Opinber óráðsía

Hlálegt er að verða vitni að yfirlýsingum stjórnmálamanna um, að draga verði lærdóma af óráðsíu Íbúðalánasjóðs, svo að hún endurtaki sig ekki, án þess að nefna hið augljósa, að sjálft rekstrarformið, þ.e. stjórn skipuð af ráðherra og ríkisábyrgð á sukkinu, er meinvætturinn.  Það er vel þekkt, að samkrull stjórnmála og fjármála er eitruð blanda.

Eitt dæmi um heimskuleg viðbrögð stjórnmálamanna við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð, ÍLS, birtist í viðtali Morgunblaðsins þann 4. júlí 2013 við formann Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason:

"Við verðum að læra af þessum mistökum og vanda betur til ákvarðana og undirbúnings.  Kosningaloforð eru hættuleg, og við verðum að tempra vald stjórnmálamanna til að hrinda stórum breytingum í framkvæmd með lítt hugsuðum hætti.  Þá er líka mikilvægt að taka betur mark á viðvörunarorðum og athugasemdum sérfræðinga."

Árni (ESB) hefur bersýnilega ekki áttað sig á aðalgagnrýniefni téðrar skýrslu, en það er, að ÍLS lék lausum hala í kerfinu, fór út fyrir heimildir, sem honum voru veittar með lögum, og komst upp með að sæta ekki eðlilegu eftirliti.  Allt er þetta framferði sveipað spillingarhjúpi og samsæri félagshyggjunnar, því að gagnrýni á ÍLS frá stjórnmálamönnum annarrar hyggju og öðrum var jafnan tekin óstinnt upp.  Ríkisrekstur af þessu tagi er ávísun á stórfellda spillingu og áskrift að fjármunum skattborgaranna. Þess konar félagshyggju ber að uppræta.  Þjóðin skákaði vinstri öflunum út í horn í síðustu Alþingiskosningum.  Ef borgaraleg öfl nýta ekki umboð sitt að þessu sinni af fullri einurð í þágu almannahagsmuna, þ.e. buddu almennings, þá hafa þau brugðizt hlutverki sínu í stjórnmálunum.    

Svo er að sjá á ofangreindri tilvitnun, að Árna (ESB) sé efst í huga að koma höggi á Framsóknarflokkinn.  Í þeim efnum kastar hann þó svo sannarlega steinum úr glerhúsi, því að hann ber sjálfur mikla ábyrgð á stórfelldu tapi ÍLS, eins og fram kemur síðar í þessari vefgrein, og getur hann ekki skotizt undan þeirri ábyrgð án þess að verða talinn maður að minni, og getur þá lengi lítið minnkað.  Þetta reynir hann þó að breiða yfir, eins og lítilmennis er von og vísa.  Tilraun Árna (ESB) til kattarþvottar er svofelld í téðu viðtali við Morgunblaðið, þar sem hann lýsir verkefnum sínum fyrir ÍLS, sem hann mun hafa þegið tæpar 39 milljónir kr fyrir á fjagra ára tímabili !  Var einhver að hneykslast á Framsóknarflokkinum ?: 

"Það voru verkefni, sem lutu að stærstum hluta að málsvörn fyrir sjóðinn vegna kæru bankanna gegn sjóðnum á evrópskum vettvangi, en lutu ekki að viðskiptalegum ákvörðunum sjóðsins."

Eins og fram kemur hér að neðan, fer Árni Páll Árnason í lokahluta málsvarnar sinnar með rangt mál.  Hvorki hann né aðrir aðilar þessa hneykslismáls bæta hlut sinn með því að afvegaleiða almenning, eins og ofangreind tilvitnun ber með sér, og yfirlýsing fyrrverandi framkvæmdastjóra ÍLS ber vissulega keim af.  Þeir hljóta að verða látnir svara til saka, því að hætta á bruna á 300 milljarða kr skattfé er of mikil til að sópa undir teppið, og jafnvel, þó að aðeins þegar bókfært tap upp á 64 milljarða kr (með öryggisfrálagi upp í tap) samkvæmt bókum ÍLS sé tekið með í reikninginn.  Það má hins vegar ekki láta félagshyggjumenn komast stöðugt upp með að hjakka í sama farinu, sama hvernig allt veltur í nafni sameignarinnar, heldur verður að stokka allan ríkisreksturinn upp, og þá verður óhjákvæmilegt að fækka opinberum starfsmönnum.  Nauðsyn kennir nakinni konu að spinna.  Skýrsla Rannsóknarnefndar um ÍLS, sem mun hafa verið 18 mánuði í vinnslu og kostað þá ótrúlega háu upphæð 250 milljónir kr, er ekki gallalaus, en má samt ekki fara í súginn.  Engin glóra er í ríkishúsnæðisbanka, sem hefur orðið uppvís að glannalegum lánveitingum, m.a. til verktaka, sem settu upp svikamyllu og "plötuðu" búrókratana, við hlið hinna bankanna, sem ásamt lífeyrissjóðunum geta hæglega fjármagnað húsnæðismarkaðinn að mestum hluta.  Það, sem út af stendur, er þá verkefni hins opinbera, hugsanlega samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, en umfangið yrði aðeins brot af umfangi ÍLS.    

Annað furðulegt dæmi um viðbrögð stjórnmálamanna við skýrslunni dýru birtist í viðtali við hinn þinglega Landsdómsákæranda, Eygló Harðardóttur, fimmtudaginn 4. júlí 2013, í Fréttablaðinu, þar sem Eygló virðist enn kjósa að setja Alþingi í hlutverk ákæranda:

„Spurð hvort ekki standi til að láta hlutaðeigandi sæta ábyrgð vill Eygló ekki taka beina afstöðu til þess en segir þó að eðli málsins samkvæmt komi það vel til greina.

„Ég tel að það sé fyrst og fremst hlutverk Alþingis að álykta þar um. En mér þykir það eðlilegt að menn verði látnir svara fyrir það á viðeigandi stöðum til dæmis hjá lögreglu hafi þeir á annað borð brotið lög. Það er mjög mikilvægt,“ segir hún.“ 

   Það má finna hliðstæð dæmi um mikla peningaveltu og ríkisábyrgð hjá Landsvirkjun, sem er alfarið í eigu ríkisins og starfar með fullri ríkisábyrgð á öllum sínum fjárhagsskuldbindingum.  Það eru mörg góð rök fyrir því að vinda ofan af þessum ríkisábyrgðum og ríkisrekstri, þó að slík skref þurfi að verða stigin að vel yfirlögðu ráði til að hámarka hagkvæmni breytts eignarhalds fyrir ríkissjóð.  Ekki veitir nú af.

Hriflungar hafa ráðið lögum og lofum í Húsnæðismálastofnun og síðar Íbúðalánasjóði svo lengi sem elztu menn muna.  Ráðslag þeirra þar er með endemum, þó að ýmsir aðrir hafi verið á spenanum og tottað hraustlega.  Samfylkingarráðherrar voru yfir húsnæðismálaflokkinum í ríkisstjórnum Geirs Hilmars og Jóhönnu Sig., í tæp 6 ár, án þess að lyfta litla fingri til að bæta rekstur ÍLS og forða skattgreiðendum frá stórtjóni.  Virðast þessir Samfylkingarráðherrar hafa verið handónýtir til allra verka, en rifið kjaft geta þeir núna og kasta þá steinum úr glerhúsi.

Téður ráðherra Hriflunga og ákærandi þingsins í Landsdómsmálinu alræmda, þar sem dómgreindarleysið reið ekki við einteyming, Eygló Harðardóttir, hefur lýst því yfir, að Framsóknarmenn verði að axla ábyrgð á þessu máli, sem téð skýrsla hefur leitt fram í dagsljósið. Hvað ætli hún meini með því ?  Það eru enn engin teikn á lofti um slíkt, nema síður sé.  Framsóknarmönnum verður þó haldið við efnið.  Hvernig skilur hún hugtakið að axla ábyrgð ?  Að bera kápuna á báðum öxlum ?  Nei, að axla ábyrgð er að taka afleiðingum gjörða sinna.  Það verður fróðlegt að sjá Hriflungana gera það og nokkurt nýnæmi að.  Munu þeir komast upp með að láta sitja við orðin tóm, þó að ekki verði nú stofnað til Landsdóms ?

Hér er um að ræða eins konar valdamiðstöð Framsóknarmanna, sem þeir hafa nú keyrt gjörsamlega í þrot með tilstyrk krata, eins og fram hefur komið.  ÍLS hefur verið spillingarbæli félagshyggjunnar með hrikalegum afleiðingum fyrir skattborgarana.  Félagshyggjan hefur purkunarlaust sólundað fjármunum með saknæmum hætti. Það er mikið talað um "vanhæfni" þeirra, sem mest véluðu um málefni Íbúðalánasjóðs, og vissulega ýtir nýleg yfirlýsing frá sjóðnum, þar sem stjórnendur hans neita að horfast í augu við gagnrýni dýru skýrslunnar og gera lítið úr niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis um hættuna á 270 milljarða kr tjóni og halda sig við "aðeins" fjórðung þessarar upphæðar, undir slíkar vangaveltur, því að mismunurinn nemur líklegu framreiknuðu tapi, sem virtur hagfræðingur og sérfræðingur á þessu sviði, Yngvi Örn Kristinsson, telur jafnvel verða yfir 300 milljarða kr.

Þegar um svona risavaxið hugsanlegt tap er að ræða hjá ríkisstofnun, er ófullnægjandi að afgreiða það sem afleiðingu af óhæfni stjórnenda, eins og virðist gert í 250 milljón kr skýrslunni. Þarna er mjög líklegt, að lögbrot hafi verið framin.  Sérstakur saksóknari eða ríkissaksóknari þurfa hiklaust að rannsaka, hvort misferli eða saknæm vanræksla leiddi þessa gríðarlegu fjárhagsáhættu yfir skattborgarana.  Þar hlýtur m.a. fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins og varaformaður hans, Guðmundur Bjarnason, að þurfa að sæta rannsókn fyrir gjörðir sínar og/eða vanrækslu.  Fyrsta opinbera yfirlýsing hans í kjölfar birtingar skýrslunnar verður vafalaust krufin til mergjar í yfirheyrslum.

Eins og áður hefur komið fram, eru hins vegar fleiri fyrrverandi ráðherrar viðriðnir þetta svakalega mál og sekir um mistök, sem kostað hafa skattborgara þessa lands tugi milljarða kr, og heitir einn þeirra Árni Páll Árnason, og gegnir hann formennsku í Samfylkingunni.  Nú er búið að fletta ofan af gjörðum hans sem ráðgjafa Hriflunganna, sem hann tók ofurfé fyrir.  Þó að téður Árni (ESB) hafi reynt að breiða yfir lögfræðilega vafasama ráðgjöf sína, stendur hann berstrípaður og trausti rúinn eftir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Slíkum manni er ekki lengur stætt á að bjóða sig fram til opinberra starfa á Íslandi og væri Árna (ESB) sæmst að segja af sér þingmennsku eftir það tjón, sem hann er orðinn uppvís að að vera meðsekur um.  Í Morgunblaðinu, laugardaginn 6. júlí 2013, stendur m.a. eftirfarandi í greininni: "Farið í kringum lögin":

"Með lánveitingum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) til viðskiptabankanna var í raun farið fram hjá lagaheimildum sjóðsins til íbúðalána með ólögmætum hætti.  Þetta var niðurstaða álitsgerðar, sem Jóhannes Sigurðsson, prófessor, gerði að beiðni Samtaka atvinnulífsins og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja árið 2005.  Niðurstaða hans var þvert á lögfræðiálit, sem Árni Páll Árnason vann fyrir ÍLS sama ár.  Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn."

Íbúðalánasjóður virkaði eins og ríki í ríkinu, hafinn yfir lög og rétt og óháður opinberu eftirliti.  Þetta er með öllu óskiljanlegt, nema meiri háttar stjórnmálaleg spilling hafi komið í veg fyrir eðlilegt eftirlit.  "Rendi" (Ríkisendurskoðandi) tók ÍLS út árið 2004 og fann þá ekkert athugunarvert.  Það er rannsóknarefni saksóknara og sömuleiðis, hvers vegna Fjármálaeftirlitið virðist hafa verið gert afturreka.  Nú hlýtur að vera komið að leiðarlokum þessarar ormagryfju, og ormarnir verði látnir svara til saka.  Það má vera í meira lagi sleipur lögfræðingur, sem snýr á saksóknara í þessu hneykslismáli.  Enn skal vitna í téða Morgunblaðsgrein, þar sem undirfyrirsögn er

"Ekki lagastoð fyrir reglugerðum félagsmálaráðherra":

Rakin er saga þess, þegar Íbúðalánasjóður hóf að lána fjármálastofnunum í rannsóknarskýrslunni.  ÍLS mátti eiga viðskipti með eigin verðbréf og önnur.  Reglugerð var sett í júní 2004, en ekkert frekar kveðið á um slík viðskipti.  Þau átti að útfæra frekar í áhættustýringarstefnu ÍLS.  Henni var breytt í desember 2004 af stjórn sjóðsins og heimildir til að fjárfesta í skuldabréfum rýmkaðar án þess að umsagnar Fjármálaeftirlitsins væri leitað, sem lög kváðu þó á um.  Skömmu síðar voru fyrstu lánin veitt.  Það var ekki fyrr en í september 2005, sem ný reglugerð var sett, sem heimilaði þessi viðskipti ÍLS og bankanna.  Fyrir setningu hennar var sjóðurinn hins vegar búinn að gera lánasamninga fyrir 87 milljarða króna.  Rannsóknarnefndin bendir á, að reglugerðin hafi ekki getað verið afturvirk og hún hlyti að víkja fyrir ákvæðum laga um sjóðinn.  Allt bæri að sama brunni; lánin væru ólögmæt."

Hér er um að ræða rétt eitt skipbrot félagshyggjunnar.  Ekki fer á milli mála, að til Húsnæðismálastofnunar og síðar Íbúðalánasjóðs var stofnað á félagslegum grundvelli með hlöðukálfa Hriflunga inni á gafli, og dæmi er hér að ofan nefnt um hlöðukálf Samfylkingarinnar, sem tók tæplega 40 milljóna kr þóknun fyrir ráðgjöf, sem var svo léleg, að hún kostaði skattborgara þessa lands tugi milljarða kr.  Ef ekki verður horfið af þessari braut lagabrota og fjárglæfra með ríkisábyrgð strax, mun félagshyggjan fljótlega leiða til ríkisgjaldþrots.  Það ber að hverfa af braut ríkisrekstrar, þar sem einkaframtakið er betur fallið til starfseminnar.  Þetta á t.d. við um fjármálastarfsemi og orkufyrirtæki.  ÍLS ber að leggja niður í sinni núverandi mynd, og breyta ber Landsbankanum og Landsvirkjun í hlutafélög, þar sem ríkið minnkar smám saman eignarhlut sinn.   

  Forsætisráðuneytisbygging  

 

Gammur vokir yfir hræi

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband