherra, samninganefndarinnar og embættismanna utanríkisráðuneytisins, sem varpa mun ljósi á vinnubrögð stjórnsýslu og stjórnmálaflokkanna, sem við sögu koma.
Á 7. áratug 20. aldar, eins og nú, voru forstokkuð vinstri öfl mjög æst yfir virkjanaáformum, en ekki af umhverfisástæðum, eins og látið er í veðri vaka nú, heldur vegna orkusölusamnings við erlent fyrirtæki, Alusuisse, og vegna ágreinings um tilhögun viðkomandi virkjunar, Búrfells, sem úrtölumenn töldu ekki geta virkað almennilega á vetrum vegna stingulíss. Þeim er ekki lengur stætt á að leggjast gegn erlendum fjárfestingum og alþjóðlegri samvinnu, svo að þau hörfuðu í mengunarvígið, sem er unnt að gera að tilfinningahlöðnu umræðuefni, þar sem rök eiga stundum erfiða aðkomu. Þegar hins vegar kom í ljós, að sjórinn úti fyrir Straumsvík er hreinn og lífríkið heilbrigt, gróðurinn í grennd eðlilegur og losun út í andrúmsloft langt innan marka yfirvalda, þá var gerð atlaga að virkjununum sjálfum.
Það skal viðurkenna, að þar eru enn "svín á skóginum", eins og rakið var hér að ofan, og hér skal jafnframt halda því fram, að væru téð orkufyrirtæki í einkaeign og ekki stjórnað af stjórnmálamönnum, þá hefðu þau ekki "traðkað í salatinu" með jafnalvarlegum afleiðingum og raun ber vitni um.
Einkafyrirtæki hefði ekki lagt í jafnstórtækar fjárfestingar á Hellisheiðinni gegn beztu þekkingu á því, hvernig nýta á háhitasvæði með hámarksárangri og viðunandi áhættu. Áhættuna tóku stjórnmálamenn á borð við Don Alfredo og lék Dagur, læknir, þar einnig allstórt hlutverk ásamt Svandísi Svavarsdóttur, sérkennara. Áhættutakan var hroðalega illa eða ekkert ígrunduð, heldur vaðið áfram, og hin fjárhagslega áhætta svo geigvænleg, að fyrirtækið, Orkuveita Reykjavíkur, er nú lömuð í skuldafjötrum og verður svo um mörg ókomin ár. Ef orkusölusamningarnir hafa verið á svipuðum nótum og arðsamt var fyrir Landsvirkjun með sínar hagkvæmu og endingargóðu vatnsaflsvirkjanir að gera á sínum tíma, þá er OR og aðallega Reykvíkingar í vondum málum núna og til frambúðar. Arðsemiútreikningar orkusölunnar frá Hellisheiðarvirkjunum hafa, að því er bezt er vitað, ekki verið birtir. Þola þeir ekki dagsljósið ? Neytendur og Samkeppnistofnun eiga heimtingu á að vita, hvort vatnssalan er að greiða raforkuna niður hjá OR. Nýjustu upplýsingar frá HS Orku og Norðuráli eru um, að ekki gangi saman með fyrirtækjunum um orkusölu til Helguvíkur. Þær fréttir benda til, að jarðvarmaorkuver séu í raun ekki samkeppnihæf um orkusölu til álvera.
Landsvirkjun var hrakin úr Eyjabökkum af fólki, sem kallar sig umhverfisverndarsinna, en hefur misjafnlega mikið vit á íslenzkri náttúru. Sumir þeirra fara varla út fyrir 101 Reykjavík og kunna ekki einu sinni að tjalda, þó að með áróðri sínum séu þeir reyndar vanir að tjalda til einnar nætur. Eftir Eyjabakka ákváðu stjórnmálamenn, að Landsvirkjun skyldi fara í stórtæka vatnaflutninga. Virkjunin var verkfræðilegt afrek, en í valnum lá Lagarfljótið. Það var mikil fórn, sem stjórnmálamenn eiga sök á, en geta samtímis þakkað sér stóreflda innviði Austurlands, og vex landsfjórðunginum nú fiskur um hrygg með hverju árinu, enda er hann orðinn útflutningsvél íslenzka hagkerfisins með gríðarlegri framleiðni í öflugum sjávarútvegi og iðnaði. Allt orkar tvímælis, þá gert er.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Engin virkjun á Íslandi hefur víðlíka eins mikil neikvæð og óafturkræf áhrif og Kárahnjúkavirkjun. Svo miklu meiri er aurflutningurinn í Hálslón en áætlað var, að virkjunin gæti orðið ónýt í lok þessarar aldar vegna þess að lónstæðið fyllist upp af auri.
Og uppfylling dalsins af auri og leirstormar af hans völdum lá fyrir mati á umhverfisáhrifum.
Og í stað dals með einstæðum jarðminjum, sethjöllum, hátt í 40 ferkílómetrum af gróðri, heitri laug, marglitum klettum og gljúfrum sem Jökla var í óðaönn að búa til á styttri tíma en þekkist nokkurs staðar sitja þá eftir flatar gróðurvana sandleirur svipaðar Jökulsárflæðum norðan Dyngjujökuls.
Og svo má spyrja: Úr því að Hellisheiðarvirkjun var risin, búið að ráðstafa orkunni og fullyrt í forsendum virkjunarinnar að loftmengunarvandinn yrði leystur, áður en Svandís Svavarsdóttir varð umhverfisráðherra, hvað hefði verið sagt ef hún hefði látið stöðva virkjunina?
Ómar Ragnarsson, 21.6.2013 kl. 12:49
Sæll, Ómar;
Loftgæði í Reykjavík eru mun lakari en vera þyrfti vegna Hellisheiðarvirkjana. Að sumu leyti eru þau með því lakasta, sem þekkist. Þetta kann að hafa óafturkræf áhrif á heilsu fólks. Enginn hefur beðið tjón á heilsu sinni vegna ryks úr stæði Hálslóns, enda er það hverfandi miðað við mökkinn af aurum Jökulsár á Fjöllum. Svandís átti sér líf á undan ráðherradómi, og þá var hún í meirihluta borgarstjórnar.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 21.6.2013 kl. 17:01
Eftir stendur að menn trúðu þeim forsendum Hellisheiðarvirkjunar að loftmengunarvandamálið yrði leyst, affallsvandamál sömuleiðis með niðurdælingu og að virkjunin entist í 50 ár, sem að vísu er rányrkja.
Nú liggur fyrir að ekkert af þessu stenst, manngerðir jarðskjálftar hafa bæst við og beðið er um átta ára frest til að rannsaka hvort lausn finnist á loftmengunarvandananum.
Ómar Ragnarsson, 21.6.2013 kl. 19:38
Þetta var nú bara áhugaverðasti lestur.
Jón Ásgeir Bjarnason, 22.6.2013 kl. 07:29
Sæll, Ómar;
Það er furðulegur barnaskapur að baki trúgirni stjórnmálamanna og embættismanna og jafnvel sérfræðinga, sem þú bendir á. Ég veit ekki til, að téð vandamál hafi nokkurs staðar verið leyst. Í ljósi alvarlegra afleiðinga þessarar orkunýtingar á Hellisheiði fyrir heilsufar íbúa mesta þéttbýlissvæðis landsins og fyrir framtíðar hitaveitu fyrir sama svæði er þessi málsmeðferð viðkomandi yfirvalda algerlega ábyrgðarlaus. Það á ekki að linna látunum fyrr en raunhæf og hraðvirk áætlun hefur verið lögð fram. Þú átt sannarlega þakkir skildar fyrir þinn þátt í þeirri baráttu.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 22.6.2013 kl. 17:49
Sæll, Jón;
Það hefur verið mikið látið með jarðvarmavirkjanir á Íslandi, en sannleikurinn er sá, að þekkingin á þeim er allt of lítil til að gösslast áfram með þær, eins og gert hefur verið. Í ljósi þess, að þessi orkuvinnsla er ósjálfbær, er óviðunandi að vinna raforku með 10 %- 15 % nýtni á svæðum, sem eiga að þjóna framtíðinni sem hitaveituforðabúr.
Hvaða umræða er í Noregi núna um boranir eftir olíu á Drekasvæðinu við Jan Mayen ?
Kær kveðja frá Reykhólum /
Bjarni Jónsson, 22.6.2013 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.