18.7.2013 | 18:14
Gapuxar
Tveir starfsmenn Háskóla Íslands efndu nýlega til undirskriftasöfnunar gegn bráðabirgða breytingum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á lagaörverpi um ofurskattheimtu af sjávarútvegi, sem var svo vanhugsuð hjá fyrrverandi þingmeirihluta og allsherjar ráðherra, að ekki var unnt að framkvæma skattheimtuna samkvæmt laganna hljóðan.
Samt risu upp mannvitsbrekkur, trúlega aðallega á höfuðborgarsvæðinu, og heimtuðu af þinginu og síðan af forseta lýðveldisins að hafna lagasetningu, sem sneið þó verstu agnúana af hrákasmíði Steingríms Jóhanns Sigfússonar, þó að nýju lögin væru reyndar einnig með böggum hildar.
Stjórnmálafræðingur RÚV nú um stundir, prófessor Gunnar Helgi Kristinsson, kom í hljóðstofu og jós þar af gnægtabrunni vizku sinnar um "þrönga stöðu" forsetans, nánast stórvandræði Bessastaðabóndans í ljósi sögunnar gagnvart viðfangsefninu að taka afstöðu til undirskriftasöfnunarinnar. Allt var þetta þó stormur í vatnsglasi, eins og forsetinn sýndi eftirminnilega fram á, þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína varðandi þessa lagasetningu.
Sjaldan eða aldrei hafa rök fyrir ákalli til forsetans verið veikari. Það er varla hægt að finna verri málstað en þann að biðja skattyfirvöld um að hunza viðhorf um meðalhóf, málefnalega aðferðarfræði og jafnræði við skattlagningu. Forseta þótti grautargerð Gunnars Helga ólystug og málatilbúnaðurinn ófaglegur og málflutningurinn yfirborðslegur. Þó keyrði algerlega um þverbak, þegar forseti líkti téðum stjórnmálafræðiprófessor við bloggara og er vandséð, hvers bloggarar eiga að gjalda að vera dregnir inn í slíkan samanburð.
Þar er þó misjafn sauður í mörgu fé. Sumir s.k. bloggarar hafa kennt þá við "kommúnisma", sem stutt hafa í bloggi og/eða á prenti núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi; jafnvel talið, að það stríði gegn frelsi einstaklingsins og frjálsum atvinnuháttum og býsnast þá yfir, að einkaframtaksmenn skuli ekki berjast fyrir sóknarkerfi/sóknardagakerfi. S.k. sóknarkerfi er í stuttu máli fólgið í því, að útgerðir keppast við að ná sem mestum afla hver um sig unz heildarsóknarmarkinu, sem stjórnvöld setja, er náð.
Þetta er þó afdankað sóunarkerfi, því að takmörkuð auðlind verður augljóslega, og reynslan staðfestir það, sótt af allt of miklu afli með þessu móti til að hagkvæmt geti talizt, og færra stendur gegn brottkasti og ólöglegum veiðum, því að kerfið er hvati til sóknar í skammtímaávinning. Allt of miklar fjárfestingar standa þá að sókninni, sem leiðir til hærri sóknarkostnaðar á aflaeiningu en nauðsyn krefur. Þetta kerfi felur í sér verri umgengni við auðlindina, of mikla fjárbindingu, of mikinn mannskap og útpískun á honum við viðsjárverðar aðstæður. Úrelt sjónarmið um magn á kostnað gæða verða ofan á, verðmætin verða þess vegna miklu minni á ársgrundvelli, og allir bera skarðan hlut frá borði. Slíkt væri þá samkeppni andskotans og illa sæmandi þróuðu þjóðfélagi.
Það hefur verið vel þekkt, frá því að Adam Smith birti rit sitt, Auðlegð þjóðanna, á 18. öld á dögum iðnbyltingarinnar á Bretlandi, að sókn þjóða til bættra lífskjara og velferðar verður bezt tryggð með því að veita almenningi aðgang að fjármagni til fjárfestinga með möguleikanum á veðsetningu fasteigna og jarðnæðis og að atvinnufyrirtæki fái hvata til að stunda arðsama starfsemi og frelsi til að keppa um hylli viðskiptavina á frjálsum markaði.
Þegar kemur að sjávarútveginum í þessu sambandi hefur staðan um allan heim lengi verið sú, að veiðigeta fiskiskipastólsins er langt umfram afrakstursgetu stofnanna. Viðfangsefni þeirra, sem fást við að setja þjóðum fiskveiðistefnu, hefur þá verið að smíða kerfi, sem er sjálfbært og þjóðhagslega hagkvæmast. Eitt af skilyrðum slíks kerfis er, að í því sé innbyggður hvati til að lágmarka kostnaðinn á sóknareiningu, þ.e. að hámarka framleiðni útgerðanna. Það er mála sannast, að ekkert skilvirkara kerfi í þessum efnum hefur verið þróað en aflamarkskerfið, s.k. kvótakerfi, með frjálsu framsali aflahlutdeilda af heildaraflamarki, sem ákvarðað er á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Fyrirtækin keppa nú á grundvelli arðsemi og gæða.
Prófessor Ragnar Árnason, sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á eðli og umfangi fiskveiðistjórnunarkerfa, enda prófessor í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, hefur mikið ritað um þessi efni. Ein ágæt grein hans birtist í Morgunblaðinu, 7. marz 2012, "Alþjóðleg samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs". Þar ritar hann m.a. um útbreiðslu kvótakerfis sem fiskveiðistjórnunarkerfis:
"Undanfarin ár hafa aðrar sjávarútvegsþjóðir í vaxandi mæli tekið upp fiskveiðistjórnunarkerfi í takt við það, sem við höfum. Nýlegar athuganir benda til þess, að árið 2010 hafi yfir 20 meiriháttar fiskveiðiþjóðir tekið upp aflamarkskerfi, og allt að 25 % heimsaflans verið veidd undir slíku stjórnkerfi fiskveiða. Í mörgum tilfellum eru umrædd aflamarkskerfi a.m.k. eins skilvirk og það, sem hér var áður en hafist var handa við niðurrif þess. Þá er yfirleitt ekki um neina sérstaka skattlagningu á sjávarútveg í þessum löndum að ræða umfram önnur fyrirtæki, en fremur fjárhagsstuðning af ýmsu tagi. Það er því ljóst, að samkeppnisstaða þessara þjóða á alþjóðlegum sjávarafurðamörkuðum batnar nú hröðum skrefum. Þá er ekkert lát á framförum í fiskeldi og aukningu í framboði eldisfisks."
Þegar stjórnvöld á Íslandi nú búa sig í stakkinn til að móta sjávarútveginum rekstrarumgjörð, vonandi til langrar framtíðar, því að hann, eins og aðrar atvinnugreinar, á heimtingu á, að stjórnvöld gæti jafnan jafnræðis, meðalhófs og málefnalegrar stefnumörkunar, skyldu þau hafa ofangreindar staðreyndir téðs prófessors ofarlega í huga.
Efasemdarmenn um gildi kvótakerfisins í sjávarútvegi kynnu nú að spyrja í hverju frjáls samkeppni sé eiginlega fólgin í þessu kerfi. Hún er fólgin í framleiðniaukningu með bættri stjórnun, bættum vinnubrögðum og tækniþróun ásamt bættum afurðagæðum og bættri markaðssetningu. Þeim, sem bezt tekst til í þessum efnum, hafa mest bolmagn til að keppa um gott vinnuafl með góðum aðbúnaði, atvinnuöryggi og aflahlut, til að auka markaðshlutdeild sína, til vaxtar og viðgangs og til að greiða eigendum sínum arð. Það eru þó miklar takmarkanir á aflahlutdeild fyrirtækja hérlendis, 12 % af heild tegundar per fyrirtæki, aðeins helmingur af því, sem viðgengst í Noregi. Þessu þaki þarf þess vegna að lyfta til að hamla ekki samkeppnigetu íslenzkra útgerða við risaútgerðir Noregs.
Kvótakerfinu er m.a. fundið það til foráttu, að s.k. "kvótagreifar" hafi fengið afhentan gjafakvóta frá ríkinu, sem hafi verið örlætisgjörningur að hálfu velviljaðra stjórnmálamanna, jafnvel með eigin hagsmuni innan sjávarútvegs í huga. Segja má, að allt orki tvímælis, þá gert er, en þegar téð upphafsúthlutun átti sér stað árið 1983, var sjávarútvegurinn á heljarþröminni, og fjöldagjaldþrot blasti við í greininni. Það kom þess vegna ekki til greina á þeim tíma að leigja eða selja veiðiheimildir, enda skorti ríkið lagaheimildir til slíks á sínum tíma og skortir enn. Frjálst framsal veiðiheimilda var síðar heimilað með lögum til að flýta fyrir hagræðingu innan greinarinnar með fækkun útgerða og skipa og hefur þess vegna leitt til mikillar framleiðniaukningar þjóðarbúinu öllu til hagsbóta. Hinu er þó ekki að neita, að ýmsir hafa séð ofsjónum yfir þessum viðskiptum, en hvernig átti öðru vísi að koma nauðsynlegri hagræðingu á ?
Miðin voru og eru almenningur, og enginn átti né á enn óveiddan fisk í sjó, enda syndir hann inn og út úr lögsögunni. Þá vaknar spurningin, hvort löggjafanum hafi verið heimilt samkvæmt Stjórnarskrá að leyfa frjálst framsal aflamarks. Um þetta hafa gengið Hæstaréttardómar frjálsu framsali í vil, enda er afnotaréttur auðlindar eitt form eignarréttar, sem skilgreindur er og varinn í 72. grein Stjórnarskráarinnar. Áður en dómar gengu höfðu lánastofnanir viðurkennt téðan afnotarétt sem andlag veðréttar, og þannig hefur sjávarútveginum tekizt að afla fjár til fjárfestinga innan og utan greinarinnar. Það er alrangt, sem haldið hefur verið fram, að sjávarútvegsfyrirtæki hafi fengið meiri afskriftir skulda sinna en önnur fyrirtæki, eftir að kvótakerfið var tekið upp. Ef eitthvað er, eru afskriftirnar hlutfallslega minni en margra annarra fyrirtækja, og sjávarútvegurinn hefur lækkað mjög hratt skuldir sínar síðan fjármálakreppan síðasta hófst, þó að hann sé samt enn skuldugur, enda eru tekjur hans að mestu í erlendum gjaldeyri.
Af þessum sökum stendur sjávarútvegurinn að sumu leyti sterkt að vígi til að hefja nú endurnýjun skipastóls og annars búnaðar, sem orðin er brýn, en þá kom heldur betur babb í bátinn. Umtalsverð verðlækkun varð á mörkuðunum um tæplega 15 % að jafnaði og um 20 % á þorski vegna minnkandi kaupmáttar í Evrópu og víðar og aukins framboðs á þorski úr Hvítahafinu frá Norðmönnum og Rússum. Markaðurinn mun nú vera tekinn að hjarna við. Sjávarútvegurinn varð fyrir tvöföldu höggi, því að á sama tíma stórhækkaði hið gæfusnauða þing, sem stóð að baki ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, skattheimtuna af sjávarútveginum.
Það er engum blöðum um það að fletta, að á grundvelli gildandi laga um fiskveiðistjórnun hefur ríkisvaldið fullveldisheimild til að fara með stjórnun á nýtingu miðanna innan íslenzku lögsögunnar. Ríkið hefur hins vegar enga heimild til að taka gjald vegna þessarar sömu nýtingar, eins og t.d. íbúðareigandi getur tekið leigugjald fyrir afnot íbúðar sinnar, einfaldlega af því að hvorki ríkið né nokkur annar á óveiddan fisk í sjó; miðin eru almenningur í skilningi laganna. Samt er talað og skrifað um veiðileyfagjald, einnig í hinum handónýta lagatexta fyrrverandi ríkisstjórnar.
Enginn dregur hins vegar í efa, að Alþingi hefur skattlagningarvald, en þá ber því að gæta jafnræðis þegnanna, meðalhófsreglunnar og málefnalegrar lagasetningar. Allar þessar grundvallarreglur voru þverbrotnar við álagningu hins sérstaka veiðileyfagjalds.
Ein atvinnugrein var tekin út úr og á hana lagður skattur í nafni auðlindarentu, sem t.d. hvorki landbúnaður né orkuvinnslan þurftu að sæta. Mikil mismunun innan greinarinnar átti sér stað við þessa skattheimtu, sem sumarþing 2013 reyndar lagfærði að einhverju leyti að frumkvæði nýrrar ríkisstjórnar.
Meðalhófs var í engu gætt, þar sem þung skattheimta gekk svo nærri afkomu sumra fyrirtækja, að þau áttu sér ekki lífs von, og sjósókn í sumar tegundir, t.d. kolmunna, og hjá sumum bátum á makríl, stóð ekki undir kostnaði. Þannig hamlar skattlagningin sjósókn og dregur úr útflutningstekjum landsins.
Það var algerlega ómálefnalega staðið að þessari skattheimtu, því að valin var sú einstæða og fráleita leið að leggja sérstaka veiðileyfagjaldið á fyrirtækin eftir meðalframlegð greinarinnar fyrir tveimur árum. Að velja framlegð sem skattstofn er forkastanlegt, og að velja meðalframlegð í fortíðinni er fyrir neðan allar hellur og gjörsamlega ómálefnaleg skattheimta. Þessi fyrirtæki verða að sitja við sama borð og önnur, og þá verður að miða við hagnað hvers og eins þeirra.
Dæmigert er fyrir vinstri menn, að þeir hrópa nú á torgum, að lækkun hins sérstaka veiðileyfagjalds á bolfiskveiðarnar jafngildi því, að "sægreifunum" séu færðir milljarðar kr úr ríkishirzlunum, sem þá muni koma niður á fjárhag ríkisins. Þetta eru sefasýkisleg viðbrögð, sem ekki eiga sér nokkra stoð í raunveruleikanum í lýðræðisríki. Þegnarnir, hvort sem eru einstaklingar eða lögaðilar, eiga sjálfir þá fjármuni, sem þeir afla, en hið opinbera á þá ekki. Ef hið opinbera ákveður að lækka skattheimtu, þá er það ekki að færa eiganda fjárins neina gjöf; það er aðeins að skila fé aftur til réttmæts eiganda síns. Þetta á t.d. við, ef ríkið mundi ákveða að lækka tryggingagjaldið, virðisaukaskattinn eða tekjuskattinn, og það á auðvitað alveg sérstaklega við í tilviki hins sérstaka veiðileyfagjalds, þar sem mikið skortir á lögmæti skattheimtunnar, eins og hér hefur verið rakið.
Þessi grimmilega skattheimta er reist á skammsýni og er hagfræðilegt glapræði, af því að hún er til þess fallin að minnka skattstofninn. Meginvandamál íslenzka hagkerfisins allt síðasta kjörtímabil voru allt of litlar fjárfestingar, og þar af leiðandi var hagvöxtur í lágmarki. Einn aðalsökudólgurinn í þessum efnum var ríkisstjórnin, sem hækkaði skattheimtu og lagði á nýja skatta í á annað hundrað skipti. Ef snúið verður af þessari óheillabraut, munu skattstofnar, sem skroppið hafa saman, taka að dafna á ný, sem mun auka tekjur hins opinbera með sjálfbærum hætti án þess að tjalda til einnar nætur, eins og fjármálaráðherrar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur gerðu jafnan.
Í lok þessa pistils er við hæfi að árétta það, sem hér hefur komið fram, með því að vitna í forystugrein Morgunblaðsins föstudaginn 12. júlí 2013, "Öllu snúið á haus":
Ef það er eitt, sem umræðan um veiðileyfagjöldin hefur leitt í ljós, þá eru það öfugsnúnar hugmyndir stjórnarandstöðunnar um ríki og skatta. Sagt er, að verið sé að veita mönnum gjafir með því að lækka lítt ígrundaðar álögur á þá. Grundvöllurinn í þessari hugsun er sá, að allt, sem menn afli sér, tilheyri ríkinu, en ekki þeim sjálfum, og þeir megi því þakka fyrir það, að ríkið gefi þeim peninginn til baka með því að innheimta hann ekki í skatt."
Það er alveg öruggt mál, að með þessu vinstri sinnaða og illvíga skattheimtuhugarfari, sem hér hefur verið lýst, munu skattstofnarnir aldrei vaxta, og hagvöxturinn, sem er lykilmál til lausnar á vanda íslenzka hagkerfisins, áfram hjakka nálægt núlli.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.