Helsi og frelsi Evrópu

Evrópa er Íslendingum allhugstæð, enda standa rætur okkar þar.  Margir hérlendir hafa þegið menntun sína í Evrópu og unnið þar tímabundið.  Yfirgnæfandi meirihluti 800 þúsund erlendra ferðamanna á Íslandi í ár er frá Evrópu.  Við höfum öflug viðskiptatengsl við Evrópu, enda erum við á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðið). 

Nú er Evrópa enn á leiðinni ofan í öldudal efnahagskreppu og stjórnmálakreppu.  Efnahagskreppan er öllu verri í löndum Evrópusambandsins (ESB) en annars staðar í heiminum vegna flókins opinbers regluverks, sem er atvinnurekstri íþyngjandi, stendur jafnvel frumkvöðlum fyrir þrifum, lítils sveigjanleika á vinnumarkaði og hærri skatta en í helztu viðskiptalöndunum utan Evrópu. 

Verst er staðan í löndum evrunnar þrátt fyrir ýmislegt viðskiptalegt hagræði, sem af henni leiðir.  Annmarkar þess að vera með hágengi án nokkurra tengsla við framleiðnistigið í landinu og almenna samkeppnihæfni ásamt vöxtum slitnum úr samhengi við eigið hagkerfi eru geigvænlegir, og er atvinnuleysið í Suður-Evrópu órækasti votturinn um þetta. Þýzk fyrirtæki njóta þess að vera í umhverfi, sem vegur mest í ákvörðunum evrubankans um peningastefnuna, og þau eru mjög samkeppnihæf eftir þjóðfélagsumbætur jafnaðarmanna og græningja undir forystu Gerhards Schröders 2003 og af því að kostnaðarhækkunum hefur verið haldið í skefjum frá síðustu aldamótum í Þýzkalandi.  Með þýzku skipulagi, einbeitni og dugnaði bættu Þjóðverjar samkeppnihæfni sína stórkostlega á fyrsta áratugi aldarinnar.  Sumar evruþjóðirnar hafa enn ekki sýnt lit og virðast fljóta sofandi að feigðarósi.  Átakanlegasta dæmið þar um eru Gallarnir vestan Rínar.     

Engum blöðum er um það að fletta, að svipað væri uppi á teninginum hérlendis og víðast hvar á evrusvæðinu utan Þýzkalands, ef lögeyririnn á Íslandi væri nú evra eða einhver önnur mynt, nema breyting til batnaðar verði á efnahagsstefnunni hérlendis í aðdraganda myntskipta og agi í ríkisfjármálum, launamálum og efnahagsmálum almennt verði ekki minni en í Þýzkalandi, sem mestu ræður um gengi evrunnar.  Ekki er unnt að útiloka, að Íslendingar sjái ljósið í myrkrinu, af því að neyðin kennir nakinni konu að spinna.   

Kosningar verða í september 2013 til neðri deildar þýzka Sambandsþingsins.  Er þeirra beðið með eftirvæntingu ekki sízt, eftir að Angela Merkel lenti í bullandi vörn í kosningabaráttunni vegna meintrar samvinnu hennar við njósnastofnun Bandaríkjanna.  Slíkt kunna Þjóðverjar ekki að meta, enda ristir starfsemi GESTAPO og STASI djúpt í hugskoti þeirra, en þýzkur almenningur var að sjálfsögðu þrúgaður á velmegtardögum þessara hrollvekjandi stofnana.  Að stórri bandarískri stjórnardeild skuli nú vera líkt við þessar stofnanir, segir mikla sögu um, hvar Bandaríkin eru stödd nú.  Um er að ræða óheyrilega hnýsni í einkahagi fólks undir merkjum öryggis.

  Greinilegt er, að erfiðum ákvörðunum um fjármagnsflutninga frá Þýzkalandi til bágstaddra evruríkja er frestað fram yfir þessar kosningar.  Allt er í raun á suðupunkti í Evrópu núna, og ástæðan er meiri munur á menningu og tæknistigi í evrulöndunum en svo, að þessar þjóðir geti búið við sömu mynt.  Jafnvel járnhönd í Brüssel gæti ekki brúað þetta bil, hvað þá tannlausir búrókratar í Berlaymont.  Meira að segja Prússarnir í Berlín hafa engan hug á því.  Þungamiðja hagsmuna þýzku iðnaðarvélarinnar er ekki lengur á evrusvæðinu (aðeins 36 % útflutnings og minnkandi).

Gætum við Íslendingar búið með Þjóðverjum í myntbandalagi ? Össur Skarphéðinsson, barnalegasti "Machiavelli" allra tíma, hélt það og heldur sennilega enn.  Engar mælingar, rannsóknir eða áætlanir styðja þessa skoðun fyrrverandi utanríkisráðherra.  Sem stendur er fátt, sem bendir til þess, enda uppfylla Íslendingar ekkert grundvallarskilyrðanna, kennd við hollenzku borgina Maastricht, sem sett eru fyrir inngöngu í myntbandalagið.  Við værum ósyndir, og jafnvel vatnshræddir, að stinga okkur til sunds með hákörlum. 

Meira að segja Svíar treystu sér ekki til inngöngu í þetta myntbandalag, og er þó upplag þeirra og þjóðfélag keimlíkt og hjá frændum þeirra sunnan Eystrasaltsins.  Nauðsynlegar forsendur hinnar sameiginlegu myntar eru ekki allar fyrir hendi í mörgum evrulandanna.  Þeim var smyglað inn á fölskum forsendum, af því að stjórnmálamönnum lá ósköpin á.  

Eftir þýzku kosningarnar í haust mun upphefjast að nýju söngur um nýjar björgunaraðgerðir á kostnað Þjóðverja, en slíkt munu þeir tæpast samþykkja í ljósi hinnar alvarlegu andúðar, sem viðtökuþjóðirnar hafa sýnt nýlega á Þjóðverjum.  Skiptir þá engu, hvort CDU/CSU eða SPD fer með völdin.  Það er samstaða í Þýzkalandi um þetta. Að fitja nú upp á stríðsskaðabótum frá Berlín er eins og blautur hanzki, e.t.v. stríðshanzki, í andlit Þjóðverja.  Við þessar aðstæður er óráð fyrir þjóðir að íhuga upptöku evru, því að hún stendur á veikum grunni.

Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, var nýlega gestkomandi í Berlín og bar Þjóðverjum vel söguna, heim koninn.  Ráðlagði hann Englendingum að taka Þjóðverja sér til fyrirmyndar á ýmsum sviðum, t.d. til auka hjá sér framleiðnina.  Það kastar tólfunum, þegar fyrrverandi ritstjóri upphefur raust sína á vefmiðli sínum og tekur til við að líkja Boris Johnson við Neville Chamberlain 1938.  Þessi samanburður er fyrir neðan allar hellur og kastar rýrð á orðstýr ritstjórans.    

Það eru tvær góðar skýringar á afstöðu Þjóðverja til s.k. björgunaraðgerða.  Sú fyrri er, að þeir hafa síðan árið 2006 tapað 20 % af sinni VLF á erlendum fjárfestingum, og var tap þeirra vegna bankahrunsins á Íslandi dálítið brot af þessu.  Sú seinni er, að eignastaða þýzkra heimila er sú lakasta í Vestur-Evrópu.  Hér að neðan er yfirlit um eignastöðu heimila nokkurra Evrópuþjóða, sem þekktar eru úr evrópskri kreppuumræðu undanfarinna missera samkvæmt Seðlabanka evrunnar:

  1. Spánn:        kEUR 180 = MISK 29
  2. Ítalía:         kEUR 170 = MISK 27
  3. Frakkland:   kEUR 115 = MISK 18
  4. Grikkland:   kEUR 100 = MISK 16
  5. Austurríki:   kEUR 75  = MISK 12
  6. Þýzkaland:  kEUR 51  = MISK 8

 Margir Þjóðverjar ferðast til Suður-Evrópu, og þá blasir við þeim ótrúlegur fjöldi af Audi, BMW og Mercedes Benz bifreiðum.  Þýzkir stjórnmálamenn eru meðvitaðir um allt þetta, og þess vegna vilja þeir ekki rugga bátnum fyrir kosningar.  Ef á að nota þýzku ríkishirzluna til björgunaraðgerða fyrir ofangreindar þjóðir, gæti það orðið banabiti viðkomandi þingmanna, sem það samþykkja. 

Það má spyrja sig, hvað valdi þessari undarlega lágu eignastöðu þýzkra fjölskyldna.  Í fyrsta lagi eru þýzkar fjölskyldur minni en víðast annars staðar, og þessi litla viðkoma mun valda þeim gríðarlegum vandamálum í framtíðinni.  Í öðru lagi, og það er meginskýringin, þá búa langflestar þýzkar fjölskyldur í leiguhúsnæði, þó að Bæjaraland sé untantekning frá þessari þýzku reglu eins og ýmsum öðrum.  

Megnið af þýzku húsnæði er í eigu fárra fjölskyldna.  Eignastaða Þjóðverja er mjög misjöfn, því að ofan á þessa misskiptingu leggst "Mittelstand", sem eru fjölskyldufyrirtæki, sem flest standa sig mjög vel á útflutningsmörkuðum.  Þessi gríðarlega misskipting eigna veldur því, að Þjóðverjar eru tiltölulega hallir undir vinstri flokka, og keppa Sjálfstæðisflokkurinn þar, CDU/CSU, og Jafnaðarmannaflokkurinn, SPD, um hylli flestra kjósenda.     

Það þarf ekki að rifja upp úrskurð EFTA-dómstólsins frá 28. janúar 2013, þar sem ESB átti aðild að máli gegn Íslandi, eða þvingunartilraunir Berlaymont-búra varðandi Icesave-ánauðina.  Nú er makríllinn efst á baugi og miklir hagsmunir í húfi fyrir Íslendinga eða 20-30 milljarðar kr á ári í útflutningstekjum.  Svo er nú komið, að heilfrystur makríll er verðmætasta einstaka afurð sjávarútvegsins, 19 milljarðar kr árið 2012, þó að þorskurinn sé verðmætasta tegundin.

Norðmenn og ESB berja enn hausnum við steininn og neita að viðurkenna þá stöðu stofnsins, að hann er nú tekinn að hrygna í íslenzku lögsögunni og a.m.k. ein milljón tonn makríls sækir inn í íslenzku lögsöguna og tvö- til þrefaldar þar þyngd sína.  Það er óviðunandi fyrir hérlandsmenn að láta Norðmenn og Berlaymont segja sér fyrir verkum um það án vísindalegra raka, hvað og hversu mikið má veiða í íslenzkri lögsögu. 

Makríllinn er flökkustofn, sem leitar æ norðar í kaldari sjó, og líklegt er, að tíminn vinni með Íslendingum í þeim skilningi, að æ stærri hluti makrílstofnsins, hvort sem er sunnan úr höfum eða að vestan, muni leita hingað norður í ætisleit og jafnvel til hrygningar.  Það eru full sanngirnisrök fyrir því, að við megum beita sömu aflareglu á makrílinn og á ýmsa aðra stofna í lögsögunni, enda er hún studd vísindalegum rökum.  Þá ætti 200 þús tonna veiði á ári að vera í góðu lagi.  Steingrímur Jóhann, bezti vinur kröfuhafa bankanna, hörfaði úr 150 þús tonna markinu í um 120 þús tonn.  Þar veikti hann samningsstöðu Íslendinga, Icesave-klaufinn. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eru alfarið á forræði búrókratanna í Berlaymont, og einstök ríki ráða aðeins innsta hluta lögsögu sinnar.  Halda menn, að fulltrúa Íslands í æðstu stjórn ESB yrði mikið ágengt við að halda hagsmunum Íslands til skila varðandi flökkustofn á borð við makrílinn, þegar mætast stálin stinn í framkvæmdastjórninni ?  Augljóslega mundu hin hagsmunaríkin, Írar, Bretar og Danir, mynda blokk gegn Íslandi og bera íslenzka fulltrúann ofurliði. 

Það er ekki víst, hvaða afstöðu Þjóðverjar tækju í þessu máli.   Viðskiptahagsmunir þeirra innan evru-svæðisins eru nú þannig, að aðeins 37 % þýzkra útflutningstekna koma þaðan og fara minnkandi og stefna í 30 % árið 2025.  Orð þeirra og afstaða vega þungt um þessar mundir í öllum ágreiningsmálum innan Evrópu. Verandi strandþjóð utan ESB getum við hins vegar beitt fyrir okkur alþjóðalögum á grundvelli Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og beitt sanngirnisrökum í áróðrinum með vísun til stofnmælinga og áts makrílsins í íslenzku lögsögunni.  Refsiaðgerðir ESB gætu skaðað ESB-löndin meira en okkur.  Við höfum frelsi og sveigjanleika til að gera bandalag við aðra um viðskipti og annað, sem væri ESB þyrnir í augum.

Við þessar aðstæður og á grundvelli úrslita Alþingiskosninganna í apríl 2013 var rökrétt að gera strax hlé á aðlögunarferlinu, sem hófst með samþykkt Alþingis á umsókn hinn 16. júlí 2009, og er verst undirbúna nýbreytni í íslenzkri utanríkisstefnu, sem um getur.  Ef ESB gangsetur refsiaðgerðir gegn Íslandi, ber Alþingi umsvifalaust að afturkalla þessa umsókn. Ef ESB hættir við refsiaðgerðir og samningar nást um makrílinn, þá væri ekki úr vegi, að þjóðin greiddi atkvæði um að endurvekja aðlögunarferlið með það að markmiði að gerast aðili að Evrópusambandinu, en ekki að kíkja í pakkann, sem er innantómur frasi, sem er ekki í boði.  Þar sem þetta verður tvímælalaust mikið átakamál í kosningum, væri það dónaskapur í garð sveitarstjórnarmanna að setja á téð þjóðaratkvæði samhliða sveitarstjórnarkosningum.  Miklu nær væri að kjósa um ESB samhliða Alþingiskosningum.  

ÞýzkalandÁ illa saman                     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Besta lesning ...

Ólafur Als, 26.7.2013 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband