8.8.2013 | 15:20
Færeyjar, Grænland og Ísland
Óhætt er að segja, að Laugarvatnsstjórnin fer hægt af stað. Það er ekki að öllu leyti gagnrýnivert, þar sem tíminn er notaður til gagnaöflunar og aðgerðaundirbúnings. Stjórnin verður hins vegar að bregðast við atburðum, og sumt þolir enga bið.
Evrópusambandið (ESB) hefur átt hlut að atburðum í sumar, þar sem viðbrögð Laugarvatnsstjórnarinnar eru ófullnægjandi að margra mati. Flögrar að manni, að utanríkisráðuneytið sé enn á sjálfstýringunni, sem Össur Skarphéðinsson skildi við það í. Sé svo, verður hinn snaggaralegi nýi utanríkisráðherra þegar í stað að rífa í stýrið og setja nýjan kúrs og skipa málum með þeim hætti, að gamli undirlægjuhátturinn sé ekki í öndvegi í ráðuneytinu, þegar hann lítur í aðra átt.
Færeyingar eiga nú talsvert á brattann að sækja. Olíuleit á færeysku landgrunni hefur lítinn árangur borið, og finnist þar olía eða gas, er líklegt, að kostnaður við vinnsluna verði svo hár, að hún borgi sig ekki. Spurn eftir olíu hefur þegar náð hámarki á heimsmarkaði, og var það árið 2005. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur farið lækkandi síðustu misserin vegna aukins framboðs á gasi, sem unnið er með nýrri tækni, og verðið er að síga undir 100 USD/tunnu. Verð á sjávarafurðum hefur einnig lækkað vegna tímabundins aukins framboðs og minni kaupmáttar í Evrópu og víðar. Matvörur munu þó hækka í verði til lengdar litið.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Færeyingar eiga nú undir högg ESB að sækja vegna ákvörðunar sinnar um síldarafla í færeyskri lögsögu. Færeyingar höfðu 5,16 % af heildarkvóta norsk-íslenzku síldarinnar samkvæmt samningum strandríkja við Norður-Atlantshaf, sem jafngildir 32 þúsund tonnum í ár. Þetta hlutfall virðist vera óeðlilega lágt m.v. síldarmagn í lögsögu Færeyinga. Þeir undu þessu lága hlutfalli ekki lengur, heldur rúmlega þrefölduðu hlutdeildina upp í 17 % eða 105 þúsund tonn, sem er 73 þúsund tonna aukning. Þar er um að ræða lögmæta ákvörðun strandríkis, sem þeir hafa fært fiskifræðileg rök fyrir. ESB vill hins vegar deila og drottna og hefur þess vegna þvingað Dani til að taka þátt í löndunarbanni í öllum höfnum ESB á síld og makríl frá Færeyjum. Hér er um fáheyrðan atburð að ræða, sem íslenzka ríkisstjórnin hefur ekki fordæmt með nægilega öflugum hætti. Það hefur heyrzt tíst, ef lagðar eru við hlustir, en það verður að sýna í verki, að hugur fylgi máli.
Þessi kvótaaukning getur aukið tekjur Færeyinga um ÍSK 7,3 mia m.v., að þeir fái 105 ISK/kg, þar sem þeim tekst að afsetja afurðirnar. Íslenzki utanríkisráðherrann á þegar í stað að stofna til bandalags við Færeyinga og Grænlendinga í ágreiningsmálum við ESB og Noreg og bjóða fram þá aðstoð, sem unnt er, í stað þess að sitja á gerðinu og bíða þess, sem verða vill. Það er full ástæða til þess vegna hagsmuna Íslands, því að takist ESB og vinstri stjórninni í Noregi, sem er reyndar á hverfanda hveli, að brjóta Færeyinga á bak aftur, mun röðin næst koma að Íslandi. Íslenzk stjórnvöld eiga þess vegna að efla varnirnar með því að sækja fram og vinna að framgangi ákvörðunar Færeyinga, en þar skiptir markaðssetning afurðanna höfuðmáli.
Jafnaðarmannaflokkur Noregs, Arbeiderpartiet, leiðir enn ríkisstjórn Noregs og er í samstarfi við vinstri-græna Noregs. Forysta Arbeiderpartiets er höll undir ESB, þó að flokkurinn sé illilega klofinn í afstöðunni, einkum á milli norðurs og suðurs. Sjávarútvegsráðherra þessarar örmu ríkisstjórnar, Lisbeth Berg-Hansen, hefur þegar orðið Noregi til skammar með yfirlýsingu um, að Norðmenn muni gera sitt til að aðgerðir ESB gegn Færeyingum hafi tilætluð áhrif. Gripið verði til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir, að færeyskar síldarafurðir verði fluttar um Noreg til annarra landa. Eftirfarandi yfirlýsing vinstri mannsins Lisbeth Berg-Hansen er hneykslanleg:
"Ég fagna því, að ESB hafi lagt bann við innflutningi á síldar- og makrílafurðum frá Færeyjum, og ég styð aðgerðir ESB heilshugar."
Þetta hefði getað komið úr barka Össurar Skarphéðinssonar, en neðar verður ekki komizt í samlíkingu við stjórnmálamann. Samband Danmerkur og Færeyja er við frostmark vegna téðs löndunarbanns, en Norðmenn og Danir hafa verið áhrifavaldar í Færeyjum fram að þessu. Nú skapast tækifæri fyrir Ísland að efna til hagsmunabandalags við Færeyinga, og verður slíkt augljóslega í óþökk Dana, Norðmanna og ESB, en þessar þjóðir hafa ekki sýnt Íslendingum marktækt vinarþel á undanförnum árum, og er skemmst að minnast löndunarbanns beggja á makríl frá Íslandi. Hagsmunir Íslendinga og Færeyinga í baráttunni við ofureflið fara saman, en það yrði íslenzkum hagsmunum engan veginn til framdráttar, að Færeyingar verði brotnir á bak aftur. Það er í anda stjórnarsáttmálans, að ríkisstjórnin taki snöfurmannlegt frumkvæði í þessu máli, og líklegt er, að meirihluti hérlandsmanna kynni að meta slíkt. Slitni nú upp úr ríkjasambandi Færeyja við Danmörk, kann formlegt hagsmunabandalag við Ísland að þróast með áhugaverðum hætti.
Engum vafa er þó undirorpið, að téð bandalag við Færeyinga stæði mun sterkara að vígi með Grænlendinga innanborðs. Lögsaga þeirra er stór og auðug, og þeir þurfa aðstoð við að nýta hana. Samstarf Grænlendinga og Íslendinga er þegar fyrir hendi á sviði flugs, verklegra framkvæmda og fiskveiða, en allt þetta þarf að efla enn frekar, báðum þjóðunum til hagsbóta. Íslenzk stjórnvöld eiga að hætta að leggja stein í götu Grænlendinga við nýtingu fiskimiða þeirra og eiga þannig að afnema takmarkanir á löndun grænlenzkra fiskiskipa í íslenzkum höfnum, sem virðast nú vera til að þóknast ESB með einhverjum dularfullum hætti í anda Össurar Skarphéðinssonar. Svífur andi ÖS enn yfir vötnunum í ráðuneytisbyggingunni við Rauðarárstíginn ?
Hér komið gullið tækifæri fyrir Laugarvatnsstjórnina til að láta til sín taka í hagsmunagæzlu fyrir Ísland, eins og stjórnarsáttmálinn gaf fyrirheit um.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill að vanda. Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki verið miklir vinir okkar þrátt fyrir þráleitar fullyrðingar um hina miklu vini okkar. Í það minnsta ekki ríkisstjórnirnar. Í ICESAVE-málinu kom það skýrt fram og aftur núna í makríl-málinu hvað Noreg varðar.
Við ættum sannarlega að efla samband okkar við Færeyinga og Grænlendinga. Hin Norðurlöndin geta bara átt sig. Skil ekki hvað íslensk stjórnvöld eru alltaf að bera okkur saman við þessar þjóðir. Og þora varla að anda á ríkisstjórnir þeirra frekar en drottnunarsambandið.
Elle_, 9.8.2013 kl. 00:01
Sæl, Elle;
Nú er að krystallast út, hvar meginhagsmunir okkar liggja til langs tíma litið í utanríkismálunum. Íslenzki sjávarútvegurinn hefur átt undir högg að sækja, og það má líta á þessa stöðu sem baráttu um auðlindir, matarkistu Norður-Atlantshafsins. Upphæðin, sem ég bendi á, að baráttan standi um, ISK 7,3 milljarðar í ár, skiptir ESB engu máli, Noreg ekki heldur og Íslendinga litlu máli, en hún skiptir miklu máli fyrir hagkerfi Færeyja. Íslendingar munu standa mun sterkar í baráttunni við Noreg og ESB með því að styðja Færeyinga og Grænlendinga með ráðum og dáð. Aðferð ESB er "divide et impera", deila og drottna. Ef þeim tekst að knésetja Færeyinga, mun röðin næst koma að Íslendingum. Nú eru Færeyingar í fremstu víglínu, og það væri lydduháttur af hérlandsmönnum að lyfta ekki litla fingri. Hin unga ríkisstjórn Íslands verður að fara að skríða undan feldi.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 9.8.2013 kl. 11:03
Já, við eigum að styðja Færeyinga og Grænlendinga. Mikil skömm að fyrrverandi Jóhönnustjórn (Steingrími) að banna Færeyingum að landa fiski. Færeyingar hafa líka sýnt í verki að þeir eru vinir okkar.
Elle_, 9.8.2013 kl. 12:19
Mér þykir það ansi merkilegt ef satt reynist að Danir skuli samþykkja löndunarbann á Færeyinga. Hvernig foreldrar eru það eiginlega sem standa ekki með börnum sínum! ?
Síðast þegar Danir voru hersetnir af Þjóðverjum, notuðum við Íslendingar tækifærið og slitum sambúðinni við þá og lýstum yfir sjálfstæði. þetta ættu Færeyingar einnig að gera þar sem Danir eru í svipuðum aðstæðum og þá, ekki lengur fullvalda þjóð sem getur varið þegna sína.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.8.2013 kl. 21:11
Sæll, Rafn Haraldur;
Danir munu hafa verið andvígir téðri samþykkt ESB, en virðast verða að beygja sig fyrir meirihlutanum. Hvers konar viðurlög liggja við að óhlýðnast slíkum samþykktum, veit ég ekki, en líklega jafnast slíkt á við lögbrot. Hitt er ljóst, að þegar slíkt löndunarbann kemur til framkvæmda, er úti um ríkjasamband Færeyja og Danmerkur í sinni núverandi mynd. Þess vegna er ég sammála þér um, að staðan sýnir fram á ósjálfstæði Danmerkur. Völdin yfir ríkismálefnum liggja nú í Brüssel, eins og þau lágu í Berlín 1940-1945. Hins vegar held ég ekki, að Berlín sé hrifin af þessari aðför að Færeyingum.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 10.8.2013 kl. 21:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.