Staða sveitarfélaga

Hið opinbera á Íslandi virkar yfirleitt illa; töluverðri hagræðingu mætti með góðu skipulagi og vilja ná fram í flestum ríkisstofnunum og spara þannig e.t.v. um 10 milljarða kr.  Að spara tífalda þá upphæð, eins og AGS gerir skóna í nýrri skýrslu, kallar á algera uppstokkun ríkisbúskaparins og væntanlega talsverða kostnaðarþátttöku notenda, þegar þeir fá þjónustuna. Stjórn sveitarfélaganna er ögn nær fólkinu, og þar er þess vegna örlítið meira aðhald.  Almennt ætti þess vegna engin starfsemi að vera á vegum ríkisins, sem hægt er að koma fyrir hjá sveitarfélögum eða einkaaðilum.  Franski hagfræðingurinn Frederic Bastiat skrifaði, að ríkið væri tálsýnin, þar sem allir ætluðu sér að lifa á kostnað allra annarra. 

Á Íslandi er fjárhagsstaða margra sveitarfélaga reyndar bágborin, og sum eru þrúguð af fjárhagsvanda, og er höfuðborgin mest áberandi í þessum hópi.  Önnur hafa aldrei sökkt sér í skuldir, t.d. Garðabær, og þriðji hópurinn er á hröðum batavegi, og er Árborg skýrasta dæmið þar um.  Meginreglan, þó síður en svo algild, virðist vera sú, að vinstri meirihlutar í sveitarstjórnum, við hvaða stjórnmálaöfl sem þeir annars kenna sig, sýna af sér óábyrga fjármálastjórnun og keyra í sumum tilvikum viðkomandi sveitarsjóð gjörsamlega í þrot, en stjórnmálaöfl á hægri vængnum sýna meiri ráðdeild við meðferð opinbers fjár og snúa í sumum tilvikum rekstrinum með róttækum hætti til hins betra.

Nýlega hefur í fjölmiðlum verið vakin athygli á ófremdarástandi frárennslismála víða.  Það er algerlega óverjandi að hafa látið síun og hreinsun skolps sitja á hakanum, þar sem frárennsli fer nú ómeðhöndlað út í ár, þó að um safnræsi sé.  Aðalmálið í þessu sambandi er ekki, að þetta framkvæmdaleysi viðkomandi sveitarfélaga og sleifarlag eftirlitsaðila er brot á reglum EES, heldur hitt, að hér er um stórfellt heilsufarsmál að ræða.  Það er stöðugt jarmað um nauðsyn forvarna og alls konar kvaðir hins opinbera við lýði um meðferð matar áður en hann kemst til neytandans, en svo er erkisóðaskapur af þessu tagi látinn líðast.  Það var eftir öðru í embættisfærslu fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, að ekki er vitað til, að hún hafi haft afskipti af þessu mengunarmáli, en meir var hún upptekin við að hindra framkvæmdir í landinu í nafni umhverfisverndar.  Nú sakar hún iðnaðarráðherra um að vekja upp deilur um virkjanakosti.  Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi, því að hvað er betur fallið til að efna til deilna en að umturna sérfræðiálitum um nýtingarkosti auðlindanna og endurraða valkostum í þágu sérvizku og þröngsýni ?     

Þó að fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga verði bezt lýst með orðinu neyðarástand, er hún þó furðulítið í umræðunni enn, en hlýtur þó að verða dregin upp á yfirborðið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að vori, og hér verður aðeins stiklað á stóru.  Lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna hérlendis eru hrikalegar, eins og víða erlendis.  Á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga er hallinn t.d. 18 milljarðar kr.  Í eftirtöldum sveitarfélögum eru skuldir á hvern íbúa yfir einn milljarður kr og árstekjur innan við helmingur af skuldunum (skuldir á hvern íbúa í milljónum kr í sviga og tekjur á íbúa í milljónum kr þar á eftir):

  • Reykjavík -         (2,7); 1,0   Hlutfall 2,7
  • Reykjanesbær -   (2,6); 0,6   Hlutfall 4,3
  • Húsavík -           (2,1);  0,9  Hlutfall  2,3
  • Hafnarfjörður      (1,6); 0,6   Hlutfall  2,7
  • Kópavogur          (1,4); 0,6   Hlutfall 2,3

Framlegðin er þó betri mælikvarði á getu sveitarfélaganna til að standa undir skuldabyrðinni.  Hún gefur enn verri niðurstöðu.  Sex sveitarfélög skulda meira en tífalda árlega framlegð sína.  Það er alveg ljóst, að þessi sveitarfélög berjast í bökkum, og þau þurfa innspýtingu tekna.  Reykjanesbær tapaði miklum tekjum við lokun herstöðvar NATO á Miðnesheiði, sem mönnuð var og kostuð af Bandaríkjamönnum, og þar vann fjöldi fólks og aflaði þjóðarbúinu gjaldeyris. Reykjanesbær þarf sárlega á að halda mikilli iðnaðaruppbyggingu og hefur sterka náttúrulega stöðu til þess vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og vegna góðrar hafnaraðstöðu.  Stórt iðnaðarverkefni í Helguvík hefur lengi verið í burðarliðnum og verður súrefnislaust, ef núverandi iðnaðarráðherra tekst ekki á hendur ljósmóðurhlutverkið.  Hún er í fullum færum til þess, en til þess að þörf verði fyrir ljósmóður þarf getnaður óhjákvæmilega að fara fram.  Þó að mannvirki séu risin í Helguvík, sem hýsa eiga rafgreiningarker, eru enn áhöld um, að getnaður hafi átt sér.  Það verður kannski hlutverk ljósmóðurinnar í þessu tilviki að koma honum í kring ?    

Það þarf að losa Orkuveitu Reykjavíkur (OR) við skuldbindingar sínar þarna, enda er hún engan veginn í stakkinn búin, og láta Landsvirkjun hlaupa í skarðið.  Hitaveita Suðurnesja (HS) er rekin með miklu tapi, enda nemur rekstrarkostnaður hennar um 15 % af veltu. 

Landsvirkjun hefur að vísu engan orkusölusamning gert frá grunni við stóriðjufyrirtæki undir núverandi forystu, svo að ríkisstjórnin verður að rétta hjálparhönd (e.t.v. bláu höndina) og gera nauðsynlegar ráðstafanir sem fulltrúi eiganda Landsvirkjunar, ríkissjóðs.  Hér er engan veginn átt við að gera eigi orkusölusamning Landsvirkjun í óhag.  Spurningin er, hversu mikið í hag.  Hæsta verð, sem stóriðjan vill greiða er hærra en kostnaðarverð Landsvirkjunar með hæfilegri arðsemi af öruggri fjárfestingu til margra áratuga. Með góðum vilja eiga báðir aðilar að geta gengið sáttir frá borði með verð, sem sveiflast á milli 30 - 40 USmill/kWh með álverði.  Jarðvarmaorkuver þurfa einfaldlega hærra verð.  

Sérstaka athygli í ofangreindum samanburði vekur bágborin staða höfuðborgarinnar, sem samt nýtur alls konar hlunninda af því að vera miðstöð stjórnsýslu, menningar og samgangna.  Stjórnendur Reykjavíkurborgar frá og með R-listanum og fram á þennan dag hafa engan veginn verið starfi sínu vaxnir.  Forgangsröðun framkvæmda borgarinnar er mjög umdeilanleg m.t.t. notagildis.  Núverandi gatnabreytingar til höfuðs öruggri og greiðri umferð vélknúinna ökutækja eru hrein sóun fjármuna. Stjórnkerfi borgarinnar gæti verið mun skilvirkara, ef silkihúfum og naglafægjurum yrði fækkað.

  Núverandi valdhafar hafa enga tilburði haft uppi til að rétta af fjárhagsstöðu borgarinnar.  Þeir hafa skapað óskilvirkt stjórnkerfi, þar sem embætti borgarstjóra, sem áður var framkvæmdastjóri borgarinnar, er nú trúðsskrifstofa, og mönnum er vísað á milli Pontíusar og Pílatusar, þegar þeir leita eftir afgreiðslu.  Borgarfulltrúar meirihlutans eru uppteknir af einskis nýtum gæluverkefnum, sem hafa aukinn kostnað í för með sér og eru til þess fallin að draga úr tekjunum, en hin eru því miður um of í baksýnisspeglinum og sumir illa haldnir af furðuhugmyndum um Vatnsmýri undir lóðir íbúðarhúsa, þó að hún hýsi bezt flugvöllinn, háskólasamfélagið og aðra vísinda- og þjónustustarfsemi.  Furðustefna í lóðamálum (þétting byggðar) hrekur ungt fólk út fyrir borgarmörkin.  Sá, sem nú gegnir valdamesta embættinu, borgarstjóraembættinu, er upptekinn af að taka þátt í furðufatakeppnum af ýmsu tagi, reyndar í upphlut, þegar síðast fréttist, og þó aðallega hinsegin og að agnúast út í Rússa vegna opinberrar afstöðu þar á bæ til afbrigðilegra kynhvata.  Þessi ósköp er borgarbúum og landsmönnum öllum boðið upp á, blygðunarlaust, og fyrirbrigðin, sem bjóða upp á þetta, ætla að bjóða fram í næstu sveitarstjórnarkosningum.  Þó blasir við öllum öðrum, að þau eru aðeins einnota í stjórnmálunum.           

Ofangreind lýsing er ófögur, en þrátt fyrir þessa bágbornu stöðu er æskilegt til lengdar litið að færa fleiri samfélagsskyldur frá ríkisvaldinu og heim í hérað.  Auðvitað verður þá fjármögnun að fylgja, og ætti að endurskoða útsvarsmörkin, þannig að bæði gólf og þak verði afnumin, og veita sveitarfélögunum meira frelsi um álagningu fasteignagjalda og annarra gjalda.  Þannig munu þau keppa sín á milli um íbúa og fyrirtæki.  Minni og stærri sveitarfélög geta þá valið um að standa á eigin fótum, gera samstarfssamninga við nágrannana eða leita hófanna um sameiningu.  

Mest þörf á sameiningu er þar, sem tekjur á íbúa eru lægstar og skuldabyrðin hæst.  Þar er hætt við, að þjónustan við íbúana verði lakari en íbúarnir fái við unað.  Dæmi um þetta er nýleg sameining Álftaness og Garðabæjar, sem getur orðið farsæl, enda voru jákvæð samlegðaráhrif í augsýn, og gengur hagræðingin samkvæmt áætlun, og var 14 þúsundasta íbúa Garðabæjar nýlega fagnað.  Bærinn er í örum vexti vegna fjölgunar ungs fólks í bænum.     

Í mörgum löndum eru stórfelld fjárhagsleg vandamál á meðal fylkja og/eða sveitarfélaga.  Það er að bera í bakkafullan lækinn að tíunda hér fjárhagsvandann víða á evrusvæðinu, en fjárhagsvandi fylkja, sveitarfélaga og borga í Bandaríkjunum hefur ekki verið á hvers manns vörum.  Ófarir "Motown" eða Detroit í Illinois eru ekki sér á báti, en endurspegla afleiðingar heimsvæðingar viðskiptanna.  Það eru aðeins 4 áratugir síðan General Motors, Ford og Chrysler hönnuðu og smíðuðu í 4. stærstu borg Bandaríkjanna, Detroit, yfir 90 % bifreiða, sem seldar voru í BNA.  Nú eru nýjar bandarískar bifreiðir þar í minnihluta, en reyndar eru margar erlendar bílaverksmiðjur í BNA.

Nú er hún Snorrabúð stekkur og Detroit komin í hendur skiptaráðanda.  Þar vakti athygli, að evrópskir bankar eru í hópi kröfuhafa, en það stafar af bjöguðu regluverki fyrir evrópska banka, Basel III, sem hvetur banka til að lána sveitarfélögum og ríkissjóðum á lægri vöxtum, eins og þar séu trygg viðskipti, en það er önnur saga. Gjaldþrotið sýnir mikilvægi þess fyrir sveitarfélög og lönd að reisa atvinnustarfsemi sína á fjölbreytni.  Detroit safnaði skuldum, þegar hún var fjölmenn og rík.  Íbúafjöldi hennar hefur dregizt saman um 60 % síðan 1950.  Nú hefur hún ekki bolmagn til að standa undir skuldum.  Þetta sýnir áhættuna við mikla skuldasöfnun.  Það, sem sligar mest sveitarfélög í BNA núna, eru lífeyrisskuldbindingar og sjúkratryggingar.  Þetta vandamál er þekkt hérlendis. 

Þannig stafar um helmingur skulda Detroit af skuldbindingum gagnvart starfsfólki hennar um greiðslu lífeyris og sjúkratrygginga.  Fylkin í BNA hafa aðeins fjármagnað 48 % af lífeyrisskuldbindingum sínum.  Þar vestra er víða pottur brotinn varðandi lífeyrinn.  Gatið í lífeyrisskuldbindingum Illinois-fylkis nemur 241 % af árlegum skatttekjum, í Connecticut 190 %, í Kentucky 141 %, og í New Jersey 137 %.  Heildarlífeyrisgat fylkjanna er áætlað að lágmarki 2,7 trilljónir USD eða 17 % af VLF.  Mörg bandarísk fylki hafa þannig reist sér hurðarás um öxl og geta líklega ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar á næstu 10 árum.  Þá mun hrikta í.

Hérlendis er einnig stórfelldur lífeyrisvandi fyrir hendi.  Sveitarfélög hafa tekið á sig lífeyrisskuldbindingar, sem sums staðar nema hálfri milljón kr á íbúa. Ríkið hefur þó bakað sér stærsta vandann með ábyrgð á LSR og á Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga.  Þessar skuldbindingar ríkisins þarf að afnema.  Samanlagður halli þessara sjóða er 500 milljarðar kr.  Að auki ber ríkið ábyrgð á stórum hluta mismunar tryggingafræðilegrar stöðu og bókfærðrar stöðu ýmissa lífeyrissjóða upp á 15 milljarða kr.  Hallinn á téðum tveimur lífeyrissjóðum nemur 1,6 milljónum kr á hvern íbúa landsins eða u.þ.b. öllum skatttekjum eins árs.  Ætli ríkið ekki að svíkja loforð sín við opinbera starfsmenn, þarf að ráðast í róttækan niðurskurð á ríkisfjármálum.  Viljum við það heldur ?    

 

Fjár-og efnahagsmálaráðherra Íslands hefur boðað, að ekki verði lengur flotið sofandi að feigðarósi hérlendis í þessum efnum.  Hér, eins og í BNA, er stór þáttur vandans aukið langlífi lífeyrisþega.  Hann hefur þess vegna boðað hækkun lífeyrisaldurs, sem er alveg eðlileg ráðstöfun líka í ljósi þess, að viðkoman fer frekar minnkandi.  Það er nauðsynlegt að gera strax ráðstafanir til að draga úr lífeyrisskuldbindingum ríkisins, því að þær eru ósjálfbærar.  Í gangi eru viðræður um sameiningu lífeyrissjóða, og þáttur í heildarlausninni verður að vera að losa ríki og sveitarfélög við þennan þunga klafa.

Það eru skiptar skoðanir um réttmæti sameiningar lífeyrissjóða.  Verður niðurstaðan risasjóður með ríkissjóð sem eignaraðila ? Eignir lífeyrissjóðanna nema nú um 2800 milljörðum kr.  Ljóst er, að á innlendum fjárfestingarmarkaði eru þeir umsvifamiklir, einkum á tíma gjaldeyrishafta, og þessi stærð gerir að verkum, að ótækt er að sameina þá alla.  Það mundi hins vegar gagnast mörgum að fækka þeim niður í t.d. 5-10 lífeyrissjóði.  Lífeyrissjóðirnir munu þurfa að taka meiri þátt í kostnaði af þjónustu sjúkrakerfisins en reyndin er nú.  Ástæða er fyrir stjórnvöld, sem nú reyna að koma rekstri ríkissjóðs í sjálfbært horf eftir einskis nýtt hjakk vinstri flokkanna og bullandi taprekstur hans, að kanna, hvort vænlegt er að draga dám af fyrirkomulagi Hollendinga varðandi fjármögnun sjúkrakerfisins, en þeim hefur tekizt að búa til markað kaupenda og seljenda á þessu sviði með opinberu öryggisneti.  

Óðinn ritar vikulega af djúphygli um hagræn málefni í Viðskiptablaðið.  Þann 18. júlí 2013 gat að líta eftirfarandi:

Loforð um að lækka höfuðstól lána er ekkert annað en atkvæðakaup og fyrirgreiðslupólitík.  Með því er verið að færa ábyrgðina af þeim, sem tóku áhættuna af láninu og njóta hússins, sem andvirðið fór í að kaupa, yfir á almenning allan.  Með því væri verið að senda röng skilaboð - áhætta borgar sig.  Ef vel gengur nýtur maður ávinningsins, en ef illa fer, hleypur almenningur undir bagga.  Það er hvorki gott að senda bankamönnum né húsnæðiskaupendum þau skilaboð, og afleiðingin verður sú sama: það er tekin aukin áhætta á kostnað almennings." 

Þetta er ómótmælanlegt hjá Óðni.  "Forsendubrestur" fellur undir áhættu á Íslandi.  Það hefur áður orðið meira verðbólguskot á Íslandi en árið 2009, og árið 1983 var vísitölutenging launa afnumin með lögum, fyrirvaralaust, í óðaverðbólgu.  Þá hefði verið hægt að tala um forsendubrest, en það var ekki gert.  Sagt er, að "leiðrétting forsendubrestsins" eigi ekki að koma frá ríkissjóði, heldur kröfuhöfum bankanna. 

Kröfuhafar bankanna taka þessu ekki þegjandi og hljóðalaust.  Nú er komið í ljós, að þeir hafa ekki setið auðum höndum.  Eins og skrattinn úr sauðarleggnum er komið nýtt og lakara lánshæfismat á ríkissjóði Íslands, þar sem horfurnar eru metnar neikvæðar, og ruslflokkur blasir við.  Það eru talsverðar líkur á samráði innan fjármálageirans.  Ekki er ólíklegt, að kröfuhafar íslenzku bankanna hafi haft hönd í bagga um þetta mat, og séu nú farnir að sýna klærnar.  Lánshæfismatið bítur.  Árið 2012 var ávöxtunarkrafa á skuldabréf íslenzka ríkisins í erlendri mynt hæst um 6,1 %, en lækkaði frá miðju árinu 2012 niður í 3,8 % í maí 2013, en tók þá að hækka og var í júlí 2013 um 5,1 %.  Þessi ávöxtunarkrafa skiptir gríðarlegu máli fyrir alla lántakendur á Íslandi í erlendri mynt og fyrir þjóðarbúið allt.  Hvert prósentustig lætur nærri að jafngildi 10 milljörðum kr á ársgrundvelli.  Allar tilkynningar og aðgerðir stjórnvalda á sviði peningamála og/eða ríkisfjármála og ekki sízt varðandi fjármálageirann sjálfan skipta máli og geta haft áhrif á téða ávöxtunarkröfu.  Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gera sér augsýnilega glögga grein fyrir þessu og eru mun varkárari í orðavali og yfirlýsingum en sumir ráðherrar hins flokks Laugarvatnsstjórnarinnar.  Einkum er traustvekjandi að hlýða á og að fylgjast með framgöngu fjármála- og efnahagsráðherra Laugarvatnsstjórnarinnar.  Hægt er að gera sér góðar vonir um, að efnistök hans í ríkisstjórn muni brjóta blað við gerð fjárlaga. 

Hér að neðan er mynd af núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og nýkjörinni forystu Heimdallar.        

 

   Forysta Heimdallar 2013-2014

Bjarni Benediktsson, yngri

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband